25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru allir sammála um að landhelgismálið sé stærsta mál íslensku þjóðarinnar. Hins vegar verð ég að segja það, að þegar sú ákvörðun var tekin að færa fiskveiðilandhelgina út í 200 mílur, þá var undanfari þess nokkuð misjafnt viðhorf ákveðinna stjórnmálamanna. Sumir vildu bíða, bíða eftir ákvörðun, lokaákvörðun Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og töldu að hér væri um of fljótfærnislega ákvörðun að ræða sem mætti biða, þrátt fyrir það að okkar sérfræðingar á seiði fiskveiða, fiskifræðingar, hefðu alvarlega varað íslensk stjórnvöld við því á árinu 1972 að ásókn í þorskstofninn og fleiri nytjafiska væri allt of mikil og þyrfti sannarlega að draga úr sókninni. Stjórnvöld létu þessar aðvaranir sér í léttu rúmi liggja, og í stað þess að draga þá þegar úr sókn í fullnýtta og ofveidda fiskstofna, þá hófst eitt gegndarlausasta kapphlaup um byggingu fiskiskipa til þess að auka ásóknina í þessa full- og ofveiddu fiskstofna. Þetta er mál sem allir hv. þdm. þekkja og þarf ekki að fara frekar út í. Þetta liggur fyrir. Og þetta er nú eitt af okkar mestu vandamálum sem við eigum nú við að stríða.

En í stað þess að standa saman í framkvæmd landhelgismálsins, standa að þeirri mikilvægu ákvörðun sem tekin var með útfærslu í 200 mílur, vernda fiskistofnana og reyna að ná heildarstjórnun á veiðunum umhverfis Ísland, þá taka menn sig hér saman, sem eru í stjórnarandstöðu, og það meira að segja flokkur sem alltaf hefur verið ábyrgur í þeim efnum, og segja alveg skilyrðislaust: Enga samninga við útlendinga, fiskveiðilandhelgina algerlega fyrir okkur íslendinga og það strax.

Um það er enginn ágreiningur að íslendingar ætla sér að nýta fiskveiðilandhelgina, 200 mílna fiskveiðilandhelgi, fyrir sig eina. Það fer ekki á milli mála. Þar þurfa engar leiðir að skiljast. En hitt er ekki á borð leggjandi, að þegar Hafréttarráðstefnunni er ekki lokið, þá höfum við það ekki í hendi okkar á sama augnabliki og við færum út í 200 mílur að allir aðrir sætti sig við að fara út fyrir 200 mílur. Þá var það skoðun ríkisstj. að við yrðum að reyna að ná samkomulagi og samstöðu með öðrum þjóðum, — þjóðum sem tækju fullt tillit til þeirrar sérstöðu okkar að við byggjum líf okkar og lífsafkomu á sjávarútvegi og sölu sjávarafla, og jafnframt, að við yrðum sjálfir að draga verulega úr sókninni á fiskimiðin. Þegar þessar þjóðir viðurkenndu þessar augljósu og einföldu staðreyndir, þá ættum við að gera samninga við þær til mjög takmarkaðs tíma um mjög takmarkað veiðimagn.

