30.10.1975
Sameinað þing: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

18. mál, sveitavegir á Austurlandi

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 21 að flytja till. til þál. um úttekt á kostnaði við sveitavegi á Austurlandi, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta framkvæma úttekt á því verkefni að gera greiðfæra sem vetrarvegi þá vegi í sveitum á Austurlandi sem afgerandi þýðingu hafa fyrir atvinnurekstur bænda (mjólkurflutninga). Í úttektinni skal einnig miðað við aukna þörf á flutningum skólabarna.

Úttektin verði falin Vegagerð ríkisins og um hana haft fullt samráð við Búnaðarsamband Austurlands.

Í framhaldi af niðurstöðum úttektarinnar verði ítarlega kannað hvort ástandið í þessum málum með tilliti til mjólkurframleiðslu í fjórðungnum gefi tilefni til séráætlunar um uppbyggingu þessara vega.“

Menn munu eflaust segja að það sé nú að bera í bakkafullan lækinn að fara fram á enn eina áætlanagerðina, og í raun nýja séráætlun í vegamálum fyrir tiltölulega lítið svæði, tiltölulega ómerkilegt mál. Við vitum að áætlanagerðir af ýmiss konar tagi og langar og miklar skýrslur þar að lútandi eru að verða eitt af einkennum okkar stjórnskipulags og athafna allra, og síst vil ég mæla í mót skipulögðum vinnubrögðum sem aðeins eiga, ef rétt er á haldið, að auðvelda alla framkvæmd mála, auka hagkvæmni þeirra og leiða til réttari vinnubragða. Því er hins vegar ekki að leyna að hér fjalla oft um þeir er kunna að vísu til verks menntunarlega séð, en skortir tilfinnanlega reynslu og þá kannske fyrst og fremst hæfileika eða vilja til að hafa samband við eða nema af þeim sem af eigin raun kunna skil á þeim vanda sem leysa á. Áætlanagerð án fulls samráðs við þá, sem áætlunin á að þjóna, á í raun að vera óhugsandi.

Þessu mun á annan veg varið með Vegagerð ríkisins. Hún hefur, að því er ég best veit, unnið að verkefnum sínum í góðu samráði við þá aðila er þau verkefni eiga að þjóna. Vegagerðin hefur einmitt tekið upp þá skynsamlegu stefnu að dreifa út í fjórðungana verkfræðingum sínum, og þó að valdsvið og verkefni þeirra mætti vera meira afgerandi en í dag, þá stendur það væntanlega til bóta. Ég ræði um Vegagerð ríkisins sérstaklega vegna þess að að sjálfsögðu yrði henni falið það verkefni, sem hér um ræðir, og jafnframt fylgir kvöð um fullt samráð við þann aðila heima í héraði sem gleggst til þekkir, þ. e. a. s. Búnaðarsamband Austurlands.

Um þróun vegamála okkar og framkvæmda í þeim mætti margt ræða. En þó mun það óumdeilanlegt að verkefni af því tagi, sem hér um ræðir, verða aftarlega í röðinni á þessum tímum hraðbrauta og hringvegarframkvæmda, einkum þó þegar svo er komið að helmingur vegafjár fer beint til þess að leggja bundið slitlag á vegi. Því minna kemur til skiptanna í hina almennu vegi, einkum úti í hinum afskekktari landshlutum, og þar verða svo verkefni eins og sveitavegirnir oftlega út undan vegna mikillar þarfar á ýmsum öðrum sviðum, m. a. þar sem samtenging þéttbýlisstaðanna hefur verið jafnslæm og raun ber vitni og sumir fjölmennir staðir hafa búið og búa enn við ótrúlega einangrun mikinn hluta ársins. Allt hnígur þetta að því að of lítið fjármagn verður til þess að sinna aðkallandi verkefnum af því tagi sem ég er hér að fjalla um.

