26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að hluti af þeim tekjum, sem hér á að afla, skuli renna til Orkusjóðs til að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða. Ég vil sérstaklega í tilefni af ræðu síðasta hv. ræðumanns taka það fram, að vitaskuld er þetta fé fyrst og fremst vegna þeirra sem ekki búa við hitaveitur, heldur hafa dýrari upphitun eins og olíuhitun. Tilgangurinn með þessu er sá að hraða hitaveituframkvæmdum, undirbúningi og framkvæmdum, má segja.

Það hefur orðið ákaflega mikil breyting nú á skömmum tíma í þessum efnum, því að vorið 1974 lagði þáv. iðnrh. fyrir Alþ. skýrslu um nýtingu innlendra orkugjafa, og kom þar fram að þá var talið að um 2/3 hlutar landsmanna mundu í fyrirsjáanlegri framtíð geta notið hitaveitna, um þriðjungur landsmanna yrði að fá upphitun með öðrum hætti og þá einkum með rafhitun. á s.l. ári hefur verið lögð áhersla á aukna jarðhitaleit og rannsóknir og auknar boranir, m.a. með því að kaupa nýja og stórvirka bora til landsins. Árangurinn hefur þegar komið í ljós, því að í stað þess, að um 2/3 landsmanna áttu að geta notið hitaveitna skv. áætlunum fyrir tæpum tveimur árum, er nú talið að það séu yfir 80% landsmanna sem muni á næstunni geta fengið hitaveitu. Má þar m.a. nefna höfuðstað Norðurlands, Akureyri, sem í áætluninni frá 1974 var talinn á rafhitunarsvæði. Nú er það gjörbreytt, þannig að nú er öruggt að Akureyri fær hitaveitu. Þannig er um aðra staði sem áður voru taldir hafa litla möguleika á hitaveitu.

Það er auðvitað öllum þeim, sem búa utan núverandi hitaveitusvæða, mikið hagsmunamál að þessum undirbúningi öllum sé hraðað, bæði könnun og leit að jarðhita og framkvæmdum í þessu efni. Ég tel því ákaflega mikilvægt að nokkur hluti af þessu fé skuli renna til Orkusjóðs í þessu skyni.

Ég vil taka það fram að á s.l. sumri átti ég viðræður við formann og framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga um fjármögnun vegna hitaveitumála, og fundur var haldinn til að ræða við þessa forráðamenn Lánasjóðsins um það atriði, hvort ekki væri eðlilegt að stefna að því að Lánasjóður sveitarfélaga hefði með höndum samræmingu og samhæfingu í þessum efnum fyrir sveitarfélögin. Það hefur verið þannig að undanförnu að þegar sveitarfélög hafa viljað ráðast í hitaveitur, — Reykjavíkurborg hefur yfirleitt sjálf útvegað sér fé í þessu efni, en varðandi önnur sveitarfélög hefur það oft verið þannig að sumpart er leitað til ríkisstj. og fengið þá lán úr ríkissjóði eða fyrir hans milligöngu, enn fremur leitað til ýmissa einstakra sjóða sem hafa getað hlaupið undir bagga. Ég held að það sé eðlilegt að þar sem hitaveitur eru yfirleitt á vegum sveitarfélaganna, þá verði lánasjóður þeirra miðstöð í þessu efni. Ég get þessa hér vegna þess að ætlunin er að sá hluti af því fé, sem fer til Orkusjóðs og verður varið til hitaveituframkvæmda, gangi um hendur stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga.