01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

180. mál, meðferð opinberra mála

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég held að í sambandi við þetta frv. og raunar aðrar lagagr., sem eru tengdar umferðarlögunum, sé einmitt rétt að gefa lögreglumönnum heimild til að sekta menn á staðnum og uni menn því ekki, þá hafa menn málsvörn, eins og hæstv. dómsmrh. drap eðlilega á. Það mætti útbúa ákveðnar prentaðar kvittanir þar sem tekið væri fram um hvaða brot er að ræða og hvaða upphæð, og menn borga þetta á staðnum og það er búið að gera mönnum einfaldara fyrir að taka út sín brot strax og einnig hinum almenna borgara sem verður var við brot. Að vísu má segja að það sé hættuleg leið. En þegar maður stendur einhvern í umferðinni, og fleiri en einn og fleiri en tveir geta vottfest það á staðnum, að mjög alvarlegum og grófum brotum og lögregla er í námunda, þá á að vera hægt að kæra hann. Og af því að menn hafa hér minnst á persónulega reynslu sína í þessu efni og talið sig vera óheppna, þá get ég sagt frá því að ég ásamt öðrum í umferðinni utan við Reykjavík á einum helgidegi sagði lögreglumanni á bifhjóli frá mjög alvarlegu broti bíls sem hann marglék á leið sinni. En ég reyndi það ekki aftur vegna þess hve málið var flókið og þungt í vöfum og skýrslugerðir og yfirheyrslur. Það var hægt að ná í manninn, sem margbraut af sér á leið sinni í margra manna sýn, en lögregluþjónninn var þannig staðsettur að hann sá það ekki. Við, sem sögðum frá, urðum að gefa skýrslur og komumst í mikið málaþras, og ég reyndi það ekki framar. Það hefði verið miklu einfaldara að geta sagt frá því á staðnum, vottfesta það, ef á þyrfti að halda, að láta manninn sæta verulegri sektarupphæð. Það á að hækka hér sektir fyrir brot við fullkomna stöðvunarskyldu. Það er rétt. Og það á að sekta menn á staðnum og margt fleira. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að gera það. Það heldur umferðinni niðri ef sektað er fyrir of mikinn hraða og þar fram eftir götunum. Og hvaða toll tekur umferðin bæði af fólki og bifreiðum? Það eru óhugnanlega stórar tölur, og vínið á sinn þátt í því. Hæstv. ráðh. á mínar þakkir fyrir að hafa tekið af vínveitingar nú undanfarna daga við það ástand sem ríkti í þjóðfélaginu og hefði mátt halda því allströngu áfram.

Ég undirstrikaði við afgreiðslu fjárlaga seinast hversu háar tekjur ríkissjóður tryggði sér í gegnum vínið og taldi að það væri sýnd veiði, en ekki gefin að ýmsu leyti, eins og hæstv. ráðh. kom inn á. Það væri sannarlega verk, sem ætti að veita fé til, að gera heildarúttekt á áhrifum vínsins, bæði í umferðinni og lögreglukostnaði, því að mín spá er sú að það sé ekki lítill þáttur sem það kostar að halda slíku gangandi.

Hæstv. ráðh. drap aðeins á að fjvn. bæri ábyrgð á því að tryggja nægilega marga lögregluþjóna. Honum er kunnugt um það að frá embættum úti um allt land liggja beiðnir fyrir fjvn., sem við höfum reyndar þegar fjallað um, að fá að halda stjörnumerktum mönnum. Þetta er nú ekki alveg svona einfalt. Þó að umsögn fjvn. skuli vera í því efni, þá ber hún ekki endanlega ábyrgð á fjárlögum eða því um líku. Það gerir Alþ. Fjárlög eru þegar til og innan ákveðins ramma var okkur í fjvn. falið að vinna að ákveðnum niðurskurði, bæði á lögreglumönnum og öðrum mönnum. Við höfum nú setið við þetta nokkra undanfarna daga og er enn of erfitt mál og viðkvæmt mál og virðist ætla að koma við suma heldur ónotalega. En út í þá sálma vil ég ekki fara nú, það á eftir að birtast siðar. En ég vil þakka aftur að lokum hæstv. ráðh. fyrir að hefta vinneyslu hér í landinu með lofsverðum og góðum árangri.