25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Vegna tilmæla hæstv. forseta um að við takmörkum ræðutíma, Því er ekki annað en sjálfsagt að fara eftir því. Ég get lofað hæstv. forseta því að ég skal nú við þessar umr. utan dagskrár tala miklu styttri tíma heldur en sú frú sem við fengum senda af Vestfjörðum hér um árið og fékk heilan eftirmiðdag til þess að niðurlægja Alþ. og alþm. á allan hátt.

Mér fannst sérstaklega athyglisvert í máli hæstv. forsrh. þegar hann sagði að hæstv. ríkisstj. hefði ekki fjallað um árás breta á íslenska sjómenn. Hvenær og við hvaða tækifæri er ástæða fyrir svokallaða hæstv. ríkisstj. að koma saman og ræða málin ef ekki í slíkum tilfellum, þegar ráðist er á þjóðina og þegar gerðar eru morðárásir á íslenska sjómenn? Við höfum oft heyrt það frá hæstv. forsrh. að okkur beri að sýna stillingu, við megum ekki láta taugakerfið fara í hnút, við verðum að reyna að sýna skilning og við verðum að reyna samningaleiðina, — betri eru samningar en ófriður. — Það hefði ekki orðið mikið í heimsstyrjöldinni síðari af átökum bandaríkjamanna og japana ef eftir árásina á Pearl Harbour, sem olli bandaríkjamönnum að vísu miklu tjóni, en þó ekki eins miklu og bresku herskipin hafa valdið okkur núna ef tekið er tillit til stærðar þjóðanna, ef hægt hefði verið að setjast að samningaborði við japani, hvort það væri nú ekki hægt að settla þetta í rólegheitum með því að sýna skilning, en jafnframt að líta árásina alvarlegum augum, bjóða þeim upp á 30% af stálframleiðslunni og 20% af annarri framleiðslu Bandaríkjanna, eins og til stendur nú að gera samninga við þessa bandítta úti í Englandi.

Hæstv. forsrh. talaði um að við ættum að fjalla um þetta mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins á diplómatískan hátt. Sannleikurinn er sá að árásir NATO-herskipanna á íslensk varðskip eru gerðar með fullri vitund og vilja NATO. Þaðan hefur ekkert jákvætt komið í okkar garð. Þessum herrum virðist þykja sjálfsagt að hernaðarstórveldi, sem var fyrir nokkrum áratugum, sími okkur yfirgang með berskinum, —- okkur sem erum algerlega vopnlaus þjóð.

Ég varð dálítið hissa þegar hæstv. forsrh. fór að minnast á hugmyndir Frydenlunds. Hver hefur beðið þennan Frydenlund að skipta sér af íslenskum innanríkismálum? Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tíma komið a.m.k. fyrir hv. Alþ. að honum yrði falin nein milliganga í þessu máli. Ég get ekki séð að afskipti þessara NATO-vina okkar hafi orðið okkur að neinu leyti til góðs.

Frydenlund býðst til að annast milligöngu milli okkar og árásarmannanna og bendir á að við þurfum að gera við þá samninga. Ég get ekki séð að nokkur grundvöllur sé fyrir hinum minnstu samningum við bresku stjórnina eftir framkomu hennar að undanförnu. Við höfum ekki fengið neinn stuðning frá neinu NATO-ríki og alls ekki heldur frá Noregi. Norðmenn hefðu getað boðið okkur raunhæfan stuðning með því að lána okkur eitthvað af flota sínum til þess að mæta bretum hér á miðunum. Og það, sem kom út úr till. Luns eftir ferðalag hans til Evrópu og Ameríku, var, eins og við vissum, þess eðlis að hann kom með miklu verra tilboð en þá lá fyrir eftir viðræðurnar í London, þannig að hann hefur hreinlega haft hæstv. ríkisstj. að fíflum. Við slíkan mann eigum við alls ekki að tala meira, hvorki í þessu máli né öðrum.

Hér er sem sagt um mjög alvarlega atburði að ræða. Það er verið að reyna að sigla niður skip okkar með þeim afleiðingum sem því fylgja, að við slíka atburði hljóta íslenskir sjómenn að láta lífið ef þessu heldur áfram. Bretar hafa boðið okkur að semja, þeir séu alltaf tilbúnir hvar sem er, hvenær sem er og hvernig sem er að ræða við okkur um samninga. Þeir samningar, sem þeir bjóða, eru þannig að þeir segja: Þið skuluð semja um það sem við heimtum. Ef þið gangið ekki að okkar kröfum, þá beitum við gegn ykkur herskipum.

