25.02.1976
Efri deild: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um fullorðinsfræðslu. Þetta frv. var lagt fram á síðasta Alþ. og varð þá ekki útrætt, eins og hv. dm. muna. Með því fylgja mjög ítarlegar atbugasemdir og yfirgripsmikið nál. frá milliþn. Og þegar ég mælti fyrir þessu frv. á síðasta Alþ. gerði ég nokkra grein fyrir einstökum efnisatriðum þess. Ég vil því leyfa mér að vitna til bæði athugasemdanna og ræðu minnar sem prentuð er í 4. hefti Alþingistíðinda 1974. Læt ég nægja að rifja upp í örstuttu máli undirbúning frv., minna á örfá efnisatriði og gera grein fyrir þeirri einu breytingu, sem upp var tekin í frv. frá því að það var flutt hér síðast. auk þess kannske aðeins koma inn á viðhorf nálægra þjóða til þessara mála einnig.

Hinn 26. okt. 1971 skipaði þáv. menntmrh„ Magnús T. Ólafsson, n. til þess að gera till. um hvernig skipuleggja skuli fræðslustarfsemi fyrir fullorðna. N. var falið að skila till. sínum í frv.-formi svo fljótt sem við yrði komið. Séra Guðmundur Sveinsson skólastjóri var formaður þessarar n., en ýmsir aðilar tilnefndu í n. og sátu í henni ásamt með formanni Andrés Björnsson útvarpsstjóri, Jónas R. Jónsson fræðslustjóri og síðar Ragnar Georgsson skólafulltrúi, dr. Matthías Jónasson, frú Sigríður Thorlacius, Gunnar Grímsson starfsmannastjóri og Stefán Ögmundsson prentari. Þessi n. skilaði sínu álíti sumarið 1974 og þar með þessu lagafrv. sem hér er nú lagt fram öðru sinni.

Eins og ég sagði áðan varð málið ekki útrætt á síðasta Alþ., en það var nokkuð athugað í n. og komu fram ýmsar athugasemdir og ábendingar frá mörgum aðilum, bæði til þn. og beint til menntmrn.

Eftir þinglok í fyrra fór ég þess á leit við milliþn. að hún ásamt tveimur nm. úr menntmn. þessarar hv. d., þeim Axel Jónssyni og Inga Tryggvasyni, líti á athugasemdir og ábendingar þær sem fram höfðu komið og legði það niður fyrir sér hversu með skyldi fara, hvort t.d. væri skynsamlegt að breyta frv., áður en það yrði lagt fyrir Alþ. á ný, með tilliti til hinna ýmsu umsagna og ábendinga eða með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu, t.d. á hinu fjárhagslega sviði. Það kom m.a. til tals hvort ætti að taka e.t.v. einhverja einstaka þætti út úr og flytja frv. um þá og láta aðra bíða o.s.frv. Niðurstaðan af þessum umþenkingum og athugunum varð sú, að skynsamlegast væri að leggja frv. fyrir Alþ. óbreytt að öðru leyti en því að aftan við 39. gr. komi sú viðbót sem þar greinir og felur það í sér að um framkvæmd laganna fari eftir fjárveitingu hverju sinni, nema hvað 30. og 31. gr., sem fjalla um námsflokka og námshópa svo og bréfaskóla, komi til framkvæmda eigi síðar en á árinu 1977. Með því að hafa þennan hátt á ætti að vera unnt að byrja að fikra sig áfram með að framkvæma þá stefnu, sem í frv. felst, þó að fjárhagsástæður ríkissjóðs leyfi ekki framkvæmd allra þátta þess í einni svipan. Það er ekki heldur í sjálfu sér eðlilegt að svo verði, en æskilegt að geta farið að hefjast handa um aukinn stuðning við það sem við höfum kallað fræðslu fullorðinna.

