29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Tómas Árnason [frh.] :

Hæstv. forseti. Þegar fundi var seinast slitið var ég, eins og hæstv. forseti gat um, í miðri ræðu að ræða um Framkvæmdastofnun ríkisins eða frv. sem liggur hér fyrir til umr. um tiltekna breytingu á Framkvæmdastofnuninni.

Með hliðsjón af því hvernig þetta frv. hefur verið lagt fyrir og hvernig hefur verið talað fyrir því hef ég talið nauðsynlegt að upplýsa hv. þm. um hvernig starfað hefur verið í Framkvæmdastofnuninni undir stjórn framkvæmdaráðsins. Það er fjarri mér að halda því fram að stjórnkerfi Framkvæmdastofnunarinnar sé alfullkomið og sjálfsagt að það sé gagnrýnt eins og ástæða þykir til. Ég hafði áður fjallað um hagrannsóknadeildina, meðan hún var hluti Framkvæmdastofnunarinnar, og gert grein fyrir því hver afskipti framkvæmdaráðsins voru á sínum tíma af henni, og þá hafði ég gert grein fyrir mannaráðningum, hvernig þær hafa farið fram á vegum Framkvæmdastofnunarinnar, og síðan hvernig unnið væri að fjáröflunar- o;g útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs. Það er vert að undirstrika það sérstaklega að sú útlánaáætlun og sú lánsfjáröflunaráætlun tekur ekki gildi fyrr en hæstv. ríkisstj. hefur samþ. hana.

Þegar ég lauk máli mínu á seinasta fundi hafði ég gert grein fyrir því að tiltekin bankastjóri hefði skýrt frá því að hann teldi að aðhaldsleysi hefði verið mikið í Framkvæmdastofnuninni varðandi lánamál. Við athugun, sem ég hef látið fara fram, hefur komið í ljós að á sama tíma sem nettóaukning útlána þess banka, sem þessi bankastjóri stjórnar, Landsbankans, var 4440 millj. var nettóaukning þeirra sjóða, sem Framkvæmdasjóður lánar til, 427 millj. Þetta er samanburður útlánaaukningar á árunum 1973 og l974, en ekki liggur fyrir enn útkoman á árinu 1975, þannig að það er ekki hægt að bera það saman við 1974 enn sem komið er.

Í gær birtist svo þessi sami bankastjóri í sjónvarpinn og hafði uppi að tilefnislausu að mínum dómi dylgjur um Framkvæmdastofnunina. Ég verð að segja að það er slæmt til þess að vita að annars ágætur maður skuli koma fram í sjónvarpinu í gervi Gróu á Leiti með dylgjur án þess að gera minnstu tilraun til þess að rökstyðja þær, með allt á hælunum í þokkabót, eins og ég hef gert grein fyrir í sambandi við þann samanburð sem gerður hefur verið á útlánum Landsbankans annars vegar og Framkvæmdastofnunarinnar hins vegar.

Það er ástæða til þess í sambandi við þær miklu umr., sem fram fara og fram hafa farið um Framkvæmdastofnunina og aðgerðir hennar, að gera stuttlega grein fyrir því hvernig útlánum Framkvæmdasjóðs Íslands er háttað, án þess að ég fari að nefna neinar tölur í því sambandi við þetta tækifæri.

Framkvæmdasjóður lánar langsamlega mest af sínu ráðstöfunarfé til uppbyggingar í atvinnulífi landsmanna: til sjávarútvegsins, til landbúnaðarins og til iðnaðarins — þó miklu minna. Og það er ástæða til þess að spyrja hvort það felist í því spilling að stuðla að uppbyggingu undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar, stuðla að því að byggja upp nýtískulegan fiskiskipastól í landinu, stuðla að því að hagnýta eða gera sjávarútveginum í landinu fært að hagnýta nýjustu tækni, nýjustu vísindi, nýjustu skipagerð til fiskveiða, en þetta kostar mikið fjármagn og hefur verið gert í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar, fyrst í 50 mílur og síðan áfram í 200 sjómílur, enn fremur hvort það felist í því spilling að lána verulegt fjármagn til uppbyggingar í vinnslustöðvum sjávarútvegsins, í hraðfrystihúsunum, fiskiðjuverunum, til annarrar fiskverkunar af ýmsu tagi.

Ég er þeirrar skoðunar — og það eru margir fleiri — að verulega mikil verðmæti hafi einmitt farið í súginn hjá okkur íslendingum á undanförnum árum og áratugum vegna þess að við höfum ekki verið nægilega vel í stakk búnir til þess að vinna verðmæta vöru úr því ágæta hráefni sem fiskiskipafloti okkar færði að landi. Sama má segja um landbúnaðinn og aðrar atvinnugreinar. Og það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, þegar verið er að ræða þessi málefni, hvað verður af þessu fjármagni, hvert Það fer, til hvers það er notað. Ég er ekki og vil ekki halda því fram að það geti ekki orðið einstök mistök í sambandi við mikla uppbyggingu eins og í sjávarútvegi. Auðvitað verður alltaf eitthvað um það. En í aðalatriðum álít ég að það sé rétt stefna að leggja áherslu á uppbyggingu fiskiskipaflotans, leggja áherslu á uppbyggingu fiskvinnslunnar og einnig að leggja áherslu á uppbyggingu annarra undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar.