Úttekt sem þessi kann að virðast allvandasöm sakir þess að viðmiðun er ekki nógu ljós, spurningin um greiðfæra vetrarvegi sé erfið til andsvara afdráttarlaust. En ég veit að þeir vegagerðarmenn kunna það vel til verks að þeir vilja svona nokkurn veginn hvað verið er að fara fram á. Þeir hafa þurft að berjast við þennan vanda og vita áreiðanlega hvar skórinn kreppir helst.

Ég ræddi við umdæmisverkstjórann okkar eystra á dögunum um þetta mál. Hann kvaðst sammála því að verkefni eins og þetta yrði tekið til rækilegrar athugunar. Hér væri um einn erfiðasta þáttinn að ræða í þeirra störfum yfir veturinn og úrbætur þyldu að sínum dómi enga bið. Hann kvaðst vita fullvel að þessi verkefni hefðu setið á hakanum, en jafnviss væri hann um að gott átak í þessum málum mundi spara í framtíðinni mikið fé og fyrirhöfn, bæði fyrir þá hjá Vegagerðinni og bændur almennt. Þarna hefðu sveitarfélögin oft reynt að koma inn í af veikum mætti, en allt væri það ónóg og nánast óraunhæft þegar almennt ástand veganna væri slíkt sem það er.

Þetta voru orð Egils Jónssonar, sem gerþekkir þessi vandamál í um það bil 20 ára starfi sínu eystra sem umdæmisverkstjóri. Ég vildi gjarnan koma þeim hér að í formálsorðum fyrir þessari till.

Þó að hér kunni í fljótu bragði að virðast um víðtækt og illa sundurgreint verkefni að ræða er svo ekki ef betur er að gáð, einkum fyrir þá sem til þessara mála þekkja. Hér yrði, ef vel væri að staðið, um tiltölulega afmörkuð verkefni að ræða, allviðamikil að vísu, en þá ber þess að gæta, að úttektaraðilinn, Vegagerð ríkisins, hefur í dag tiltölulega góðar upplýsingar um ástand þessara vega og grófar kostnaðaráætlanir liggja fyrir um mikilvæga þætti nú í dag. Að tveim höfuðástæðum er vikið í till., en þó er fyrri ástæðan sú sem í dag þarf að taka aðalmið af.

Hin ástæðan og sú, sem á eftir að koma enn skýrar inn í þessa mynd, er varðandi flutning skólabarna sem eykst stöðugt, ekki hvað síst með breyttri námstilhögun og auknu námi samkv. nýjum lögum. Við skulum gera okkur þess ljósa grein að fólk sættir sig ekki við að búa í einangrun og öryggisleysi í dag. Við skulum einnig minnug þess að með grunnskólalögunum var stefnt að auknu jafnrétti til náms, þannig að búseta hefði sem minnst áhrif á möguleika til að afla sér nauðsynlegustu grunnmenntunar. Ef framkvæmdin á að vera í samræmi við fyrirheitin verður að leysa mjög viða bein samgöngumál, sem í dag standa algerlega í vegi — í þess orðs fyllstu merkingu — fyrir jákvæðri þróun skyldunámsins, að ekki sé nú talað um nauðsynleg tengsl heimila og skóla og foreldra og nemenda kannske fyrst og fremst. Þessi þáttur ætti að vera mönnum ljósari en svo að um hann þurfi langt mál. enda vissa mín sú að einmitt þau vandamál sem að er vikið í till., muni verða hvað fyrst í röðinni ef standa á við fyrirheit laganna. Ég mun því aðallega víkja að samgönguvandamálinu út frá atvinnulegu sjónarmiði, búskaparsjónarmiðinu, því að hitt hlýtur að knýja þannig á innan fárra ára að engan veginn verði undan vikist.

