26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. iðnrh. gaf hér áðan um að sá hluti þess fjár, sem fer til Orkusjóðs og ætlaður verður til framkvæmda við hitaveitur, fari um Lánasjóð sveitarfélaga. Ég held að þarna sé ótvírætt farið inn á rétta braut. Orkusjóður hefur hingað til aðeins lánað til jarðhitaleitar. Það hefur hins vegar Lánasjóður sveitarfélaga ekki gert. Lánasjóður sveitarfélaga hefur lánað til hitaveituframkvæmda. Þess vegna fagna ég þessari yfirlýsingu. Ég tel að þarna sé staðið einmitt rétt að málum.

Mér fannst hv. þm. Garðari Sigurðssyni takast vel upp hér áðan að tala fyrir munn hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Það voru næstum því sömu hreyfingarnar og sami tónninn og jafnvel sömu tilfæringarnar á gleraugunum, svo að þetta tókst allt mjög vel. En þegar hann hafði reiknað út hvað kæmi út úr dæminu þegar olíustyrkurinn hefði verið hækkaður í 13500 kr. og til rafveitnanna færu 85 millj., þá væru eftir 112 millj. af söluskattsstiginu, og mér skildist Að það ætti þá að mestu að fara til þess að greiða lífeyrisþegum tvöfaldan styrk, þá var sem sagt ekkert eftir. Þannig var málið afgr. Það átti ekkert að fara í Orkusjóð, ekkert til jarðhitaleitar og ekkert til að hraða hitaveituframkvæmdum. En það bjargaði honum að hann fann till. hv. þm. Karvels Pálmasonar sem kveður á um 20% skatt á hitaveitur, og sem sönnum jafnaðarmanni sæmir, þá náttúrlega lýsti hann yfir stuðningi við þessa till. Og síðan lýsti hv. þm. Karvel yfir stuðningi við till. sem hv. þm. Garðar var að mæla fyrir. Þannig styðja þeir hvor annan í kross og er sjálfsagt ekkert nema gott um það að segja. En vegna þess verðsamanburðar, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson var að gera í seinni ræðu sinni, þá vil ég segja að sá verðsamanburður var í hæsta máta villandi. Hann miðar við verð á heitu vatni kr. 39.36 sem er samkv. gildandi gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur. Sú gjaldskrá hefur verið í gildi frá því á miðju ári 1975. Það liggur í augum uppi að sú gjaldskrá hlýtur að hækka. Þá miðar hann við verð á olíu 25.40, sem er rangt verð. Það er 25.30. Og hann tekur ekki tillit til olíustyrksins sem er, ef hann verður samþ. 9.500 kr. Það má reikna með að það séu um 30% sem hann lækkar olíuverðið. Þannig er þessi verðsamanburður rangur og villandi.

Hv. þm. Karvel Pálmason talaði hér um að tilgangur þessara laga hefði í upphafi verið að létta byrði þeirra sem búa við hæstan kyndingarkostnað, og það er vissulega rétt. Og það er tilgangurinn enn. En það þýðir ekki það, að þessu eina söluskattsstigi skuli um aldur og ævi varið til þess að greiða niður olíu þeirra sem kynda hús sín með olíu. Á því tímabili, sem liðið er frá því að þessi lög gengu fyrst í gildi, þá hugsa ég að segja megi að fast að 25 þús. manns hafi fengið hitaveitu. Það þýðir að sjálfsögðu það, að hluta af þessum söluskatti mætti nú fara að verja til hitaveituframkvæmda, og það er það sem ætlunin er að gera í auknum mæli með þessu frv.

Um hitaveituskattinn, sem hv. þm. mælti hér með, þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Þeirri till. hans hefur verið svarað af hv. þm. Svövu Jakobsdóttur og Ellert B. Schram, og ég þarf ekki þar miklu við að bæta. Hv. þm. og skoðanabræðrum hans hefur vafalaust þótt sem þarna hefðu þeir fundið góða leið til þess að koma lagi á íbúa höfuðborgarsvæðisins. En þeim skýst yfir það, þeim góðu herrum, að það eru viðar hitaveitur en í Reykjavík og þær búa ekki allar við sömu gjaldskrá. Við þurfum ekki að fara lengra frá Reykjavík en út á Seltjarnarnes þar sem rekin er sérstök hitaveita. Þar er gjaldskráin talsvert hærri en hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Það eru hitaveitur líka norður í landi og fyrir austan fjall. Með þessum skatti virðist mér, að þessi dreifbýlisþm. hv. ætli enn að auka á mismuninn. 20% skattur kemur auðvitað harðast niður á þeim hitaveitum sem hafa hæstar gjaldskrárnar. Gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur er lægst. Þessi hugmynd held ég að þurfi nánari skoðunar við.

Um ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur skal ég ekki fara mörgum orðum. Þm. kvaðst mundi greiða atkv. gegn 1. gr. frv. Það sýnist mér ekki skynsamlegt að gera vegna þess að þar er komið í veg fyrir að fé fáist til jarðhitaleitar og til að hraða hitaveituframkvæmdum og það er komið í veg fyrir að hitunarkostnaður verði jafnaður.

Um þá aðferð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að viðhöfð verði við greiðslu olíustyrksins, skal ég ekki fara mörgum orðum. Hún er sú sama og gilt hefur undanfarin ár. Og ég get endurtekið það, sem ég hef áður sagt, að ég er ekki ánægður með hana. En ég veit að það þýðir ekki um það að tala, henni verður ekki breytt núna og þess vegna skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Hitaveita Reykjavíkur hefur komið hér nokkuð til umr. Ég tek undir með hæstv. viðskrh. að ég held að óhætt sé að fullyrða að rekstur þess fyrirtækis sé ekki í neinu ólagi. Þvert á móti er það fyrirtæki rekið með miklum sóma. En hæstv. ráðh. nefndi hér að árið 1976 væri gert ráð fyrir að 79% af framkvæmdum Hitaveitunnar yrði fjármagnað með eigin fé, en 21 % með lánsfé. Þessar tölur eru réttar ef tekið er tillit til þess að ákveðin hækkun verði á gjaldskrá Hitaveitunnar, — hækkun sem ekki hefur enn verið samþ. En jafnframt held ég að megi fullyrða að þessar tölur hljóti að breytast. Hlutfall lánsfjárins hlýtur að hækka þar sem miðað er við verðlag á s.l. hausti. Þetta er að vísu hátt hlutfall í eigin fé, en það hefur ekki verið svo á undanförnum árum. Árið 1974 voru framkvæmdir Hitaveitu Reykjavíkur fjármagnaðar með eigin fé að 27.3%, en lánsfé þá 72.7%. Á s.l. ári, 1975, var eigið fé 21.2%, en lánsfé 78.8%. Þetta sýnir að Hitaveita Reykjavíkur hefur á undanförnum árum safnað geysilega miklum skuldum og þau lán, hafa verið tekin til þess að hraða hitaveituframkvæmdum í Reykjavík og í nágrannabæjunum. En það kallar að sjálfsögðu á hækkun gjaldskrár að gengisbreytingar hafa orðið frá því að þessi lán voru tekin.

En nóg um þetta. Ég vil að lokum aðeins segja það, að þegar úr takmörkuðu fjármagni er að spila verðum við að velja og hafna hvernig við ætlum að verja því fjármagni. Ég hygg að menn geti verið sammála um að markmiðið sé að virkja heita vatnið alls staðar þar sem það er mögulegt. Með þessu frv. er ætlunin að verja nokkru fé í þessu skyni. Ef við gerum það ekki, þá tefjum við fyrir þessum nauðsynlegu framkvæmdum.