Þegar ég lauk máli mínu á hinum fyrra fundi sem umræður fóru fram um þetta mál var ég kominn að því að ræða sérstaklega um Byggðasjóðinn. Það er vandasamt að standa fyrir lánveitingum úr Byggðasjóði þar sem lánastarfsemin byggist fyrst og fremst á því ákvæði laga að lána skuli til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Byggðasjóður er ekki almennur lánasjóður, heldur sjóður sem lánar til viðbótar við lán hinna almennu lánasjóða.

Hv. 6. landsk. þm., Guðmundur H. Garðarsson, ræddi almennt um lánakerfið og sérstaklega um Byggðasjóð og kvartaði yfir því að sjóðurinn hefur yfirleitt ekki lánað til Reykjavíkursvæðisins. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að staldra við og reyna að gera sér grein fyrir því hvers vegna Byggðasjóðurinn var í öndverðu stofnaður, hvaða ástæður lágu til grundvallar stofnunar sjóðsins. Ef þessu ætti að svara í einni setningu mundi svarið áreiðanlega verða það að aðalástæðan fyrir stofnun Byggðasjóðs væri sú gífurlega byggðarröskun sem átt hefur sér stað í landinu á undanförnum áratugum, en hún er í stórum dráttum á þá leið að fólk hefur flust búferlum í stórum stíl svo til alls staðar úr strjálbýlinu til Stór-Reykjavíkursvæðisins. Á seinustu tveimur heilu áratugunum, frá 1950–1970, varð 78% fólksfjölgun á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu eða það fjölgaði þar um 54.6 þús. manns af 66 þús. af heildarfjölgun.

Auðvitað hefur slík þróun margháttuð áhrif í för með sér. Margar byggðir, kaupstaðir, kauptún og sveitir, eiga í vök að verjast í ýmsum efnum. Atvinnutækifærum unga fólksins fer fækkandi og það finnur ekki nálægt því allt störf við sitt hæfi í sinni heimabyggð. Atvinnulífið hefur orðið einhæft og á í mörgum tilfellum mjög í vök að verjast. Sumar atvinnugreinar, eins og t. d. innflutningsverslun, svo að dæmi sé tekið, hafa að nær öllu leyti lagst niður úti á landsbyggðinni. Þetta hefur leitt til þess að mestöll vörukaup ganga gegnum innflutningsverslun í Reykjavík sem hefur blómgast og blásið út á undanförnum árum. Landsmenn utan Reykjavíkursvæðisins verða því að greiða aukakostnað vegna flutninga á vörum frá Reykjavík og út á land og eru vörur því dýrari úti á landsbyggðinni en þær eru hér í Reykjavík.

Byggðaröskunin hefur mikil áhrif á ýmiss konar verðmæti. Fasteignir lækka mjög í verði á þeim svæðum sem verða fyrir barðinu á þessari þróun, á sama tíma sem eignir vaxa í verði á svæðum þar sem fólksfjölgun verður. Það mætti nefna miklu fleira þegar þessi mál eru rædd, en við þetta tækifæri þá læt ég þetta nægja og ætla ekki að gera neina úttekt eða samanburð á lífi og starfi fólks hér á Reykjavíkursvæðinu og úti á landsbyggðinni. En það eitt vil ég segja, að mjög hefur hallað á strjálbýlisfólkið í flestum greinum. Hins vegar er svo ýmislegt sem Reykjavíkurbúar fara á mis við samanborið við umhverfi þeirra sem búa út á landsbyggðinni, en það er allt annað mál.

Ég er ekki svo fróður að ég geti gert samanburð á því hversu mikið af fjármagni landsmanna, sem notað er til útlána, fer til Reykjavíkursvæðisins annars vegar og hins vegar til landsbyggðarinnar. Ég held að það liggi ekki fyrir úttekt á þessu atriði. Þess vegna held ég að ræður manna um þessi efni þurfi að byggja upp með tilliti til þess að slík athugun fari fram áður en menn slá því föstu að það halli t. d. á Reykjavík í þessum efnum. Það eru fjölmargar lánastofnanir, eins og kunnugt er, sem eru hér í Reykjavík. Allir bankar þjóðarinnar hafa sínar aðalbækistöðvar hér í borginni. Stórir og öflugir sjóðir eru starfandi, eins og t. d. Lífeyrissjóðir, og það hefur engin úttekt farið fram til samanburðar í þessum efnum. Ég skal ekkert fullyrða í þessu sambandi, en ekki treysti ég mér til að halda því fram að hlutfallslega meira af lánsfé, sem er til ráðstöfunar hjá þjóðinni, fari til útlána úti á landsbyggðinni heldur en til Reykjavíkursvæðisins, enda er sannast sagna erfitt að gera á þessu samanburð sem er réttlátur, því að það kemur þarna margt til greina.

