26.02.1976
Efri deild: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

181. mál, námslán og námsstyrkir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og kunnugt er var lagt hér fram fyrir tveimur dögum frv. um námslán og námsstyrki og gert ráð fyrir að það yrði að lögum innan tíðar. Nú stendur hins vegar svo á að nauðsyn er talin bera til að veita námslán um n.k. mánaðamót, og er sjálfsagt laukrétt að ekki megi það dragast. Þar sem ljóst er að það frv. til l., sem lagt var fram fyrr í vikunni, verður ekki búið að hljóta afgreiðslu fyrir þann tíma, virðist beinast liggja við að úthlutun námslána fari fram eftir gildandi lögum, og sé ég og við Alþb.-menn ekkert því til fyrirstöðu að svo verði gert. Núgildandi lög kunna að vera gölluð í ýmsum efnum, en þau eru þó ekki gallaðari en svo að Alþ. hefur látið þau duga sem gildandi lög á þessu sviði á undanförnum árum. Ég sé ekki að aðstaðan hafi í einu eða neinu breyst svo að það geri knýjandi að taka upp mjög svo afbrigðilega lánaúthlutun, úr því að menntmrn. varð svo síðbúið með flutning frv. sem felur í sér nýskipan lánamálanna.

Ég bendi á það, að þó þessi bráðabirgðaúthlutun lána sé kannske ekki í sjálfu sér neitt voðalegt fyrirbrigði, þar sem lánin verða veitt með almennum útlánsvöxtum banka, þá er þar um að ræða talsvert miklu lakari kjör en námsmenn hafa búið við fram að þessu. En það, sem er þó verra, er að menn eiga að taka ákvörðun um þessi lán án þess að hafa hugmynd um með hvaða kjörum þau verða til frambúðar. Menn eru sem sagt að kaupa köttinn í sekknum. Menn hafa ekki hugmynd um það hvernig endurgreiðslu þessara lána verður raunverulega háttað síðar meir vegna þess að þau mál eru sem sagt í deiglunni. Ég held að fáum, ef nokkrum almennum lántakendum hér á landi hafi verið boðið slíkt, að taka lán í stórum stíl án þess að hafa hugmynd um hvernig endurgreiðslum yrði í raun háttað. Ég tel þess vegna að það sé ekki viðunandi að bjóða slíkt, síst af öllu þar sem ekkert virðist í sjálfu sér vera því til fyrirstöðu að úthlutun lánanna fari fram með eðlilegum hætti eins og verið hefur undanfarin ár.

Af þessari ástæðu sjáum við Alþb.-menn enga nauðsyn bera til og enga ástæðu bera til að samþ. þetta frv. En þar sem mjög brýnt er að úr því fáist skorið á næstu dögum hvaða lánareglur verða viðhafðar og að ekki dragist að þessi lán verði veitt, þá sjáum við Alþb.-menn enga ástæðu til að tefja framgang þessa máls. Og þar sem þetta mál liggur ósköp einfaldlega og skýrt fyrir og skoðanir okkar á því liggja hér einnig fyrir, þá höfum við ekkert við það að athuga þó að þetta mál fari ekki til n., heldur verði nú afgr., en við treystum okkur ekki til að standa að samþykkt þess.