29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Það mun vera nokkuð einstakt í þingsögunni að svo snemma þings skuli vera efnt til kvöldfundar til að halda áfram umr. um mál sem engin sérstök nauðsyn ber til að afgr. með miklum hraða gegnum deild. Enn undarlegra er það þegar það liggur fyrir að ýmsir hv. þm., sem ætluðu að tala í umr. um þetta mál, óskuðu þess við hæstv. forseta að málið yrði ekki tekið svo skyndilega til umr. hér í kvöld, þar eð þeir höfðu gert ráð fyrir því, að samkv. venju yrði ekki efnt til kvöld- eða næturfunda svo árla þings og höfðu bundið sig við annað. En þrátt fyrir óskir ýmissa hv. þm., jafnt stjórnarstuðningsmanna sem stjórnarandstæðinga, að málinu skyldi frestað, þá hefur hæstv. forseti greinilega talið það svo brýnt að ljúka 1. umr. um þetta mál hér í hæstv. d., að ákveðið er í skyndingu að efna til þessa einstæða fundar sem nú hefur verið settur í þessari hæstv. deild. Slíkar aðgerðir gefa vissulega tilefni til þess að velta fyrir sér hvers vegna. Hvað er það varðandi þetta mál eða í tengslum við það sem gerir það og eðli þess svo sérstakt að nauðsynlegt sé að knýja það áfram í gegnum hæstv. deild.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem á þessar umr. hefur hlýtt, að þær eru á ýmsan hátt æði sérstakar, þó kannske fyrst og fremst sérstakar vegna þess að aðalpersóna þessara umr. er fjarverandi. Aðalpersóna þessara umr., hv. 3. þm. Austurl., Sverrir Hermannsson hefur leyfi frá störfum í þessari hæstv. d., en mun væntanlegur til starfa hér á mánudaginn kemur. Nú er það svo að bæði hafa samflokksmenn hv. þm. Sverris Hermannssonar beint mjög að honum spjótum í þessum umr, og í öðru lagi hefur, á meðan málið hefur verið til umr, hér í hv. d., birst við hv. þm. Sverri Hermannsson í aðalmálgagni ríkisstj. mjög einstakt og sérstakt viðtal, — viðtal sem að mínum dómi er meðal merkari innleggs í umr. um störf þessarar hæstv. ríkisstj., stjórnarfarið í landinu, stjórn og störf þeirrar stofnunar sem hér er til umr. og byggðamál almennt. Það skyldi þó ekki vera að hæstv. forseti vildi með þessari sérstöku aðgerð, þessu kvöld- og næturfundahaldi hér, leggja sitt af mörkum til að hjálpa hæstv. ríkisstj. með ég vildi nú kannske ekki segja vandræðabarn sitt, hv. 3. þm. Austurl., en þó leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir að hann hafi tækifæri til þess í fyrsta lagi að bera af sér sakir hér í hæstv. d. og í öðru lagi að ræða við okkur aðra deildarþm. um þær einstöku yfirlýsingar sem hann hefur gefið í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, — yfirlýsingar sem eru gefnar af þeim manni sem gjörkunnugastur á að vera störfum samkvæmt byggðamálastefnu og efnahagsstjórn þessarar ríkisstj. Það skyldi þó ekki vera að hæstv. ríkisstj. vilji koma sér hjá því að aðrir hæstv. deildarþm. geti rætt við 3. þm. Austurl. um þessar yfirlýsingar, vilji koma í veg fyrir að hann geti hér á fundum Alþ. flutt og rökstutt þær afdráttarlausu og skýru yfirlýsingar sem hann hefur gefið um stefnu ríkisstj. í aðalmálgagni hennar, Morgunblaðinu, 19. okt. s. l.

Það er ekki í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð og nauðsynlega opna umr, í þessu þjóðfélagi að hæstv. forseti skuli beita starfsaðferðum af þessu tagi, að knýja fram lok þessarar umr. áður en hv. 3. þm. Austurl. kemur aftur til þings, bæði vegna þeirra saka og gagnrýni, sem á hann hefur verið borin hér í umr. Og fyrst enginn flokksmanna hv. 3. þm. Austurl. vill ljá honum lið og bera fram að hans ósk kröfu um að fá að bera af sér sakir hér í þessari d., þá vil ég verða til að óska þess að hann fái í þessari d. að bera af sér þær mjög svo alvarlegu sakir sem hann hefur verið borinn fjarstaddur í þessari d. Það er í senn lágmarkskurteisi og þingræðisskylda gagnvart honum að hann fái að gera það. Enn fremur tel ég vera nauðsynlegt, einkum og sér í lagi með tilliti til þess mikla efnahagsvanda sem tekinn hefur verið til umr. fyrr á þessu þingi og hv. þm. Jón Skaftason tók sérstaklega til umr. fyrr í dag, að tækifæri gefist til að ræða við hv. 3. þm. Austurl., Sverri Hermannsson um þær sérstöðuríku yfirlýsingar hans í aðalmálgagni ríkisstj., sem ég vitnaði til áðan og mun gera að sérstöku umræðuefni hér á eftir.