Tilgangurinn með stofnun Byggðasjóðsins er auðvitað að spyrna gegn byggðaröskun í landinu, stuðla að enduruppbyggingu og eðlilegri þróun atvinnulífsins á landsbyggðinni. Hér er í raun og veru ekki um að ræða samkeppni við atvinnulíf Stór-Reykjavíkur, heldur hreina varnarstyrjöld gegn byggðaröskuninni, sem er eitt alvarlegasta þjóðfélagsvandamál sem þjóðin á við að stríða. Verið er að reyna að nálgast vandamálið á jákvæðan hátt með því m. a. að bæta við fjármögnun hinna almennu lánasjóða með viðbótarlánum úr Byggðasjóði til þess að efla og breikka atvinnulífið úti á landi og styrkja byggðina til sjálfsbjargar. Síðustu tvö árin, 1973 og 1974, hefur náðst mjög veigamikill árangur í baráttunni við byggðaröskunina, hvort sem metið er á mælikvarða mannfjöldaþróunar eða meðaltekna.

Árið 1974 mun vera fyrsta árið sem fólksfjölgun hefur orðið meiri út á landsbyggðinni en í höfuðstaðnum og á Reykjavíkursvæðinu. Aðeins á Vestfjörðum hefur orðið stöðnun. Ég er í engum vafa um að starfssemi Framkvæmdastofnunarinnar, ekki síst Byggðasjóðs, á ríkan þátt í þeirri breytingu til batnaðar sem orðið hefur víða um landið og hefur stórum aukið á bjartsýni fólks um framtíð byggðar sinnar. Kem ég ef til vill nokkru nánar að því síðar.

Við íslendingar erum ekki eina þjóðin sem hefur barist við byggðaröskun. Flestar þjóðir hafa á undanförnum árum og áratugum átt við þessi sömu vandamál að stríða og margar þeirra hafa gert svipaðar ráðstafanir og við höfum gert. Sumar hafa stofnað sína byggðasjóði, eins og t. d. norðmenn sem hafa stofnað mjög öflugan byggðasjóð í sínu landi sem heitir, að því er mig minnir, Distrikternes utbygningsfond og er sterkur sjóður. Þeir haga sínum vinnubrögðum dálítið á annan hátt en við að því leyti til að þeir gera meira að því að styrkja hreinlega atvinnufyrirtæki úti á landsbyggðinni, með beinum framlögum, heldur en við gerum, t. d. með því að leggja fram styrkt til byggingar á verksmiðjum eða annarrar uppbyggingar sem á sér stað úti á landsbyggðinni.

Varðandi það umræðuefni sem hv. 6. þm. landsk., Guðmundur H. Garðarsson, ræddi um hér við umræðuna á seinasta fundi, þá kom hann inn á það að Byggðasjóður lánaði ekki til Reykjavíkur eða Reykjavíkursvæðisins. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær, sem ég hef verið að greina, þ. e. viðleitni þjóðarinnar — ég vil segja þjóðarinnar og þ. á m. reykvíkinga og reyknesinga til þess að sporna gegn þeirri alvarlegu byggðaröskun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum. Varðandi aftur á móti Framkvæmdasjóð Íslands, þá hefur málum verið hagað á allt annan veg þannig að hann lánar til fjárfestingarlánasjóða sem síðan endurlána til allra byggðarlaga í landinu og einnig Reykjavíkur. Það er einvörðungu Byggðasjóðurinn sem lánar til uppbyggingar þeirra landssvæða sem hafa orðið aftur úr og þar sem byggðin hefur strjálast og raskast til verulegra muna.

Við þessa umræðu vil ég upplýsa hvernig unnið hefur verið að undirbúningi lánveitinga úr Byggðasjóði í Framkvæmdastofnuninni. Ég held að það sé gagnlegt að það liggi fyrir.

