24.02.1976
Efri deild: 61. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þar sem ég hef tekið þátt í því að vinna að undirbúningi laga um námslán og námsstyrki tel ég nauðsynlegt að segja um þetta mál nokkur orð, þar sem ég á ekki sæti í þeirri n. sem fær mál þetta til meðferðar.

Það yrði allt of langt mál að fara að rekja það starf sem hefur verið unnið af n. sem var skipuð til að endurskoða núgildandi lög, en í þeirri n. voru ýmsir menn og þ. á m. fulltrúar námsmanna sem lögðu sig mjög fram um það að vinna starf sitt þar af kostgæfni og lögðu í það mikla vinnu.

Það má segja að þau meginmarkmið, sem voru höfð í huga við störf n., voru að mönnum skyldu tryggð lán og þá jafnframt tryggðir möguleikar til að stunda nám án tillits til þess hvort þeir væru efnaðir eða ættu efnaða að. Einnig var það sjónarmið mjög ríkjandi, að stefnt skyldi að því að sjóðurinn yrði fjárhagslega sjálfstæður og sjálfum sér nægur í framtíðinni að nokkru leyti. Það er vissulega ljóst með tilliti til reynslu undanfarinna ára, að til þess að ná slíku markmiði er nauðsynlegt að taka upp verðtryggingu í einhverju formi, því að það var einnig hugmyndin þegar núgildandi lög voru sett á sínum tíma að sjóðurinn yrði fjárhagslega sjálfstæður innan tiltekins árafjölda. En ef ég man rétt, þá er áætlað að inn í Lánasjóðinn komi nú í ár í endurgreiðslum og vöxtum um það bil 15 millj., en áætlað mun vera að lána út a.m.k. 1500 millj. Ég skal ekki fullyrða hvort tölur þessar eru algjörlega réttar, en þær munu vera nærri sanni. Menn voru því almennt sammála um að það bæri að setja í lög að verðtrygging yrði tekin upp í einhverju formi

Það eru nokkur atriði sem ég vil minnast á og benda hv. menntmn. á og æskja þess að hún taki þau sérstaklega til athugunar með breytingar í huga.

Það hefur orðið nokkuð tíðrætt hér um 3. gr. laganna, þ.e.a.s. að stefnt skuli að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði. Það er alveg ljóst að þetta er ekki ákveðið orðalag. Það er svipað og er í núgildandi lögum og ekki sagt til um það hvenær þessu marki skuli náð. Það hefur verið rætt um að hér hafi ekkert miðað í áttina. En ég vil taka fram að það eru ýmsir skólar sem hafa bæst inn í námslánakerfið, og hlýtur það að teljast veruleg bót. Ég er alveg sammála um að það á að stefna að því að opinber aðstoð verði 100%, enda kom það fram í þeirri n. sem ég starfaði i. En ég tel það einnig mikilvægt og mikilvægara að bæta inn í þessi lög og þessa námsaðstoð ýmsum aðilum sem enga aðstoð hafa haft og hafa því borið verulegar byrðar. Þetta verða menn einnig að hafa í huga þegar rætt er um umframfjárþörf. Það er einnig ljóst að þegar umframfjárþörf er reiknuð út, þá eiga sér stað ýmsir umreikningar. Tekjur eru t.d. ekki dregnar frá að fullu, heldur eru þær endurreiknaðar og yrði of langt mál að tala um það hér. Lán eru í dag um 83.7% af umframfjárþörf, og þótt námsmenn og aðrir ræði um að að því skuli stefnt að lána 100% af umframfjárþörf, þá þarf það í sjálfu sér ekki að þýða mjög mikla fjármuni fyrir ríkissjóð. Fyrst og fremst er ljóst að ef verða gerðar breytingar á útreikningum tekna, þá verði það helst í þá átt að lækka umframfjárþörfina og þar með það fjármagn sem Lánasjóðurinn þarf að lána. Einnig er það ljóst að eftirspurn eftir lánum mun væntanlega eitthvað minnka við afgreiðslu þessa frv., þannig að ég vænti þess að unnt verði að ná þessu marki á næstu árum, sérstaklega eftir að sjóðurinn verður nokkuð sjálfstæður þegar endurgreiðslur fara að koma inn í hann, væntanlega að fjórum árum liðnum. Þá skapast meira svigrúm til að bæta þarna um.