Fyrir um það bil tveimur áratugum var sauðfjárrækt afgerandi aðalþáttur í búskap á Austurlandi, mjólkurframleiðsla til sölu var sáralítil í flestum sveitum. Á þessu hefur orðið mikil breyting á þessum tveim áratugum, en á síðustu árum hefur þar orðið nokkur stöðnun, hefur sums staðar dregist saman, svo að hætta er nú á að um skort á mjólkurafurðum verði að ræða innan skamms tíma og er þegar orðið nokkurt vandamál. Tillöguflutningur minn er i nánum tengslum við þessa staðreynd. Sannleikurinn er vitanlega sá að sveitir Austurlands eru misjafnlega settar hvað snertir skilyrði til annars vegar sauðfjárræktar og hins vegar kúabúskapar. Viða hefur þessi þróun í átt til aukinnar mjólkurframleiðslu, sem gerðist á 6. og 7. áratugnum, gerbreytt búskaparaðstæðum og efnahagsástandi fjölmargra bænda á hinn jákvæðasta hátt. Öll þróun til baka í þessa átt er bændastéttinni eystra mjög óhagstæð og sérstaklega ýmsum bændum í þeim sveitum sem hættast standa.

Samdráttur í mörgum sveitum í mjólkurframleiðslu nú á síðustu árum stafar einfaldlega af því að tilraunir í þá átt að auka þessa búgrein á undanförnum árum hafa að allt of miklu leyti strandað á samgönguþættinum og orðið til þess að aftur hefur verið horfið að sauðfjárrækt í þeim sveitum sem þó ættu að hafa öll skilyrði betri til mjólkurframleiðslu. Rétt er að mikla ekki fyrir sér þá óskaplegu erfiðleika sem síðasti vetur hafði í för með sér. Við hljótum að vona að hann hafi verið einstakur hvað snjóalög og snjókyngi snertir. Þó er fyllilega rétt að taka tillit til þess engu að síður sem staðreyndar er vissulega þarf ekki að vera neitt einsdæmi.

Ég skal hér vitna i nokkrar ótvíræðar heimildir sem ég hef fyrir nauðsyn átaks í þessum efnum. Í þeirri merku bók, Sveitir og jarðir i Múlaþingi, er svo ritað af heimamönnum um tvær þær sveitir er ég tilgreini sérstaklega í grg. Um Jökulsárhlið segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðustu 10–15 ár hefur kúm fjölgað nokkuð og mjólkursala í Mjólkurbú Kaupfélags héraðsbúa að Egilsstöðum orðið umtalsverður liður í búrekstri margra bænda. Ótryggar vetrarsamgöngur eru þó verulegar hömlur á aukna mjólkurframleiðslu hér.“

Þessari tilvitnun hefur verið fylgt sérstaklega eftir með bréfi til okkar þm. Austurlands frá öllum íbúum þessarar sveitar, þar sem farið er fram á nýjar úrbætur í samgöngumálum, og leyfi ég mér að vitna hér í bréf þetta orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir íbúar Hlíðarhrepps viljum vekja athygli á því hve vegurinn frá Jökulsárbrú um Heiðarenda er oft ófær vetrarmánuðina vegna snjóa og skafrennings hinnar illræmdu dalgolu sem eingöngu er á Norður-Héraði og hvergi er verri viðfangs en á þessum stað. Þar sem sjáanlegt er, að mjög erfitt yrði að gera þarna vetrarfæran veg sem treysta mætti til öruggra samgangna um Hérað, viljum við benda á eftirfarandi:

1. Að brú verði byggð á Jökulsá nálægt Breiðumörk II eða Surtsstöðum.

2. Frá umræddri brú verði lagður vegur á Hróarstunguveg, sem er aðeins snertispölur, lauslega áætlað 1.5 km.

3. Auk þess má benda á að Lagarfossbrú og Hróarstunguvegur um Kirkjubæ eru þegar fyrir hendi í umræddri framkvæmd og vegur frá Lagarfossbrú á Út-Héraðsveg er á fjárlögum fyrir næsta ár. Það er að vísu aðeins sá kafli. Einnig er fullvíst að auðvelt er að halda þessum vegi ökufærum vetrarmánuðina.“