Byggðasjóðurinn starfar þannig að lánsumsóknir berast til hans á þar til gerðum eyðublöðum, og hann veitir ekki lán nema liggi fyrir umsókn. Þessar umsóknir ganga til þeirra starfsmanna lánadeildar Framkvæmdastofnunarinnar sem hafa með að gera þessi mál, og það vill nú svo til að sá starfsmaður sem þarna kemur mest við sögu, var einnig starfsmaður Atvinnujöfnunarsjóðsins gamla sem var til húsa hjá Landsbankanum á sínum tíma. Lánadeildin aflar svo allra nauðsynlegra gagna og upplýsinga varðandi hverja umsókn og aðgætir m. a., hvernig lánað hefur verið áður til hliðstæðrar starfsemi, til þess að það sé samræmi í útlánum. Framkvæmdaráðið heldur svo fundi og tekur ákvörðun um tillögur til stjórnar um lánveitingar. En þessir fundir eru ekki þannig að framkvæmdaráðsmenn, hvort sem þeir eru þrír, eins og þeir voru á tímabili, eða tveir, eins og þeir eru nú, eða einn, sem ég var stuttan tíma, eru alls ekki þannig að framkvæmdaráðið loki sig inni og ákveði tillögur, heldur er þetta gert af mörgum fleiri mönnum. Starfsmenn stofnunarinnar eru viðstaddir þessa fundi. Formaður stjórnarinnar og varaformaður, ef hann óskar eftir því eru einnig viðstaddir þessa fundi til þess að fylgjast með því og taka þátt í að gera tillögur í þessum efnum. Það er því alls ekki þannig að framkvæmdaráðið loki sig inni og geri tillögur — órökstuddar tillögur — til stjórnarinnar.

Að lokum eru svo tillögurnar lagðar fyrir stjórnina, allar umsóknir, gerður listi yfir allar umsóknirnar, þannig að það liggi fyrir í hvaða röð þær berast og hvers eðlis þær eru, og síðan tillögur til lánveitinga. Aðalreglan er sú að það er farið eftir aldri í þessum efnum þó að það sé að vísu oft frá því vikið ef nauðsyn ber til. En ég vildi með þessu aðeins upplýsa hv. þdm. um hvernig þetta fer fram. Ég er ekki að segja með þessu að framkvæmdaráðið beri ekki ábyrgð á tillögunum. Auðvitað ber framkvæmdaráðið ábyrgð á tillögugerðinni en hefur hagað vinnubrögðum frá byrjun með þeim hætti sem ég hef verið að lýsa hér, og það er ekki auðvelt að koma við stórkostlegri pólitískri misnotkun þegar svona er unnið að málum.

Síðan er hver tillaga að sjálfsögðu rædd í 7 manna stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og þar eru teknar lokaákvarðanir um hvort og hvernig lána skuli. Það er vert að geta þess einnig að allar lánveitingar, hver og ein og einasta, eru birtar í skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar sem kemur út árlega og er m. a. send hv. alþm. og mjög mörgum aðilum í landinu, þannig að þar geta menn séð svart á hvítu, ekki aðeins hve mikið hefur verið lánað til hverrar greinar, heldur hvað hverjum og einum einstökum hefur verið lánað mikið. Þetta er auðvitað gert til þess m.a. að skapa visst aðhald, ég skal játa það. Ég átti þátt í því að þetta var gert svona, að gera skrá yfir hverja einstaka lánveitingu, og ég játa það kinnroðalaust að tilgangurinn var m. a. að skapa visst aðhald í þessum efnum. Það er visst aðhald fólgið í því fyrir þá, sem lána fjármagn, að þurfa að birta hverja einustu lánveitingu. Þetta gera bankar ekki, og ég er ekki að leggja til að þeir eigi að gera það, en það gæti verið ástæða til þess að fjárfestingarsjóðir, aðrir en Byggðasjóður, gerðu það hreinlega, því að það er ósköp eðlilegt að miklar umræður fari fram um, hvernig fjármagni þjóðarinnar er varið, og sjálfsagt að ræða þau mál og gagnrýna þegar ástæða er til.

Ég hef nú rakið þrjá mjög veigamikla þætti af störfum Framkvæmdastofnunarinnar og þ. á m. hvernig unnið er að útlánastarfseminni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mjög langt mál hér um hvernig unnið er að áætlanagerð, þar koma ákaflega margir aðilar við sögu. En þó langar mig til að minnast á tvær gerðir áætlana sem eru mismunandi, annars vegar atvinnulífsáætlun, hraðfrystihúsaáætlunina svonefndu, og hins vegar landshlutaáætlanir, og með örfáum orðum víkja að því hvernig unnið er að þeim málum. Það er sammerkt með þessu starfi öllu að allar áætlanir verða að samþykkjast af stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og síðan af hæstv. ríkisstj.

