26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

168. mál, flugvallagjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. þessar um of, en ég vildi í tilefni af því, sem komið hefur hér fram hjá hv. þm., aðallega hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, benda á það að með þessu frv. er verið að draga mjög úr skattheimtu af farmiðum í flugi á innanlandsleiðum frá því sem var í tíð þeirrar ríkisstj. sem hv. þm. studdi og stóð fyrir því þá að lagður var söluskattur á flugmiða í innanlandsflugi. Þessi söluskattur, sem hv. þm. studdi að var lagður á í hans stjórnartíð og meira að segja var samgrh. sjálfur úr hans eigin flokki, hann hefði numið núna um 1400 kr. á farmiða fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur. Nú er lagt til í þessu frv. að lækka þennan flugvallaskatt niður í 200 kr. aðra leiðina, 400 kr. báðar. Um er að ræða sem sagt með þessu frv., ef það verður að lögum, að það er tekinn 1000 kr. minni skattur af farmiða fram og til baka á flugleiðinni Akureyri–Reykjavík heldur en var í stjórnartíð flokks þessa ágæta manns sem var að tala áðan og manni virtist að fyndi þessu frv. allt til foráttu.

Ég vil aðeins benda á þetta og eins það, að flugvallagjaldið, sem lagt var á á innanlandsleiðum, var arftaki söluskattsins, og var strax spor í rétta átt að það skyldi vera jafnað á milli allra landsmanna, hvar sem þeir bjuggu, en að ekki skyldi lagður þyngri skattur t.d. á Egilsstaðabúa heldur en akureyringa ef þeir notuðu flugvél o.s.frv. Ég lít því bæði á þetta frv. og eins þegar upp var tekið flugvallagjald í staðinn fyrir söluskattinn sem spor í rétta átt. Sjálfsagt væri gott og blessað ef við treystum okkur til að fella þetta flugvallagjald niður með öllu. Ég gel að mörgu leyti tekið undir það. Hins vegar er hér um að ræða ákveðinn áfanga í rétta átt og því styð ég þetta frv.

Nú ég skildi ekki hv. 5. þm. Suðurl. Hann ýmist ráðlagði hæstv. ráðh. að halda þessum flugvallaskatti óhreyttum eða vildi leggja hann niður með öllu. Ég mundi, ef ég væri hæstv. ráðh., ekki telja svona ráðleggingar mjög stefnumarkandi um það hvað ætti að gera. Og hans ræða var öll slík að ég efast um að nokkur hv. þm. hafi skilið hvað hann meinti. (Gripið fram í: Ráðh. skilur það.) Það getur verið. Það er oft talað um þetta, að leggja gjald á flugmiða í innanlandsflugi og söluskatt t.d. á póst og síma, sem var gert líka í tíð fyrrv. ríkisstj. undir forustu Hannibals Valdimarssonar sem ég veit að hv. 5. þm. Vestf. þekkir mætavel. Hann tók upp söluskatt á símgjöld sem leggst mjög þungt á fólkið úti á landi sem þarf að borga hærri símgjöld en höfuðborgarbúar, eins og hér hefur oft komið fram. Auðvitað þarf að vinna að því að breyta þessu. En þetta verður ekki gert í einu vetfangi. Ég lít svo á að með þessu frv. sé stefnt í þá réttlátu átt að draga úr skattheimtu á þá þjónustu sem fyrst og fremst er í þágu landsbyggðarinnar. Því styð ég þetta frv.