Hvers konar fólk er það sem býður svona samninga? Það eru byssubófar á götum úti og það eru fasistastjórnir, enda er breska ríkisstj. ekkert annað en hrein fasistastjórn, svo sem kemur fram í slíkum tilboðum og kemur einnig fram í þeirri heiftarlegu ritskoðun sem ríkir þar í landinu, þar sem ritskoðað er miskunnarlaust allt það sem er á móti þeirra hagsmunum. Sýnir það okkur og sannar einu sinni enn að það er ekkert að marka breskar fréttastofur í þeim málum sem varða hagsmuni Bretlands, hefur aldrei verið og mun ekki verða. Við vitum að einn ráðh. í bresku ríkisstj., einn fasistakratinn til, Hattersley, reynir að sverta málstað Íslendinga á allan hátt, m.a. með því að skrökva því — eða ljúga því, eins og það heitir á góðri íslensku, að við hefðum valdið stórslysum á þýskum sjómönnum með togaraklippingum. Þetta voru tilbúin ósannindi og alveg í stíl við hugmyndir breskra og jafnvel annarra krata í þessum efnum. Callaghan, svokallaður utanrrh. breta, hefur hagað sér á svipaðan hátt. Hann er svo mikill ruddi í öllu því sem hann hefur sagt í þessum efnum, að Von Ribbentrop var miklu kurteisari og diplómatískari utanrrh. heldur en Callaghan getur nokkurn tíma orðið.

Við alþb.-menn höfum sagt það að fiskveiðideilan við breta tengist varnarliðinu ekki á nokkurn hátt. Við kærum okkur ekkert um að biðja þá um aðstoð í þessum efnum. Hitt er svo annað mál, að samkv. varnarsamningi, sem við höfum staðið við og þeir eiga að standa víð, eru þeir skyldugir til þess að verja Ísland gegn utanaðkomandi árásum, og þar er ekki tekið fram að árásarmennirnir megi vera breskir. Bretar hafa a.m.k. tvívegis farið inn fyrir okkar lögsögu, okkar fjögurra mílna línu. Þeir gerðu það í Seyðisfjarðarmálinu. Þá aðhafðist varnarliðið ekkert þó að því bæri tvímælalaust skylda til þess. Það er hluti af Íslandi. Þeim bar skylda til þess að sökkva Leoydsman samkv. samningnum. Þyrla frá herskipinu Yarmouth flýgur inn fyrir þessa sömu linn samkv. útvarpsfréttum. Þá átti varnarliðið líka að grípa í taumana og ráðast alveg umsvifalaust á bæði þyrluna og Yarmouth. Þetta eru þeir samningar sem þeir hafa gert við okkur, og það erum ekki við einir sem eigum að standa við gerða samninga milli ríkja, sem ég tel sjálfsagt að gera, það verða þeir líka að gera.

Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh., — hann er víst ekki við hér, þá þýðir víst ekki að spyrja neinn, — en ég vil þá aðeins segja það, að ég sé ekki nokkur skynsamleg rök fyrir því að við getum verið í bandalagi með einu óvinunum ok kar sem eru raunverulegir óvinir og hafa beitt okkur hernaðarofbeldi. Mér þætti forvitnilegt að heyra það frá einhverjum hv. þm. hvaða rök geti verið fyrir því að við séum í bandalagi með þeim sem ráðast á okkur með hernaðarofbeldi hvað eftir annað. Þetta er ekki í fyrsta skipti. Ef þetta væri í fyrsta skipti, þá væri kannske hægt að fyrirgefa þessum vesalingum vegna þess að þeir viti ekki hvað þeir séu að gera. En þeir vita vel hvað þeir eru að gera. Og á sama hátt og eftir því sem ég sagði áðan, þá sé ég ekki heldur nein rök fyrir því að við höfum hér varnarlið sem grípur ekki inn í þó það litla sem þetta mál snertir sem þeir hafa heitið að gera samkv. samningi.