Það má með nokkrum rétti segja að á undanförnum árum hafi farið fram aðgerðir í sjávarútvegsmálum sem munu marka tímamót á þessum vettvangi, og þessar aðgerðir eða áform hafa verið aðallega í þrem áföngum eða þrem þrepum. Fyrsti áfanginn var útfærsla fiskveiðilögsögunnar, fyrst í 50 sjómílur og síðan í 200 sjómílur, sem er forsenda fyrir uppbyggingu á sviði sjávarútvegsins. Annar áfanginn var svo uppbygging fiskiskipaflotans sem ég gerði að umræðuefni hér áður. Íslendingar hafa nú eignast mjög myndarlegan togaraflota, öflugra skipa með öllum nýjustu tækjum og tilfæringum ásamt fullkomnustu veiðarfærum. Þegar allir þeir togarar, sem samið hefur verið um byggingu og kaup á, bæði innanlands og utan, eru komnir til nota, þá mun togaraflotinn verða 80 togarar, eins og málin standa nú, og skiptast þannig niður að gerðum til að það eru 8 gamlir síðutogarar sem eru gerðir út, það eru 17 stórir skuttogarar og það eru 55 skuttogarar af hinni smærri gerð eða svona 330–500 smálesta skip. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ef til vill ekki gert nægilega mikið að því að byggja smærri skuttogara, og þá á ég við minni gerð skipa en þá minnstu sem nú eru gerðir út, og eru um 330 smálestir. Það eru t. d. gerðir út 3 litlir skuttogarar, sem svo eru kallaðir, af þessari stærð frá Austfjörðum með mjög góðum árangri, og afli þeirra hefur síst verið minni en hinna togaranna sem eru 100–150 og upp undir 200 smálestum stærri. Ég hef áhuga á því og hef haft lengi að það yrði byggður togari, minni togari, 250 tonna skuttogari með öflugri vél, 1000–1100 hestafla vél, sem er náttúrlega mörg hundruð hestöflum minni en í hinum stærri skipum, og með öllum nýjustu tækjum og auðvitað veiðarfærum í samræmi við stærð slíks skips og hreinlega gerð tilraun með útgerð á slíku skipi.

Auk uppbyggingar togaraflotans hefur verið byggður upp á undanförnum árum í íslenskum skipa- og bátasmiðastöðvum mjög myndarlegur bátafloti af ýmsum stærðum og gerðum. Ég held að eins og málum er komið í þessum efnum og eftir þá miklu uppbyggingu, sem átt hefur sér stað í þessum greinum á undanförnum árum, þurfi menn nú að staldra við og athuga hvort okkar fiskiskipastóll er ekki þegar orðinn nægilega stór og öflugur til þess að geta hagnýtt þau fiskimið sem við sækjum á kringum okkar land.

Framkvæmdastofnunin hefur komið mjög mikið við sögu í sambandi við uppbyggingu fiskiskipastólsins, og eins og kunnugt er hefur sérstaklega skuttogurunum og svo auðvitað bátunum verið dreift víðs vegar um landið og þeir hafa í raun og veru valdið atvinnubyltingu víðs vegar á landsbyggðinni, hreinni atvinnubyltingu.

Í framhaldi af þessu var svo hraðfrystihúsaáætlunin gerð, sem er fólgin í því að gera áætlun um uppbyggingu, nýbyggingar í mörgum tilfellum, endurbætur á frystihúsum, stækkun, vélvæðingu og vinnutilhögun og hagræðingu á um 96 frystihúsum í landinu. Þessi hraðfrystihúsaáætlun var unnin af áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar og voru höfð samráð við mjög marga aðila um gerð hennar. Fyrst vildi ég nefna yfirleitt flestar stofnanir og samtök sem um sjávarútveginn fjalla og þá hraðfrystiiðnaðinn sérstaklega. Meðal þeirra sem þarna komu við sögu, voru Fiskveiðasjóður Íslands, viðskiptabankarnir, umsagna- og tillögunefnd um hollustuhætti, Fiskifélag Íslands, sölusamtök fiskiðnaðarins ásamt þeim sem fengist hafa við hönnun fiskiðjuveranna, þar sem byggð hafa verið ný og hin eldri endurbætt, Landssamband ísl. útvegsmanna og ýmsir fleiri aðilar. En ég vil ekki gleyma þýðingarmesta aðilanum, þ. e. a. s. frystihúsunum sjálfum og eigendum þeirra. Í raun og veru er frystihúsaáætlunin fyrst og fremst stuðningur við frystihúsin eða fiskiðjuverin eða eigendur þeirra sem í ákaflega mörgum tilfellum, sérstaklega úti á landsbyggðinni, eru raunverulega forsenda fyrir eðlilegu atvinnuöryggi á viðkomandi stöðum. Heildarstærð hraðfrystihúsaáætlunarinnar nemur um 5 000 millj. kr. á verðlagi hvers árs fyrir sig og á verðlagi fyrri hluta árs 1974 rúmlega 6 milljörðum. Ég hef ekki tiltækt hvað þessar tölur þýða í verðgildi krónunnar eins og það er nú í dag, en hér er um mjög umfangsmikið verkefni að ræða.

