26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Í fyrsta lagi finnst mér einkar athyglisvert að svo til hver einn einasti þm., sem hér hefur talað, að örfáum undanteknum, en þar með ekki hv. þm. sem hér talaði síðast, hafa lýst sig fylgjandi því að tekin yrði upp verðjöfnun á húshitun á landinu milli þeirra annars vegar, sem nota jarðvarma til húshitunar, og hins vegar þeirra sem nota olíu. Ég vek sérstaka athygli á því að hv. þm. Ellert B. Schram virðist vera mér og fleiri þm. sammála um þessa stefnu. Ég sakna þess mjög, fyrst hann er á móti þeirri aðferð, sem er lýst í þessu frv., og greiðir atkv. á móti frv. eingöngu vegna aðferðarinnar, en ekki tilgangsins, þá skuli hann ekki reyna að benda á einhverja aðra og betri aðferð til að ná sama markmiði.

Fyrst flestir alþm. eru þeirrar skoðunar, að verðjöfnun beri að hafa, og þá ekki síst sá hv. þm. sem talaði hér síðast, þá finnst mér vissulega vera orðið athugandi fyrir hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því að semja frv. um verðjöfnun á hitakostnaði og kyndingarkostnaði og leggja það fyrir þessa hv. deild.

Í annan stað skil ég það ekki sem hv. þm. Ellert B. Schram sagði, hvernig hægt er að jafna aðstöðu fólks með öðru móti en því að taka af þeim sem við betri aðstöðu búa, til þess að bæta hinum upp, sem verr eru leiknir. Það er varla hægt að jafna aðstöðu með öðru móti en því. Það er að vísu hægt að fara óbeinar leiðir að þessu, en það er varla hægt að jafna aðstöðu tveggja hópa, þar sem annar hópurinn býr við lakari aðstöðu en hinn, nema þá að taka frá þeim, sem betur eru settir, og bæta hinum upp, sem verr settir eru. (Gripið fram í: Taka úr sameiginlegum sjóði.) Sameiginlegum sjóði, segir hv. þm., og þá kemur spurningin sú: Eiga báðir hóparnir að greiða jafnt í þann sameiginlega sjóð. Ef svo er, þá er að sjálfsögðu ekki verið að jafna neina aðstöðu. Þá er aðeins verið að flytja frá einum vasa sama manns yfir í hinn. Meginmarkmiðið með aðstöðujöfnun er að sjálfsögðu að flytja til milli hópa, frá þeim, sem betur mega sin, og yfir til hinna, sem verr standa. Það er ekki hægt að jafna aðstöðu með öðru móti.