25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál. vek þó athygli á því að ég tók ekki eftir því að hv. formaður Alþfl. minntist í ágætri ræðu sinni áðan á möguleika þá sem hér hefur verið bent á að séu þeir einu sem mundu hrífa verulega í átökunum við breta, en það er að við kölluðum sendiherra okkar heim frá aðalstöðvum NATO og lýstum yfir að áframhald á þessu hlyti að leiða til þess að við færum úr NATO og við mundum loka fyrir aðstöðu NATO hér á landi. Ég sakna þess að formaður stjórnmálaflokks láti við þessar kringumstæður í ljós ákveðna afstöðu til svo þýðingarmikils máls.

Aðalerindi mitt hingað í stólinn að þessu sinni var að inna hæstv. dómsmrh. nánar eftir því sem hann sagði í lok ræðu sinnar. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur drepið á það, en bent jafnframt á að þar væri ekki mjög skýrt að orði kveðið. Hins vegar gætu menn velt því fyrir sér, hvað þetta táknaði, og hann lét í ljós ákveðna skoðun um það. Ég tek nú undir það, en tel að einfaldast sé að hæstv, dómsmrh. taki af allan vafa.

Hann segir að fyrirmæli breskra stjórnvalda til herskipanna fyrir austan tákni það að þau muni engu þyrma og það séu blindir menn sem sjái ekki hvað skrifað sé á vegginn sem afleiðing af þessu. Þessa setningu mælti hæstv. ráðh. sem svar við þeim ábendingum hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar að ráðið væri það sem ég úðan nefndi varðandi NATO: sendiherrann heim, tilkynning um úrsögn og að loka yrði aðstöðu NATO hér á landi. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvort það sé ekki rétt skilið að með þessu eigi hann við það, það sé a.m.k. hans persónulega skoðun, — látum vera afstöðu ríkisstj. í heild, það sé a.m.k. skoðun hans að þetta eigum við að gera.

Til hæstv. forsrh. vil ég einnig beina fsp. Í leiðara Morgunblaðsins í morgun, þar sem vitnað er í ræðu sem hæstv. ráðh. flutti nú nýlega, segir svo:

„Í þriðja lagi sagði forsrh. að ekki yrði gripið til aðgerða umfram þær sem þegar hafi verið teknar ákvarðanir um, en beðið árangurs næsta fundar Hafréttarráðstefnunnar sem stendur frá 15. mars til 7. maí og málin þá tekin til yfirvegunar.“

Táknar þetta það að hæstv. forsrh. telji að þær aðgerðir, sem íslensk stjórnvöld hafa þegar gripið til til andsvara við aðferðum breta, séu fullnægjandi?