Frystihúsaáætlunin hefur verið fjármögnuð á þann hátt að Framkvæmdasjóður Íslands lánar sem svarar 60% af nýbyggingum í frystihúsunum og Byggðasjóður og Atvinnuleysistryggingasjóður hafa síðan lánað allt að 25% til viðbótar á ýmsum stöðum kringum landið. En Byggðasjóður hefur ekki lánað til þessarar uppbyggingar í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu — hann hefur ekki gert það. Að sjálfsögðu verður afkastageta fiskiðjuveranna mjög mikil þegar þau eru komin í það horf sem ráð er fyrir gert í áætluninni, og heildargeymslurými fyrir frystan fisk verður um 67 þús. tonn.

Ég hefði nú viljað varpa fram þeirri spurningu í sambandi við þessar umr. og það frv. sem hér liggur fyrir: Er spilling fólgin í því að byggja upp 96 fiskiðjuver í landinu? Hvernig er sú spilling? Er illa varið því fé, sem beint er inn á þessar brautir. Og margar fleiri spurningar vakna í sambandi við þessi málefni.

Auk uppbyggingar hraðfrystihúsanna hefur verið veruleg uppbygging annarrar fiskvinnslu, svo sem saltfisksverkunar, rækjuvinnslu, skelfisks o. fl., og hefur Framkvæmdastofnunin viða komið við sögu í sambandi við þá uppbyggingu.

Á árinu 1975 er áætlað að útflutningsverðmæti frystra sjávarafurða, ef miðað er við núgildandi verðlag, muni nema á milli 17 og 18 milljörðum kr.

Um landshlutaáætlanir, hvernig að þeim er unnið, mætti auðvitað margt segja. Ein slík áætlun er að koma út, er nú hjá ríkisstj. til afgreiðslu. Það er svokölluð byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu. Þar er gerð grein fyrir því í formála hvernig unnið er að gerð slíkrar áætlunar, en í formálanum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tildrög áætlunargerðarinnar voru þau að hinn 25. apríl 1972 samþ. Alþ. þál. þess efnis að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdastofnun ríkisins að gera sérstaka landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Áður, þ. e. árið 1969, hafði verið samin áætlun um mannfjöldaþróun og atvinnumál á Norðurlandi og þá jafnframt fjallað nokkuð um einstök héruð eða byggðir þess landshluta. Með umræddri þáltill. var svo að því stefnt að taka til sérstakrar meðferðar landshluta Norðurlands sem hvað verst er á vegi staddur með tillíti til byggðaþróunar.

Með bréfi forsrn. hinn 19. júlí 1972 var þáltill. vísað til Framkvæmdastofnunarinnar til meðferðar, og tók stjórn stofnunarinnar ákvörðun um áætlunargerðina hinn 12. sept. 1972. Var samið við Verkfræðiþjónustu Guðmundar Óskarssonar í apríl 1973 um samningu áætlunarinnar. Hefur starfið að áætluninni staðið síðan með hléum, en mest að unnið árið 1974 og að heita má í samfelldri lotu síðari hluta ársins. Hefur áætlunarverkið verið unnið undir umsjón áætlanadeildar Framkvæmdastofnunarinnar og að talsverðu leyti upp úr gögnum sem deildin hefur lagt til, auk vélritunar hinnar endanlegu skýrslu, kortateikningar og þess háttar. Hefur verið haldinn fjöldi umræðufunda með áætlanadeild og framkvæmdaráði stofnunarinnar og í samræmi við niðurstöðu þeirra gerðar þær lagfæringar sem við hefur þótt þurfa.

Af hálfu heimaaðila hafa verið til samvinnu og samráðs einkum Fjórðungssamband norðlendinga, sveitarstjórnarmenn á svæðinu, búnaðarsamband sýslunnar svo og einstakir embættismenn, atvinnurekendur og hvers konar forustumenn samtaka og stofnana.“

Er í inngangi skýrslunnar gerð nánari grein fyrir öllum verkgangi áætlunarstarfsins fram til þessa, að gefin var út skýrsla og tillögudrög í mars s. l. til umr. meðal lögmætra samráðs-og umsagnaraðila. Af hálfu Fjórðungssambands Norðlendinga var boðað til almenns fundar á Þórshöfn hinn 1. júní s. l. með sveitarstjórnarmönnum og öðrum umsagnaraðilum á áætlunarsviðinu. Voru síðan haldnir sérstakir fundir með aðilum einstakra byggðarlaga, fyrst 2. júní og síðan 2.–4. júlí. Loks var áætlunin tekin til umr. á þingi Fjórðungssambandsins á Raufarhöfn 1.–3. sept. s. l. Hnigu ályktanir fundarmanna svo til samhljóða í þá átt að taka þyrfti landbúnað svæðisins til áætlunarmeðferðar og ætla þéttbýlisstöðunum jafnari hlut en í áætlunardrögunum. Að öðru leyti kom fram eindreginn stuðningur við byggðaþróunaráætlunina, sbr. ályktun Fjórðungsþings norðlendinga sem er svo hljóðandi:

