26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held, að að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því við umr. um þetta mál, hver var í rann og veru tilgangur þessarar lagasetningar á sínum tíma og til hvers það fé var ætlað sem þarna var gert ráð fyrir. Þegar þetta átti sér stað hafði olíuverð hækkað mjög, og ég á ekki von á því að neinn ágreiningur sé meðal hv. þm. um það, að tilgangurinn með lagasetningunni var sá og sá einn að létta byrði þeirra sem verst urðu úti vegna þess háa olíuverðs. Þetta á ég ekki von á að menn greini neitt á um. Þessi þróun hefur því miður haldið áfram, og er því ekki neitt minni ástæða til þess nú heldur en þá var að gera til þess ráðstafanir að því fólki sem við þær aðstæður býr að þurfa að nota olíu til þess að kynda upp sitt íbúðarhúsnæði, komi þessi lagasetning að sem bestum notum.

Nú er það athyglisvert, af því að margir hv. stjórnarliðar hafa mjög oft tekið sér í munn „stóraukna byggðastefnu“, það er eitt af kjörorðum stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj.: „Stórefling byggðastefnu.“ (Gripið fram í.) Já ég ætlaði nú að koma að því hversu góð stjórn það er í sambandi við byggðamálin. (Gripið fram í.) Það er nógur tími, hv. þm. — Það er athyglisvert þegar þetta er haft í huga, „stóraukin byggðastefna“ sem kjörorð hæstv. ríkisstj., að þá skuli það frv., sem lagt var fram hér að vísu fyrir jól, held ég að ég muni rétt, gera ráð fyrir sömu krónutölu í styrk til einstaklings og hann var ákveðinn fyrir ári, þrátt fyrir það að olíuverð hafi hækkað a.m.k. um 25% á þessum tíma. Þetta er góða stjórnin sem hv. 9. landsk. þm. er að flíka. Hann ætti að segja umbjóðendum sínum á Vestfjörðum og útlista það fyrir þeim hversu góð slík stjórn er í garð þeirra.

En hv. Ed. hefur nú sem betur fer gert bragarbót á þessu frá því að hæstv. ríkisstj. lét málið frá sér fara. En þar er að mínu viti síður en svo nógu langt gengið, miðað við það sem til var ætlast ,í upphafi og hlýtur að vera ætlast til enn. Ég held að það sé öllum ljóst og a.m.k. ætti hv. þm. öllum að vera það ljóst að við þá gífurlegu breytingu, sem hefur átt sér stað á þessu tímabili og orðið þess valdandi að það er gífurlega þungur baggi sem það fólk býr við sem verðum að kynda sítt húsnæði upp með olíu, þá fer ekki hjá því að það verði að gera ráðstafanir til þess að létta þessa byrði hjá þessu fólki.

Það er t.d. þannig núna að það er á bilinu frá 20–25 þús. kr. á hverjum einasta mánuði sem kostar að kynda venjulegt íbúðarhúsnæði t.d. vestur á fjörðum — 20–25 þús. kr. á mánuði — og sjá allir að slík þróun hefur gífurleg áhrif í þá átt að raska enn frekar en orðið hefur byggð hér á landi. Það fer ekki hjá því ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að minnka þann gífurlega kostnað sem þarna hefur átt sé stað, að það verður sífellt meiri ásókn utan af landsbyggðinni á þéttbýlið hér syðra og þá staði sem búa við þær kringumstæður að geta nýtt jarðvarma til upphitunar á íbúðarhúsnæði. Þetta hygg ég að öllum hv. þm. sé ljóst. Ég geri a.m.k. ráð fyrir því að þeim brygði í brún hér á Suðurlandssvæðinu ef þeir þyrftu að snara út 20–26 þús. kr. á hverjum einasta mánuði vegna kostnaðar við upphitun síns húsnæðis. Það mundi þá eðlilega koma einhvers staðar hljóð úr horni.

Ég vil sem sagt taka undir það, að það er mín skoðun að það eigi að ráðstafa því fé, sem inn kemur vegna þessarar skattheimtu, til niðurgreiðslu á olíuverði hjá þeim einstaklingum sem við þær kringumstæður búa, það sé ekki réttlætanlegt að taka svo og svo stóran hluta af því. Þó að ég viðurkenni að það sé til góðs málefnis að hraða framkvæmdum í sambandi við hitaveitu- og raforkuframkvæmdir, þá hvílir þessi skattur svo þungt á tiltölulega stórum fjölda úti á landi að það er ekki framkvæmanlegt annað en að gera ráðstafanir til þess að létta þessa byrði og það verulega.

Ég vil taka það fram strax að ég styð því þær brtt. sem fluttar eru á þskj. 380 og eru fluttar af hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, þar sem gert er ráð fyrir því í fyrsta lagi að breytt verði frá því sem hv. Ed. lagði til, þ.e.a.s. í stað 9500 kr. komi 13 500 kr., og í öðru lagi, sem ég vil taka mjög sterklega undir, að elli- og örorkulífeyrisþegar fái tvöfaldan styrk miðað við aðra einstaklinga, — tvöfaldan, — sem nú er 11/2. Það gefur auga leið að svo erfitt sem það er að standa undir slíkum gífurlegum kostnaði við upphitun hjá fólki sem getur haft og hefur atvinnutekjur, þá er það augljóst að það er nær ókleift fyrir þá einstaklinga, sem einungis hafa úr að spila lífeyristekjum, að standa undir slíkum kostnaði. Það er því lágmark að mínu viti að þeir einstaklingar, sem þannig er ástatt um, fái tvöfaldan styrk.

