26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

168. mál, flugvallagjald

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, þá er á þskj. 377 komin fram brtt. frá minni hl. fjh.- og viðskn. varðandi það frv. sem hér er til umr., frv. til laga um flugvallagjald.

Eins og hv. síðasti ræðumaður vek að, er í því frv., sem hér um ræðir, um verulega lækkun að ræða frá því sem áður var og þess vegna er það jákvætt svo langt sem það nær. Menn greinir hins vegar á um hvort eigi að taka slíkt gjald eða slíka skattlagningu á þessum tilteknu leiðum. Um það er deildar meiningar. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn. gera till. um að slík gjaldtaka verði felld niður á innanlandsflugi. Og það er rétt, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vél. hér að, að það er í raun og veru ekki raunhæft að taka upp slíka skattheimtu á sama tíma og neitað er um af meiri hl. alþm. að gera þá slíkt hið sama á öðrum samgönguleiðum, þó að þar sé um bifreiðar að ræða og þá gjaldtöku vegna veggjaldsins.

Ég á hins vegar ekki von á því að þessi brtt. stjórnarandstæðinga verði samþ. hér á hv. Alþ. Ég sem sagt geri ráð fyrir því að hún verði felld. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. á þskj. 382 sem er á þá leið að tekjum af þeim skatti, sem innheimtur er af innanlandsfluginu, verði varið til framkvæmda í flugmálum hér innanlands.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að framkvæmdir og ástand í flugmálum: flugvallagerð, öryggisútbúnaður flugvalla og annað slíkt, er í miklum ólestri.

Ég vitnaði til þess í gær við 1. umr. þessa máls að á s.l. hausti, þegar fjárl. voru afgreidd fyrir árið 1976, þá var rækilega á það bent af hálfu flugmálastjóra að ef ekki yrði veitt meira fjármagn til framkvæmda í flugmálum heldur en fjárlagafrv. og síðan fjárl., eins og þau voru samþ., gerðu ráð fyrir, þá stefndi í algjört óefni í sambandi við flugmál og ekki síst í sambandi við öryggismálin. Í viðtali við flugmálastjóra, sem átti sér stað í dagblaðinu Tímanum í desembermánuði, gerir hann sérstaka grein fyrir því að með slíkum niðurskurði á fjárveitingum til flugmála, eins og fjárlagafrv. og fjárl., eins og þau voru afgreidd hér á Alþ. fyrir árið 1976, gera ráð fyrir, sé stefnt í stóraukna slysahættu í innanlandsfluginu vegna fjárskorts og að það sé fyrirsjáanlegt að verði ekki bót á ráðin með frekari fjárveitingu til flugmála, þá muni þurfa að loka flugvöllum úti á landi, en flugsamgöngur eru, eins og hv. þm. mun flestum kunnugt, aðalsamgönguleið og samgöngutæki heilu landsfjórðunganna. Ég tel því sjálfsagt og rökrétt að sé skattheimta tekin eins og hér er gert ráð fyrir í sambandi við flugvallagjaldið, þá renni tekjur af því til framkvæmda í flugmálum innanlands. Og út á það gengur þessi brtt. mín.

Ég þarf ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Þetta er öllum hv. alþm., að ég vona, ljóst og þessi till. er flutt vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. nái hér samþykki, þannig að stjórnarliðar haldi beint sem horfir og þeir hafa markað. Og það verður þá látið á það reyna hvort þeir vilji ekki jafnframt þessari gjaldtöku leggja sitt af mörkum til þess a.m.k. að minnka þá slysahættu, sem flugmálastjóri taldi að stefnt væri í með naumum fjárveitingum til flugmála, með því að láta andvirði þessa skatts renna til framkvæmda í flugmálum.