24.02.1976
Efri deild: 61. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um lánasjóð ísl. námsmanna Milliþn. hefur haft lög um Lánasjóðinn til skoðunar undanfarna mánuði. Á árunum 1972–1913 voru þessi lög einnig til endurskoðunar og þá var lagt fram frv. að nýrri löggjöf, en það hlaut ekki afgreiðslu á Alþ. Það eru aðeins örfáir dagar síðan námslánanefnd skilaði af sér til menntmrn. og þeir dagar hafa verið notaðir til þess á vegum ríkisstj. að vinna úr drögum n. og ganga frá tækniatriðum ýmiss konar með aðstoð Hagstofu og ríkisskattstjóra. Þannig er í sem allra fæstum orðum aðdragandi eða undirbúningur þess frv. sem hér liggur nú fyrir.

Fyrsta löggjöfin um Lánasjóð ísl. námsmanna mun vera frá 1961, en áður störfuðu tveir lánasjóðir, annar vegna stúdenta við Háskóla Íslands og hinn vegna stúdenta við nám erlendis. Ljóst er af umr. og skjölum málsins frá 1960–1961 að þeim, sem stóðu að lagasetningunni þá, 1961, hefur verið ofarlega í huga sú hugsun að byggja upp kerfi námslána sem innan fárra ára gæti orðið sjálfu sér nóg fjárhagslega, að mestu leyti a.m.k. Það er sem sagt alls ekki ætlunin þá að námslán skuli fjármagna ár hvert svo til eingöngu með beinum framlögum úr ríkissjóði, þótt svo hafi til tekist að sú hafi orðið raunin á. Árið 1967 voru lögin endurskoðuð í heild og síðan hefur þeim verið breytt tvívegis. En ég hygg að mér sé óhætt að segja það, að menn hafi aldrei staðið fjær því marki að eignast sterkan lánasjóð námsmanna en einmitt nú. Er nú svo komið að glöggir menn telja sig geta fært líkur að því a.m.k. að sjóðurinn endurheimti að raungildi innan við 10% af útlánuðu fé miðað við meðalverðbólgu á Íslandi. M.ö.o.: því fer svo fjarri sem hugsast getur að fyrirætlun manna við upphaf námslánakerfisins hafi orðið að veruleika.

Samhliða þessari óheillaþróun hefur eftirspurn eftir námslánum aukist gífurlega, sem von er, því hver er sá að hann þiggi ekki lán sem endurgreiða skal á 20 — allt upp í kannske 30 — árum frá því að byrjað er að taka lán og til þess að því er að fullu lokið, greitt upp, og endurgreiða það í raun og veru með 10% raungildi eða minna? Það þarf engan að undra.

Árið 1970 eru veittar á fjárl., að ég hygg, 75 millj. kr. til námslána, en á fjárl. 1976 er þessi upphæð 840 millj. og þar að auki 600 millj. kr. lántökuheimild, heimild fyrir ríkissjóð til að ábyrgjast 600 millj. kr. lán fyrir Lánasjóð námsmanna. Aftur á móti hefur það komið fram hjá fulltrúum námsmanna að þeir telja sig geta fært rök að því að til þess þyrfti allt að 2600 millj. kr. að fullnægja að þeirra dómi eðlilegri þörf. Þessi gífurlega þensla stafar m.a. af því að námslánin hafa í reynd þróast í styrki sem einnig þeir taka á móti að fullu sem þurfa ekki nauðsynlega á því að halda til þess að komast fram úr námskostnaði sínum, og lái ég engum það, eins og ég hef þegar tekið fram.

Þessu frv. er í senn ætlað að draga úr óeðlilegri og óæskilegri eftirspurn eftir námslánum og að treysta fjárhagsgrundvöll Lánasjóðsins. Því er það að nú er gert ráð fyrir að verðtryggja lánin fyllilega til jafns við það sem mest gerist í öðrum lánasjóðum, en hins vegar er ekki gert ráð fyrir að reikna neina vexti af lánunum. Fleiri ákvæði í þessu frv. eiga að stuðla að eflingu Lánasjóðsins og þar með að því takmarki verði náð að námsmenn, sem í raun þurfa þess með, geti fengið fulla aðstoð. Verður farið örlítið nánar inn á þetta um leið og vikið verður að einstökum greinum frv.

