24.02.1976
Neðri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

140. mál, Líferyissjóður Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hér er um að ræða eitt mikilvægasta mál sem til umr. er á vettvangi íslenskra félagsmála. Hér er um að ræða eitt brýnasta hagsmunamál íslenskra launþega og þá sérstaklega aldraðs fólks sem á döfinni er. Hér er um það að ræða að leiðrétta eitt alvarlegasta misrétti sem um hefur verið að ræða í íslenskum félagsmálum á undanförnum árum og hefur farið vaxandi á allra síðustu árum, misréttið milli þeirra lífeyrisþega, sem notið hafa verðtryggðra lífeyrisgreiðslna, og hinna, sem hafa orðið að sætta síg við að fá lífeyri sinn greiddan í krónum með síminnkandi verðgildi.

Ég vil þegar við 1. umr. þessa máls lýsa yfir mjög eindregnu fylgi mínu við meginstefnu þessa frv., þ.e. þá að koma á einum Lífeyrissjóði íslands, einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, þar sem allir njóta sömu eða hliðstæðra réttinda og þeirra verðtryggðra.

Það þarf raunar engum að koma á óvart þótt af hálfu Alþfl. sé lýst yfir fylgi við þá grundvallarstefnu sem í þessu frv. felst, svo lengi hefur það verið eitt af mestu áhugamálum Alþfl. að grundvallarhugmynd þessa frv. næði fram að ganga. Ég minnist þess að þegar Alþfl. gerðist aðili að samsteypustjórn Hermanns Jónassonar sumarið 1956 eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu í sjö ár, þá var einmitt þetta mál, endurbætur á tryggingamálum og þ. á m. samræmdur lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, eitt af þeim málum sem Alþfl. nefndi þegar rætt var um stjórnarmyndunina. Hins vegar varð niðurstaða þeirra viðræðna að þar sem heill áratugur væri liðinn síðan lögin um almannatryggingar voru sett, en það var gert árið 1946, en þá hafði verið áratugur liðinn síðan allra fyrstu lögin um alþýðutryggingar höfðu verið sett, þá væri brýnna viðfangsefni að endurbæta almannatryggingalögin frá árinu 1946 en að leitast við að koma á jafnalgeru nýmæli og þá þótti að nefna hugmyndina um lífeyríssjóð allra landsmanna. Hins vegar fór það svo því miður í ríkisstj. Hermanns Jónassonar vegna þeirra efnahagserfiðleika, sem við var að etja, og þó sérstaklega fjárhagserfiðleika ríkissjóðs á þessum árum, að ekki komst í framkvæmd að hrinda fram neinum umtalsverðum umbótum á atmannatryggingakerfinu.

Þegar mynduð var samsteypustjórn Sjálfstfl. og Alþfl. undir forustu Ólafs Thors um áramótin 1959–1960 voru það einkum þrjú mál sem Alþfl. lagði sérstaka áherslu á að tekið yrði tillit til í sambandi við þá gerbreytingu efnahagsstefnu sem þá var mótuð og kennd var við viðreisn. Það var í fyrsta lagi að gerð yrði gagngerð endurbót á almannatryggingalöggjöfinni frú 1956 sem þá var orðin næstum hálfs annars áratugs gömul. Í öðru lagi að tryggðar yrðu auknar fjárveitingar til menntamála og skólakerfið endurskoðað. Og í þriðja lagi að lækkaðir yrðu skattar af almennum launatekjum. Þetta skyldi allt saman gert í beinum tengslum við gengisbreytinguna, sem gerð var, og þá stefnubreytingu að öðru leyti í efnahagsmálum sem viðreisnarstjórnin svokallaða á þeim tíma beitti sér fyrir. Um þetta varð samkomulag og þess vegna var það einmitt eitt af meginverkefnunum á fyrstu árum ríkisstj. Ólafs Thors að gerð var gagnger breyting á almannatryggingakerfinu, mjög mikil aukning á því kerfi, sem ég þarf ekki að rifja nánar upp.