Þegar frv. var lagt fram í fyrra var gerð grein fyrir áætluðum kostnaði af framkvæmd þess í heild. Endurskoðun þeirrar áætlunar liggur ekki fyrir á þessari stundu, en ég mun hlutast til um að slík endurskoðun fari fram hjá hagsýslustofnun ríkisins og að menntmn. þessarar hv. d. verði þá gerð grein fyrir niðurstöðum fljótlega.

Í sem allra fæstum orðum er meginefni þessa lagafrv. að bæta skilyrði til þess að menn geti aukið þáttum í menntun sína. helst alla ævi, að loknu eða þá utan hins venjulega skólanáms. Þetta er af ýmsum ástæðum mjög mikilvægt. Vegna síbreytilegra starfshátta í þjóðfélögum nútímans þurfa menn að eiga þess kost að endurhæfa sig í starfi, m.a. þeir sem um sinn hafa horfið frá vinnu utan heimilis, en hefja þau störf á ný þegar aðstæður breytast, svo sem nú er orðið algengt. Þótt menn af ýmsum ástæðum hverfi frá náminu við lok skyldufræðslu, þá á að vera unnt að taka upp þráðinn á ný ef áhug er á því. Oft er nauðsynlegt líka að geta búið sig undir störf á alveg nýjum vettvangi, sbr. það sem allir þekkja og er mjög algengt, að menn óski og jafnvel þurfi bókstaflega að breyta um störf af ýmsum og oft persónulegum ástæðum. Einnig er mjög æskilegt að menn geti átt þess kost að verja tómstundum sínum til náms hreinlega sér til aukins þroska og ánægju almennt talað. Það fer svo ekki milli mála að það er miklum vandkvæðum bundið að búa skilyrði til slíks náms þannig að bæði verði auðvelt fyrir þá, sem þess vilja njóta, og þó ekki um of kostnaðarsamt fyrir hið opinbera, ríki, sveitarfélög og raunar einnig einstaklinga, t.d. vinnuveitendur og aðra sem hafa staðið undir kostnaði við þá fullorðinsfræðslu sem hér hefur verið á boðstólnum og koma til með að gera það samkv. frv. Það er ekki ætlast til þess að gera fullorðinsfræðsluna, sem til þessa hefur verið frjáls ábugastarfsemi í mörgum greinum, að ríkisrekinni starfsemi, heldur að auka stuðninginn við einstaka þætti hennar. Hér verður því að leitast við að þræða meðalveginn milli þarfanna og óskanna og svo fjárhagsgetunnar.

Það hefur verið upplýst að skólaárið 1972–73 vörðu danir til fræðslu fullorðinna sem svaraði 20 milljörðum ísl. kr. eða um 4000 ísl. kr. á hvern íbúa Danmerkur. Í Finnlandi var framlagið nokkru minna, eða sem svaraði 3000 ísl. kr. á hvern íbúa. Í Noregi er mér tjáð að það hafi numið 3500 ísl. kr. og í Svíþjóð 5500 ísl. kr. á hvern íbúa. Af þessu er ljóst að nálægar þjóðir verja nú þegar nokkuð miklum fjárhæðum til þessa þáttar menntunar. Það er svo eftirtektarvert að þrátt fyrir þessa þróun, sem þar hefur orðið á þessu sviði skólamálanna, ræða forsvarsmenn menntamála í nálægum löndum mjög mikið um nauðsyn þess að efla enn fræðslu fullorðinna. Og sannleikurinn mun vera sá, að flestar nálægar þjóðir leggja mjög mikla áherslu á þetta atriði.

