26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það var út af orðum hv. síðasta ræðumanns þar sem hann lét að því liggja að rekstur Hitaveitu Reykjavíkur væri a.m.k. ekki vel á vegi staddur. Ég vil nú ekki kveða svo fast að orði. Það að hefði kannske mátt skilja það svo að rekstur Hitaveitu Reykjavíkur væri ekki í lagi. Ég hygg nú að það sé ekkert ofmælt að Hitaveita Reykjavíkur sé með best reknu fyrirtækjum, og ég held að það sé ekki hægt að segja að rekstur hennar sé í ólagi. Það er í þeirri áætlun, sem fyrir liggur og hefur verið lögð fram í sambandi við beiðni um hækkun hitaveitugjalda hér í Reykjavík, gert ráð fyrir því, ef ég man rétt, að uppbygging hitaveitunnar eigi sér stað þannig á þessu ári að til framkvæmda hafi hún 79% af eigin fé og 21% aðeins lánsfé. Ég hefði ákaflega gaman af að mér væri bent á eitthvert einkafyrirtæki hér í landinu sem væri þannig á vegi statt að það gæti byggt sig upp af eigin fé að því er varðar 79% af framkvæmdum, sem það þyrfti að leggja í, og þyrfti ekki að fá nema 21% að láni. Ég held því að það sé ekki ástæða til neinnar vorkunnar að þessu leyti gagnvart Hitaveitu Reykjavíkur. Hitt er annað mál, að Hitaveita Reykjavíkur stendur í samvinnu við nágrannabæjarfélög að lagningu hitaveitu. Þær framkvæmdir kosta fjármagn, og Hitaveitan hefur farið fram á hækkun á gjaldskrá. Vitaskuld verður litið á það og tekin um það ákvörðun. Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir Hitaveitu Reykjavíkur að bera nokkurn ugg í brjósti í sambandi við það að þær framkvæmdir geti ekki haldið áfram með eðlilegum hætti. Ég held að það sé engin ástæða til að ætla að það verði á neinn hátt kreppt þannig að Hitaveitu Reykjavíkur.

Hitt er annað mál, að það getur verið lagt mismunandi mat á hvað sé eðlilegt að fyrirtæki leggi fram beinlínis af eigin fé og að hve miklu leyti það eigi að notast við lánsfé, gerandi þá ráð fyrir að það sé unnt að afla fjár með lánum.

Þetta vildi ég aðeins taka fram af því að mér þótti kenna misskilnings í máli hv. þm. að því er varðar Hitaveitu Reykjavíkur. En hitt er auðvitað rétt, sem hún benti á, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, að vísitalan er miðuð við Hitaveitu Reykjavíkur eingöngu. Það er auðvitað eitt af því sem er óeðlilegt í sambandi við útreikning vísitölu. Ég býst við því að ef fallist væri alveg á þá beiðni sem hefur komið fram frá Hitaveitunni um gjaldskrárhækkun, þá mundi það þýða hækkun a.m.k. á milli 3 og 4 stig, þannig að það er ekkert óeðlilegt þó að menn vilji aðeins velta vöngum yfir því áður en samþ. eru ítrustu kröfur í þessu efni.

Hitt er aftur á móti rétt, sem hefur komið fram í máli manna, að þrátt fyrir að það væri leyfð slík hækkun hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þá er samt ódýrari hitun, sem reykvíkingar byggju við, heldur en margir aðrir landsmenn búa við og miklu ódýrari en unnt er að gera sér vonir um að þeir verði að búa við sem eru núna að byggja upp hitaveitu og leggja heitt vatn á sín svæði. Þetta má segja að sé mjög óeðlilegt, og þess vegna getur út af fyrir sig verið rétt hugsun í því, sem hér hefur komið fram, að það væri eðlilegt að jafna þarna á milli. En ég held að það þurfi nokkuð ítarlegrar athugunar við, og t.d. getur ekki komið til greina að leggja það almennt á allar hitaveitur vegna þess að það er einmitt svo misjafnt hvernig þær koma til með að standa. Þeir, sem nú eru að leggja hitaveitu, verða að greiða há hitaveitugjöld vegna þess að kostnaðurinn við þær reynist mikill.

Það má að sjálfsögðu segja að það mundi verða nokkur hagsbót fyrir alla að fella niður þetta söluskattsstig. En það, sem á bak við býr þetta söluskattsstig og ráðstöfun á því, hefur verið jöfnun, en menn geta auðvitað deilt um hvort sá tilgangur hafi náðst. Hann hefur auðvitað ekki náðst fyllilega, þannig að tekjur af þessu söluskattsstigi hrökkva ekki til að jafna þennan mismun jafnvel þó að þeim væri öllum varið í þessu skyni. En þar að auki hefur verið faríð inn á þá braut, sem menn geta haft líka skiptar skoðanir um, að greiða fyrir jarðhitaleit og framkvæmdum á því sviði og verja nokkru af þessu fé í því skyni.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar. Þetta er í sjálfu sér einfalt mál að taka afstöðu til þessa frv. Það, sem auðvitað liggur á núna, er að framlengja söluskattsstigið ef menn vilja á annað borð hafa þessa fjármuni til ráðstöfunar. Hitt má auðvitað taka upp seinna, ef menn vilja, nánari ákvæði um ráðstöfun á þessu, vegna þess að þetta er ekki greitt út fyrr en eftir á, að nokkrum tíma liðnum. Ef ég hefði ekki staðið upp nema af því að mér fannst e.t.v. hallað á Hitaveitu Reykjavíkur, af því að það var látið liggja að því að hún væri ekki eins vel á vegi stödd og ég held að hún sé, — ég held að hún sé einmitt mjög vel rekin með tilliti til þess að sjá hennar fjárhagslegu þörf borgið — og svo hitt, að segja það, að auðvitað verður þessi beiðni, sem fyrir liggur frá Hitaveitu Reykjavíkur um gjaldskrárhækkun, tekin til afgreiðslu.