25.02.1976
Efri deild: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég verð að gera þá játningu, og ég býst við að svo sé um fleiri hv. þdm., að mér hefur ekki gefist tími til að lesa þetta frv. eða grg. þess frá upphafi til enda. Ég hef séð þetta frv. einu sinni eða tvisvar á dagskrá hér og ég hafði heitið því að ég skyldi reyna einhvern veginn að þvælast í gegnum þann langhund sem fylgir þessu frv., en þetta er ákaflega seinlesið að ég segi ekki hversu margt af þessu er einhvern veginn tormelt. Einhvern veginn er þó búið að festast í huga mér að einhver fröken Inga Tusvik hefur verið formaður einhverrar nefndar í Noregi 1970 sem tók til athugunar málefni sem þetta og ritari þeirrar n. hét Astrid Gran, svo að ekki hefur þó allt farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér í sambandi við þetta mál.

Ég verð að játa það að fyrstu viðbrögð mín við þessum mikla frv.-bálki, sem hér er á ferðinni, eru nú svona og svona. Einhvern veginn finnst mér, að þróunin hafi verið í menntamálakerfi þjóðarinnar á þann veg á undanförnum árum, og hef þar fyrir mér álit manna sem hafa menntun og hæfileika til að meta slíka hluti, að við búum sem þjóð við mjög háþróað menntakerfi eða fræðslukerfi. Og ef tekið er tillit til þess, hversu gífurlegum fjármunum ekki fjölmennari þjóð en við íslendingar erum eyðir til hins víðtæka og víðfeðma skólakerfis okkar, þá verð ég að segja það, að eins og tímarnir eru núna, þá finnst mér að það gefi fyllstu ástæðu til þess að a.m.k. sé staldrað við áður en tekin er endanleg ákvörðun um að bæta ofan á þá miklu skólakerfisbyggingu víðbótarkerfi sem áreiðanlega mun koma til með að kosta þjóðina stórkostlegar upphæðir.

Í gær var hér á dagskrá hv. þd. frv. að lögum um námssjóð eða lánasjóð stúdenta og námsfólks. Ég hafði af vissum ástæðum ekki aðstöðu til að sitja þann fund til enda og taka þátt í umr. um það málefni. Ég get þó ekki varist því að vekja athygli á, að ég held að það sé ekki að ósekju að mönnum eru allmikið farnar að vaxa í augum þær miklu upphæðir sem farið er að verja til þess að styrkja námsmenn til náms. Ég er ekki með þessum orðum á neinn hátt að sjá eftir þessu, en því hljóta þó að vera takmörk sett hvað fámennt og efnahagslega veikburða þjóðfélag getur leyft sér í slíkum málum.

Með því frv., sem hér er á dagskrá, er gert ráð fyrir að þeir, sem taka þátt í því menntunarkerfi sem á að setja á stofn samkv. ákvæðum þessa frv., eigi að geta orðið aðnjótandi lána úr þessum svokölluðu lánasjóðum með sömu réttindum og aðrir. Gefur þá við slíkt fyrirkomulag auga leið að ofan á þær miklu fjárhæðir, sem framkvæmd þessa lagabálks mundi óumflýjanlega hafa í för með sér fyrir þjóðfélagið, þá yrði einnig að taka tillit til þess að verulega mundi þurfa að auka það fé sem svokallaðir lánasjóðir námsmanna hafa til umráða.

Það er stundum sem það hvarflar að manni að við hér á hinn háa Alþ. höfum ekki annað að gera en að samþ. hin og þessi lagafrv. sem hafa mikil útgjöld í för með sér, alveg eins og við hefðum úr einhverjum ótæmandi sjóðum að ausa, á sama tíma sem hinir færustu menn þjóðarinnar eru að hinn leytinu að leggja höfuðið í bleyti og reyna að finna úrlausnir til þess að koma þjóðinni út úr þeim efnahagslegu þrengingum sem á stundum virðast vera að riða allt efnahagskerfi þjóðarinnar til falls. Ég held að það séu þá ekki nema hæfileg varnaðarorð að á það sé bent, að eins og nú er háttað högum þjóðarinnar væri ekki úr vegi a.m.k. að flýta sér hægt á þeim vettvangi að samþ. mjög víðfeðma lagabálka sem hafa í för með sér útgjöld sem geta skipt þegar hundruðum millj. kr. og áður en nokkur veit kannske milliörðum