Menntmrh. aðildarríkja Evrópuráðsins héldu t.d. 9. fund sinn 9.–12. júní 1975 í Stokkhólmi, og þar var einmitt fjallað um fræðslu fullorðinna. Mér finnst ástæða til að rifja aðeins upp það sem gerðist á þessum fundi. Þar segir í fundargerð m.a. að „minnt var á ályktanir sem gerðar voru í Brüssel 1971 og Bern 1973 þar sem samþykkt var meginstefna um endurmenntun og viðurkennd nauðsyn þess að tækifæri til menntunar veittist alla ævi í samræmi við hugmyndir um símenntun“. Þetta er ekki fyrsta ráðstefnan að sjálfsögðu sem um þetta fjallar. Þá er því lýst í álíti að endurmenntun muni auka frelsi og ábyrgð hvers einstaklings við að taka ákvarðanir um menntun og störf og hún muni einnig auka jafnrétti til menntunar og þar með jafnrétti innan þjóðfélagsins yfir höfuð. Og enn er bent á í fundargerð þessa ráðherrafundar að endurmenntun sé að vissu marki nú þegar farin að hafa veruleg áhrif og sanna ágæti sitt í aðildarríkjum Evrópuráðsins, en þó ekki nægilega til að kostir hennar sem sveigjanlegs endurmenntunarkerfis geti notið sín að fullu. Í beinni ályktun eða yfirlýsingu þessa fundar segir enn fremur þetta:

„Höfuðmarkmið endurmenntunar er að veita hverjum einstaklingi færi á að taka eigin ákvarðanir um framtíð sína. Hún vinnur gegn misrétti í ríkjandi menntakerfi og að tækifæri til menntunar veitist mönnum alla ævi. Endurmenntunarkerfi, sem nota má við framtíðarskipulagningu menntunar, á einkum við í framhaldsnámi, en áhrifa hennar mun gæta annars staðar í menntakerfi. Henni skal koma á með ýmsum styttri og lengri framkvæmdaáætlunum. Endurmenntun er nauðsynlegur þáttur í víðtækum félagslegum og efnahagslegum aðgerðum við að koma símenntun í framkvæmd. Endurmenntun hefur áhrif á skipulag starfs og tómstunda. Þörf er á samræmingu milli stefnu í menntamálum og stefnu á sviði félagsmála og efnahagsmála. Einnig er nauðsynlegt að samræma hina ýmsu þætti menntamála, svo sem hefðbundið nám og svo nýjar aðferðir við nám, verknám og bóknám, en þessir þættir eru oft í ónógum tengslum hver við annan.“

Þetta er orðrétt úr ályktun ráðherrafundarins sem ég áðan nefndi. Það greinir náttúrulega margt fleira í ályktunum fundarins sem eru býsna ítarlegar. Þar er m.a. bent á það hlutverk framhaldsmenntunar að mæta þörfum fólks með mjög ólíka fortíð. Það er lögð sérstök áhersla á þetta atriði. Og einnig er atriði, sem mér finnst eftirtektarvert, að endurskoða inntökureglur til æðri menntunar þannig að aukið tillit verði tekið til starfsreynslu. Mér finnst þetta atriði mjög athyglisvert og einmitt í samræmi við það sem einnig er okkar raunverulega yfirlýsta stefna hér nú þegar endurskoðun framhaldsskólastigsins er hafin af fullum krafti. Mér sýnist það koma glöggt fram í þessum punktum frá þessum ráðherrafundi, auk þess hversu gífurlega mikla áherslu þeir leggja á fullorðinsfræðsluna, að það eru nánast alveg sömu vandamálin sem við er að etja í skólakerfum þessara grannþjóða eins og hér á heimaslóðum okkar.

Þegar lög um grunnskóla og lög um skólakerfi hafa verið samþykkt og unnið er að því fullum fetum að framkvæma þessa nýju löggjöf og jafnframt er svo hafin endurskoðun á framhaldsskólastiginu almennt með sérstakri áherslu á verkmenntaþættinum, þá fer ekki á milli mála, held ég, að það er nauðsynlegt að huga einnig að því, sem við höfum kallað fræðslu fullorðinna, og leitast við að koma hagfelldara skipulagi á þá fræðslu en nú er.