Auk verðtryggingarinnar hygg ég að það sé höfuðnýmæli þessa frv. að endurgreiðslur lánanna skuli að verulegu leyti miðaðar við tekjur lánþega að námi loknu. Þó eru í frv. ákvæði um tiltekna lágmarksgreiðslu án tillits til tekna. Ákvæðin um tekjuviðmiðun eru komin inn í frv. fyrir atbeina og að tillögu fulltrúa námsmanna í lánasjóðsnefnd, en þeir voru hins vegar andvígir lágmarksákvæðinu og töldu réttara, ef inn á þessa braut væri farið á annað borð, að miða alfarið við tekjur. Ég vil láta koma fram hér að ég hef verið og er mjög gagnrýninn á þessa tilhögun. Mér þykir satt að segja illt að byggja endurheimtur námslána á sama grunni og tekjuskatturinn byggir á nú. Þar veldur hvort tveggja, að réttmæti hans er mjög dregið í efa, vægt til orða tekið, og svo hitt, að stöðugt má auðvitað vænta breytinga á skattkerfinu. Ég vit þó til samkomulags reyna slíka tilhögun, enda sé þá í lögunum ákvæði um lágmarksgreiðslur. Það er frá minni hálfu ófrávíkjanlegt skilyrði að það sé. Um þá tölu, sem sett er í frv., má vitanlega endalaust deila. Hún verður seint vísindalega bundin. En það er mitt mat að sá, sem lokið hefur námi fyrir þremur árum, eigi að vera þess umkominn, ef allt er með felldu um hans ástæður, að greiða hið minnsta 50 þús. kr. árlega afborgun til Lánasjóðsins og er þá miðað við verðgildi peninga eins og það er í dag. En í frv. er svo einnig gert ráð fyrir því að sjálfsögðu að lánasjóðsstjórn geti veitt frávik þegar sérstaklega stendur á. Ég segi: að sjálfsögðu, því að þessi lán eru ekki veðtryggð. Og þó að það sé gert ráð fyrir ábyrgðarmönnum, þá tei ég óhjákvæmilegt og í alla staði eðlilegt að hafa slíkt undantekningaákvæði.

Ég skal þá víkja — í sem allra fæstum orðum þó — að einstökum gr. frv. og þá einkum gera grein fyrir þeim helstu breytingum sem þar er að finna.

Í 1. gr. er meginhlutverk Lánasjóðsins skilgreint.

Í 2. gr. er heimild fyrir ráðh. að ákveða með reglugerð hvaða skólar eða einstakir námsárgangar þeirra verði námsaðstoðar aðnjótandi. Hér er horfið frá því að telja þessa skóla upp í löggjöfinni sjálfri, enda er skólaskipan ævinlega breytingum háð og einmitt núna er nokkuð mikil hreyfing á tilteknum sviðum skólamálanna a.m.k.

Í 3. gr. frv. segir að stefnt skuli að því að opinber aðstoð við námsmenn nægi hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar tillit hefur verið tekið til námsmanns og maka hans, fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar í viðkomandi námslandi, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsaðstöðu námsmanna. Ekki þótti fært, eins og allt er nú í pottinn búið með fjárhag ríkissjóðs, að ákveða í lögum að Lánasjóður láni fulla svokallaða umframfjárþörf. Hins vegar þótti rétt að binda í lögum það, sem þegar hefur verið farið inn á í framkvæmd, að fjölskyldustærð og tekjur maka skuli hafa áhrif á upphæð lánanna. Nánari ákvæði um úthlutun námslána og styrkja skuli svo sett í reglugerð.

4. gr. frv. fjallar um stjórn sjóðsins. Með hliðsjón af því, að nemendur annarra skóla en Háskóla Íslands hafa í vaxandi mæli notið aðstoðar úr sjóðnum, er hér lagt til að þessir skólar, aðrir en Háskólinn, tilnefni mann í sjóðsstjórn í stað þess er Háskólaráð hefur tilnefnt áður. Í gildandi lögum er sagt, að sjóðsstjórn ráði starfsmenn, en nú hefur sú skipan komist á að framkvæmdastjóri er ráðinn sérstaklega og þá til nokkurra ára. Er hér gert ráð fyrir að menntmrh. ráði framkvæmdastjóra til fjögurra ára að fengnum till. sjóðsstjórnar, en sjóðsstjórn ráði svo annað starfsfólk að fenginni heimild rn., svo sem venja er nú.

5. gr. er efnislega óbreytt að mestu leyti.

Í 1. málsgr. 6. gr. segir að fyrsta námsaðstoð skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur á yfirstandandi skólaári. Þessi ákvæði eru nokkuð hert frá því sem gilt hefur að undanförnu. En jafnframt er svo tekið upp ákvæði er heimili sjóðsstjórn að veita námsmönnum erlendis og raunar hérlendis einnig í vissum tilvikum víxillán, ef sérstaklega stendur á, eða eins og segir í niðurlagi 7. gr. „til greiðslu á tímabundnum námskostnaði, enda uppfylli námsmenn almenn skilyrði til námsaðstoðar, og endurgreiðist fjárhæðin með námsaðstoð sem veitt verður síðar skv. almennum reglum.“ Þetta er hugsað til þess að fyrirbyggja að námsmaður geti í krafti þess, að hann hefur aðeins hafið nám, innritast í skóla, orðið námsaðstoðar aðnjótandi með venjulegum hætti þó að hann t.d. hverfi frá námi á fyrsta ári. Þetta ákvæði er sett til þess að koma í veg fyrir það, en hins vegar opnaður möguleiki til víxilláns ef óhjákvæmilegt er að veita fyrirgreiðslu til þess að nám geti hafist.