Þannig lýkur þessu bréfi, og það er rétt, sem hér segir í niðurlaginu, að það er tiltölulega auðvelt að halda þessum vegi ökufærum miðað við þann veg sem þeir þurfa nú að búa við. En það er auðvitað rétt að taka síðustu fullyrðinguna með þeim fyrirvara og með þeim fyrirvara einnig að það þarf að gera verulegt átak einmitt á þeim vegi sem þeir benda á til þess að það verði, eins og þeir segja, auðvelt að halda honum ökufærum vetrarmánuðina. Að sjálfsögðu væri rétt að taka þennan möguleika með i þá úttekt sem hér er farið fram á, en allt bendir til þess að hér sé um raunhæfustu úrbæturnar að ræða, þótt dýrar kunni að reynast í stofnkostnaði. Til viðbótar þessu kæmi þá um leið sá möguleiki, ef út í hann yrði farið, að nýr vegur yrði lagður frá Vopnafirði til Héraðs. Þá kæmi þessi framkvæmd þar beint til góða fyrir þær samgöngur allar.

Ég leyfi mér enn að vitna í orð heimamanna um ástandið, með leyfi hæstv. forseta, — um Hróarstungu segir svo í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi:

„Mjólkursala er nokkur, en þó fremur lítil. Stafar það m. a. af samgönguerfiðleikum á vetrum.“

Áður hefur verið á það bent í sama riti að því aðeins sé um góða sumarhaga fyrir sauðfé að ræða að allmargt bæja, eins og þar stendur, séu í eyði í sveitinni, og segir það sína sögu.

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austfirðingafjórðungi í sept. s. l. kom fram till. sem lýtur að sama verkefni, þ. e. nauðsyn bættra vega vegna mjólkurframleiðslu, þótt fleira komi þar inn í. Sú till., sem var lítið breytt samþykkt á fundinum, var þannig upphaflega, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefndin telur núverandi ástand Út-Héraðsvegar algerlega óviðunandi, bendir á stöðugt vaxandi þungaflutninga á þessum vegi í sambandi við byggingarefni til ýmissa staða á Austurlandi og auk þess þegar breyttra hátta á mjólkurflutningum sem kalla á betri veg. Væntir hreppsnefnd þess að hér verði ráðin bót á sem fyrst þar sem alger stöðnun er á uppbyggingu og viðhaldi þessa vegar, og skorar á alþm. Austurl. og vegamálastjóra að beita sér fyrir því.“

Þetta er útskrift úr fundargerð hreppsnefndar Eiðahrepps og fundur Sambands sveitarfélaga í Austfirðingafjórðungi tók þessa till. nokkurn veginn orðrétt upp sem sína ályktun. Ókunnugum skal á það bent að hér eiga í hlut sveitirnar Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá, sem ég tilnefni einnig í grg.

Allt ber hér að sama brunni, enda vita heimamenn gleggst skil þeirra erfiðleika sem hér er vitnað til. Rétt er að taka fram að hér er síður en svo um tæmandi upptalningu að ræða hvað þetta verkefni snertir. Má til viðbótar benda á Skriðdal í þessu sambandi, en þar um liggur þó hinn svokallaði Austurlandsvegur sem sumir vilja meira að segja telja til hluta hringvegarins og gefa aukið vægi í vegaframkvæmdum, og auk þess eru þar umtalsverðar framkvæmdir fram undan á verstu vegarköflum.