Við vorum líka með þessari stefnu að marka stefnu og samstarf með strandríkjum heims sem staðið hafa með okkur og við með þeim á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Við vorum að styðja við bakið á okkur sjálfum, styðja við ríkið á þessum þjóðum til þess að ná víðtæku samstarfi og samvinnu, að það nái fram að ganga, að 200 mílna auðlindalögsaga verði viðurkennd á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ef við hefðum sagt: Við viljum ekki ræða við eina einustu þjóð, — þá værum við hreinlega að ráðast að þeim þjóðum sem með okkur hafa staðið. Við værum að veikja þeirra málstað og okkar málstað á sviði alþjóðamála. Þess vegna urðum við, hvort sem okkur var það ljúft eða leitt, að reyna til hlítar að ná samkomulagi á þessum grundvelli og á þessum punktum, sem ég nefndi hér áðan. Á þessum grundvelli er náð samningum við vestur-þjóðverja, sem ekki náðust samningar við eftir útfærsluna 1972 fyrr en í lok s.l. árs. Við gerðum samning við belga um mjög takmarkaða veiði og stórum færri skipt en voru í samkomulaginu frá 1973. Þá voru belgum leyfðar veiðar með 19 skipum hér við land, að vísu öllum litlum togveiðiskipum, en nú í þessu samkomulagi með 12 skipum. Tvær þjóðir fyrir utan breta eru eftir sem gerðir voru samningar við. Það eru norðmenn, smávægilegur samningur um takmarkaðar línuveiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, og sá samningur var einnig gerður 1973, í tíð fyrri ríkisstj., og svo samningur við færeyinga sem var gerður 1973 og endurnýjaður í tíð núv. ríkisstj. Þá voru gefin mjög ákveðin fyrirheit frá okkur tveimur ráðh., sem stóðum að þeim samningum ásamt öðrum, að við teldum eðlilegt og sjálfsagt að þjóð eins og færeyingar, sem eiga allt sitt líf undir fiskveiðum komið, fái takmörkuð réttindi innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Við þurfum auðvitað að leggja á það höfuðáherslu að minnka veiðar eða aflakvóta þessara þjóða hér við Ísland, þó að hann sé ekki hár eða mikill, eins og við verðum sjálfir að gera. En mín skoðun er sú, að við eigum að gera samninga við báðar þessar þjóðir — og ég vil ekki fara neitt í launkofa með það — og það áður en Hafréttarráðstefnan hefst í New York 15. mars. Þá getum við sagt og okkar fulltrúar á Hafréttarráðstefnunni: Við íslendingar höfum ekki verið með einstrengingshátt í samskiptum við þær þjóðir sem hafa veitt innan 50 mílna fiskveiðilandhelgi. Við höfum verið reiðubúnir til þess að ræða við þessar þjóðir um takmarkaðar veiðar í stuttan tíma meðan ekki liggja fyrir alþjóðasamþykktir um nýtingu 200 mílna fiskveiðilandhelgi. — Við getum þá sagt, ef þetta nær fram að ganga: Við höfum samið við allar þær þjóðir sem samið var við eftir að landhelgin var færð út í 50 mílur 1972, við höfum samið við allar þessar þjóðir og við lífum í friði og sátt og samlyndi við þær, nema eina og það eru bretar. — Af hverju höfum við ekki getað samið við breta? Er það fyrir það að við höfum ekki verið reiðubúnir til viðræðna við breta strax á s.l. hausti hér í Reykjavík, síðan úti í London og svo margvíslegar aðrar viðræður sem hér hafa verið rifjaðar upp? En það, sem kemur þar upp, er að bretar hafa verið það óbilgjarnir í þessum samningaviðræðum að það er ekki nokkur leið að ná samkomulagi við þá, Þess vegna er nú ekki fyrir hendi nokkur möguleiki til að taka þær viðræður upp að nýju. Ég hygg að bretar hafi með þessu framferði sínu verið að sýna okkur íslendingum að þeir vilji ekkert láta undan, og mín skoðun er sú að breska ríkisstj. hafi aldrei ætlað sér við okkur að semja. Þeir hafa gjarnan viljað halda þessari samningaleið áfram. Þeir hafa viljað gjarnan koma inn í frv. á Hafréttarráðstefnunni að þegar ágreiningur verði á milli þjóða, eins og kemur til með að verða í Norðursjónum á milli þeirra og nágrannaþjóðanna, þá eigi að vísa þessum ágreiningi til gerðardóms og gerðardómur eigi að fjalla um þann ágreining, en strandríki eigi ekki að hafa einskorðaðan rétt til þess að semja eða fullnýta sina fiskveiðilandhelgi. Ég er fyrir löngu kominn á þá skoðun að þetta hafi verið tilgangur breta, þeir hafi aldrei viljað semja við okkur, aðeins láta líta svo út. Þeir vildu gjarnan að við íslendingar hefðum sagt að við vildum ekki við þá tala. Þá gátu þeir sagt við allar þjóðir: Svona eru þessir íslendingar. Við vorum fullir vilja til samstarfs, að semja við þá og ná friðsamlegum árangri, en þeir vildu ekkert við okkur tala. — Við höfum talað við þá. Við höfum sýnt þeim fram á að við vildum semja, en það yrði að taka fullt tillit til þeirra aðstæðna, sem hér væru, og þess hættulega ástands sem er á fiskstofnunum umhverfis Ísland.

Nú eru samningar eins fjarri og samningar gefa verið á milli tveggja ríkja. Þessir samningar eru því ekki fyrir hendi. Það er ekkert að óttast fyrir þá, sem alltaf hafa óttast samninga frú byrjun, að þessar samningaviðræður eigi sér stað. En ef við hefðum farið að ráði sumra manna sem eru með langa reynslu í stjórnmálum, að tala ekki við eina einustu þjóð, þá gef ég lítið fyrir málstað Íslands á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem byrjar 15. mars. Ég tel því ekki ástæðu til þess að ráðast æ ofan í æ á stefnu ríkisstjórnarinnar í sambandi við framkvæmd landhelgismálsins eins og oft hefur verið gert.