Því mælist ég til þess við hæstv. forseta að umr. um þetta mál verði ekki lokið hér í kvöld eða nótt, ef það hefur verið vilji hæstv. forseta og ætlun, heldur verði þeim fram haldið í d. þegar hv. S. þm. Austurl. er kominn til þings eða a. m. k. umr. haldið opnum, þannig að honum og öðrum þm. gefist tækifæri til að ræða málið þegar hann er kominn hingað til þings með fullum réttindum á nýjan leik. (Sigurl. B: Þetta er nú bara 1. umr.) Það er að vísu rétt, hv. 9. landsk, þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, að þetta er aðeins 1. umr. En stjórnarmeirihl. hér á Alþ. hefur sýnt sérstaka hæfni til að svæfa mál í n., og ég reikna ekki með því, miðað við fyrri vinnubrögð hv. stjórnarmeirihl., að þetta frv. verði talið slíkt óskabarn að það verði leitt aftur hingað inn í salinn. Ég reikna með að hæstv. stjórnarmeirihl. í þeirri n., sem þetta frv. fær til meðferðar, muni frekar líta á þetta frv. sem eins konar Trójuhest eins og það hefur reyndar reynst nú þegar í þessari hæstv. d., og muni þannig sjá til þess að það komi ekki aftur hér til umr., a. m. k. muni það þá verða tekið til umr. þegar hv. 3. þm. Austurl. er fjarverandi.

Að vísu kann þetta frv. að koma aftur til tals þegar hæstv. ríkisstj. loksins ber fram óskabarn sitt, frv. til l. um breyt. á Framkvæmdastofnun ríkisins. En þau loforð urðu ekki að veruleika s. l. vetur og hæstv. Alþ. á nú eftir að sjá hvort gæfan verður með þeim loforðum aftur í vetur.

Það hefur að mörgu leyti verið athyglisvert að fylgjast með orðaskiptum stuðningsmanna ríkisstj. í þessum umr., bæði fyrir gagnrýni sem komið hefur fram hjá hv. þm. Ellert B. Schram og hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni á störf samflokksmanna þeirra Sverris Hermannssonar, Ingólfs Jónssonar o. fl. í Framkvæmdastofnun ríkisins og gagnrýni hv. þm. Jóns Skaftasonar á störf og starfsemi samflokksmanna hans í sömu stofnun. Og það væri eilítið fróðlegt að velta því fyrir sér hver er tilgangur þessara deilna. Hvernig stendur á því, að stuðningsmenn ríkisstj. skuli leggja sig svo fram eins og raun ber vitni um að setja hér fram duldar meiningar um þetta mál? Á þessu kunna að vera tvenns konar skýringar og það mjög ólíkar. Fyrri skýringin er sú, að hv. þm. telji í raun og veru að Framkvæmdastofnun ríkisins, Byggðasjóður, hið svokallaða kommisarakerfi sé svo mikill grundvallarþáttur í okkar stjórnkerfi að það beri að taka til, jafnrækilegrar umr. og gagnrýni og þeir hafa sett hér fram, vegna þess að það sé e. t. v. ein af þeim aðferðum sem beita þurfi til lausnar efnahagsvandanum, eða þá að það sé verið að setja hér á svið ákveðinn leik, meðvitað eða ómeðvitað, leik sem fyrst og fremst hefur það að markmiði að fela hinar raunverulegu byggðaaðgerðir þessarar hæstv. ríkisstj., að hefja hér upp deilur um form, stjórnarform á sviði sem greinilega skiptir ekki sköpum fyrir stjórnarstefnuna og þá sérstaklega byggðaaðgerðir hæstv. ríkisstj. Það hefur nefnilega komið fram, bæði í þessum umr. og eins í viðtali við hv. 3. þm. Austurl., Sverri Hermannsson, sem ég mun vitna til á eftir, að Framkvæmdastofnun ríkisins hefur alls ekki orðið sá ógnvaldur eða valdastofnun, sem henni var ætlað að vera, né heldur hefur hún fengið til ráðstöfunar fjármagn sem skiptir sköpum í byggðaþróun í landinu. Það kynni þó ekki að vera að meðvitaður eða ómeðvitaður tilgangur þessara umr., þar sem fyrst og fremst er deilt um embættisstjórn, stjórnarform á þessari tilteknu stofnun, sé að fela það að meðan hér á Alþ. eru slíkar deilur er ríkisstj. að halda áfram að búa sig undir enn stærri áfanga í byggðaröskun í landinu, — ekki byggðastefnu, heldur byggðaröskun?

Að vísu er mögulegt að fyrri skýringin sé að nokkru leyti rétt hvað einstaka þm. stjórnarfl. snertir. Það er mögulegt, að hv. þm. Ellert B. Schram og Guðmundur H. Garðarsson, sem tiltölulega nýkomnir eru hingað til þings til þess að halda uppi klassískum stefnumálum íhaldsins á Íslandi, séu ekki orðnir eins „verseraðir“ í lífsins ólgusjó og hv. þm. Ingólfur Jónsson og Sverrir Hermannsson, að þeir sjái ekki að þessi svokölluðu grundvallarstefnumál Sjálfstfl. um efnahagsstjórn á Íslandi samrýmast einfaldlega ekki veruleikanum. Ég hef ekki trú á því að hv. þm. Ingólfur Jónsson og hv. þm. Sverrir Hermannsson hafi ekki framfylgt stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. um að afnema þessa stofnun vegna þess að þeir séu einhver illmenni, vegna þess að þeir séu einhverjir svikarar, vegna þess að þeir séu, eins og hér hefur verið látið að liggja, jafnvel siðlausir. Ég held þvert á móti að ástæðan fyrir því, að þeir hafa ekki framfylgt þessari yfirlýstu stefnu Sjálfstfl., sé sú að það er ekki hægt að framfylgja henni. Hún er ekki í samræmi við veruleikann. Hún er óskhyggja frá liðinni tíð. Hún er 19. aldar hugmyndafræði. Hún samrýmist ekki þörfum íslensks þjóðfélags á síðustu áratugum 20. aldar. Hún samrýmist ekki því háþróaða og flókna þjóðfélagi sem við búum við, sem krefst skipulagshyggju og áætlanagerðar ef á að vera hægt að stjórna því á markvissan hátt og til að ná raunhæfum aðgerðum. Sú frjálshyggja, sem mótaði þessa stefnu Sjálfstfl. og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Ellert B. Schram hafa vitnað til hér í sínum ummælum fyrr og síðar um þetta mál, er í besta falli draumsýn, í versta falli hrapalegur misskilningur og tímaskekkja sem þeir menn, sem Sjálfstfl. felur hin raunverulegu völd, sem því miður eru ekki hv. þm. Ellert B. Schram og Guðmundur H. Garðarsson, geta ekki framfylgt þegar þeir standa frammi fyrir veruleikanum. Þetta er skýringin.

