25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Því miður var ég bundinn að störfum í fjvn. og gat því ekki setið síðasta fund fjh.- og viðskn. og ekki tekið endanlega afstöðu til málsins, ella hefði ég fylgt till. Ragnars Arnalds um breyt. í tölum í þessu frv. Það er viðurkennt og verður ekki á móti mælt að upphaflegur tilgangur daganna var að minnka þá byrði sem þeir urðu fyrir, er notuðu olíu til húshitunar, er hin mikla verðhækkun á olíu skall hér á. Um þetta var ekki ágreiningur hér á Alþ. Síðan hafa lögin verið framlengd. Þá var nokkur ágreiningur vegna þeirrar tilhneigingar að auka verulega hlut Orkusjóðs í þeim afgangi sem kæmi fram við uppskipti á gjaldinu til einstaklinga og rafveitna og afgangur félli síðan í Orkusjóð. Það var eðlilegt að áætla þetta nokkuð nálægt lagi, eins og menn vissu best að 1% söluskattsstig gæfi í brúttó-tekjur, áætla síðan einstaklingum ákveðna upphæð og síðan rafveitum og afgangur félli í Orkusjóð. Nú er upplýst skv. frv. að orkusjóður muni fá rúmlega 300 eða 315 millj. kr. á árstímabili, og enn er reiknað með að þetta hlutfall aukist. Fyrst er frv. var sett fram og lögin voru samþ. var reiknað með að Orkusjóður fengi nokkra tugi millj. sem afgangstölu.

Engir hér á Alþ. deila um nauðsyn á því að styrkja Orkusjóð. En við deilum um aðferðina til þess að styrkja Orkusjóð. Og ef við munum eftir því að 78 þús. manns í landinu búa við olíuhitun enn þá, þá er það um 1/3 landsmanna, og ef við ætlum að taka af landsmönnum með einu söluskattsstigi rúmlega 1200 millj. kr., þá borgar þessi 1/3 landsmanna sinn þátt í því söluskattsstigi. Ekki ímynda ég mér að við ályktum að þetta fólk hafi svo kröpp kjör að það hafi ekki eðlilega neyslu. Og hvað fær þetta fólk þá til baka? Jú, það fær sennilega við breyt. á frv. um eða yfir 800 millj. kr. en það borgar 1/3 af þeirri upphæð svo að nettó-talan er ekki ýkjastór og hvergi nærri til að jafna þann aðstöðumun sem olían er á móti heita vatninu. Það er útilokað, enda treystum við okkur ekki til að fara svo langt að það sé gert.

Mér skildist á frsm. meiri hl. að Orkusjóður mætti eiga von á um 450 millj. kr. Eins og frv. var fyrst mátti vænta þess að hann fengi yfir 500 millj. jafnvel, svo að hér er nokkur bragarbót gerð á. En ég tel að í sambandi við upphaflegan tilgang frv. eigum við ekki að auka afgangstölu í þessu efni til Orkusjóðs, heldur að hækka eins og unnt er til einstaklinga og jafnvel til rafveitna sem verða að framleiða rafmagn til hitunar með olíu. Ég trúi ekki öðru en hægt væri að bjarga vanda Orkusjóðs með sérstakri lántöku. Ef sú tala er um 150– 250 millj., jafnvel þó að hún væri nokkru hærri, þá hlyti að vera hægt að útvega hana þar sem nokkurt öryggi ætti að vera í því efni að sú upphæð skilaði orku er drægi verulega úr kostnaði, ég tala nú ekki um hvað við mundum spara mikinn gjaldeyri um leið og heita vatnið færi að renna til notkunar fyrir einstaklingana, svo að lántaka eða sérstök fjáröflun í því skyni er sannarlega réttlætanleg. Þess vegna tel ég að við séum að gera hér skakkt að sinna ekki meira þörfum þeirra einstaklinga er búa við þessa rándýru olíukyndingu sem er u.þ.b. þrefalt hærri en upphitun með heitu vatni og jafnvel þó að heita vatnið hækki eitthvað.

Til þess eru nokkur rök að hitaveiturnar verði að fá gjaldhækkun til sin vegna uppbyggingar og umsvifa. Samt sem áður er mismunurinn svo mikill á að hafa heitt vatn og olíu að ég tel ekki rök fyrir því að láta svona stóra afgangstölu renna til Orkusjóðs. Við verðum að leysa vandamál Orkusjóðs með annarri fjármagnsmyndun, það er útilokað annað. Því var varpað hér fram af frsm. meiri hl. að hugsanlegt væri sérstakt orkugjald á heita vatnið. Það er auðvitað aðferð eins og hver önnur til þess að tryggja Orkusjóði fjármagn. Hún er rökréttari, finnst mér í fljótu bragði, heldur en að láta einstaklinga, er búa við olíunotkun, borga stóra bita í Orkusjóð í gegnum söluskattinn. Hún er rökréttari.

Það er eðlilegast, virðist mér vera, að útvega sérstakt lán handa Orkusjóði svo að hann geti skilað verkefni sínu sem best og tryggt mönnum sem mest af heitu vatni. Ég get því ekki verið ánægður með þá stefnu sem mér virðist að meiri hl. sé að taka hér, að vilja ekki koma til móts við þarfir einstaklinganna, og styð því till. Ragnars Arnalds á þskj. 372, en mun ekki verða á móti frv. vegna þess að það er óhjákvæmilegt að lögin verði framlengd. En ég harma það og ítreka það að vandamál Orkusjóðs hefði átt að leysa með öðrum hætti en frv. gerir ráð fyrir. Um það hefði áreiðanlega verið samstaða og ég trúi ekki öðru en að fjármagn til slíkra hluta hefði verið fáanlegt með einu eða öðru móti.