Við alþfl.-menn í ríkisstj. héldum ávallt vakandi hugmyndinni um lífeyrissjóð allra landsmanna. En það mikið var í fang færst á fyrstu árunum eftir 1960 að ekki þótti fært að gera tilraunir til þess að hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd. Þó voru gerðar margvíslegar athuganir í þessu sambandi, eins og raunar kom fram hjá frsm., og sú merkasta var sú þegar Haraldi Guðmundssyni fyrrv. forstjóra Tryggingastofnunarinnar var falið að kanna þá löggjöf, sem um þetta efni gilti á Norðurlöndum, og semja frv. sem henta mundi íslendingum í því sambandi. Það gerði hann um miðjan sjöunda áratuginn. Þá fóru í hönd erfiðleikaár, eins og síðasti ræðumaður gat um og því miður komust hugmyndir þær, sem í grg. Haralds Guðmundssonar fólust og við alþfl.-menn þá studdum, ekki til framkvæmda. Svo fór, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að Lífeyrissjóðamálin tóku aðra stefnu en a.m.k. við í Alþfl. höfðum hugsað okkur eða hefðum talið heppilegasta. Þau tóku þá stefnu, eins og báðir síðustu ræðumenn hafa rakið með greinagóðum hætti í ræðum sínum, að lífeyrissjóðamálið varð að samningsatriði milli verkalýðshreyfingar annars vegar og vinnuveitenda hins vegar. Það var komið á fót fjöldamörgum einstökum lífeyrissjóðum sem þó var ekki gert ráð fyrir að greiddu verðtryggðar bætur.

Ýmsir þóttust á þeim árum þegar sjá að hér stefndi því miður ekki í rétta átt, og það er nú komið í ljós að þó að auðvitað hafi samningarnir um lífeyrissjóðina 1969 og 1970 verið stórkostlegt framfaraspor frá sjónarmiði launþega og stórkostlegt hagsmunamál þeirra að fá þetta viðurkennt í sinni samningsgerð, þá sáu samt ýmsir menn, sem höfðu sérstaka þekkingu á fjármálum og tryggingamálum, að þetta var ekki kerfi til frambúðar. Sem betur fer hafa nú að því er virðist allir sannfærst um það, svo sem viðræðurnar um samningana sem nú standa yfir hafa sýnt, að nauðsyn er hér á endurbótum. Þetta frv., sem hér er til umr., sýnir og fullkominn skilning á því að hér er þörf gagngerra breytinga og bóta.

Ástæðan til þess, að til þessa hefur illa gengið að ná samkomulagi um hverjar breytingarnar skyldu verða og yfirleitt um hugmyndina um að koma á fót einum allsherjarlífeyrissjóði í stað þeirra fjölmörgu lífeyrissjóða sem starfræktir hafa verið, hefur í raun og veru verið spurning um valddreifingu, um áhrif yfir því fjármagni sem safnast hefur í þessa sjóði. Ýmis verkalýðsfélög hafa ekki viljað afsala sér því mikla valdi, þeim miklu áhrifum sem umráð yfir lífeyríssjóðnum hljóta að hafa. Aðrir hafa aftur á móti bent á að frekar bæri að taka tillit til heildarsjónarmiðs launþega og eldra fólksins heldur en hins, að taka tillit til sérhagsmuna einstakra stéttarfélaga eða meðlima þeirra. Um það efni skal ég ekki fjölyrða. En þessi ágreiningur — það er best að tala alveg tæpitungulaust um það — hefur auðvitað orðið til þess að síðar hefur verið gripið til skynsamlegri ráðstafana í þessum efnum heldur en annars hefði átt sér stað og efni raunverulega stóðu til. Þetta hefur okkur þm. Alþfl. verið ljóst á undanförnum árum, og þess vegna var það að við á þinginu 1972–73 fluttum till. til þál. þar sem gerð var tilrann til þess að sætta þessi andstæðu sjónarmið, einmitt til þess að hrinda málinu áfram. En till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. til l. um Lífeyríssjóð allra landsmanna. Aðilar að honum skulu vera þeir lífeyrissjóðir sem nú starfa í landinu, og skulu þeir áfram lúta sömu stjórn og nú á sér stað og starfsreglur þeirra haldast óbreyttar uns öðruvísi kynni að verða ákveðið. Hins vegar skal Lífeyrissjóður allra landsmanna skipa sérstakt fulltrúaráð og sérstaka stjórn. Í fulltrúaráðinu skulu eiga sæti fulltrúar þeirra lífeyrissjóða sem aðild eiga að Lífeyrissjóði allra landsmanna, en í stjórn hans fulltrúar kjörnir af fulltrúaráði, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og fulltrúi fjmrh. sem skal vera formaður stjórnarinnar. Hlutverk Lífeyrissjóðs allra landsmanna skal vera að vinna að því“ — og hér er kjarni málsins — „að þeir, sem nú njóta ekki lífeyrisréttinda, öðlist þau og að samræma störf þeirra lífeyrissjóða sem nú starfa, bæði að því er varðar réttindi þau, sem þeir veita, og ráðstöfun á fjármagni þeirra. Enn fremur skal Lífeyrissjóður allra landsmanna stuðla að því að rekstur lífeyrissjóðanna verði sem hagkvæmastur.“

