26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, þó að hér sé um að ræða mál sem er vissulega þess virði að ræða það. Ég hugsa að umræðutíminn, sem í þetta hefur farið hér s dag, skiptist þannig að hv. stjórnarliðar eigi þar drýgri þátt í en við stjórnarandstæðingar, og út af fyrir sig er ég ekkert að lasta það. Þetta er mál sem er þess vert og það fer ekki hjá því að það þarf talsverðrar umr. við.

En af því að sumir hverjir hv. ræðumanna hér hafa vikið örfáum orðum að mér og því sem ég sagði fyrr í dag, þá tel ég ástæðu til að segja aðeins örfá orð. Mér kemur í sjálfu sér ekkert á óvart sú hin mikla þröngsýni sem hv. þm. Ellert B. Schram og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir búa yfir í þessu máli. Þessi þröngsýni þeirra hefur komið fram á Alþ. fyrr, þannig að ég átti ekki von á því að þessir hv. þm. hefðu neitt skipt um skoðun frá því að þessi mál hafa verið hér til umr. áður.

Hv. þm. Ranghildur Helgadóttir sagði að kannske raunhæfasta kjarabótin væri sú að fella niður söluskattsstigið alveg. Líklega er það hugsað í tengslum við þá þróun sem endurgreiðsla á olíuskattsstiginu hefur tekið í höndum núv. hæstv. ríkisstj., sem hefur verið í þá átt að draga alltaf úr endurgreiðslunni og gera því þann jöfnuð, sem stefnt var að, í öfugu hlutfalli við það sem átti að gerast. Ég þykist vita að þessi hv. þm. hefur haft hliðsjón af þessu þegar hann sagði þetta. En eins og hér hefur verið tekið fram, ekki bara af mér, heldur og öðrum hv. þm., þá var þetta gert á sínum tíma til jöfnunar, til þess að jafna, og á auðvitað að halda áfram á þeirri braut.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði að hér væri verið að refsa þeim sem hefðu komið sér upp framkvæmdum með sjálfstæðu átaki. Er þetta nú rétt? Ég held að þessi hv. þm., af því að hann er ungur og upprennandi eins og fleiri, ætti að hafa svolítið víðari sjóndeildarhring en þetta. Hann á ekki að vera svona aftur í grárri forneskju að hugsunarhætti. Það er alls ekki um það að ræða að hér sé verið að refsa þessum aðilum. Það er síður en svo. Það er ekki heldur verið að gera jafndýrt að hita húsnæði á þeim svæðum, sem hitaveita er til staðar á, þó að lagt sé á 20% aukagjald, miðað við það sem þarf að borga úti á landi þar sem olía er notuð til upphitunar. Það er víðs fjarri að verið sé að gera það jafndýrt.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir — ég sakna hennar nú úr salnum — vek nokkrum orðum að mér og flokksbróður sínum, hv. þm. Garðari Sigurðssyni, og fleirum sem lýst hafa yfir stuðningi við þá till. sem ég stend hér að, og taldi að hér væri um vanhugsaðan tillöguflutning að ræða, — þversögn, sagði hún, hugsa ekki rökrétt, vara hv. Alþ. mjög við að taka upp slíkan hugsunarhátt. — Og sú röksemdafærsla, sem hv. þm. beitti, var að dýrtíðin bitnaði líka á lífeyrisþegum í Reykjavík. Ég tek undir þetta með hv. þm. Þetta er alveg rétt. Dýrtíðin bitnar á þeim líka. Hún sagði líka áð hitaveitukostnaður væri nú þegar nógu þungbær í Reykjavík. Vel má vera að þetta sé rétt, að þetta sé hjá lífeyrisþegum. En hv. þm. Svava Jakobsdóttir virðist ekki vera á sömu skoðun og hv. þm. Ragnar Arnalds, form. Alþb., þegar hann lýsti því yfir að Alþb. væri hinn eini og sanni jafnaðarflokkur á Íslandi. Þarna er ekki jöfnuðinum fyrir að fara eða jafnaðarstefnunni hjá þessum hv. þm. Ég skal taka undir það með hv. þm. Svövu Jakobsdóttur að dýrtíðin hjá lífeyrisþegum hér á Reykjavíkursvæðinu — eða ef við tölum ekki bara um Reykjavíkursvæðið líka á þeim svæðum þar sem hitaveitu nýtur við, — dýrtíðarþunginn er ærið mikill. En hvað með lífeyrisþega á hinum svæðunum sem þurfa að borga fjórum og fimm sinnum meira vegna þessa þáttar í lífsbaráttunni heldur en gerist hér á þéttbýlissvæðinu? Hvað með þá? Nú hefði ég gjarnan viljað að hv. þm. hefði verið í salnum vegna þess að ég tel mig vera ekki síður en þennan hv. þm. málsvara þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Ef þetta er eina ástæðan fyrir því að þessi hv. þm. getur ekki greitt atkv. með minni till., að hún bitni svo hart á elli- og örorkulífeyrisþegum hér í Reykjavík, þá er ég reiðubúinn til að gera samkomulag við þennan hv. þm. um að undanskilja þessa aðila á þeim stöðum þar sem hitaveitu nýtur við, en leggja 20% aukagjald á alla aðra. Þá kæmi í ljós hvort það er í rann og veru það, sem ræður hjá þessum hv. þm. að hann ætli að vera á móti till., að hana sé fyrst og fremst að hugsa um elli- og örorkulífeyrisþega. Mér þykir miður að hv. þm. skuli ekki vera í salnum því að ég hefði mjög gjarnan viljað fá svör við þessu. Ef þetta er eina ástæðan sem er þess valdandi að hún mun ekki greiða þessari till. atkv., þá er ég reiðubúinn að gera þá breyt. á till. að undanþiggja elli- og örorkulífeyrisþega á þessum svæðum þessu 20% gjaldi, og þá ættum við að geta verið sammála. Þá sýnist mér kominn grundvöllur fyrir því og við það mætti ég vel una eitt út af fyrir sig, að þá mundi væntanlega fjölga um helming þeim sem greiða till. atkv. frá því sem síðast var. Það er gott skref í áttina ef tekst að fjölga um helming þeim sem vilja greiða slíkri till. atkv. frá því sem síðast var. Ég tók a.m.k. hv. þm. Gunnlaug Finnsson sem svo að hann væri jákvæður í þessu máli. Að vísu lýsti hann ekki beint yfir hvort hann greiddi till. atkv. eða ekki, en ég tók hans ræðu á þann veg að hann væri hlynntur slíkri meðferð málsins. Ég sem sagt vænti þess, að þeir hv. þm. Reykv., sem bera fyrst og fremst fyrir brjósti hag elli- og örorkulífeyrisþega á þessu svæði, sem er lofsvert, — ég vænti þess að þeir muni þá fallast á þessa meðferð málsins og síðan ljá till. þannig breyttri fylgi. Þess vegna hefði ég óskað að hv. þm. Svava Jakobsdóttir hefði verið í salnum og heyrt þetta tilboð mitt til hv. þm. og hefði þá getað svarað og við breytt till. í samkomulagi um þetta þannig að hún fengi þá aukinn stuðning.