„Fjórðungsþing norðlendinga, haldið á Raufarhöfn 1.–3. sept. 1975, mælir með því við stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að leitað verði staðfestingar ríkisstj. á endurskoðaðri byggðaþróunaráætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu með þeim breytingum sem heimamenn hafa gert á henni. Einnig ályktar þingið að hraða beri gerð landbúnaðaráætlunar fyrir sýsluna.“

Síðan segir síðar: „Byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu er ætlað að vera stefnumótandi um framkvæmdir og þróun þeirra byggðarlaga er hún nær til.“

Hér hefur verið gerð grein fyrir því hvernig raunverulega hefur verið unnið að þessari áætlunargerð á vegum Framkvæmdastofnunarinnar.

Það hefur komið fram í þessum umr., að Byggðasjóður hafi raunverulega lítið verið efldur í tíð núv. ríkisstj. Hefur m. a. hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, vikið að þessu í ræðu. En hvað er það rétta í málinu? Lítum á árið 1975 og berum saman framlög til Byggðasjóðs samkv. lögum um Framkvæmdastofnunina og síðan samkv. ákvæðum stjórnarsamnings núv. stjórnarflokka. Í fyrra tilfellinu hefðu framlögin orðið þessi: Framlag úr ríkissjóði 100 millj. kr. og skattgjald af álbræðslu í Straumsvík 70.9% eða 95 millj. Samtals 196 millj. kr. Samkv. stjórnarsamningi núv. ríkisstjórnarflokka, sem var fólginn í því að 2% af útgjöldum á fjárlagafrv. skyldi renna til Byggðasjóðs, eru framlög ríkisins til sjóðsins á þessu ári samkv. fjárlagafrv. 860 millj. kr. En lítum svo á árið 1976 og gerum sambærilegan samanburð. Nú er fjárlagafrv. komið fram og þess vegna auðvelt að sjá hver framlög muni verða á árinu 1976 og hver þau hefðu orðið ef fyrri tilhögun hefði gilt áfram. Í fyrra tilfellinu hefði framlagið úr ríkissjóði verið áfram 100 millj., eins og ákveðið var í lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins á sínum tíma, og álgjaldið, 70.9% af skattgjaldi álbræðslunnar, sem áætlað er að verði á árinn 1976 141 millj. kr., — þá hefði framlagið til Byggðasjóðs orðið réttar 100 millj. eða samtals 200 millj. 1976. Samkv. ákvæðum stjórnarsamningsins, sem koma fram í fjárlagafrv., er framlagið hins vegar ákveðið 1123 millj. kr. Það liggur því fyrir að árið 1975 og 1976 hefðu framlög til. Byggðasjóðs numið samkv. hinni eldri skipan 395 millj. kr., en samkv. hinni nýju skipan í samræmi við stjórnarsamninginn 1993 millj. Þessar tölur eru algjörlega sambærilegar, hvort tveggja í krónum og sýna fullkomlega samanburð á því hvernig framlögum var háttað til Byggðasjóðsins samkv. lögunum um Framkvæmdastofnunina og hvernig þeim er nú háttað: Annars vegar 400 millj. á 2 árum, hins vegar 2 þús. millj. á sama tímabili.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði að Byggðasjóður hefði ekkert lánað í sumar. Það er alveg rétt. Hann hefur ekkert lánað síðan í júnímánuði. En það er ekki nýtt, vegna þess að Byggðasjóður hefur yfirleitt hagað störfum sínum á þann hátt að hann ákveður lánveitingar, sem eru til fjárfestingar og uppbyggingar, yfirleitt fyrri hluta árs til þess að þeir aðilar, sem hyggja á uppbyggingu og fjárfestingu, geti notað sumarið til þeirrar uppbyggingar. En ef bera á saman stöðu sjóðsins eru það auðvitað framlögin sem fyrst og fremst gefa til kynna hvað þarna hefur gerst.

Það er engin ástæða til að dylja það að innheimtur til sjóðsins hafa verið lakari á þessu ári en við gerðum ráð fyrir. Þær hafa verið seinni og tregari en við gerðum ráð fyrir, vegna þess að atvinnulífið hefur átt í vök að verjast og það hefur sín áhrif á greiðslustöðu sjóðsins. Einnig er rétt að geta þess að það hefur verið gengið hraðar eftir því á þessu ári en áður að fá greidd lánsloforð sem hafa verið samþ. af sjóðnum, og það stafar áreiðanlega af því að það hefur verið meira aðhald í bankakerfinu að lána út á lánsloforð heldur en áður hefur verið.