Saga Framkvæmdastofnunar ríkisins á s. l. ári er enn eitt dæmið um það að stefna Sjálfstfl. í efnahagsmálum er ekki framkvæmanleg. Hún er ekki framkvæmanleg ef menn vilja ná þeim markmiðum sem felast í almennri efnahagsþróun íslenska þjóðfélagsins, bættum kjörum þegnanna og eflingu byggðarinnar um allt land. Til þess að ná þeim markmiðum þurfum við að taka upp skipulagsbundin vinnubrögð, áætlanagerð, rannsóknastarfsemi, samræmdar aðgerðir opinberra aðila og einkaaðila eða m. ö. o. þá stjórnarstefnu sem kennd hefur verið, eins og hv. þm. Jón Skaftason vitnaði til áðan, við skipulagshyggju.

Ég sagði áðan að það kynni að vera að einhverjir, sem þátt hafa tekið í þessum umr., og ég hef þar einkum í huga hv. þm. Tómas Árnason, sem eyddi löngu máli hér í mjög fróðlega lýsingu og nákvæma á starfsháttum, fundaaðferðum og öðrum vinnubrögðum í þessari stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, að tilgangur þeirra með slíkum ítarlegum formumr. væri að fela það að varðandi byggðaþróun á Íslandi skipta aðgerðir Framkvæmdastofnunar ríkisins, hvort sem fundir þar eru haldnir með tveimur mönnum, einum eða fleirum, eins og við fengum ítarlegar lýsingar á hér í dag, skipta einfaldlega ekki máli, enda hefur hv. þm. og samstarfsmaður Tómasar Árnasonar, Sverrir Hermannsson, tekið endanlega af skarið hvað þetta snertir. Þegar hann var beðinn af ritstjóra Morgunblaðsins að ganga fyrir lesendur þess og stuðningsmenn Sjálfstfl., sunnud. 19. okt. s. l., og tjá sig um störf þessarar stofnunar, efnahagsstjórnina í landinu og byggðastefnu þessarar ríkisstj., þá var dómur Sverris Hermannssonar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Byggðasjóður hefur á þessu ári til ráðstöfunar um 1 020 millj. kr., en það er eins og krækiber í helvíti ef miðað er við einokun Suðvesturlandsins á stórvirkjunum og stóriðju. Það“ — þ. e. a. s. þessar aðgerðir á Suðvesturlandi — „er mesta byggðaröskun af mannvöldum sem þekkst hefur hér á landi bæði fyrr og síðar, Nú er landsbyggðinni haldið í teygju með góðu tali og breiðum yfirlýsingum um virkjanir á ýmsum stöðum úti á landi, svo að Suður- og Suðvesturlandið geti enn haldið fram einokun sinni á stórvirkjunum í Þjórsá og stóriðju við Faxaflóa, og þessar breiðu yfirlýsingar halda áfram, hvort sem vit er í eða ekki.“

Nú er ekki nema tvennt til. Annaðhvort fer hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem gerst á að þekkja til þessara mála, með óráðsíuhjal, óábyrgar yfirlýsingar eða þá að þessi dómur hans er réttur. Ef þessi dómur þessa manns, sem ríkisstj. hefur falið að starfa á þessum vettvangi, sem hann er þarna að lýsa með eigin orðum, — ef hann er réttur, þá felur hann í sér einhver dapurlegustu og óhugnanlegustu stjórnmálatíðindi sem hér hafa komið fram nokkuð lengi, a. m. k. fyrir þá aðila og þá stjórnmálaflokka sem í raun og veru vilja eflingu byggðar út um allt land. Og það er skiljanlegt að hv, þm. Tómas Árnason skuli eyða nánast öllum ræðutíma sínum hér í nákvæmar lýsingar á fundahöldum og annarri tæknilegri starfsemi í Framkvæmdastofnun ríkisins án þess að víkja einu orði að þessum dómi og þessari yfirlýsingu samstarfsmanns síns, hv. þm. Sverris Hermannssonar. Og það er skiljanlegt, þegar maður hefur þessar yfirlýsingar í huga, að hæstv. forseti og ríkisstjórnarmeirihluti skuli vilja ljúka þessum umr. áður en hv. þm. Sverrir Hermannsson kemur hingað í d. á nýjan leik, því að þegar þm. Íslendinga lætur í aðalmálgagni sínu frá sér fara yfirlýsingar af þessu tagi og fleiri sem ég mun koma að hér á eftir, þá er skylda okkar að taka það til umr. hér á Alþingi íslendinga því að við eigum að taka mark á þessum orðum. Við eigum að óska þess að fá á þeim ítarlegri rökstuðning, vegna þess að ef þau eru rétt, þá er hv. þingheimur eins og Lísa í Undralandi hvað þessar umr. eða almenn störf þingsins snertir. Og þá er engin furða þó að alþjóð fyllist stundum undrun yfir því að menn skuli yfir höfuð vera að eyða tíma sínum í að tala hér .

