25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Okkur er öllum heitt í hamsi vegna þeirra fólskulegu árása sem átt hafa sér stað bæði í gær og í dag. Tilfinningar okkar fá útrás, okkar allra, hvar í flokki sem við stöndum. Hins vegar er spurning hvort það sé ekki einmitt tilgangur breta að reyna á taugar okkar með slíkum aðgerðum? Þess vegna held ég að við eigum að halda höfði þrátt fyrir að slíkir atburðir gerist og láta tilfinningar ekki hlaupa með okkur í gönur, eins og því miður hefur orðið vart við þessa umr.

Við ræðum nú nokkuð um það til hvaða aðgerða við sjálfir eigum að grípa vegna aðgerða breta. Í því sambandi minni ég á, eins og aðrir ræðumenn hafa gert hér, að við slítum stjórnmálasambandi við breta og töldum okkur trú um að það gæti verið sterkt vopn og gæti boríð þann árangur að bretar hugsuðu sitt ráð. En afleiðingarnar hafa verið þveröfugar, eins og hér hefur verið vakin athygli á. Þeir hafa sótt enn frekar inn á friðuð svæði, þeir hafa brotið allar siglingareglur, viðurkenndar siglingareglur, og þeir hafa gert augljósar og umbúðalausar tilraunir til þess að stíma á skip okkar og þeim hefur tekist það.

Athygli okkar margra beinist að því hvort við getum sett fram einhverjar hótanir um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Vitaskuld hafa allir hugleitt þann möguleika og reynt að gera sér grein fyrir því hvort það bæri þann árangur að bretar létu af aðgerðum sínum. Auðvitað er það illur kostur að sitja í slíku bandalagi með þjóð sem hagar sér með þeim hætti sem raun ber vitni. En með hliðsjón af framhaldinu vegna stjórnmálasambandsslitanna og með hliðsjón af því, sem við getum þó gert enn á vettvangi NATO tel ég ekki skynsamlegt að setja fram slíka hótun. Ég tel þvert á móti að við eigum núna að láta mjög á það reyna hvaða gagn við höfum af þátttöku okkar í bandalaginu. Við eigum að nota hvert tækifæri til að mótmæla framferði breta og gera bandalagsþjóðunum grein fyrir því hvers konar framferði þetta er og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir áframhaldandi samstarf.

Við getum auðvitað sagt sem svo, að rétt sé að endurskoða þátttöku okkar í bandalaginu. En ég vildi, ef út í slíkt væri farið, endurskoða afstöðu okkar og aðild með þeim hætti að samningarnir og þátttaka okkar gerði ráð fyrir því að við gætum haft gagn af því að vera í bandalaginu ef til slíkra atburða kemur eins og hér hafa átt sér stað. Aðild okkar í bandalaginu er með þeim hætti að þar er skuldbinding af hálfu aðildarríkja að bregðast við þegar ráðist er á eina þjóðina. En það er ekki gert ráð fyrir því að ein bandalagsþjóðin ráðist á aðra. Við eigum núna að mínu viti að taka upp viðræður um það og krefjast þess að þátttaka okkar í bandalaginu sé bundin því skilyrði að bandalagið geti veitt okkur einhverja aðstoð þegar vopnlaus þjóð eins og við verður fyrir slíkum árásum. Það bíður svo síns tíma, til næstu kosninga, hvort þjóðin er þeirrar skoðunar að við höfum gagn af því að vera í bandalaginu. Með hliðsjón af því, hvernig þróun mála verður á næstu vikum og mánuðum, mun auðvitað þjóðin sem slík kveða upp sinn dóm um það hvort hún hefur áhuga á að vera í bandalaginu áfram eða ekki.

Atlantshafsbandalagið getur ekki bannað bretum að grípa til hernaðaraðgerða, frekar en bandalagið getur bannað okkur að beita okkar varðskipum undir þessum kringumstæðum og öðrum. Við erum ekki í stríði við Atlantshafsbandalagið, eins og mér hefur komið fram. Við erum í stríði við eina af þeim þjóðum sem þar eiga sæti, og við eigum að bregðast við samkv. því.

Erindi mitt hingað upp í ræðustólinn var að lýsa þessari skoðun minni svo og að lýsa því yfir að það er mín skoðun að eftir þessa atburði komi ekki til greina fyrir okkur íslendinga að setjast að samningaborði við breta, taka upp viðræður. Við munum að sjálfsögðu hlusta á það ef einhverjir aðilar hafa milligöngu um að reyna að ná einhverju samkomulagi. Við munum hlusta á það ef bretar t.d. samþykkja að veiða aflamagn sem er innan við það sem við getum hugsað okkur. Við getum hlustað á það, við getum kannske eftir atvikum fallist á að heimila slíkt, algerlega eftir því hvernig við metum það sjálfir. En við eigum ekki eftir þessa atburði að setjast að samningaborði við breta. Það kemur ekki til greina. Okkar málstaður mun sigra að lokum og hann felst í æðruleysi og réttlæti.