Þetta var aðallega það sem ég vildi hér koma á framfæri. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, þar sem hann taldi að ég og þeir, sem væru svipaðrar skoðunar og ég í þessum efnum, værum að reyna að koma lagi á íbúa höfuðborgarsvæðisins, eins og hana orðaði það. Ja, sér er nú hvert lagið! Mér er það alveg ljóst, eins og ég hygg að öllum öðrum hv. þm. sé það ljóst, að það eru víðar hitaveitur en hér á Reykjavíkursvæðinu. (Gripið fram í.) Það er ekki bara verið að tala um höfuðborgarsvæðið. (Gripið fram í.) Og það er síður en svo að við séum hér að stefna að einu eða neinu lagi í garð þeirra íbúa sem hafa þá stöðu að geta búið við betri kjör að þessu leyti en aðrir landsmenn. Það er einungis verið að gera tilraun til þess að jafna þann gífurlega mikla aðstöðumun, sem við höfum staðið frammi fyrir og stöndum frammi fyrir, með því að þeir, sem hafa þetta betri aðstöðu, leggi ofurlítinn hluta af mörkum til þess að létta byrði hinna sem eru miklu, miklu verr settir.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess að enn aukist skilningur á þeim sjónarmiðum, sem ég og þeir aðrir, sem sömu skoðunar eru, hafa sett hér fram, og enn haldi áfram að vaxa fylgi við þetta sjónarmið þannig að það verði ekki langur tími þar til þetta jafnréttissjónarmið nær fram að ganga.