Ég hef ekki heyrt í langan tíma aðrar eða merkilegri yfirlýsingar frá þm. á Íslandi, hvað þá heldur stuðningsmanni þessarar ríkisstj. Ef þessar yfirlýsingar eru ekki teknar til ítarlegrar umr. á Alþingi íslendinga, þá er Alþ. íslendinga ekki alvörustofnun, á engan hátt, og þá taka þm. ekki a. m. k. bv. þm. Sverrir Hermannsson alvarlega.

Ég ítreka þess vegna enn frekar þá kröfu mína að þessum umr. verði fram haldið þar til hv. þm. Sverrir Hermannsson kemur á ný til þessarar d. En yfirlýsingar hans, afgreiðsla hans á stjórnarstefnunni í Morgunbl. 19. okt. var lengri, hún var enn merkilegri.

Það er búið að leggja hér fram á Alþ. nokkrar fsp. um virkjunarmál til hæstv. orkumrh. Nú veit ég ekki hvenær hann ætlar sér að svara þessum fsp. og ef hann svarar þeim, hvort svörin verða þá ekki hjúpuð þeim silkimjúku setningum og mér liggur við að segja — með fullri virðingu — orðhengilshætti sem á síðasta þingi einkenndu sum svör hans varðandi fsp. um orkumál. Þessar fsp. hafa verið settar fram og þeim verður væntanlega svarað. En hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur þegar svarað þessum fsp. í Morgunbl. 19. okt. Hann hefur þegar gefið Norðlendingum og austfirðingum afdráttarlausar yfirlýsingar um það hvers þeir mega vænta í orkumálum á næstu árum. Og þessum yfirlýsingum þm. Austurl., aðalstjórnanda Framkvæmdastofnunarinnar, eins af helstu trúnaðarmönnum ríkisstj., þeim hefur ekki verið svarað, hvað þá heldur að þær hafi verið bornar til baka í málgögnum ríkisstj. Þær hafa verið látnar standa, þeim hefur ekki verið mótmælt vegna þess að þær eru sannar. Orkumrh. þarf ekki að standa upp og svara þessum fsp. því að þeim hefur þegar verið svarað með þeirri þögn sem málgögn stjórnarinnar og allir stjórnarliðar aðrir hafa sveipað um sig eftir að Sverrir Hermannsson gekk fram og sagði Norðlendingum og Austfirðingum umbúðalausan sannleikann um þeirra orkumál.

Af því að hv. þm. Páll Pétursson situr hér fyrir aftan mig langar mig til að lesa fyrir hann lýsingu hv. þm. Sverris Hermannssonar á virkjunarmálum í hans eigin kjördæmi, Norðurl. v., og ég skora á hv. þm. Pál Pétursson að bera á móti þessum yfirlýsingum ef þær eru ekki réttar. Ég skora á hann að koma hér upp og segja kjósendum sínum, Norðlendingum í vestari hluta þess landshluta, að það, sem Sverrir Hermannsson hafi sagt um fyrirætlanir ríkisstj, og plön orkumrh. sé ekki rétt. Þetta er búið að standa í 10 daga ómótmælt og það hefur vissulega vakið athygli í kjördæmi Páls Péturssonar. Það get ég fullvissað hann um. Norðlendingar láta ekki plata sig lengi, eins og hv. þm. ætti að þekkja af eigin raun.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson segir orðrétt í Morgunblaðinu 19. okt.:

„Það er farið til Sauðárkróks og lýst yfir 150 mw. virkjun í Blöndu og Eykon, — það mun vera hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, 4. þm. Norðurl. v., samflokksmaður Sverris Hermannssonar, — „segir að þar myndist uppistöðuvatn til að að veiða í og koma upp áveitum til að ræki.a upp heiðalöndin. Það hlýtur að gerast með því að veita vatninu upp í móti annars væru þau gróin nú þegar. En nú fljúgast bændur á“ — og svo kemur perlan, með leyfi hæstv, forseta — „og Sjálfstfl. er laus allra mála og getur haldið áfram í friði að byggja stórt á suðvesturhorninu.“

„Sjálfstfl. er laus allra mála og getur haldið áfram að byggja stórt á suðvesturhorninu.“ Þá hafa menn það. (Gripið fram í.) Kannske er það Alberti Hall segir hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Kannske er það Sjálfstæðishúsið. Ég er ókunnugur þeim tónverkum, sem þeir Sjálfstæðismenn leika í kringum sitt hús, hvort það eru óratoríur eins og fluttar eru í Alberti Hall, eða hvort það eru hnefaleikar sem stundum eru einnig settir þar á svið. (Gripið fram í). Það er hvort tveggja, segir hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Hann ætti að þekkja það manna best. Kannske verður farið að selja inn í Alberti Hall Sjálfstfl. Kannske bændum í Norðurl. v. verði boðið suður til að fljúgast á, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson segir að hafi verið markmið Sjálfstfl. með virkjunarmálum í Norðurl. v. Þar hafa menn byggðastefnu Sjálfstfl. í orkumálum, og ég skora á hæstv. orkumrh. þegar hann kemur hér upp síðar í vetur til að svara þessum fsp., að mótmæla gagngert þessari yfirlýsingu ef hún er ekki rétt.

