25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa furðu minni á því hvers konar samkoma Alþingi íslendinga er að verða. Á meðan sjómenn okkar á varðskipunum eiga í lífshættulegu stríði við erlend innrásaröfl, þá eru þeim sendar þær „trakteringar“ héðan frá Alþ. að ræða málin í jafnmiklu alvöruleysi og gert var hér áðan og hálfur þingheimur situr hérna hlæjandi að. Hér er ekki um neitt gamanmál að ræða, ekki mál til þess að hlæja að, ekki mál til þess að reyta úr sér brandara um rakarastofur og Ribbentrop. Svona framferði er bæði hv. þm., sem hér talaði, og þeim þm., sem bregðast við eins og sumir þm. brugðust við áðan, til háborinnar skammar. Og ég vil lýsa miklum áhyggjum mínum yfir því bæði sem ungur þm. og almennur borgari hvers konar samkoma hér er að verða, þegar ekki er hægt einu sinni að ræða svona alvarleg mál eins og siðaðir menn.

Það, sem gerst hefur nú upp á síðkastið á miðunum við Ísland, eru kaflaskipti, tímamót í landhelgisdeilu okkar íslendinga. Ég held að við séum ekki viðbúnir því sem gerst hefur, einfaldlega vegna þess að við höfum vonast til þess allt frá upphafi að til þessa ástands þyrfti ekki að koma og við höfum ekki einu sinni þorað að leiða hugann að því hvað upp kæmi þegar varðskipsmenn okkar, íslenskir löggæslumenn að skyldustörfum, standa frammi fyrir því að lífi þeirra er ógnað. Ég held að það sé réttur tími fyrir okkur nú, bæði ríkisstj. og stjórnarandstöðu, að athuga í sameiningu hvaða vopn séu nú eftir í vopnabúri okkar, hvaða aðgerðir það séu sem við getum gripið til. Ég held að við ættum að láta allar væringar okkar á milli niður falla rétt á meðan og reyna að huga að þessu saman, annaðhvort á vettvangi utanrmn. eða landhelgisnefndar, reyna að ná samstöðu um hvað gert er, reyna að gera okkur grein fyrir því hvað við getum gert, reyna að gera okkur grein fyrir því hver séu líkleg áhrif þess sem við getum gripið til, hver sé gagnsemi þess, hvort þær aðgerðir geti íeitt til góðs eða leiði okkur út á einhverja blindgötu.

Það hefur margoft verið tekið fram, m.a. af hæstv. utanrrh., að meðal þeirra úrræða, sem við getum vissulega gripið til, sé úrsögn úr NATO og lokun varnarstöðvarinnar. Hingað til hefur því verið haldið fram, m, a. af hv. 2. þm. Austurl. á meðan harm gegndi ráðherraembætti í síðustu ríkisstj., að landhelgismálið og varnarmálin væru tvö óskyld mál. En það getur svo farið að þau verði skyld, og það getur vel svo farið að við teljum rétt að tengja þau að einhverju leyti saman. Hins vegar verðum við að gera okkur ljóst í því sambandi að við eigum hvorki í baráttu við NATO né Bandaríkin í landhelgismálinu. Þvert á móti. Við eigum í baráttu við breta og við höfum verið að krefjast þess af bæði NATO og Bandaríkjunum að þau sýni okkur stuðning í þeirri baráttu.

Er úrsögn úr NATO og lokun herstöðvarinnar líkleg til þess að hjálpa okkur í þeirri baráttu? Þeirri spurningu verðum við auðvitað að reyna að fá svarað. Er líklegt að slíkt hafi áhrif á þá sem við eigum í styrjöld við, þ.e.a.s. breta sjálfa? Við höfum þegar slitið stjórnmálasambandi við þá. Sumir héldu að sú aðgerð mundi leiða til þess að þeir breyttu aðferðum sínum og hugarfari. Það hefur ekki orðið. Fyrst slit stjórnmálasambands við breta hafa ekki leitt til þess að þeir hafi breytt sínum hugsunarhætti, er þá líklegt að slit á sambandi við NATO mundi hafa þau áhrif á þá? Og er líklegt að slík slit mundu verða til þess að hvetja þjóðirnar í NATO og bandaríkjamenn til frekari aðstoðar og hjálpar við okkur heldur en við höfum getað fengið með öðrum ráðum? Og við verðum líka að gera okkur grein fyrir því hvað er næsta skrefið sem við getum stigið ef við grípum til úrsagnar úr NATO og lokunar varnarstöðvarinnar og hvorug þessara aðgerða ber árangur. Hvað getum við þá gert? Hvaða skref getum við þá stigið þar næst á eftir? Þetta held ég að menn verði að hugleiða þegar þeir veita fyrir sér tengslum þessara tveggja mála. Auðvitað eru skoðanir skiptar um þetta. En ég legg enn áherslu á það, að ég held að aðstæður séu þannig að rétt sé að bæði stjórn og stjórnarandstaða leiti sameiginlega að leiðum sem færar eru og reyni að koma sér saman um úrræði sem grípa á til.

Svo vil ég enda þetta mál mitt með þeirri ósk, sem ég lét uppi í upphafi míns máls, að ég vona að varðskipsmönnum okkar og íslenskum sjómönnum og íslensku þjóðinni verði forðað frá því að þurfa að hlusta á ræðu eins og hjá hv. ræðumanni sem talaði hér áðan, þar sem menn eru að slá um sig með misheppnuðum bröndurum út af landhelgismálinu, og jafnframt að þm. gæti þó þess sóma síns að hlæja ekki að slíku eins og götustrákar.