En það, sem ég ætlaði aðallega að minnast á og benda menntmn. á, eru ákvæði frv. um endurgreiðslukerfi, þ.e.a.s. 8. gr. Þar er við það miðað að lágmarksendurgreiðsla verði 50 þús. kr., og þar segir einnig að séu hjón bæði lánþegar, þá skuli þau greiða tvöfalda lágmarksafborgun. Ég held að það sé alveg rétt og menn séu sammála um að það verður ekki stefnt að því og á ekki að stefna að því með þessum lögum að tryggja að allt það fjármagn, sem Lánasjóðurinn lánar út, komi að fullu til baka. Ég held að það sé ljóst að það verði að gera ráð fyrir allnokkurri rýrnun á því fjármagni. Við vorum nokkuð sammála um það í n., og ég vil taka fram að það gæti verið skynsamlegt að miða þetta mark við u.þ.b. 60%, og ég vil láta koma skýrt fram að það er mín skoðun, þ.e.a.s. þegar hefur verið tekið tillit til þeirra styrkja sem Lánasjóðurinn veitir.

Ef þessi lágmarksgreiðsla er 50 þús. kr., sem ég tel vera lítið eitt of hátt, þá verður tilgangur þessara ákvæða ekki sá sami og hann var hugsaður. Meðalnámslán í dag mun vera u.þ.b. 2 millj., og ef 50 þús. kr. lágmarksgreiðsla verður árlega, þýðir það að viðkomandi aðili mun a.m.k. greiða 1 millj. þ.e.a.s. um 50% af því fjármagni sem hann hefur fengið, Ef við miðum við það að við gerum þá kröfu, að heildarendurgreiðslur verði a.m.k. 60% af því fjármagni sem sett hefur verið út, og gefum okkur þá forsendu að styrkir séu um það bil 10%, þá munu þeir, sem umfram þetta mark greiða, þurfa að greiða upphæð sem svarar því að bilið frá 50% til 70% náist. Ég vil leggja til að þetta lágmark verði 40 þús. Ég tel eðlilegt að þarna sé eitthvert lágmark. Það má vel vera að í flestum eða öllum tilfellum sé hægt að miða við tekjur. En við vitum að tekjuhugtakið er nokkuð afstætt og er ekki óeðlilegt að þarna sé eitthvert lágmark. Og ég er þess fullviss að slíkt lágmark kemur ekki illa við marga sé því stillt í hóf. Ég vil sem sagt beina til menntmn. að hún taki þetta til athugunar og einnig það ákvæði að séu hjón bæði lánþegar, þá skuli þau greiða tvöfalda lágmarksafborgun. Ég tel að það færi mun betur á því að hjón greiddu ekki nema eina lágmarksafborgun.

Nú halda menn e.t.v. að slíkar breyt. hefðu gífurleg áhríf á fjármál sjóðsins. En ég held að svo sé ekki. Ég held að það sé alveg ljóst að flestir af þeim, sem koma til með að greiða til sjóðsins, muni greiða meira og mun meira en þessum lágmarksupphæðum nemur. Það munu aðeins verða fáir sem munu greiða minna, því að yfirleitt er sá hópur manna, sem langskólanám stundar, nokkuð tekjuhár hópur í þjóðfélaginu og oft á tíðum mjög vel aflögufær.

Ég vil einnig benda hv. menntmn. á 12. gr. þar sem segir að fé því, sem veitt er á fjárl. til námsstyrkja, skuli m.a. varið til þess að vega upp á móti kostnaðarauka hjá þeim námsmönnum sem fara utan til náms og skuli þeir að jafnaði ganga fyrir er stunda nám er eigi verður stundað hérlendis. Ég vil leggja til að þessi grein verði athuguð að nýju. Þær umr., sem fóru fram í n., gengu einkum í þá átt að greinin hljóðaði eitthvað á þessa leið og þar yrði til að byrja með um heimild að ræða, því að það er t.d. ekki ljóst á þessu ári hvað fjármagn Lánasjóðsins nægir til að veita styrki, þannig að þess er ekki að vænta að það geti orðið í verulegum mæli á þessu ári, — en þessi grein gæti hljóðað eitthvað á þá leið:

„Lánasjóði er heimilt að veita aðstöðujöfnunarstyrki til námsmanna sem verða að kosta sig fjarri eigin heimili vegna náms sem er aðstoðarhæft skv. 1. gr., enda verði sams konar nám ekki stundað þar sem umsækjandi á heima. Jöfnunarstyrki til námsmanna á Íslandi skal ákveða með tilliti til ferðakostnaðar og húsnæðiskostnaðar á dvalarstað.“

