25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Nú hefur það gerst sem raunar margir og jafnvel allir reiknuðu með, að bresk stjórnvöld, og ég endurtek það: bresk stjórnvöld virðast einskis ætla að svífast til þess að koma íslendingum á kné í þessari deilu, jafnvel ekki heldur þess að tortíma mannslífum. Frammi fyrir þessu stöndum við íslendingar nú, að það er yfirlýst stefna breskra stjórnvalda, að því er best verður séð, að þyrma engu í þeim átökum og því stríði sem staðið hefur yfir. Það er frammi fyrir þessu sem við stöndum. Mér eru það mikil vonbrigði að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þrátt fyrir þessa alvarlegu atburði og alvarlegu yfirlýsingar af hálfu breskra stjórnvalda, sem verður að taka svo, hún hefur ekki enn rætt þá alvarlegu atburði sem gerðust á miðunum fyrir austan í gær. Ég trúi því ekki, en ég vænti þess að hæstv. forsrh. svari því hér á eftir sem hv. 5. þm. Vestf. var að spyrja um áðan, — ég trúi því ekki að það sé skoðun hæstv. forsrh. né annarra hæstv. ráðh. í ríkisstj. að það eigi ekkert að gera til andsvara gegn slíku fyrr en að lokinni Hafréttarráðstefnunni í maí. Ég tel, að það væri með ólíkindum ef slíkt hugarfar ríkti innan hæstv. ríkisstj.

Ég er sömu skoðunar og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að ég óttast að hinar harðsvíruðu árásir breskra herskipa og dráttarbáta í skjóli skipana breskra stjórnvalda séu í og með svo harkalegar að bretar telji enn að hægt sé að beygja íslendinga í þessu máli, telji það enn vegna þess hversu linlega hefur verið á málum haldið af hálfu hæstv. ríkisstj.

Nú er komið svo að jafnvel gömlu 12 mílna mörkin eru ekki lengur virt. Ég held því að það verði ekki hjá því komist að nú verði brugðist við af festu, eins og hæstv. forsrh. hefur sjálfur sagt, harkalega, og að nú sé ástæða til þess að láta á það reyna hvort kannske sá lykill einn, sem gildi í þessu máli, sé samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins og þá kannske fyrst og fremst, eins og ég hef áður sagt, samkomulagið við Bandaríkin um varnir landsins í gegnum NATO. Það er a.m.k. kominn tími til að loka fyrir upplýsingamiðlun herstöðvarinnar á Miðnesheiði til breta sem og annarra aðila innan Atlantshafsbandalagsins meðan þeir beita slíkum vinnubrögum eins og þeir hafa gert. Og það er a.m.k. kominn tími til þess að gera bandarískum stjórnvöldum ljóst að meðan þau hafa með samkomulagi við íslendinga tekið að sér varnir landsins, þá verði það ekki liðið að slíkar árásir af hálfu eins aðildarríkis NATO séu látnar óátaldar, eins og hér hefur átt sér stað.

Ég hef sagt áður að ég teldi að þetta hefði átt að vera búið að gera. En síðustu atburðir hafa enn knúið á frekar um að hér sé tekið til höndum og árásaraðilanum sýnt fram á að það sé um tómt mál að tala að lemja íslendinga til hlýðni, þrátt fyrir þær harkalegu aðfarir og hótanir sem bresk stjórnvöld beita. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta.

Í framhaldi af því, sem hér hefur verið minnst á norska utanrrh., vil ég aðeins spyrja hæstv. forsrh. — eða utanrrh. kannske frekar, veit þó ekki: Hefur norski utanrrh. haft þau afskipti sem hann virðist hafa haft af þessari deilu, hefur hann haft þau með samþykki íslensku ríkisstj.? Eða ber að skilja þetta svo að það geti hver og einn einstaklingur, hvar í heiminum sem er, tekið upp málamiðlunaraðgerðir milli ríkja hvar sem er án þess að fyrir liggi nokkurt samþykki þeirra deiluaðila sem um er að ræða?

Sem sagt, eru þau afskipti, sem norski utanrrh. hefur haft af þessu máli, gerð með samþykki hæstv. ríkisstj. Íslands?