Frá því að Byggðasjóður var stofnaður hefur hann tekið að láni til starfsemi sinnar fjármagn sem hér greinir: Árið 1972 745 millj. kr. árið 1973 325 millj. og árið 1974 129 millj., eða samtals 599 millj. Byggðasjóður hefur hins vegar samþ. lánsloforð svo sem hér segir: Árið 1972 480.4 millj., árið 1973 357.3 millj. og árið 1974 661.7 millj., eða samtals 1499.4 millj. En þess verður að gæta í þessu sambandi að hér er um samþ. lánveitingar að ræða og við áramótin 1974 og 1975 var halli hjá Byggðasjóði sem nam um 220 millj. kr., þ. e. a. s. samþ. lánsloforð sem ekki höfðu verið greidd út. Og það skýrir nokkuð hinar miklu lánveitingar eða samþykktir sem gerðar voru á árinu 1974. En þó er rétt að geta þess að við, sem störfuðum við sjóðinn, stóðum í þeirri trú alveg fram í árslok 1974 að skattgjaldið af álbræðslunni yrði verulega meira en það að lokum reyndist, og það átti sinn þátt í því að það var samþ. meira af lánsloforðum á árinu 1974 en ella hefði verið gert.

Ég hef talið nauðsynlegt að rekja það hér í þessum umr., að vísu að takmörkuðu leyti, hvernig staðið hefur verið að málum í Framkvæmdastofnuninni frá því að hún var sett á stofn. Framkvæmdaráðið hefur lagt áherslu á að reyna að starfa hlutlaust að málum og hefur hagað starfsaðferðum í samræmi við það. En eigi að síður getur vel komið til greina að breyta til um tilhögun mála. Um það atriði mun ég ræða síðar, þegar hæstv. ríkisstj. leggur málið fyrir Alþ. Ég held að á þeim tíma, sem deilurnar um Framkvæmdastofnunina stóðu sem hæst hér á hv. Alþ., hafi verið gerð óþörf grýla úr þessari stofnun. Það hefur komið á daginn að þeir, sem óttuðust hana í byrjun, hafa verið óþarflega hræddir við tilkomu hennar. Í rann og veru var Framkvæmdastofnunin að verulegu leyti framhald á starfi sem þegar var hafið og hafði viðgengist um alllanga hríð. Það, sem kom einkum til viðbótar, var fyrst og fremst stofnun Byggðasjóðsins upp úr Atvinnujöfnunarsjóðnum eða að Byggðasjóðurinn var stórkostlega efldur frá því sem áður hafði verið. Það var aðalviðbótin. Auk þess var áætlanastarfið eflt, en þó byggt á sama grunni, vil ég segja og áður var gert. Ég held, að þegar frv. ríkisstj. um breyt. á lögum um Framkvæmdastofnunina kemur til umr. hér á hv. Alþ. væri ástæða til að íhuga gaumgæfilega hvort ekki væri nauðsynlegt að koma upp skipulögðu starfi, miklu skipulegar starfi en verið hefur fram til þessa, til að gera sérstaka fjárfestingaráætlun fyrir hvert ár um sig, — áætlun sem miðaðist fyrst og fremst við framkvæmdagetu þjóðarinnar og menn færðust ekki meira í fang varðandi uppbyggingu og framkvæmdir en þjóðin getur staðið undir og efnahagslíf hennar. Jafnframt þurfa svo til að koma skipulagðari vinnubrögð en verið hafa um fjármögnun slíkrar fjárfestingaráætlunar.

Sú stefna, sem mörkuð hefur verið af hálfu Framkvæmdastofnunarinnar í áætlunarmálum, er svonefnd frjáls áætlanagerð, sem leggur áherslu á rammaáætlanir sem marka meginlínur um uppbyggingu og þróun byggðar í landinu. Hvernig svo sem stjórnkerfi Framkvæmdastofnunarinnar er fyrir komið og hvernig sem framkvæmdaráðið er skipað komast menn aldrei fram hjá því, að verkefni Framkvæmdastofnunarinnar eru bæði fjölhæf og þýðingarmikil. Það ríður á miklu að stofnunin sem slík sé í lífrænum tengslum við atvinnulífið í landinu, ekki aðeins hvað snertir bókhald, reikningsskil og sérfræðilega þjónustu við áætlanagerð, heldur varðandi framfarir, þróun og uppbyggingu í nánum tengslum við atvinnulífið sjálft. Þess vegna hef ég sem framkvæmdaráðsmaður lagt mikla áherslu á að ferðast um landið og hitta að máli sem flesta sem um þessi málefni fjalla.

Eitt merkasta verkefni Framkvæmdastofnunarinnar tel ég vera að takast á við afleiðingarnar af hinni stórkostlegu byggðaröskun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum og stuðlað að því að treysta byggðina í landinu á hann hátt sem hæfir framtíðinni. Ég trúi því, að því aðeins geti þjóðin hagnýtt auðlindir landsins að byggð eflist og blómgist, ekki aðeins á Stór-Reykjavíkursvæðinu, heldur einnig sem víðast um landið.