Svo fer hv. þm. Sverrir Hermannsson nokkrum orðum um Kröfluvirkjun. Ég veit nú ekki hvort má minnast á hana hér í þessum sal, en það kemur að því að það verður minnst á hana. Það er kannske líka sniðug pólitík að hafa falið Jóni G. Sólnes, hv. þm. Norðurl. e., yfirstjórn á Kröfluvirkjun. Það hefur kannske verið sams konar sniðugheitataktík eins og að láta bændur fara að fljúgast á í Norðurl. v. að láta Jón G. Sólnes fá framkvæmdafé í Norðurl. e. og bíða svo eftir því að það springi í loft upp líkt og Blönduvirkjun í áflogum bænda. Það kemur væntanlega í ljós hvort hv. þm, Jón G. Sólnes hefur látið hafa sig til þeirra verka. Hann er því miður fjarverandi hér, erlendis í London, Honolulu eða Japan í erindum Kröfluvirkjunar, a. m. k. er ekki að fljúgast á fyrir norðan. Það verður kannske einhvern tíma flogist á út af Kröfluvirkjun, og við skulum láta þau áflog bíða til síðari tíma. Það kann að verða dýrt hvert hnefahöggið í þeim slagsmálum.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson segir svo í lok þessara yfirlýsinga um orkumálín, Byggðasjóðinn, krækiberin í helvíti og það allt saman að hann hafi ekki þrek til að minnast á Borgarfjarðarbrúna, og það held ég að séu orð að sönnu. Ég held að hv. þm. ættu að tileinka sér þessi orð, allir þm., þar með talinn hæstv. samgrh., lýsi því yfir fyrir alþjóð að frá og með þessum degi hafi þeir ekki lengur þrek til að minnast á Borgarfjarðarbrúna. Ég er viss um að þjóðin mundi fagna þeirri yfirlýsingu. Menn verða að geyma minnismerki þangað til síðar. Í þessu efnahagsástandi þjóðarinnar höfum við ekki efni á því að reisa minnismerki fyrir mörg hundruð millj. kr.

Ég vék að því í upphafi þessarar umfjöllunar að það kynni að vera tilgangurinn með þeim löngu formumr., sem hér hafa verið hafnar, að draga hjúp yfir þessar raunverulegu aðgerðir í byggðamálum, að fela þá staðreynd, að fjárveitingar Byggðasjóðs, þótt miklar séu, eru sem krækiber samanborið við þær aðgerðir sem þegar hafa verið hafnar og er verið að hefja á suðvesturhorninu og ég skora á hv. þm. Tómas Árnason að koma hér upp og lýsa afstöðu sinni til þessara ummæla samstarfsmanns síns Sverris Hermannssonar. Ef hann gerir það ekki, ef hann lætur þögnina tala, líkt og málgögn ríkisstj. hafa gert í þessu máli, þá stendur það eftir að Sverrir Hermannsson hafi talað fyrir hönd Framkvæmdastofnunarinnar í þessu máli, því að þetta viðtal er haft við hann sem þm. og sem stjórnanda framkvæmdastofnunarinnar, og ef ekki er borið á móti því af hálfu Tómasar Árnasonar, þá verða öll þessi ummæli og allt þetta viðtal túlkað sem stefna Framkvæmdastofnunar ríkisins, sjálfslýsing Framkvæmdastofnunarinnar, að hennar starfsemi líkist helst krækiberjum í helvíti. Og þá held ég að sé tími til kominn að við aukum við þann almenna titil, sem þessir ágætu starfsmenn hafa gengið undir, kommissarnir, og köllum þá héðan í frá krækiberjakommissarara. Það kynni að gefa okkur dálitla viðmiðun um það hve mikilvæg þeirra störf eru. Kommissar er stór titill. Hann er frægur úr rússnesku byltingunni. Þeir, sem hann báru, unnu stórvirki, og ef við förum að festa þann titil við stjórnendur þessarar stofnunar erum við að hjálpa fólki til að fela það að þeir eru ekki vinna nein stórvirki, þeir eru að leita að krækiberjum. Þeir eru á eins konar efnahagslegum berjamó á meðan skurðgröfurnar halda áfram að vinna sín verk fyrir stórvirkjanir og stóriðju á suðvesturhorni landsins.

Framkvæmdastofnun ríkisins var vissulega ætlað mikið verk. Það vill nú svo til að ég var á sínum tíma dálitið kunnugur því hvaða hugsun lá að baki þeim lögum sem sett voru um Framkvæmdastofnun ríkisins. Að baki þeim lögum lá virkilega sú hugsun að taka upp, eins og hv. þm. Jón Skaftason lýsti hér í dag, skipulagsbundin vinnubrögð, áætlanagerð í efnahagslífi íslendinga, forgangsröðun framkvæmda, eins og einn af forustumönnum þáv. stjórnarforustufl., Framsfl., orðaði það á sínum tíma. Það var lögð mikil vinna í að undirbúa þessa löggjöf, og það er alveg rétt að vinstri menn í landinu bundu við þessa löggjöf miklar vonir, á alveg sama hátt og íhaldsmenn í þessu landi óttuðust þessa löggjöf. Framkvæmdastofnun ríkisins var eins konar kristall sem sýndi mönnum hér í þingsölum haustið og veturinn 1971 hvar leiðir skildu milli raunverulegra fylgjenda skipulagshyggju og þeirra sem aðhylltust enn hinar úreltu kenningar efnahagslegrar frjálshyggju.

En staðreyndin varð því miður sú, eins og Sverrir Hermannsson réttilega lýsir í þessu viðtali í Morgunblaðinu, að Framkvæmdastofnunin varð í reynd allt annað en Framkvæmdastofnuninni var ætlað að vera í lögum. Hún varð ekkert sérstaklega stór eða öflug stofnun, og veikasti hlekkur hennar var áætlanagerðin. Og hin ömurlegu mistök varðandi Framkvæmdastofnun ríkisins eru einmitt að það fjármagn, sem til hennar fór og til hennar fer og var ætlað að verða efnahagslegar bakhjarl raunverulegrar áætlanagerðar og skipulagshyggju í efnahagslífi íslendinga, varð, eins og hv. þm. Jón Skaftason hefur lýst, að klassískri útdeilingarpólitík íslenskra stjórnmálamanna, þannig að þessi tilraun til að koma á skipulagshyggju í íslensku efnahagslífi með Framkvæmdastofnun ríkisins, eins og hún hefur verið starfrækt til þessa, hefur mistekist. Og það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því.