Ef þessar breytingar yrðu samþ. yrði frv. í þeirri mynd að svo til allir þeir fjármunir, sem inn koma vegna þessa 1% stigs á söluskattsstofn, færu í niðurgreiðslur, plús það að rafveitur fengju nokkurn hluta þar af. Þá stendur eftir að það eru ekki til fjármunir til þess að láta renna til c-liðar, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. til orkusjóðs til þess að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum. Ég sagði áðan að þetta er að mínu, viti líka mjög nauðsynlegur þáttur. En ég tel að hann sé ekki með þeim hætti að það réttlæti að skerða stórkostlega greiðslu olíustyrks til þeirra sem hækkun á olíuverði hvílir svo mjög á sem öllum mun ljóst vera. Ég tel hins vegar að það sé réttlætanlegt, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson ræddi hér um áðan að til þess að afla fjár í þann c-lið, sem frv. gerir ráð fyrir, sé lagt sérstakt aukagjald á þá sem búa við þær kringumstæður að hægt er að hita upp með jarðvarma, sem er a.m.k. fjórum sinnum ódýrara en hjá þeim sem búa við olíukyndingu, — það sé réttlætanlegt að leggja tiltölulega lágt gjald á þá til þess að fá fjármuni til þeirra framkvæmda, sem þarna er gert ráð fyrir, og um leið að jafna þann aðstöðumun sem hér um ræðir. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. á þskj. 381 sem einmitt fjallar um þetta. Það er brtt. við 1. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að leggja 20% aukagjald á gjaldskrár hitaveitna, og í öðru lagi við 2. gr., þar sem gert er ráð fyrir því að tekjum af þessu 20% aukagjaldi verði varíð til Orkusjóðs til þess að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða.

Ég flutti álíka till. fyrir ári þegar sams konar mál var hér til meðferðar í þinginu. Því miður fékk þessi till. atkv. aðeins þriggja hv. þdm. þá Ég vænti þess að þeir, sem þá greiddu henni atkv., séu enn sömu skoðunar Ég fagna því eftir ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar að hann bætist í hóp okkar hinna, og ég vænti þess að fleiri muni sjá, að hér er um réttlætismál að ræða, og að þeir bætist einnig í þennan hóp, ekki hvað síst þeir þm. sem eru frá þeim svæðum þar sem þessi mikli þungi hvílir á þeirra umbjóðendum.

Ég hef ekki nákvæmar tölur um hvað slíkt mundi gefa. En eftir því sem ég fékk upp gefið fyrir ári og ef tekið er tillit til þess, sem gerst hefur síðan, þá hygg ég að hér mundi verða um að ræða um það bit 2511–300 millj. kr. sem þetta 20% aukagjald á gjaldskrár hitaveitna mundi gefa. Og ég tel að það sé verulegt skref í þá átt að fá einnig fé til þess að hraða framkvæmdum í sambandi við hitaveitu- og raforkuframkvæmdir. Ég sagði áðan að ég teldi þetta brýnt verkefni, og eins og lögin voru afgr. frá Alþ. fyrir ári, þá var varið til þessa verkefnis nokkuð stórum hluta af söluskattsstiginu. Nú hefði mér þótt vænt um ef hægt væri að upplýsa í hvaða framkvæmdir þessir fjármunir, sem teknir voru af söluskattsstiginu, hefðu farið, þannig að það væri þá hægt að benda á að þeir fjármunir, sem teknir voru óréttmætt, að ég tel, af þeim sem áttu að fá þá vegna niðurgreiðslu á olíu, ef það væri hægt að sýna okkur fram á að þeir hefðu orðið þessum sömu einstaklingum og aðilum til góðs. Þá má vel vera að það breyttist viðhorf einhverra þm. sem eru svipaðrar skoðunar og ég í þessu máli. Ég vildi a.m.k. mjög gjarnan óska eftir því, ef hægt væri, að fá upplýst um það hvernig þessum fjármunum hefði verið varið, í hvað þeir hefðu farið.

Ég þarf ekki að hafa öllu fleiri orð hér um. Ég sem sagt styð þær brtt. sem minni hl. fjh.- og viðskn. flytur á þskj. 372, en hef leyft mér auk þess að flytja brtt. um það sem ég hef hér gert að umræðuefni. Ég held að það sé alveg augljóst mál, hvað sem menn vilja kalla það, hvort þeir kalla það uppvakningu á togstreitu milli dreifbýlis og þéttbýlis, eins og sumum er tamt í munni nú, þá sé augljóst mál að Alþ. getur ekki gengið fram hjá þeim geigvænlega mismun sem er á því að búa úti á landsbyggðinni á þeim stöðum sem verða að hita hús sin með olíu, borið saman við hina, sem hafa þá aðstöðu að geta nýtt sér jarðvarma og þurfa þannig að borga miklum mun og margfalt sinnum minna en hinir aðilarnir. Það verður að koma til móts við þessa aðila, og því fyrr sem valdhöfum skilst að það þarf að gera, því betra.