26.02.1976
Sameinað þing: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

179. mál, heyrnarskemmdir af völdum hávaða í samkomuhúsum

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 74 er borin fram svo hljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að gera till. um samhæfðar aðgerðir af hálfu opinberra aðila til þess að draga úr tóbaksreykingum íslendinga. N. skal sérstaklega taka til umfjöllunar annars vegar tillögugerð um fyrirbyggjandi ráðstafanir, svo sem með hvaða hætti árangursríkast verði hagað upplýsingastarfsemi um skaðsemi tóbaksreykinga, og hins vegar gerðar till. um skipulagt námskeiðahald á vegum hins opinbera eða með þátttöku þess fyrir tóbaksneytendur er vilja hætta eða draga úr tóbaksneyslu sinni. Í þessu sambandi verði sérstök áhersla lögð á baráttu gegn tóbaksneyslu skólafólks.

Í störfum sínum hafi n. samráð við þá aðila, er um slík mál sem hér um ræðir hafa fjallað til þessa. Niðurstöður n. verða síðan grundvöllur aðgerða hins opinbera til aukinnar baráttu gegn tóbaksreykingum.“

Allshn. Sþ. hefur skoðað þessa till., rætt við nokkra aðila, sem að þessum málum vinna, og sérstaklega kynnt sér ritgerð eða skýrslu, sem dr. Jón Sigurðsson fyrrv. borgarlæknir tók saman um reykingar skólabarna. Þar kemur fram að ástandið á þeim vettvangi er allalvarlegt. Í ljós kemur og að það eru ýmsir aðilar, áhugasamtök og aðrir, sem vinna gott verk. En nauðsynlegt er að samræma og sameina þessi störf og það fjármagn sem til þeirra fer. Allshn. er þeirrar skoðunar að hér sé till. á ferðinni sem sé bæði þörf og tímabær. Því telur hún eðlilegt, að heilbrmrn. skipi n. sem geri till. um samhæfðar aðgerðir, og leggur til að þessi till. verði samþykkt.