Um 6.–11. gr. er annars það að segja, að hér er lagt til að gerð verði róttæk breyting á núgildandi endurgreiðslukjörum Lánasjóðsins. Sú mikla verðbólga, sem ríkt hefur hér á landi hin síðari ár, hefur í raun leitt til þess að núverandi námslán hafa aðeins að litlu leyti komið til endurgreiðslu á raunvirði, eins og ég áðan minntist á, og þau hafa því nánast komið lánþeganum að gagni sem styrkir að langmestu leyti. Með þessum greinum er hins vegar ætlunin að snúa af þessari braut og tryggja það í senn að Lánasjóðurinn fái umtalsverðan hluta námslána endurgreiddan á raunvirði og raunar mikinn hluta og að engum lánþega verði þó ofþygnt með endurgreiðslu. Í því skyni eru afborganir miðaðar við fasta tiltölulega lága fjárhæð árlega annars vegar og hins vegar við aukaafborganir, eins og það er orðað, sem einungis koma til greina ef tekjur lánþega eru ofan við það sem ætla má að sé meðaltalsframfærslukostnaður, og þá fara þær stighækkandi við vaxandi tekjur lánþega. Hugtakið grunntala framfærslukostnaðar er notað í frv. um þennan meðaltalsframfærslukostnað og var hann í maí 1975 1 146 577 kr. fyrir vísitölufjölskyldu. Lánþegi í hjúskap með tvö börn hefði því enga aukaafborgun þurft að greiða í ár vegna tekna sinna 1975 hefðu þær verið jafnar eða lægri en þessi upphæð, en hins vegar þurft að greiða lágmarksfjárhæðina. Lágmarksfjárhæðin er verðtryggð. Menntmrh. er veitt heimild til að ákveða nánar með reglugerð útreikningsreglur aukaafborgana, en þó er sett það hámark að þær megi aldrei valda því að heildarafborganir fari yfir 10% af vergum teljum lánþega til skatts.

Lánin eru sem sagt vaxtalaus, en vísitölutryggð, eins og ég hef þegar tekið fram. Engar afborganir skulu vera af lánum fyrstu 3 árin eftir námslok, miðað er við 5 ár í núgildandi lögum, en endurgreiðslutími þeirra skal vera allt að 20 árum eftir að afborganir hefjast. Þá er, sem fyrr segir, gert ráð fyrir heimild til veitingar bráðabirgðalána með víxilkaupum, en sá háttur mun alveg sérstaklega nauðsynlegur þegar um er að ræða námsmenn erlendis sem veitt er lán í fyrsta skipti, en getur einnig komið til greina innanlands, eins og ég áður gat um.

Í 12., 13., 14., og 15. gr. eru, að ég hygg, ekki verulegar efnisbreytingar frá gildandi lögum.

En þá er það 16. gr. Í 1. málsgr. hennar er gert ráð fyrir að ráðh. setji í reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd laganna og er drepið á nokkra meginþætti sem þar þurfi m.a. að mæla fyrir um. En að sjálfsögðu verður vikið að ýmsum fleiri atriðum í reglugerð. Í 2. málsgr. er það nýmæli að ráðh. getur ákveðið í reglugerð að námsmenn utan Háskóla Íslands skuli greiða hagsmun,samtökum sínum félagsgjald og megi halda gjaldi þessu eftir af lánum þeim og styrkjum sem greiddir eru úr Lánasjóðnum. Stúdentaráð Háskóla Íslands fær nú þess háttar gjöld til sinna nota, til sinnar félagslegu starfsemi, greidd sem hluta af innritunargjöldum til Háskólans. 3. málsgr. 16. gr. er nýmæli. Hún gerir ráð fyrir að til viðbótar reglugerð komi reglur um smærri atriði úthlutunar settar af sjóðsstjórn. Þá er og kveðið á um að úthlutunarreglur sjóðsins í heild skuli gefnar til árlega, svipað og verið hefur í framkvæmd.

Þá hef ég að vísu mjög stuttlega vikið að einstökum greinum frv. og helstu breytingum sem það hefur inni að halda, en ég vil að lokum leyfa mér að minna á eftirfarandi:

Verulegur hluti þess fjármagns, sem Lánasjóði ísl. námsmanna er ætlað til umráða á yfirstandandi skólaári, er lánsfé, sbr. afgreiðslu fjárl. í vetur. Af þessu leiðir að útilokað er, ég segi: að útilokað er að lána úr sjóðnum að þessu sinni með sömu kjörum og áður, þ.e. án allrar verðtryggingar. Nú er langt liðið á febrúarmánuð. Venja hefur verið að hefja úthlutun svokallaðra vorlána eða aðallána upp úr miðjum janúarmánuði. Það er því orðið ákaflega brýnt að hefja úthlutun lánanna að þessu sinni og má raunar ekki dragast og hefur satt að segja dregist allt of lengi. Með vísun til þess, er ég nú hef greint, vil ég eindregið fara þess á leit að menntmn. beggja deilda geri allt sem unnt er til þess að hraða afgreiðslu málsins hér á hv. Alþ., og ég vil sérstaklega mælast til þess að menntmn. beggja d. ræði málið á sameiginlegum fundi sínum eða fundum. Þetta er oft gert og er ekkert afbrigðilegt við það. Þetta er oft gert þegar talið er nauðsynlegt að flýta sérstaklega afgreiðslu tiltekinna mála.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leggja til að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. menntmn.