01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

180. mál, meðferð opinberra mála

Albert Guðmundsson:

Herra forseli. Ég vil aðeins leiðrétta þann misskilning sem virtist hafa komið fram hjá hæstv. ráðh. og kannske fleirum, það er ekki það að ég hafi sjálfur persónulega reynslu af þeirri vinnu lögreglunnar að sekta menn á staðnum, heldur benti ég á að ég hefði fengið tvær stöðumælasektir á sama korterinu, annars vegar frá stöðumælaverði og hins vegar frá lögregluþjóni. Þar var réttlætiskennd minni misboðið. Þar var verið að dæma mig á staðnum tvisvar sinnum fyrir sama brotið. Það er þess vegna sem ég tók þetta sem dæmi um hvað getur komið fyrir þegar menn geta sektað fólk fyrirvaralaust á staðnum og jafnvel í fjarveru viðkomandi.

Ég varaði líka við því að of mikið af boðum og of mikið af bönnum geri fólki erfiðara fyrir að vera löghlýðið þó að það sé í raun og veru löghlýðið. Og ég vara við því að taka það upp sem algilda reglu að setja upp skilti og segja svo við fólk ef það brýtur: Nú skaltu borga peninga af því að þú fórst ekki eftir því sem einhver og einhver sagði að þú ættir að gera. Ég kalla að það sé að misbjóða réttlætiskennd fólksins. Og það hefur verið gert í þeim tilfellum sem sektir á staðnum hafa verið leyfðar. Við vitum það allir að þessar sektir, sem hafa verið takmarkaðar við nokkur hundruð kr., hafa hreinlega ekki verið greiddar og lögreglustjóraembættið hefur ekki nokkurn mannskap til þess að fylgja því eftir að innheimta þær, og það skiptir áreiðanlega þúsundum, ef ekki tugþúsundum af óinnheimtum umferðarlagabrotum. Við erum að tala hér um innheimtu á uppæð, sem er þó nokkru stærri en sú, sem fyrir var. Það hækkar úr 3000 upp í 7000 kr. og það er talsverð upphæð fyrir fólk sem vill vera löghlýðið. (Gripið fram í: Mælir þm. þarna af eigin reynslu?) Nei, ég mæli ekki af eigin reynslu þarna vegna þess að ég hætti að greiða. Ég get tekið það fram hér, eins og auðvelt er fyrir dómsmrh. að finna út, að þegar minni réttlætiskennd var misboðið á þann hátt, sem ég hef hér lýst, þá hætti ég að greiða. En hæstv. dómsmrh. getur líka fundið út að áður en það skeði, hugsa ég, að ég hafi kannske verið einn af stærstu greiðendum stöðumælasekta hér í borginni, en síðan ég var sektaður tvisvar fyrir sama brotið hef ég líklega orðið sá versti. En sem sagt, ég ætla ekki að fjölyrða um þetta.

Ég er bara að vara við að það er ekki alltaf ríkt fólk, sem brýtur umferðarlög, kannske án þess að hafa hugmynd um það, því að menn vita ekki hvaða umferðarlög gilda. Þau eru mismunandi innan Reykjavíkur og utan Reykjavíkur t.d. Og ef það eru sett svona lög, sem misbjóða réttlætiskennd fólksins, þá verður ekki farið eftir þeim.