25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var farið fram á það við þm. að þeir eyddu ekki of miklum tíma Alþ. á þessum fundi til umr. um það mál sem hér liggur fyrir. Ég get mjög vel orðið við þessum tilmælum vegna þess að ég ætlaði mér aldrei annað en segja hér aðeins örfá orð. En ég verð að segja að mér finnast þetta næsta furðuleg tilmæli hjá forseta þegar Alþ. er að ræða eitthvert mesta hagsmunamál sem nú liggur fyrir íslensku þjóðinni, þ.e. hvernig við eigum að komast fram úr deilum við breta og hvernig við eigum að svara bretum í ásókn þeirra á íslensku þjóðina. Ég held að það væri alveg eðlilegt að Alþ.. eyddi fullum tíma og kannske dag eftir dag til þess að ræða þessi mál í stað þess að fá tilmæli frá hæstv. forseta um að stytta mál sitt þegar þetta er til umr.

Það hefur komið enn á ný fram hjá fulltrúum Alþb. að við ættum að kalla sendiherra okkar hjá Atlantshafsbandalaginu heim og segja okkur úr NATO og annað slíkt. Ég verð að segja að ég tel yfir þessu ákaflega litla reisn. Þegar á okkur er sótt af bretum, þá eigum við að láta þá hrekja, okkur frá þessum stað. Við eigum að láta hrekja okkur til að kalla sendiherrann heim og láta þá hrekja okkur til að segja okkur úr varnarbandalaginu. Ég held að það væri miklu meiri reisn hjá þessum mönnum yfir því að setja fram þá kröfu að bretar yrðu reknir úr Atlantshafsbandalaginu, en við ekki hraktir þaðan. Það hefur sýnt sig, aðgerðir breta hafa sýnt að það er tæplega hægt að telja þá hæfa í bandalögum meðal siðaðra þjóða, eins og þeir hafa hagað sér í baráttunni við íslendinga, þannig að það væri fullkomin ástæða til þess og hægt að rökstyðja að það væri eðlileg krafa íslendinga að þeir yrðu reknir úr bandalaginu, en við ekki hraktir þaðan (Gripið fram í: Mundi það ekki veikja NATO?)

Hér hefur komið fram hjá einstaka ræðumanni og einnig hv. 5. þm. Suðurl. að við ættum að kaupa herskip og fara í stríð. Ég held að það geti enginn þm. tekið slíkt alvarlega. Ég held að við verðum að meta aðstöðu okkar.

Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að það yrði í engu slakað til í baráttunni við breta. Ég tel þetta mjög góða yfirlýsingu. En eins og ég sagði, ég held að við eigum að meta okkar aðstöðu og þá reyna að gera okkur ljóst hvernig við getum best staðið að því að ná sem mestum árangri í því stríði sem við eigum nú í við breska flotann. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að bretar hafa verulega yfirburði í sínum skipastól hér á Íslandsmiðum. Þeir eru hér með stór og gangmikil herskip. Þó að við reiknum ekki með því að þeir muni nota þá aðstöðu sem þeir hafa til að beita skotvopnum, þá eru þeirra skip miklu stærri og gangmeiri. Við höfum þó eitt í okkar aðstöðu fram yfir breta, en það er sú aðferð, sem landhelgisgæslan hefur beitt að undanförnu með mjög góðum árangri, að koma í veg fyrir og tefja veiðar breta með því að klippa veiðarfæri aftan úr þeirra skipum. Það hefur sýnt sig að varðskipin, ekki gangmeiri en þau eru og í baráttu við það ofurefli sem þau eiga við að etja, hafa náð þarna verulegum árangri, eftirtektarverðum árangri og ég vil segja undraverðum árangri í starfi sínu.

Spurningin er: Er hægt að ná meiri árangri með öðrum hætti en við höfum nú aðstöðu til? Það hefur verið mjög um það talað, að með því að fá hraðskreiðari skip — skip sem ganga meira en bresku freigáturnar, þau þyrftu alls ekki að vera vopnuð, en þau þyrftu að vera mjög lipur í allri meðferð, — þá er talið að mætti ná meiri árangri að klippa aftan úr breskum togurum ef slík skip væru fengin.

Hæstv. dómsmrh. hefur lýst því yfir að það hafi verið skipuð n. til þess að kanna hvaða möguleikar séu á því að efla landhelgisgæsluna. Ég held að þetta sé það sem hlýtur að verða kannske fyrst og fremst kannað, hvort ekki sé þess að vænta að enn betri árangri verði náð í sambandi við baráttu okkar við breta með því að fá nýja gerð af skipum sem gætu náð meiri árangri en okkar íslensku varðskip hafa tök á í dag. Það er alveg rétt sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan, að þó að við fjölgum skipum af þeirri gerð sem við höfum yfir að ráða hér innanlands, þá eigum við von á því að bretar muni svara því með því að senda hingað fleiri freigátur. Þeir eiga án efa nóg af slíkum skipum sem þeir gætu sent hingað á Íslandsmið, þannig að þess er ekki að vænta að við næðum meiri árangri með því.

Ég hef þá trú að ef við slökum ekki til í neinu, skoðum frekar þann möguleika sem ég hef rætt hér, getum við skapað það ástand meðal breskra togarasjómanna að þeir muni neita því hreinlega að fara hingað á Íslandsmið til veiða. Þeir eru hér á Íslandsmiðum vegna þess að þeir hafa lifað í þeirri von og þeirri trú að það mundu nást samningar við íslendinga um tiltekið aflamagn þeim til handa sem þeir vildu við una. Ég hef ekki trú á því eftir það breytta viðhorf, sem nú hefur skapast, að neinir samningar séu fram undan við breta. Við verðum að búa okkur undir það að eiga í baráttu við þá, harðnandi baráttu, og við verðum að búa okkur undir það að beita öllum þeim tiltæku vopnum sem við höfum til þess að gera þeim veiðarnar sem allra örðugastar. Ef breskir togarasjómenn sjá fram á að þeir geti ekki stundað veiðar á Íslandsmiðum nema með árangri alveg í lágmarki, þá hygg ég að það verði erfitt þegar til kemur að manna skip á veiðar hér við land.

Ég held að þetta sé það svar, sem næst liggur, að kanna hvort ekki sé eðlilegt og sjálfsagt og líklegt til árangurs að herða sóknina að þessu leyti með því að fá skip af annarri gerð heldur en við höfum nú yfir að ráða til þess að torvelda veiðarnar. Og ég endurtek að það er mín sannfæring að með því móti getum við jafnvel unnið baráttuna við breta, við gætum skapað það hugarástand hjá breskum sjómönnum að þeir hreinlega neiti að fara til veiða á Íslandsmið. Ég held að við hljótum að stefna að þessu, og ég vildi mjög alvarlega beina til hæstv. dómsmrh. við einmitt þessi hlið málsins verði mjög nákvæmlega skoðuð af honum og hans rn. og þeirri n. sem hann hefur skipað til þess að kanna möguleika á eflingu landhelgisgæslunnar.