01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

144. mál, flokkun og mat á gærum

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég get við umr. um þetta mál, sem hér liggur fyrir, vitnað algerlega til þess máls sem var verið að afgreiða. Þau urðu samferða og hér er verið að efna til hliðstæðra aðgerða í meðferð þeirra vöruflokka sem hér er rætt um þ.e. ull og gærur. Mér þykir þó rétt að minna á það, sem ég held að verði ekki of oft sagt, að e.t.v. erum við hér að ræða um vöruflokk sem á einna mesta framtíð fyrir sér að því leyti að auka megi verðmæti þess í meðförum hér í landi. Loðskinn og loðsútuð skinn voru flutt út á árinu 1975 fyrir 663.8 millj. kr. En það er varla vafa undirorpið, ef við værum fær um að vinna þessar vörur í feldi og flíkur, að þá væri hægt að stórauka verðmæti þeirra.

Þá vil ég einnig minna á það, að við flytjum út óunnar gærur í allmiklum mæli, eða fyrir 296.6 millj. kr. og er í þeim fólginn mikill fjársjóður sem hægt væri að margfalda ef rétt væri að staðið. Og það er einmitt þetta mat, sem hér er efnt til, sem mestar vonir eru bundnar við til þess að fá fram rétt vinnubrögð við þessa vöruflokka. Það getur munað miklu, þegar um feldskurð er að ræða, á hvern hátt rist er fyrir skinnið þegar kindinni er slátrað. Þess vegna er það geysilega mikilvægt að menn kunni rétt handtök og þeim sé sagt rétt til sem verkið vinna.

Mér þótti rétt að láta þetta koma hér fram um leið og ég legg málið fyrir fyrir hönd landbn. sem hefur rætt frv. á nokkrum fundum sínum og leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Jón Árm. Héðinsson og Axel Jónsson voru fjarverandi þegar málið var afgreitt úr nefndinni.