Hér lýkur till. sjálfri. Það þarf enga frekari skýringa við að hér er gerð greinileg tilraun til þess að sætta þau ólíku sjónarmið sem uppi voru, annars vegar sjónarmið þeirra, sem vildu ekki afsala sér umráðarétti yfir fjármagni sjóðanna, og hin, að tryggja öllum, sem þá nutu ekki lífeyrisréttinda, full verðtryggð réttindi og að samræma störf lífeyrissjóðanna sem þá störfuðu, bæði að því er varðar réttindi og ráðstöfun á fjármagni þeirra.

Þessi till. var rædd á þessu þingi og hlaut einróma meðmæli þeirrar n. sem um þau fjallaði, allshn., í því formi að till, var vísað til ríkisstj. sem var auðvitað jákvæð afgreiðsla á málinu. Það var hinn 3. apríl 1973 sem þeirri till., sem ég nú las, var vísað til þáv. ríkisstj. En síðan eru liðin næstum þrjú ár og frá þeirri ríkisstj., sem þá sat, heyrðist ekkert og frá þeirri ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki heldur heyrst neitt. Þeim mun þakkarverðara er það að einstakur þm. skuli með stuðningi síns stóra og volduga stéttarfélags eiga frumkvæði að því að færa þær hugmyndir, sem eru náskyldar þeim sem í þáltill. voru, í frv.-form.

Nú kunna aðstæður auðvitað að breytast nokkuð í framhaldi af því samkomulagi sem gert hefur verið og ég skil á þann veg að það sé skuldbinding af hálfu ríkisvaldsins um það að innan tveggja ára skuli hafa verið komið á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, svo að ég orði það einfaldlega og stutt. En til bráðabirgða skil ég samkomulagið þannig að þegar eigi að taka upp stórauknar greiðslur til þeirra sem undanfarið hafa farið mjög varhluta af sanngjörnum lífeyrisgreiðslum. Þessu samkomulagi fagna ég af heilum hug.

Sú endurbót, sem koma á til framkvæmda strax, var brýn og bráðnauðsynleg, og ég endurtek það enn að ég lýsi ánægju minni yfir því að fullt samkomulag skuli hafa náðst um það og rengi ekki að ríkisstj. muni leggja það af mörkum sem nauðsynlegt er að hún geri til þess að samkomulagið geti þegar í stað komið til framkvæmda. Hitt vefengi ég ekki, að málið er mjög umfangsmikið og mjög flókið og það er ekki hægt að búast við því að á örfáum mánuðum sé hægt að ganga frá frv. sem fullnægi öllum sjónarmiðum, sem til greina geta komið, og grundvalli fullkomið skipulag í þessum efnum. En það breytir engu um það, að því framtaki, sem felst í flutningi þessa frv., ber mjög eindregið að fagna. Ég tel það geta orðið mjög gagnlega undirbúningsvinnu, eins og síðasti hv. þm. tók fram, að þn. hefji þegar athugun á málinu á grundvelli þessa frv. Það gæti flýtt fyrir þeirri lausn sem ég tel að felist í því samkomulagi sem gert var milli launþega og vinnuveitenda fyrir skömmu, og ég endurtek að ég skoða aðild ríkisstj. að því sem fyrirheit um að innan tiltekins tíma verði komið á fullkominni löggjöf um lífeyrissjóð allra landsmanna sem sannarlega hefur verið þörf á um langan aldur.

Ég lýk máli mínu með því að endurtaka stuðning minn við meginstefnu þessa frv.