Þarna er gert ráð fyrir því að það sé möguleiki á að jafna að einhverju leyti námskostnað þeirra sem verða að sækja nám til Reykjavíkur utan af landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að námskostnaður þeirra er mun hærri. Þeir þurfa að borga sínar ferðir og þeir þurfa að leigja sé húsnæði. Þess vegna er æskilegt að það sé skapað svigrúm til þess að jafna þessa aðstöðu. Það má á það benda að ferðakostnaður er styrktur milli Íslands og annarra landa, og væri ekki óeðlilegt að styrkja ferðakostnað á sama hátt milli Reykjavíkur og annarra hluta landsins, því að á þessu er lítill eðlismunur þegar ekki er um það að ræða að stunda nám nema fjarri heimili.

Í framhaldi af þessu yrði síðan heimild til að veita jöfnunarstyrki til námsmanna erlendis sem skuli ákveða með tilliti til ferðakostnaðar og hugsanlegs mismunar á dvalar- og námskostnaði í Reykjavík og meðaltali hliðstæðs kostnaðar á Norðurlöndum ef viðkomandi nám er hægt að stunda á Norðurlöndum, annars með tilliti til hliðstæðs kostnaðar í viðkomandi námslandi Það er svo um margt nám að ekki er hægt að stunda það hér á landi og því er eðlilegt að það sé heimild til að minnka þann mismun sem þarna um ræðir.

Þetta eru þau aðalatriði sem ég vildi koma á framfæri við menntmn.

Það hefur verið rætt um það nokkuð hér að mikill ágreiningur ríki um þetta mál. Ég er þess fullviss að ef þessar breyt. verða teknar inn í lögin, þá muni það verða verulega til bóta án þess að það hafi veruleg áhrif á sjóðinn eða fjárþörf hans.

Önnur ágreiningsatriði, sem hefur verið rætt um, eru m.a. sjóðsstjórnin. Námsmenn hafa lagt áherslu á að sjóðsstjórnin yrði óbreytt, og hv. þm. Ragnar Arnalds taldi að hér væri um það að ræða að ríkisstj. vildi ná tökum á þessari stjórn. Ég held að það geti vart verið um það að ræða. Ég vil m.a. nefna það að námsmenn skipa í dag tvo fulltrúa í sjóðsstjórnina. Það er annars vegar SÍNE og hins vegar stúdentar í Háskólanum eða á vegum stúdentaráðs. Menntmrh. tilnefnir formann og hann tilnefnir einnig mann sem skal hafa sérþekkingu varðandi málefni þeirra námsmannahópa sem stunda nám í öðrum skólum en Háskóla Íslands. Menntmrh. hefur skipað þennan mann úr röðum námsmanna við þessar stofnanir, en það er ekki þar með sagt, að honum beri nokkur skylda til þess. Þess vegna, ef hann vildi sérstaklega leggja sig fram um það að ná sérstökum tökum á þessum sjóði, þá gæti hann væntanlega skipað þarna annan mann. Svo vil ég einnig benda á að það er skylt að leggja úthlutunarreglur og önnur mál námslánasjóðs til samþykktar í menntmrn. Þess vegna getur rn. og ríkisstj. í sjálfu sér gert það sem þeim þykir best henta ef þau kæra sig um. (Gripið fram í.) Jú, það er að vissu leyti alveg nóg. En það, sem hefur ráðið þessu og hefur komið skýrt fram hjá ráðh., er það að honum finnst óeðlilegt að Háskóli íslands skipi þarna sérstakan fulltrúa, að það skuli vera sérstaklega á valdi Háskólans að skipa þarna fulltrúa, en ekki annarra menntastofnana. Ég ætla ekki að gera mikið úr þessu máli. Ég held að þetta sé atriði sem skipti tiltölulega litlu máli. Það er alveg ljóst að námsmenn hafa og koma til með að hafa mjög veruleg áhrif á stjórn þessa sjóðs. Þeir koma til með að hafa þrjá menn af sex. Ég er þeirrar skoðunar að þeir eigi að hafa þarna veruleg áhrif, og ég held að það sé nokkuð ljóst að þeir muni hafa þau í framtíðinni. En hitt er svo annað mál, að það hefur komið greinilega fram að þeir telja algjöran óþarfa að breyta þarna til.