Nú segja menn: Það hefur verið slítið stjórnmálasambandi við Bretland og það var ekki vonum fyrr, því að sumir voru orðnir órólegir. — Og nú er sagt: Nú verður að kalla sendiherra Íslands hjá NATO heim. — Það verður gaman fyrir breta ef við látum þá koma heim hvern á fætur öðrum, sendiherrana, að láta breta vera eina um að skýra deilur og árekstra á Íslandsmiðum, fá einhliða fréttaflutning á fundum NATO í Brüssel, láta breta níða algjörlega ferðinni, — það væri skynsamlegt eða hitt þó heldur. Hvað meina menn sem segja: Kallið þið sendiherrann heim frá Brüssel, Ísland á að segja sig úr NATO vegna þess að þar er þjóð sem fremur á okkur ofbeldi, beitir okkur þvingunum og herskipum? — Við erum líka í Sameinuðu þjóðunum og þar eru bretar einnig. Við höfum kært breta fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Er þá næsta skref Íslands að segja sig úr Sameinuðu þjóðunum af því að bretar eru þar? Eigum við að kalla sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum heim af því að bretar eru í Sameinuðu þjóðunum og eiga sæti í öryggisráðinu? Eigum við að segja okkur úr samstarfi og samfélagi þjóðanna ef bretar eru einhvers staðar í þessu samfélagi? Eigum við þá að vera einir og sér?

Hvert eigum við að selja afurðir okkar ef við slitum öllum tengslum við allar þjóðir? Við ættum kannske að lífa á því að vera í verkfalli? Þá get ég skilið þennan hugsunarhátt. En ég held að það sé ekki hægt. Ég held að verkfalli verði að ljúka og við verðum aftur að fara að framleiða vörur og lífa eðlilegu lífi í okkar landi.

Þetta vil ég benda mönnum á þegar þeir tala með þessum hætti. Mín skoðun er sú að við eigum ekki að sitja í NATO til þess að vera þar eins og hvert annað atkvæði eða dauður meðlimur. Við eigum að láta til okkar heyra með okkar fulltrúa í NATO, gera athugasemdir við það sem okkur sýnist án þess að spyrja hvorki breta né aðrar þjóðir þar um. Við eigum að gagnrýna þessar þjóðir. Og fyrst og fremst eigum við að gagnrýna og ráðast harðlega að hretum fyrir þeirra framferði.

Um það deilum við ekki að bretar hafa gengið svo langt að ég hygg að enginn hefði trúað því þegar ákvörðun var tekin um að færa landhelgina út í 200 mílur. Þá trúðu því fæstir að bretar mundu beita okkur herskipavaldi. Hvað hefur gerst áður? Bretar hafa beitt okkur herskipavaldi bæði 1958 og 1972. Þá var hv. 2. þm. Austurl. í ríkisstjórn í bæði þessi skipti, og hann sat í ríkisstjórn án þess að slita stjórnmálasambandi við breta í bæði þessi skipti. Það er ekki samið við breta í seinna skiptið fyrr en 13. nóv. 1973, en landhelgin er færð út 1. sept. 1972. Þá var hægt að sitja í ríkisstjórn án þess að slíta stjórnmálasambandi við breta. En af hverju var það ekki gert? Menn töldu að það hefði verið fyrsta skrefið að kalla um tíma sendiherra Íslands heim. Það var metið og vegið af ráðh. í þessum ríkisstjórnum báðum og þetta töldu þeir skynsamlegast að gera og ganga ekki lengra þá. Hins vegar má segja að atburðarásin nú í þessari deilu við breta hefur verið miklu hraðari og kom öllum á óvart. Það hefur verið gengið svo langt í þessum efnum að það var útilokað annað, eftir að reynt var að ná hvað eftir annað samkomulagi, en að slíta stjórnmálasambandi við breta. Það sem gerði það að verkum fyrst og fremst að ég var því hlynntur og ákveðinn að slíta stjórnmálasambandi við breta, það var sú fáheyrilega ósvífni þegar breska togaraflotanum var beint inn á friðað svæði. Og þar er haldið enn áfram veiðum. Það er í sjálfu sér ekkert um það að segja umfram það sem áður hefur verið sagt, að fiska í óleyfi innan 200 mílna. En að sýna þessari þjóð, sem á allt sitt undir fiskveiðum, þá algjöru fyrirlitningu og svívirðingu að skaka eins og hægt er á friðuðu svæði, – svæði þar sem við höfum bannað okkar eigin skipum að veiða, þar skutu bretar yfir markið. Það verður þeim að falli og þeirra málstað á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að hafa gengið svo langt. Við erum öll sammála um það að við fordæmum þetta framferði og herskipaíhlutun breta. Um það þarf ekki að tala meira hér.

Við verðum auðvitað að hugsa af stillingu okkar mál, hver verður okkar næsti leikur. Það sem mest ríður á að gera og hefur verið gert og þarf að halda áfram að gera, það er að tryggja sigur strandríkjanna, tryggja sigur okkar íslendinga á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá vitum við að það verður ekki langt að bíða að bretar missa af strætisvagninum hér. Þeir hafa misst af honum víða annars staðar. Þeir eru á hröðu undanhaldi En þeir hafa með framferði sínu hlotið fyrirlitningu allra þeirra þjóða sem bera skynbragð á fiskveiðar og verndun fiskstofna.