Framkvæmdastofnun ríkisins hefur, sérstaklega á s. l. ári, gengið enn frekar inn í hið klassíska lausungarkerfi íslenskrar efnahagsstjórnar, eins og Framkvæmdastofnunin sjálf hefur viðurkennt með kaflanum í ársskýrslu 1974 sem heitir Starfsemi áætlanadeildar og hv. þm. Jón Skaftason las hér upp fyrir þingheimi fyrr í dag. Ég þykist viss um að þessi kafli sé skrifaður af forstöðumanni áætlanadeildarinnar, þeim íslendingi sem einna mest hefur starfað að áætlanagerð á undanförnum árum og hefur haft forgöngu um að byggja upp skipulagsbundin vinnubrögð á því sviði. Og það vill svo til að ég er nokkuð kunnugur því brautryðjendastarfi sem þar hefur verið unnið, ég er nokkuð kunnugur þeim vonum sem þessir starfsmenn hafa bundið við verk sín, bæði í nútíð og framtíð, og hvernig þeir hafa þurft að heyja baráttu við skilningsleysi og pólitísk sjónarmið yfirstjórnenda stofnunarinnar sem hafa fyrst og fremst litið á áætlanagerðina ekki sem efnahagslegt stjórntæki, heldur sem afsökun fyrir aðgerðaleysi eða hrossakaupum, því að það er staðreynd, sem nauðsynlegt er að líka komi hér fram, að áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur verið notuð sem afsökun fyrir aðgerðaleysi á ýmsum sviðum, — aðgerðaleysi sem er ekki áætlanadeildinni að kenna, heldur pólitískum yfirstjórnendum hennar og öðrum pólitískum forustumönnum þjóðarinnar, að nauðsynleg framfaramál hinna dreifðu byggða hafa verið söltuð með því að vísa þeim í hina svokölluðu áætlanagerð hjá Framkvæmdastofnuninni. Það væri fróðlegt ef hv. þm. Tómas Arnason gæti upplýst okkur um það hér, vegna þess að ég tók ekki eftir því að það kæmi fram í þeirri yfirgripsmiklu og ítarlegu ræðu sem hann flutti hér fyrir nokkrum dögum og hélt áfram í dag, hvað eru margar áætlanir sem samþykkt hefur verið að láta áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar gera. Þm. vill kannske upplýsa það strax. (TÁ: Þær eru margar.) Hvað margar? (TÁ: Ég hef ekki töluna alveg tiltæka, en þær eru mjög margar.) Þær eru svo margar að þeir hafa ekki einu sinni tölu á þeim lengur. (TÁ: Af ýmsu tagi.) Það er alveg rétt, þær eru af ýmsu tagi.

En kjarni málsins er sá að miðað við núverandi starfskrafta áætlanadeildarinnar mundu þeim ekki endast árin til aldamóta til að ljúka við allar þær áætlanir sem samþykkt hefur verið að gera. Hún hefur ekki nokkra minnstu möguleika til að vinna þótt ekki væri nema brot af öllum þeim áætlunum sem henni hefur verið falið. Og það er einn liðurinn enn í þessari stórkostlegu blekkingariðju, sem farið er að nota Framkvæmdastofnunina til að reka gagnvart landsbyggðinni í heild og fólkinu sem berst í bökkum í sjávarþorpum og sveitum þessa lands, að telja þeim trú um að það sé verið að sinna brýnustu hagsmunamálum þeirra á skipulagsbundinn hátt í áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það er ekki verið að því. Allar yfirlýsingar hæstv. stjórnenda þessarar stofnunar og annarra í þessum efnum eru blekkingar, notaðar til þess að friða þetta fólk, til að þurfa ekki að gera neitt í málinu, til að geta komið sökinni yfir á einhvern annan, og það er alvarlegt mál. Það er alvarlegt mál, þegar íbúum Bakkafjarðar, íbúum Borgarfjarðar eystri, þegar íbúum í öðrum byggðarlögum á Austurlandi, þegar íbúum í Norður-Þingeyjarsýslu, þegar íbúum á Vestfjörðum er sagt að það sé verið að vinna að áætlun um þróun þeirra byggðarlaga. Þetta hljómar ósköp vel, þetta er málað fögrum litum, en staðreyndin er sú að það er ekki verið að gera neitt í þessum efnum, — ekki neitt. Það eru engir menn hjá Framkvæmdastofnun ríkisins sem eru að vinna að yfir 30% af þessum áætlunum. Og það hefur ekki verið gert ráð fyrir að nokkrir menn mundu vinna að þeim á næstu árum.

