01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

180. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er um að tefla, er mjög einfalt í sniðum. Það fjallar um breytingu á sektarheimild lögreglustjóra og lögreglumanna. Skv. gildandi lögum er sektarheimild lögreglustjóra bundin við 10 þús. kr. og sektarheimild lögreglumanna við 3 þús. kr. Þessar fjárhæðir hafa staðið óbreyttar frá því 1973, en eins og öllum hv. dm. er kunnugt hafa orðið verulegar breytingar á verðlagsþróun á þessum árum og þess vegna þykir nauðsynlegt að þessi sektarmörk verði hækkuð. Það er óhætt að segja að það er talið að þessi skipan hafi gefið góða raun og létt verulegu starfi af dómstólum.

Lagt er til í þessu frv. til breyt. á l. um meðferð opinberra mála eða þeim ákvæðum þess, sem um þetta efni fjalla, að sektarheimild lögreglumanna verði hækkuð úr 3 þús. kr. upp í 7 þús. kr. Hins vegar er lagt til að sektarheimild lögreglustjóra verði hækkuð úr 10 þús. kr. upp í 60 þús. kr. Er það nokkru meiri hækkun hlutfallslega en í hinu tilfellinu og meiri hækkun en svarar í sjálfu sér til verðlagsbreytinga. En það er lagt til að þessi breyt. sé gerð vegna þess að þá geti sektarheimild lögreglustjóra náð til nokkru fleiri tilvika heldur en hún hefur náð, t.d. náð til tiltekinna brota á umferðarlögum, t.d. að því er verðar brot á ákvæðinu um hámarksþunga ökutækja, en það er vitaskuld æskilegt fyrir alla að ákvörðun um þau efni sé tekin sem fyrst og að slík mál séu gerð upp án nokkurrar tafar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta litla frv., en leyfi mér að óska eftir að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.