Ég ætla ekki á neinn hátt að fara að efast um það eða gerast andófsmaður gegn því að það sé hverjum og einum hollt að bæta við þekkingu sína þó að hann hafi náð fullorðinsaldri. Hins vegar er mér það persónulega mjög til efs hversu vel það nær tilgangi sínum að fara að setja slíka fræðslu í einhvern stórkostlegan lagabálk og binda í einhverju stórkostlegu fræðslukerfi. Ég held að eins og nú er almennt komið högum þjóðarinnar og eins og undirbyggingin að almennu menntakerfi hennar er orðin traust og umfangsmikil. þá sé engin ofraun hverjum þjóðfélagseinstaklingi að afla sér nauðsynlegrar menntunar. Og ef menn af einhverjum ástæðum og einhverra hluta vegna hafa ekki séð sér fært eða hafa ekki getað ákveðið sig á sínum tíma að fara hinar hefðbundnu leiðir í skólakerfinu.

þá ætti það ekki að vera mönnum ofraun að afla sér slíkra hluta og menn gera það ef þeir hafa áhuga á því. En að lagabálkur sem þessi létti eitthvað við að menn verji tómstundum sínum til aukins náms, ég efast um að það verði í sama hlutfalli árangur sem af því næðist, miðað við þá gífurlegu fjármuni sem þarna mundu verða á ferðinni. Og að lagasetning sem þessi og framkvæmd hennar með öllum þeim kerfiskostnaði, sem henni mundi fylgja, verði til þess að auka jafnrétti í þjóðfélaginn, það er mér mjög til efs.

Ég get nú ekki sérstaklega komið auga á að það sé áberandi hér í okkar þjóðfélagi misrétti hvað þetta snertir. Ég held einmitt að það sé á fáum sviðum meira og við stöndum jafnvel mörgum þjóðum framar, við íslendingar, einmitt hvað jafnrétti er mikið hjá þjóðfélaginu um að afla sér menntunar. Það hefur verið rætt um að þessar svokölluðu öldungadeildir, sem stofnaðar hafa verið við menntaskólana, hafi gert eitthvert geysilega mikið gagn og hafi verið mikil uppörvun og annað. Það getur vel verið að ég sé svo rótgróinn og markaður af íhaldsmennsku, en ég hef ekki orðið var við það mikla gagn sem öldungastúdentar hafa gert, hvorki sér sjálfum né þjóðfélaginu- Það hafa ekki verið lagðar á borðin hér neinar skýrslur sem sýna að þetta hafi orðið sérstaklega til vaxtar og eflingar eins eða annars í þessu þjóðfélagi. Ég er hins vegar ekki að mæla því neitt á móti að fólki, sem einhverra hluta vegna hefur á unga aldri þráð að verða stúdentar og einhvern veginn orðið útundan við það, kunni að líða eitthvað betur við að hafa lagt það á sig og að ná þessum áfanga. En að þetta sé eitthvert þjóðfélagsspursmál, að húsmæður þjóti burt frá húsverkum sínum til þess að fara að ná sér í stúdentshúfu, það er atriði sem ég sé ekki að skipti miklu máli.

Hitt get ég svo tekið undir með fullum krafti, að það væri miklu réttara að gefa gaum, eins og hv. 7. landsk. þm. lagði hér áherslu á áðan, verkmenntuninni í þjóðfélaginn. Ég held að það sé einmitt réttilega fram tekið hjá honum, að það er sá þátturinn sem beinlínis hefur verið vanræktur af því opinbera, en gæti orðið til mjög mikillar eflingar bæði einstaklingunum sjálfum og atvinnuvegunum, sem eiga að koma til með að njóta góðs af aukinni verkmenntun, og þá þjóðfélaginu í heild.