Það væri manndómslegra af stjórnendum þessarar stofnunar, og ég vona að Sverrir Hermannsson, hv. 3. þm. Austurl., fylgi hreinskilni sinni eftir og gangi næst fram og tilkynni þessu fólki að allar þessar yfirlýsingar um að það sé verið að vinna áætlanir um þeirra byggðarlög og framtíð þeirra séu blekkingar, vegna þess að það er hvorki til mannafli né gögn né nægileg sérþekking hjá áætlanadeildinni til að gera þetta. Það stafar ekki af viljaleysi þeirra manna sem vinna hjá stofnuninni, ég vil taka það skýrt fram. Þeir hafa gert sitt besta við ömurlega erfiðar aðstæður. En það er pólitískur viljaskortur stjórnvalda, sem m. a. á kannske að fylgja eftir með því að draga enn frekar úr starfsemi þessarar áætlanadeildar ef vilji hv. þm. Ellerts B. Schram og Guðmundar H. Garðarssonar nær fram að ganga. En það skulu þeir vita að í kringum Ísland eru þúsundir manna í dreifðustu byggðum, sjávarþorpum og sveitum, sem hafa trúað þessum yfirlýsingum, sem hafa lagt allt sitt traust, sína framtíðarvon, sem halda áfram að búa í sinni byggð vegna þess að þeir trúa því að einhverjir sérfræðingar fyrir sunnan muni einu góðan veðurdag birtast með hina miklu áætlun um þeirra framtíð. (GHG: Þeir hafa nóg að gera úti á landi, hv. þm.) Það er rétt, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að þetta fólk hefur nóg að gera. En þetta fólk á sér líka vonir og drauma um sín byggðarlög. (GHG: Og stendur við það.) Það vill ekki standa í stað. Nei, því miður, þá stendur það ekki við það. Spurðu hæstv. menntmrh. hvað hafi orðið af þessum 300 mönnum, sem bjuggu í hans heimasveit þegar hann kom fyrst á þing, og þeim 30 sem nú eru eftir. Farðu í Bakkafjörð, hv. þm., og ræddu við fólkið, — það er ekki nóg að ræða við vesturþjóðverja og breta, — ræddu við sjómenn í Borgarfirði eystra og Bakkafirði og annarsstaðar í kringum landið. Þá muntu komast að raun um að þetta fólk á sér drauma. Það á sér miklar framtíðarvonir um sín byggðarlög og það hefur sett allt sitt traust á, að yfirlýsingar um áætlanagerð í þágu þessara byggðarlaga séu annað en orðin tóm og það verði kerfisbundið unnið að því að byggja upp höfnina, byggja upp fiskiskipaflotann, byggja upp vegakerfið, byggja upp samgöngurnar við þeirra byggðarlög.

Það er ábyrgðarhluti fyrir hæstv. stjórnvöld í þessu landi að halda áfram að blekkja stóran hluta þjóðarinnar á þennan hátt. Það er miklu nær að koma þá hreinskilnislega fram og segja: Við höfum ekki mannafla í áætlanadeildinni til að vinna þetta, Framkvæmdastofnun ríkisins hefur ekki nokkra möguleika til þess að ljúka nema kannske 5% af öllum þeim áætlunum sem henni hefur verið falið að ljúka á næstu 10 árum og velja þá þær áætlanir sem mikilvægastar eru taldar.

Vestfirðingum hefur t. d. verið sagt að það sé verið að vinna að áætlun fyrir þá. Það vill svo til, að ég er dálitið kunnugur því efni. Sú áætlun verður ekki tilbúin fyrr en einhvern tíma á næsta áratug, ef hún verður tilbúin þá, ef ekkert verður að gert. Það var einn maður, námsmaður í sumarleyfi, að vinna að þeirri áætlun í sumar. Hann gat lítið gert. Svo hélt hann áfram sínu námi. Þá kom að vísu annar maður, en hann gat ekki haldið áfram því sem hann var að gera, því að hann hafði ekki til þess sérþekkingu, og fór að gera allt annað.

Ég held að það væri gagnlegt fyrir hv. þm. Vestf. að ganga upp í Framkvæmdastofnun og í raun og veru ganga úr skugga um hvað er verið að gera varðandi Vestfjarðaáætlun. Það var á árum viðreisnarstjórnarinnar mjög frægt plagg sem hét Vestfjarðaáætlun og var eins konar draugur hér í þingsölum og leyniplagg um áraraðir. Ég vona fyrir vestfirðinga hönd að það fari ekki eins um þessa áætlanagerð.

Nei, staðreyndin er því miður sú að Framkvæmdastofnun ríkisins hefur algerlega brugðist því meginhlutverki, sem henni var ætlað að gegna, að vera kjarninn í skipulagsbundinni efnahagsstjórn á Íslandi, og í staðinn hefur hún tekið upp smáskammtalánapólitík klassískra íslenskra stjórnmálastofnana, sem fjölmargar aðrar stofnanir í landinu stunda: bankar, fjárfestingalánasjóðir, og er í raun og veru engin breyting frá því ástandi sem áður var. Og af því að hv. þm. Tómas Árnason eyddi löngu máli hér í dag í að flytja okkur útþynntan fræðilegan fyrirlestur um mismunandi tegundir áætlanagerða, sem út af fyrir sig var gagnlegt fyrir hæstv. þingheim að fá að heyra, þá óska ég eftir því að hann komi hér aftur upp og hafi þá meðferðis ítarlega lýsingu á öllum þeim áætlunum, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið falið að gera, og segi okkur hreinskilnislega mat forstöðumanna deildarinnar á því hvenær hægt verði að ljúka þessum áætlunum, svo að fólkið í landinu fái að vita hvar það í raun og veru stendur.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hélt hér fyrir nokkrum dögum í umr. um þetta mál athyglisverða ræðu um sjávarútveg á Reykjavíkursvæðinu. Það var út af fyrir sig margt satt í þeirri ræðu. Ég er sammála hv. ræðumanni um að það er nauðsynlegt að halda áfram að byggja upp sjávarútveg á höfuðborgarsvæðinu. En mér fyndist, að hann hefði mátt geta þess í sinni ræðu að það er verið að byggja hér upp — og langt á veg komið — stærsta og glæsilegasta frystihús í landinu, og þegar því verður lokið eftir 1–2 ár, þá verður hér í Reykjavík stærsta og glæsilegasta frystihús sem íslendingar hafa byggt. Og Reykjavík er vel sæmd af slíku frystihúsi. En þegar menn eru að gera úttekt á ástandi sjávarútvegs á höfuðborgarsvæðinu, þá má ekki gleyma því stórvirki sem er hér nokkur hundruð metra frá þinghúsinu, sérstaklega ekki vegna þess að hv. þm. hefði getað notað þetta frystihús sem ágætt dæmi um einkaframtakið á Íslandi. Þegar er nú orðið svo lítið um dæmi um ágæti einkaframtaksins á Íslandi, þá finnst mér að hv. þm. hefði ekki átt að gleyma þessu.