Sá aðili, sem gleggstar upplýsingar getur veitt varðandi þennan þátt, eðlilega hlutdeild mjólkurframleiðslu í búskapnum á Austurlandi, er Búnaðarsamband Austurlands og ráðunautar þess, og vitað er að þeir hafa uppi ákveðnar till. og hugmyndir til úrbóta sem taka verður mið af við úttektina. Þar hafa menn miklar áhyggjur af því að þessi þáttur, þ. e. a. s. mjólkurframleiðslan fer minnkandi samfara aukinni þörf fyrir mjólkurafurðir í vaxandi þéttbýlisstöðum svæðisins og ekki síður með tilliti til þess að Kaupfélag Héraðsbúa er nú að reisa nýtískubyggingu við mjólkurbú sitt sem kallar a. m. k. á verulega aukningu ef sú framkvæmd á að nýtast sem best. Hér fara því fyllilega saman hagsmunir bænda, þéttbýlisbúa og þess fyrirtækis sem er aðalmiðstöð verslunar og umsvifa á þessu svæði. Menn hafa af því vaxandi áhyggjur ef mjólkurframleiðslan fer að dragast enn frekar saman á þessu svæði, eins og þó allar horfur eru á.

Vissulega eru margar ástæður, sem hér liggja að baki en þó munu samgöngurnar og óvissan gagnvart vetrarerfiðleikunum vera mjög áberandi þáttur. Nú dettur mér ekki í hug, að með framkvæmd þessa verkefnis, þótt vel væri að því staðið í hvívetna, muni mál þessi leysast að neinu algildu marki. En verulegar úrbætur mundu þó sannarlega skila okkur vel á veg. Því er það að úttektin sem slík þarf að hafa aðgerðir að höfuðmarkmiði og að því lítur síðari hluti till. Ég þykist þess fullviss, að niðurstöður hennar leiði til þess að ótvírætt verði að aðhafast eitthvað, svo samdóma er álit allra þeirra sem hér eiga að einhvern hlut.

Og þá kemur auðvitað að hinu sígilda vandamáli, hvar á að taka fjármagnið. Ég tek það fram að ég bendi ekki á Byggðasjóð í þessu efni sem neitt lausnarorð, þótt vissulega væri það ekki síðra verkefni en ýmis önnur sem hann fæst við. Sannleikurinn mun líka sá að ekki er að vænta mikils liðsinnis úr þeirri átt á næstunni ef marka má aðstæður og hag þess sjóðs í dag. Einnig má líka gera of mikið af því að binda honum bagga. En nær er mér að halda að varðandi þetta tiltekna úrlausnarefni ætti sjóður eins og Byggðasjóður var og vonandi er hugsaður að grípa inn i á einhvern hátt.

Ég skal ekki hér og nú fara enn einu sinni að tala um hraðbrautirnar og síaukna vigt þeirra í fjármagni Vegasjóðs, en aðeins í fullri alvöru benda á, að ekki þyrfti nú að fresta mörgum km af hraðbrautarframkvæmdum til að gera stórvirki gagnvart þessum vegum eystra miðað við ástandið í dag. Og ég er meira að segja á því að ef arðsemissjónarmiðið kæmi inn út frá réttum forsendum, þá gæti það sýnt sig að arðsemi úrbóta á lélegum sveitavegum eystra slagaði töluvert upp í þá útbásúnuðu arðsemi sem hraðbrautirnar okkar eiga að skila okkur, og má vera einnig að sú fjárfesting kæmi til góða fyrir verðugri aðila en margar aðrar sem sjálfsagðar þykja.

Ég skal ekki hafa um till. þessa öllu fleiri orð, en ítreka þó að ég vil ýmislegt á okkur leggja til þess að þoka þessu máli áleiðis. Þarna hafa menn of lengi beðið úrbóta. Nú vilja menn framkvæmdir sem skipta einhverju máli. Um magn þeirra má ræða og deila, og ekki er heimtufrekja þeirra aðila, sem eldurinn brennur heitast á, slík að að þeir vilji fá allt í einu eða stökkbreytingu. En þeir vilja a. m. k. frá jafnari rétt og meiri til þess að geta stundað betur þá atvinnugrein sem er öllum þar eystra nauðsynlegt að mega reka á sem bestan og heilbrigðastan hátt til heilla fyrir fjórðunginn og í raun og veru til heilla fyrir þjóðarheildina.