Samkv. ákvæðum þessa frv., sem hér liggur fyrir, er talið nauðsynlegt að þegar um n.k. áramót taki gildi ákvæði um stuðning við námsflokka og bréfaskóla. Áður en á að fara að verja milljónatugum í sambandi við þetta, — en út af fyrir sig finnst mér að það megi styðja þessa viðleitni sem hefur verið starfrækt á vegum ýmissa bæjarfélaga á annan hátt en gert er með uppbyggingu þessa frv. — hefði ég viljað sjá skýrslur um það hvað hefur áunnist í sambandi við þetta. Mér er dálítið kunnugt um starfsemi námsflokka, og ég veit að í því bæjarfélagi, sem ég á heima i, eru oft skiptar skoðanir um hver árangur hafi orðið af starfsemi þeirra. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að námsflokkar og bréfaskólar geti gert sitt gagn. Hins vegar vil ég þó jafnframt taka fram, að mönnum, sem vilja njóta menntunar, er engin ofraun að greiða fyrir það. Það er mesti misskilningur að halda að það komi að bestum notum að rétta einstaklingum, hvort það er menntun eða eitthvað annað, rétta þeim það á diski endurgjaldslaust. Ég held að í mörgum tilfellum nái einstaklingurinn, hvort sem er á sviði menntunar eða annars, betri árangri ef hann hefur haft fyrir því og orðið að leggja af mörkum fram yfir starf sitt og annað þær fjárhagslegu kvaðir sem slíku fylgja.

Eins vil ég taka undir það, sem kom fram áðan í ræðu hæstv. menntmrh., að það er áreiðanlega einn vettvangur sem hefur verið mjög vanræktur í okkar þjóðfélagi og við gætum náð miklu betri árangri með, og það er að nota sjónvarpið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þar er tækifæri til þess að skapa menntunaraðstöðu jafnt fyrir unga sem aldna. Ég hef lítillega kynnst því og séð það, og ég held að það hafi verið talin ein með allramerkustu ráðstöfunum, sem gerðar voru t.a.m. af bresku verkamannastjórninni þegar hún opnaði svokallaða opna háskóla í gegnum breska sjónvarpið. Það er áreiðanlega leið sem væri verðugt verkefni þeirra sem vilja stuðla að aukinni menntun, fullorðinsfræðslu, að athuga þann möguleika betur sem felst í því að opna dyr sjónvarpsins og nota þær aðstæður.

Það var skýrt frá því áðan, —– ég á eftir að kynnast því ef ég næ þeim ásetningi að komast svo langt í fullorðinsfræðslunni að komast yfir að lesa alla grg. þessa frv., — að það er ákaflega mikið vitnað í reynslu Norðurlandanna á þessum sviðum. Nú skal ég ekkert efast um að Norðurlöndin séu sá vettvangur sem við í ákaflega mörgum atriðum leitum til sem fyrirmyndar um skipun okkar mála. En ég er ekkert öruggur um að þarna sé það besta að finna, við eigum endilega að láta þá vera okkar leiðarljós á sviði þess málefnis sem hér er til umr. Ég held að það væri ýmislegt fleira sem við gætum tekið eftir þeim og okkur væri nærtækara, sem gæti orðið okkur til varanlegrar uppbyggingar og halds og trausts. Og einkennilegt er það, að það er ekki sama hvað það er sem maður minnist á að við gætum sótt gott til Norðurlandanna. Það er eins og það sé algjört bannorð ef minnst er á það í sölum hins háa og virðulega Alþ. að við höguðum okkur t.a.m. í fjármálaviðskiptum og efnahagslífi svipað og hefðu. n svipaðar leikreglur um meðferð fjármagns og bankakerfis og stjórnun peningamála og gilda á Norðurlöndum. Ég skal fúslega vera til umræðu um að taka þau mál til athugunar og leita til Norðurlandanna og reyna að samræma okkar stjórn á peningamálum því sem best gerist þar. Það held ég að mundi veita okkur skjótari og betri og almennari árangur, þó að það væri á kostnað þess að láta þetta frv. stöðvast.

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með lengra máli að sinni. Aðeins vil ég leggja áherslu á að þetta mál verði athugað gaumgæfilega. Sjálfsagt hefur það, eins og hefur komið fram í ræðum þeirra hv. þm. sem talað hafa hér á undan mér, mörg ákvæði að geyma. En ég vil mæla með því að hér verði farið að með hinni fyllstu gát og við skulum gæta þess a.m.k. að við séum ekki að stofna hér til einhverrar stórkostlegrar yfirbyggingar sem geti orðið okkur allerfið, að ég tali ekki um kostnaðarsöm í framkvæmd.