Það frv., sem hefur orðið tilefni þeirra víðtæku umr. um Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðastefnu, byggðaþróun, áætlanagerð og annað slíkt, felur það í sér að breyting verði gerð á yfirstjórn stofnunarinnar og einum embættismanni verði falið verk þeirra tveggja eða þriggja fulltrúa ríkisstjórnarflokka sem gegnt hafa þessu starfi frá upphafi stofnunarinnar. Ég get út af fyrir sig stutt það að sú breyting verði gerð. En ég er andvígur því að sú staða verði sett í sama sess og aðrar embættisstöður hjá hinu opinbera, líkt og ráðuneytisstjórastöður eða bankastjórastöður. Ég held að í þessa stöðu eigi að ráða menn til skamms tíma og þar eigi að vera eins konar stjórnmálalegir fulltrúar valdhafanna í landinu, ekki stjórnmálamenn að atvinnu, ekki þm., en sérstakir stjórnmálalegir trúnaðarmenn valdhafanna í landinu.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt fyrir lýðræðislega þróun á Íslandi að það verði haldið áfram á þeirri braut sem hafin var með breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, að ráðh. var gert kleift að hafa samferða sér í rn. sérstakan stjórnmálalegan trúnaðarmann. Það hefur verið talað mikið um embættismannakerfið á Íslandi. Við heyrðum í sjónvarpi í gærkvöld einn af aðalkóngum þess kerfis um áraraðir lýsa ágæti þessa kerfis og harma gagnrýni á það. Málið er ekki alveg svona einfalt. Þessi þróun á Íslandi hefur í sér fólgna mikla galla. Hún hefur í sér fólginn þann megingalla að stór hluti af valdinu í þjóðfélaginu er ekki bundinn neinni raunverulegri lýðræðislegri ábyrgð. Það eru valdaaðilar í þessu landi, í rn., í stjórnstofnunum og annars staðar, sem í krafti venju, sérþekkingar og annarrar stjórnkerfisaðstöðu hafa komið sér upp — ég segi ekki persónulega, heldur fyrir sínar stofnanir — valdaaðstöðu sem að litlu leyti er háð lýðræðislegu eftirlíti eða jafnvel opinberri umr. í landinu. Og ég held að það væri vel þess virði fyrir Alþingi íslendinga að beita sér fyrir breytingum í þessu efni, — breytingum sem fælu það í sér að í ýmsum veigamestu stöðum embættiskerfisins yrðu ekki lífstíðarembættismenn, — ég segi ekki stjórnmálamenn og ég undirstrika það, — heldur sérstakir stjórnmálalegir trúnaðarmenn ríkisstj. hverju sinni, og Alþ. skapi sér þannig aðstöðu til þess að hafa meira eftirlit með aðgerðum embættiskerfisins með því að fela þm. að taka málefni þessara stjórnstofnana til eftirlits og umr. reglubundið og mjög ítarlega.

Ég er þess vegna ekki fylgjandi því frv., sem hér hefur verið lagt fram af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni o. fl., í óbreyttri mynd. Ég væri hins vegar reiðabúinn til samstarfs við hv. þm. um að gera breytingar á frv. sem fælu það í sér að staða þessa embættismanns yrði að nokkru leyti sérstök og líkari þeim pólitísku trúnaðarstöðum sem settar voru í stjórnarráðin, miðað við breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands fyrir nokkrum árum.

Ég hef eytt e. t. v. of löngum tíma hv. d. til þess að ræða um þetta litla frv. sem hér liggur fyrir. En það vill nú stundum verða þannig, eins og hv. þm. Jón Skaftason vék að hér fyrr í dag, að á miklum örlagatímum í lifi þjóða geta lítil mál kristallað það sem einna helst er í hnotskurn hvað örlög þjóðarinnar snertir á hverjum tíma. Og það væri ekki Alþingi íslendinga til sóma að eyða löngum tíma í að ræða um form þessarar stofnunar þegar það liggur ljóst fyrir að einn af aðalstjórnendum þessarar stofnunar, ábyrgur þm., einn af aðalvaldamönnum í stjórnkerfi landsins, hv. þm. Sverrir Hermannsson, hefur í viðtali við Morgunhlaðið 19. okt. kveðið upp slíka dóma yfir stjórnarstefnunni í landinu að ef þeir eru réttir, þá hlýtur Alþingi íslendinga í vetur að haga vinnubrögðum sínum á allt annan hátt en hæstv. ríkisstj. hefur lagt málin upp nú þegar. Því vil ég að lokum þessa máls ítreka þá beiðni við hæstv. forseta að þessu máli verði ekki lokið hér í kvöld, heldur gefist okkur tími til þess, þegar hv. þm. Sverrir Hermannsson kemur aftur í þessa d., ekki til að ræða við hann um hvort hann eigi að vera kommissar eða ekki kommissar, hvort kommissarastjórn hans sé siðspillt eða ekki siðspillt, hvort hann hafi svikið stefnu Sjálfstfl. eða ekki svikið stefnu Sjálfstfl., heldur ræða við hann um þær merkilegu, en efnislega ömurlegu yfirlýsingar sem hann hefur birt þjóðinni allri og íbúum landsbyggðarinnar sérstaklega, einkum norðlendingum og austfirðingum, í aðalmálgagni ríkisstj. Það eru þau mál sem við ættum fyrst og fremst að ræða í tengslum við byggðaþróun í landinu og umr. um Framkvæmdastofnun ríkisins.