25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í útvarpsfréttum í gærkvöld var frá því skýrt að tvær breskar freigátur hefðu ráðist að íslenskum varðskipum með nokkuð sérstökum hætti og á hættulegri hátt en dæmi eru til um áður í þeirri deilu sem nú stendur yfir við breta. Það var einnig skýrt frá því að breskt herskip hefði jafnvel farið inn fyrir 72 mílna landhelgismörkin, sem þau munu ekki hafa gert allt fram að þessu, til þess að reyna að koma þar fram árásum sínum. Hér er auðvitað um mjög alvarlega atburði að ræða sem kalla á andsvör af okkar hálfu og það fljótt. Í tilefni af þessu vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. eða þeirra ráðh., sem hér eru staddir, hvort ríkisstj. hafi ekki rætt um þessa atburði á fundi sínum og hvort hún hafi ekki tekið ákvarðanir um viðbrögð af okkar hálfu þegar jafn alvarlegir atburðir gerast eins og þessir.

Það er skoðun mín að það sé mikil nauðsyn á því að bregðast fljótt við í slíkum tilfellum og svara á þann hátt sem tekið verður eftir, ekki með þeim gömlu, formlegu mótmælum sem hafa ekkert gildi eins og komið er, heldur með heinum aðgerðum af okkar hálfu.

Ég tel að vegna þess að hér er um beina árás að ræða af herskipaflota NATO, breska hluta þess flota, þá væri sjálfsagt af okkar hálfu að kalla heim sendiherra okkar hjá NATO tafarlaust og lýsa því jafnframt yfir að við slítum öllu samstarfi við það handalag á meðan það líður herskipum frá einu af bandalagsríkjunum að halda uppi slíkum árásum eins og hér er um að ræða. Ég efast ekkert um að slík viðbrögð af okkar hálfu mundu vekja athygli og eflaust hafa talsvert mikið gildi.

Ég tel líka að það væri rétt af okkar hálfu að tilkynna að ef bresku herskipin yrðu ekki dregin út úr 200 mílna fiskveiðilandhelgi okkar tafarlaust, þá mundum við fylgja þessu eftir með því að loka fyrir alla aðstöðu NATO hér á landi, við mundum loka þeim herstöðvum sem NATO hefur hér. Það er í rökréttu framhaldi af því sem gert hefur verið, og þá yrði yfirmönnum bandalagsins ljóst hvernig við metum árás af þessu tagi.

Það er allt of mikil hætta sem því fylgir ef hæstv. ríkisstj. lætur dragast úr hömlu að bregðast á réttan hátt við slíkum atburðum sem þessum. Þá er verulega mikil hætta á því að árásir af þessu tagi haldi áfram á miðunum. Og sé það rétt, sem sagt hefur verið, að yfirmenn herskipanna gefi það opinberlega út að þeir hafi fengið frjálsar hendur um aðgerðir sínar á fiskimiðunum gagnvart íslensku landhelgisgæslunni, þá er það út af fyrir sig mjög alvarlegt, því að það að herskipin hafi fengið frjálsar hendur til aðgerða, slíkt getur ekki komið til nema yfirmenn þeirra, sem stjórna flotanum, þ.e.a.s. breska ríkisstj., hafi heimilað slíkt og í slíku felst eflaust að það eigi að ganga mun harðar fram en gert hefur verið til þessa.

Þetta kallar auðvitað á viðbrögð af okkar hálfu, — viðbrögð sem ekki mega vera nafnið tómt.

Ég beini þessum fsp. til hæstv, ríkisstj„ hvort hún hafi ekki á fundi sínum rætt um þessa alvarlegu atburði og hvort hún hafi tekið ákvarðanir um viðbrögð af okkar hálfu og hvaða viðbrögð það séu þá og hvort hún telji ekki eðlilegt að grípa m.a. til þeirra ráða sem ég hef bent hér á.

Það komu á ný fréttir nú í hádegisútvarpi um að þessum árásum bresku herskipanna, mjög dólgslegum árásum þeirra væri haldið áfram gagnvart okkar varðskipum, svo að það er sýnilegt að allt bendir til þess að bretar ætli sér hreinlega að taka gæsluskip okkar úr umferð, sökkva þeim eða gera þau óstarfhæf.

Ég legg á það áherslu að hér er í rauninni um annað mál að ræða en okkar eiginlegu fiskveiðideilu við breta. Hér er um það að ræða að eitt af NATO-ríkjunum sendir herskip á hendur okkur og virðir hér engar reglur. Það er ekki aðeins að almennar siglingareglur séu þverbrotnar, heldur það að þau landhelgismörk sem virt hafa verið til þessa, nú er farið að neita að virða þau. Hvað á þetta lengi að halda áfram án þess að við bregðumst við á eðlilegan hátt gagnvart svona herskipaíhlutun?

Ég vil nota þetta tækifæri um leið til að spyrjast fyrir um það, hvað sé rétt í frétt sem kom í einu dagblaðanna nú í morgun um að nú væri beðið eftir viðbrögðum íslensku og bresku ríkisstj. við ákveðnum till. sem utanrrh. norðmanna hafi gert til lausnar á landhelgisdeilunni. Er hér rétt frá skýrt? Hefur ríkisstj. fengið till. frá norska utanrrh. um þetta efni? Hefur ríkisstj. rætt þær till.? Eða verða þær ræddar á fundi utanrmn. og landhelgisnefndar nú strax eða mjög fljótlega? Hvað vill hæstv. ríkisstj. upplýsa hér um þennan þátt málsins?

Ég vil vænta þess að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að svara þessum fsp. mínum eftir því sem aðstæður eru til á þessum fundi.