26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Garðar Sigurðsson; Herra forseti. Þar sem hv. 2. þm. Austurl. getur ekki verið hér til að mæla fyrir sínu nál., þá vil ég fyrir hönd okkar Alþb.manna gera nokkra grein fyrir því nál. og þeim brtt. sem minni hl. n. flytur.

Það var ljóst þegar olía hækkaði skyndilega mjög í verði fyrir hálfu þriðja ári að þá yrði ekki komist hjá því að finna úrræði til þess að hjálpa þeim nokkuð sem þurftu að kynda hús sín með olíu. Til þess ráðs var þá gripið að leggja á 1% söluskattsstofa til þess að nota í þessu skyni. Það má segja, að þá var mikil þörf á að gera þetta, en nú hins vegar brýn nauðsyn vegna mikilla olíuhækkana á tímabilinu. Á s.l. ári gerði eitt söluskattstig um 1200–1250 millj. kr., og þá skiptust þessir fjármunir þannig niður að einstaklingar fengju til þess að létta á sínum kostnaði 750 millj. kr. af þessari upphæð. Hinar 500 millj., sem eftir voru, fóru til rafveitna 55 millj. og til Orkusjóðs rúmar 400 millj.

Það er nauðsynlegt að framlengja þessi lög, þ.e.a.s. halda áfram þessum stuðningi, og álítið að á næsta tímabili muni söluskattsstigið gefa af sér um 1250 millj. kr. Við þær breyt., sem gerðar hafa verði á frv. í hv. Ed., að hækka olíustyrkinn úr 8200 kr. í 9500 kr., þá lítur útkoman úr því dæmi þannig út að til einstaklinga, sem eru 78 þús., munu renna 741 millj. hr. Til rafveitna er álítið nauðsynlegt að hækka nokkuð í krónutölu það framlag sem var veitt í fyrra og sú upphæð verður um 85 millj. kr. Eftir verða þá til Orkusjóðs 424 millj. kr.

Upphaflegur tilgangur laganna var að hjálpa þeim sem mest voru hjálpar þurfi í þessum efnum, þ.e.a.s. því fólki sem úti um landsbyggðina þurfti að kynda með olíu. Nú er ljóst, að með frv., eins og það kemur frá Ed., fá einstaklingar ekki nema 741 millj. kr. af allri upphæðinni. Þessir 78 þús. einstaklingar eru 36% þjóðarinnar. Þessi 36% þjóðarinnar greiða í söluskatt eins og aðrir. Hlutur þeirra í söluskatti mun vera, ef reiknað er með meðaltali, um 450 millj. kr. Þeir eiga sem sagt að fá skv. frv. 741 millj., láta af hendi 450 millj. og fá þess vegna einungis í sinn hlut 291 millj. kr. Þarna er á ferðinni mjög mikið óréttlæti að mínu mati. Ég lít svo á að sú hækkun, sem gerð var í Ed., sé allt of lítil, þannig að til einstaklinga verði upphæðin hækkuð úr 9500 kr. í 13500 kr. Ef það dæmi er reiknað til enda, þá kemur það út, að ef miðað er við 78 þús. einstaklinga, sem fengju í sinn hlut 13500 kr., þá fengju þeir 1053 millj. kr. Til rafveitna færu þá 85 millj., eins og gert er ráð fyrir, en afgangurinn yrði að öllum líkindum um 112 milla. kr. Hluti þessa afgangs færi til þess að greiða lífeyrisþegum meira en öðrum í bætur ef brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. verður samþ., þar sem lagt er til að lífeyrisþegar fái ekki aðeins 11/2 styrk einstaklings, heldur tvöfaldan. Afgangurinn af því rynni þá til Orkusjóðs.

Sannleikurinn er sá, að ef hafður er í huga hinn upphaflegi tilgangur þessarar lagasetningar, þá virðist vera augljóst að það er með öllu óeðlilegt að þeir, sem kynda með olíu, standi undir svo miklum kostnaði við hitaveituleit, enda hafa þeir fjármunir verið notaðir til alls kyns greiðslna til þess fyrirtækis. Ég lít svo á að mikill hluti þeirra, sem þurfa að kynda með olíu, sjái ekki fram á, hvorki í náinni framtíð né þó að lengra sé litið, að þeir hafi möguleika til að fá heitt vatn til kyndingar, og er þess vegna óeðlilegt að þeir standi svo mjög undir þeim kostnaði. Mér finnst hins vegar eðlilegra að þeir, sem kynda sín hús með miklu ódýrari aflgjafa, þ.e.a.s. heitu vatni, sem er a.m.k. þrisvar sinnum ódýrara eða allt að fjórum sinnum ódýrara en að kynda með ollu, þeir verði skattlagðir að einhverju leyti til þess að standa undir auknum hitaveituframkvæmdum og hitaveituleit. Ég get þess vegna stutt þá till., sem hv. þm. Karvel Pálmason hefur flutt á þskj. 381, að lagt verði aukagjald á gjaldskrá hitaveitna og það fjármagn notað í þessu skyni, enda í alla staða réttlátara og verður til meiri jöfnunar á kyndikostnaði, og við stöndum væntanlega allir að því hér, jafnaðarmenn á hv. Alþingi.

Ég vil biðja hv. þm. að athuga mjög vel afstöðu sína til þeirra brtt. sem bornar eru fram af minni hl. hv. fjh.- og viðskn. á þskj. 380. Þær brtt., eins og ég sagði áðan, eru fólgnar í því að veita langtum stærri hluta af söluskattstekjunum til þess að styðja einstaklinga til olíukaupa, en skera hins vegar niður þann hluta sem rennur til Orkusjóðs. Ef þeir skoða hug sinn vel, sérstaklega þeir sem eru úr dreifbýlinu og hafa margsinnis látið í það skína að þeir bæru hag dreifbýlisins fyrir brjósti, þá vona ég að ég eigi ekki eftir að sjá hendur þeirra á lofti gegn þessum brtt. því að þá eru þeir að greiða atkv. gegn hagsmunum sinna umbjóðenda.