Við skulum jafnframt gera okkur það alveg ljóst, að þegar hér er lagt fram viðamikið frv., þá er ekki svo að skilja að það hafi ekki þegar verið töluvert aðhafst í þessa stefnu hér á landi. Fræðsla fullorðinna hefur farið fram á mörgum stöðvum í rann og veru. Kunn eru form eins og námskeið og námsflokkar, bréfaskóli, útvarpskennsla o.s.frv. Sjónvarpið hefur allt of lítið verið tekið til þessara nota, en það er starfandi vinnuhópur, sem undirbýr till. um úrbætur á því sviði. Já, það er raunar ekki vansalaust hvað lítið hefur verið gert að því að nýta sjónvarpið til kennslu. Ekki þarf orðum að því að eyða hversu öflugt tæki það á að geta verið til þeirra hluta. Einnig eru það svo öldungadeildirnar sem nú þegar starfa, bæði við Hamrahlíðarskólann hér í Reykjavík og svo nú í vetur við Menntaskólann á Akureyri. En einmitt aðsóknin að þessum svokölluðu öldungadeildum á þessu eina afmarkaða sviði, menntaskólasviði, hefur verið gífurleg og hún sannar það eða gefur a.m.k. sterka bendingu um það, að þörfin á fræðslu fullorðinna er ótvírætt fyrir hendi í vaxandi mæli. Og af þessu, sem ég aðeins tæpi á, og þeirri vinnu, sem unnið er nú þegar á þessu sviði, þá er auðvitað ljóst að það er varið töluvert miklum fjármunum til þessara hluta nú þegar. Og það, sem reynt er að færa í form í þessu frv., eru ekki tómar nýjungar. Þetta er nokkuð sem menn hafa starfað að þó að sé hitts vegar gert ráð fyrir því að veita aukinn stuðning sem auðvitað kostar meira fé.

Í þessu frv. eru ýmis ákvæði um þátttöku ríkisins, svo sem að fræðsla í formi námsflokka og námshópa skuli fá 75% sannanlegs kostnaðar greiddan úr ríkissjóði, að viðurkennd fræðslusambönd, sem starfa eftir nánar tilteknum reglum, skuli einnig fá 75% tiltekins kostnaðar og kennslufræðilegar stöðvar í fræðsluumdæmum skuli njóta 50% ríkisstyrks vegna launa sérmenntaðs starfsliðs og vegna skrifstofukostnaðar. Þá er einnig gert ráð fyrir því sem aðalreglu að ríki eða sveitarfélög láti í té húsnæði og tæki, ljós og hita og þess háttar fyrir starfsemi af þessu tagi. En út í einstök efnisatriði skal ég sem sagt ekki fara nánar. Hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, skoðar þau að sjálfsögðu og þá að fengnum þeim upplýsingum um fjármálahliðina sem ég var búinn að víkja að.

Ég hef þegar minnst á þessa einu breytingu sem gerð var á frv. frá því að það var lagt fram á alþ. í fyrra. Það er annars vegar að taka það beinlínis fram að hinir ýmsu þættir fullorðinsfræðslunnar, sem um er fjallað í frv., komi þá fyrst til framkvæmda þegar fé er veitt á fjárl., til þeirra nema þessir tveir, sem ég einnig nefndi, þeir komi til framkvæmda á næsta ári, þ.e.a.s. stuðningur við námsflokka og námshópa og svo bréfaskólakennsluna.

Hér eru sem sagt teknir fram fyrir tveir þeir þættir sem ég hygg að hafi hvað minnstan aukinn kostnað í för með sér. En þetta eru þættir sem hafa reynst ákaflega vel og hafa komið mörgum til hjálpar, ekki síst þeim sem ýmissar aðstöðu vegna eiga sérstaklega erfitt með að stunda nám á annan hátt eftir að þeir eru komnir á fullorðinsaldur. Okkur er sjálfsagt öllum kunnugt um það, hv. þm., að einmitt þessi starfsemi berst nú mjög í bökkum og sjálfsagt allir sammála um að hún mætti með engu móti niður falla, og ef Alþ. á annað borð treystir sér til að taka ákveðna afstöðu til einstakra þátta í frv., að þeir komi til framkvæmda á næsta ári, þá gæti ég trúað að menn yrðu sammála um að einmitt þessir ættu að verða fyrir valinu. — Já, herra forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri, en legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.