Hæstv. dómsmrh. sagði hér fyrir stuttu að það væri búið að skipa n. til þess að kanna hvernig væri best að efla landhelgisgæsluna. Það var líka skipuð n. til þess að kanna þessa hluti fyrir nokkrum mánuðum, hvernig við gætum eflt landhelgisgæsluna, og eftir mikil heilabrot allra þessara sérfræðinga komust þeir að því að það, sem kæmi okkur að mestu gagni væntanlega væri að kaupa eins og eina farþegaflugvél á móti herskipunum. Sannleikurinn er sá að okkur vantar miklu betri búnað. Okkur vantar hraðskreitt skip, sem gengur miklu meira en freigáturnar, til þess að geta klippt aftan úr breska fiskveiðiflotanum á svipaðan hátt eins og gert er hér á stærri rakarastofum, þ.e.a.s. það væri hægt að klára ganginn fyrir hádegi. En ef bretar hafa nú frjálsar hendur, þannig að þeir geti siglt skip okkar niður meðan við keppumst við að sýna stillingu í málinu og ætlum að skoða málin og megum ekki styggja vini okkar og bandamenn sem skjóta á okkur úr byssum, þá þurfum við annað. Við þurfum að fá herskip. Við þurfum að fá a.m.k. 5 stóra tundurspilla, við höfum nógan mannskap á þá. Ég get ekki séð nokkur vandkvæði á því að manna þessi skip. Hvað haldið þið að bretar gerðu, ef þeir sæju fjóra 5–6–7 þúsund tonna tundurspilla hér á miðunum? Haldið þið að þeir færu að skjóta á okkur? Nei, bretar hafa aldrei þorað að senda flota sinn móti neinum öðrum en þeim sem hafa miklu minni eða helst engan útbúnað. Ef við kynnum okkur sögu breska flotans nú á þessari öld, þá getum við svo sem skoðað Gallipoli-ævintýrið, Narvíkurævintýrið, Dunkerque-ævintýrið og hvert svo sem er. Íslenska ríkisstj. ætti sérstaklega að geta skilið það hver viðbrögð breta verða þegar þeir sjá þessi herskip, ósköp einfaldlega vegna þess að bretar eru gungur og hugsunarhátt þeirra manna ætti hún að skilja mjög vel.

Það hneyksli hefur viðgengist hér marga mánuði að bretar hafa notað þotur til njósnastarfa. Við eigum engan mótleik gegn því nema við höfum þotu líka. Það dugar ekki að senda Fokker F-27 farþegaflugvél til þess að fylgjast með þotunni. Hún sendir allar sínar upplýsingar þrátt fyrir það. Við þurfum ekki annað en 1–2–3 þotur, sem fljúga álíka hratt, til þess að ýta þessari flugvél burt. Þær eru til hér á landinu, og ef þær fást ekki lánaðar, þá er sjálfsagt hægt að útvega þær annars staðar frá og þarf ekki að borga þær út í hönd.

Það er staðreynd, að við getum ósköp lítið gert með þessum hæggengu skipum okkar sem ekki eru einu sinni útbúin í upphafi til þess að geta snúist á miðunum eins og þau þyrftu. Sérfræðingar ríkisstj. og Landhelgisgæslunnar í sambandi við útbúnað skipa hafa ekki skilið það m.a. að hliðarskrúfur, bógskrúfur, hafa ósköp lítið að segja á skipum á fullri ferð. Það eina sem dugar, og það vitum við sjómenn, er að hafa stór stýrisblöð aftan við hverja skrúfu eða þá hjálparskrúfu á stýrinu sjálfu. Allar bógskrúfur og annað slíkt eru einungis til þess að snúa skipi á hægri ferð eða þegar það er stansað. Þetta hefðu þessir menn átt að vita. En sjóliðsforingjar menntaðir í Danmörku fyrir lifandi löngu hafa lært herfræði danska flotans frá 19. öld og haft það fyrir aðallærdóm að pússa fallbyssur, þeir skilja þetta ekki. Það skilja þeir sem hafa þurft að standa í því sjálfir að snúa skipum á þröngu svæði.

Ég get ekki séð annað en við verðum að leita eftir tundurspillum frá þjóðum sem hafa þó það glöggt auga og þann skilning að þeim finnist ekki sanngjarnt að við séum að mæta bretum með ekkert í höndunum á meðan bretar eru með fimm herskip á miðunum. Og við eigum ekki að ljá þeim aðstöðu á Íslandi ef þau vilja ekki láta okkur hafa herskip, þ.e.a.s. ef við ætlum að vera í einhverju hernaðarbandalagi áfram. En alla vega ættum við að sýna bretum hnefann í þessu. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir yrðu fljótir að bregða sér út fyrir ef þeir sæju einhverja mótstöðu hér. Við eigum að sjálfsögðu að ganga úr NATO. Það er svo ósköp eðlilegt og sjálfsagt að það kemur ekki til mála að þurfa að rökstyðja það nánar. Það eru NATO-herskip, sem hafa verið að skjóta á okkur hér eða keyra á okkur, og með það höfum við ekkert að gera. Við eigum a.m.k. að loka þessari herstöð þangað til við fáum þá hernaðaraðstoð sem okkur dugar. Og síðast en ekki síst vil ég benda hæstv. dómsmrh. á það, að við getum fært landhelgi okkar út í 12 mílur, sem ég tel að sé mikilvægt meðan við eigum í átökum við breta.