Ýmis önnur ágreiningsatriði hafa komið upp sem ég ætla ekki að rekja hér frekar. En ég vil einnig að lokum benda menntmn. á það að allmikilvægt er að það komi fram á einhvern hátt, t.d. í framsögu hvað skuli stefnt að miklu innheimtuhlutfalli. Ég sagði áðan að ég teldi eðlilegt að það yrði miðað við það að 60% af því fjármagni, sem Lánasjóður lánaði út og léti út í formi styrkja, kæmu til baka. Það á eftir að semja ýmis atriði varðandi innheimtu lánanna og ganga frá í reglugerð, og þess vegna þykir mér eðlilegt að það sé tekin afstaða til þess hvað innheimtuhlutfallið skuli vera hátt til þess að þeir, sem vinna þetta verk, geti haft af því hliðsjón.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mál mitt miklu lengra, en ég vildi aðeins koma inn á nokkur atriði sem hv. þm. Ragnar Arnalds gat um. Ég er þess fullviss að hann hefur ekki haft nægilegan tíma til þess að kynna sér þetta frv. og þau málefni sem þar koma fram, enda alls ekki við því að búast eða eðlilegt að neinn, sem hér á sæti í þessari d., hafi haft svigrúm til að setja sig inn í þessi mál. (Gripið fram í: Þá var of snemmt að leggja það fram.) Það er nú ekki vani að menn kynni sér mál fyrr en þau hafa verið lögð hér fram. En hann gat þess að endurgreiðslukerfi það, sem hér væri um að ræða, væri mjög harðneskjulegt og vitnaði í því sambandi í frv. sem kom fram á sínum tíma, á árinu 1972 eða 1973, og þær brtt. sem voru unnar í menntmn. Ed. Alþ. Ég held að það sé nokkuð ljóst, sérstaklega ef það verða gerðar breytingar á því lágmarki, sem ég gat um áðan, þ.e.a.s. lækkað úr 50 í 40% og ekki innheimt tvöfalt hjá hjónum, að þá voru þær till, sem þar var um að ræða, mun harðneskjulegri en hér er um að ræða. Ég held að það fari ekkert á milli mála, enda voru námsmenn almennt sammála um að þær till. væru algjörlega óaðgengilegar. Ég ætla ekki að ræða það frekar á þessu stigi málsins, en mun gera það siðar ef tilefni gefst. Þær till., sem þar komu fram, gengu á engan hátt í svipaða átt og námsmenn hafa lagt til og fram kemur í þessu frv. Þær till. gengu í aðra átt. Það var ákvæði þess efnis að lánin skyldu endurgreidd á 15 árum, lágmarksgreiðsla yrði 8% af brúttótekjum og ekki á neinn hátt tekið tillit til fjölskyldustærðar eða framfærslukostnaðar, þannig að ég held að hér sé um misskilning að ræða og vænti þess að hv. þm. sjái það þegar hann hefur kynnt sér málið nánar. (RA: Það var ekki nema 1/3 verðtryggður. Þarna sérðu muninn.) Það er alveg rétt að það var ekki lagt til að það væri nema 1/3 verðtryggður. Að vísu var í upphafi lagt til af n. að 50% væru verðtryggð, en sú n., sem vann að samningu frv., taldi það ekki vera eðlilegt þar sem verðtrygging væri ekki á öðrum sviðum, og mér skilst að menntmn. Alþ. hafi fallist á það og hugsað sér að leggja til að hér yrði um 30% verðtryggingu að ræða. En það er einnig jafnljóst að það átti að innheimta allháa vexti. Það átti að innheimta allháa vexti af hinum 70%. Og ég vil benda á það að í þessum till. er ekki gert ráð fyrir því að vextir verði innheimtir, og þótt verðbólga hafi verið allveruleg nú á undanförnum árum eða allt að á bilinu 40–50%, þá skulum við vona okkar allra vegna að sú verðbólga lækki að einhverju verulegu marki, þannig að það verður einnig að taka tillit til vaxtanna þegar þessi atriði eru metin.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera fleiri aths. á þessu stigi málsins, en ég vil mælast til þess við formann menntmn að hann taki þessi atriði til athugunar, sérstaklega að því er varðar lágmarksendurgreiðslu og að því er varðar styrkjakerfið. Ég held að þar megi koma við allverulegum bótum án þess að það þurfi að raska þessu frv.