25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég skal vissulega reyna að stytta mjög mál mitt og verð ekki lengi í ræðustóli.

Hæstv. sjútvrh. lét svo ummælt áðan að hann undraðist hvers vegna ábyrgur flokkur, og ég vænti að hann hafi átt þar við Alþfl., hvers vegna hann hafi tekið þá afstöðu að íslendingar fengju að hafa fiskveiðilandhelgina hreina. Það er að vísu hægt að halda langa ræðu um nauðsyn þess, þar sem hægt er að rökstyðja þá stefnu okkar Alþfl.-manna. Í hnotskurn er ástæðan þessi:

Við íslendingar, eins og allar aðrar þjóðir sem fært hafa út í 200 mílur, höfum gert það í einu skyni: til þess að vernda forgangsrétt okkar sem strandríkis til þeirra auðlinda sem við teljum okkur eiga. Ástandið á fiskstofnum íslendinga er nú þannig að þar er ekki talið óhætt að veiða öllu meira af helstu nytjafiskum heldur en íslendingar geta sjálfir veitt. Ef þeir afsala sér með samningum einhverjum hluta af þessum afla, þá eru þeir þar með að afsala sér forgangsréttinum sem var frumskilyrði og grundvöllur sjálfrar útfærslunnar. Þá yrðum við íslendingar eina þjóðin í 200 mílna hópnum sem neydd hefði verið með samningum til þess að afsala sér sínum frumburðarrétti, sínum forgangsrétti, sem útfærsla allra þessara ríkja hefur byggst á.

Þetta er kjarninn í þeirri röksemdafærslu Alþfl. að það eigi ekki að ganga til samninga við þau ríki sem virða ekki forgangsrétt okkar íslendinga til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Og ég tel að þessi skoðun sé fyllilega í samræmi við stefnu ábyrgs stjórnmálaflokks.

Þá hefur hv. 2. þm. Austurl. rætt nokkuð frekar um hugsanlega úrsögn úr NATO og lokun varnarstöðvarinnar. Þjóðinni hefur að vísu verið það lengi ljóst að Alþb. er þeirrar skoðunar að tíðindi þau hafi gerst í landhelgismálinu sem séu þess eðlis að við eigum að beita hótunum um úrsögn úr NATO og lokun varnarstöðvarinnar til þess að reyna að knýja sigur fram á okkar málstað í landhelgismálinu. Sem sé, Alþb. er þeirrar skoðunar að þessar hótanir mundu nægja til þess að bretar létu hugfallast. Þá hlýtur það að sjálfsögðu að vera í beinu framhaldi af þeirri skoðun Alþ. að ef þessar hótanir nægðu til þess að bretar skiptu um skoðun, þá bæri að sjálfsögðu að fella hótanirnar úr gildi og við íslendingar halda áfram varnarsamstarfi vestrænna ríkja og halda áfram að hafa her á Miðnesheiði. Þetta er að sjálfsögðu í beinu, rökréttu framhaldi af þeirri stefnu sem ég hef verið að lýsa.

Ef svo bæri nú við að þessi hótun mundi ekki nægja til þess að bretar skiptu um skoðun, þá býst ég við að Alþb. sé á þeirri skoðun að það eigi að fylgja hótununum eftir með því að slíta sambandi við NATO og loka varnarstöðinni og senda varnarliðið burt af Miðnesheiði. Vænti ég þess. Ef slík vinnubrögð duga ekki, er þá ekki ósköp eðlilegt að menn spyrji þá Alþb.-menn, hvað eigi að gera næst? Hvaða spor á að stíga næst ef þessi þeirra leið í landhelgismálinu nægir ekki til þess að færa okkur sigurinn heim? Að vera þá að fjasa um að kaupa skip og efla landhelgisgæsluna er auðvitað alveg út í hött. Hvaða stjórnmálaleg spor eigum við að stiga næst í landhelgismálinu ef þessar aðgerðir bera ekki árangur? alþb.-menn hafa haft það langan tíma til að hugleiða þessi mál og gera þau upp við sig að þeir hljóta að hafa svar við þessu.

Og að sjálfsögðu, jafnframt því að við gerum slíka aðgerð, þá hljótum við, eins og hæstv. sjútvrh. benti á áðan, að grípa til sambærilegra aðgerða gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Við kærum fyrir Öryggisráðinu, við óskum milligöngu Sameinuðu þjóðanna um að leysa landhelgisdeiluna. Ef Sameinuðu þjóðirnar neita að verða við þeirri bón okkar vegna þess að bretar beita sínu áhrifavaldi í Öryggisráðinu til þess að neita óskum okkar að ganga fram, eigum við þá ekki að hóta að segja okkur úr Sameinuðu þjóðunum?

Hvað um norrænt samstarf? Nú er fyrir höndum þing Norðurlandaráðs. Eigum við ekki þar að sjálfsögðu að leggja fram þá kröfu að Norðurlandaþjóðirnar fáist okkur til stuðnings í landhelgismálinu, til afdráttarlauss stuðnings? Við teljum að við eigum þá siðferðilegu kröfu á hendur þeim. Ef þær verða ekki við því, hvað eigum við þá að gera? Eigum við að hætta samskiptum okkar við þær? Auðvitað verðum við að gera okkur ljóst, áður en við byrjum einhverja aðgerð, hvaða afleiðingar hún kann að hafa, hvert hún kann að leiða okkur. Ef við hótum því að segja okkur úr NATO í krafti þess að það leysi fyrir okkur landhelgismálið og það gerir það ekki, þá eigum við auðvitað að vera búin að gera upp hug okkar um það fyrirfram, að ef þessi leið nægi ekki, þá eigum við auðvitað að láta hótunina ganga í gildi og fara. Og hvað eigum við þá að gera næst? Við þurfum að vita það líka.

Ég tel að þessar umr. hafi leitt það í ljós að það er nauðsynlegt að allir þingflokkar, stjórn og stjórnarandstaða, hafi samráð og samstarf um leitun að þeim leiðum sem til greina koma nú. Og ég held að því fyrr sem slíkt samráð og samstarf tækist, því betra. Vil ég í því sambandi taka mjög undir orð hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að það er rétt og tímabært að hafa samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það hvað gera beri í landhelgismálinu.

Að lokum örfá orð í sambandi við það sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði hér áðan. Í athugasemdum mínum við hans fyrri ræðu tók ég alls ekki upp hanskann fyrir breska mafíu eða breska krata. Undrar mig það raunar mjög, að það virðist orðið þannig með suma hv. þm. að það má vart ýta við þeim öðruvísi en að þeir fari að hrópa: mafía, mafía. En ég var hvorki að taka upp hanskann fyrir neina breska mafíu né breska krata. Ég taldi, að hluti ræðu hv. þm. og þau viðbrögð, sem við henni komu fram hér á Alþ., væru Alþ. ekki til sóma. Ég taldi mig vera að reyna að taka upp hanskann fyrir Alþingi íslendinga. Ég taldi mig vera að reyna að taka upp hanskann fyrir sjómenn okkar á varðskipunum sem eiga það ekki skilið í þeirri baráttu, sem þeir heyja nú úti á miðunum, að fá slíkar kveðjur frá Alþ., eins og þær sem héðan voru sendar við það tækifæri. É g skal líka fúslega taka upp hanskann fyrir hv. þm. og lýsa þeirri skoðun minni að síðari ræða hans var honum miklu meira að skapi og miklu meira til sóma, hvaða skoðanir svo sem hann hafði á mér og mínum málflutningi. Um það kæri ég mig kollóttan.