26.02.1976
Sameinað þing: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

135. mál, fiskileit og tilraunaveiðar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorður, en ég sé ástæðu til að standa upp og lýsa ánægju minni með þann mikla áhuga sem nú kemur fram í tillöguflutningi á hv. Alþ. fyrir auknum rannsóknum, og ég ætla að vonast til þess að menn minnist þess þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga næst. Ég held að a.m.k. þrjár till. liggi fyrir um miklar rannsóknir, allar mjög nauðsynlegar, sem allar krefjast ekki milljóna, heldur líklega milljónatuga útgjalda.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. frsm., að við íslendingar verjum til rannsókna líklega innan við 0.5% af þjóðartekjum. Þetta kom einnig fram í skýrslu hæstv. menntmrh. nýlega. Eru aðeins tvö lönd í Vestur-Evrópu sem eru okkur lakari að þessu leyti, og það eru Portúgal og Grikkland. Nú veit ég ekki hvort mönnum þykir mikill sómi að því að vera í þeim félagsskap.

Það, sem er um að ræða í þessari till., eru auknar rannsóknir og tilraunir með nýjar fisktegundir, og tek ég undir mikilvægi slíkra athugana. Ræðumaður vitnaði nokkuð í skýrsíu þá sem hefur komið út á vegum Rannsóknaráðs ríkisins um þróun sjávarútvegs. Skýrsla þessi er unnin af einstaklingum í starfshópi sem þar var tilnefndur, og þótt eflaust megi finna margt að þessu frumverki, þá tel ég þó að þarna sé tvímælalaust farið út á mjög athyglisverða braut sem ber að halda áfram og reynt sé stöðugt að skoða hver framtíðarþróun er líkleg í okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Mikið hefur verið vitnað til þeirrar skýrslu og fagna ég því út af fyrir sig. Ég held að þessi skýrsla sýni og sanni að við íslendingar viljum líta á okkar atvinnugreinar, m.a. þessa mikilvægu atvinnugrein, sjávarútveginn, af raunsæi og líta vel fram í tímann og koma við þeirri virku stjórn sem er nauðsynleg ef þessi atvinnugrein sem og aðrar eiga að vera þeir hornsteinar í íslenskum þjóðarbúskap sem við viljum. Þarna kemur fram að þorskstofninn er í hættu. Ég fagna því, sem er e.t.v. aðalatriðið í þessari þáltill., að gert er ráð fyrir að leggja ekki upp laupana, gefast ekki upp og leggja meginhlutanum af flotanum, kannske um lengri tíma, heldur leita að nýjum möguleikum til að nýta þennan flota. Er bent á fiskstofna sem gætu þjónað því markmiði. Þarna er sem sagt um stefnubreytingu að ræða, en ekki uppgjöf, og undir þetta vil ég sérstaklega taka.

Þær tegundir eru þarna nefndar, loðnan og kolmunninn, sem fyrst og fremst koma til greina, og vafalaust er að kolmunninn mun á næstunni nýtast miklu meira en verið hefur til manneldis. Þar fara fram athyglisverðar tilraunir. Ég get t.d. getið þess mönnum til fróðleiks að fyrirtæki það í Skotlandi, sem kaupir þara héðan og framleiðir úr honum alginöt, er nú að gera tilraunir með að búa til úr kolmunnamarningi fisk eða sem sagt líma hann saman aftur, og þeir sögðu okkur nýlega að af 8 mönnum, sem fengu að reyna þetta. gátu fimm ekki fundið muninn á góðum þorski og kolmunnanum þegar hann var settur í svipaða lögun. Þetta sýnir kannske hvað er hægt að gera með nýrri tækni. E.t.v. verður þarinn okkar til þess að búa til þorsk úr kolmunna. Ég held að það eigi að auka þessa leit verulega.

Ég má ekki hafa um þetta allt of mörg orð, því að fundatíminn er senn útrunninn. Ég stóð fyrst og fremst upp, eins og ég segi, til að fagna þessari till., þeim áhuga sem fram hefur komið. En ég vil líka vekja athygli á því um leið að Hafrannsóknastofnunina vantaði 30 millj. á síðasta ári til að ná saman endum fjárhagslega, og eftir því sem ég best veit, þá er hún enn þá 18 millj. undir. Ég hygg að búið sé að veita aukafjárveitingu upp á eitthvað í kringum 12 millj.

Hafrannsóknastofnunin hefur aðeins tvö fullkomin hafrannsóknaskip til umráða. Þau eru mikið notuð. Hafrannsóknastofnunin gerir áætlun um starfsemi sína og leggur þar að sjálfsögðu kannske nokkuð mismunandi áherslu á einstaka þætti sem allir eru ákaflega mikilvægir. Hafrannsóknastofnunin hefur sinnt þeirri leit, sem hér um ræðir, í litlum mæli því að hún hefur ekki haft fjármagn og aðstöðu til þess. Þess vegna vil ég ljúka þessum orðum með því að leggja á það höfuðáherslu að ef sinna á þessum mikilvægu þáttum verður að stórauka fjárveitingu til Hafrannsóknastofnunarinnar, ekki með sérstökum skatti á þjóðina í þessu skyni, ég get ekki tekið undir það, heldur með ríflegri fjárveitingu og með fleiri tilrauna- og rannsóknaskipum.