01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir Nd., fékk þar ítarlega athugun í iðnn. og hefur nú verið afgreitt frá þeirri hv. d. við þrjár umr.

Það munu vera um það bil 10 ár síðan gerður var samningur um byggingu álversins við Straumsvík. Á síðustu árum hafa orðið mikil umskipti á orkumörkuðum, fyrst og fremst á þá lund að olía hefur hækkað stórlega í verði, en sú hækkun hófst haustið 1973. Þegar samningurinn um álverið var gerður hafði hins vegar verið og var nokkuð stöðugt verðlag á orku, og þá mun hafa verið gert ráð fyrir að það héldist. Voru því gerðir samningar um nokkuð fast verð á orku eða rafmagni til álbræðslunnar. Hins vegar þótti eftir hin snöggu umskipti varðandi olíuverð og orkuverð rétt að taka upp viðræður við svissneska álfélagið til þess að reyna að fá breytingu á rafmagnsverðinu.

Haustið 1973 átti þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, viðræður við fulltrúa Álfélagsins um endurskoðun á rafmagnsverði. Þær viðræður leiddu ekki til árangurs.

Skömmu eftir stjórnarskiptin hóf ég viðræður við fulltrúa Álfélagsins í sept. 1974. Þessum viðræðum hefur síðan verið haldið áfram. Fyrst og fremst hefur viðræðunefndinni um orkufrekan iðnað verið falið að fylgja þessu máli eftir í samráði við iðnrn. N. hefur unnið ötullega að þessu máli, en í henni eiga sæti þeir dr. Jóhannes Nordal formaður, Ingi R. Helgason hrl. Ingólfur Jónsson alþm., Ragnar Ólafsson hrl., Sigþór Jóhannesson verkfræðingur og Steingrímur Hermannsson alþm.

Niðurstaðan af þessum viðræðum, sem stóðu nokkuð samfellt á annað ár, liggja nú fyrir í þessu frv. Ef dregin eru saman meginatriði málsins, þá er stefnt að því að fá hærra rafmagnsverð en samið hafði verið um áður, að auka heildartekjur íslendinga af álverinu og gera þær öruggari og að leysa ýmis ágreiningsmál, sem upp höfðu komið, einkum í sambandi við framleiðslugjald. Þá er enn fremur með þessu frv. stefnt að því að stækka álverið.

Ef vikið er fyrst að rafmagnsverðinu, þá er svo ákveðið í gildandi samningi, að verð fyrir hverja kwst. rafmagns skuli vera 3 mill. en mill er, eins og kunnugt er, þúsundasti hluti af Bandaríkjadal. Þetta verð átti að gilda frá byrjun og til 1. okt 1975. Þá skyldi verðið breytast úr 3 í 21/2 mill og standa þannig fram til 1. okt. 1984. Eftir það skyldi verðið vera áfram 21/2 mill, en þó að viðbættri hækkun sem kynni að leiða af breytingum á rekstrarkostnaði Búrfellsvirkjunar. Um þessi verðákvæði, sem nú eru greind, var í upphafi samið til 25 ára.

Ég skal ekki rekja hér ítarlega þessar viðræður, en niðurstaðan er sú, að í þessum samningsdrögum er gert ráð fyrir að nýtt orkuverð gildi frá 1. okt. 1975, þ.e. frá þeim degi þegar rafmagnsverðið átti að lækka í 21/2 mill. Þessi drög fela það í sér að sú lækkun komi ekki til framkvæmda, heldur skuli rafmagnsverðið 3 mill gilda til loka ársins 1975. En við áramótin, þ.e. 1. jan. 1976, á rafmagnsverðið að hækka í 31/2 mill um 6 mánaða skeið. Frá 1. júlí 1976 á það að hækka upp í 4 mill. 1. júlí 1976 yrði því rafmagnsverðið orðið 60% hærra en það skyldi vera samkv. gildandi samningi, eða úr 21/2 í 4 mill. Síðan mundi það frá 1. jan. 1978 fylgja álverði eftir sérstökum reglum miðað við verð á áli.

Þá er gert ráð fyrir því í samkomulaginu að verksmiðjan verði stækkuð þannig að fullgerður verði svokallaður annar kerskáli. Það þýðir, að framleiðslan mundi aukast um 10700 tonn á ári, en til þess þarf rafafl, 20 mw. Þessi 20 mw. skiptast þannig að 8 mw. yrðu forgangsafl, en 12 afgangsorka.

Í umsögn Landsvirkjunar, sem prentuð er sem fskj. með þessu frv., segir m.a. að samningsuppkastið sé mikil bót frá núverandi samningi sem hafi ekki teljandi verðhækkunarákvæði á raforku. Landsvirkjun telur að þessi samningur mundi leiða til þess að ekki þyrfti nú að fara fram á hækkun á orkuverði til almennings sem Landsvirkjun hefur talið óhjákvæmilegt að gera ella, en mundi falla frá og telja óþarfa ef tekjuauki kæmi frá álverinu samkv. þessum samningi.

Varðandi stækkun verksmiðjunnar telur Landsvirkjunarstjórn að sú aukna orkusala, sem af stækkuninni leiði, sé Landsvirkjun mjög hagstæð, eins og komist er að orði.

Þá er gert ráð fyrir í þessum samningsdrögum, að framleiðslugjaldinu verði breytt verulega. Því er breytt frá núgildandi ákvæðum í lágmarksskatt sem greiða ber mánaðarlega á skattárinu, og er tágmarksskatturinn eða grunntaxti gjaldsins 20 dalir á tonn eða sem svarar 11/2 millj. dala á ári við fulla framleiðslu, þ.e. 75 þús tonn án stækkunar.

Þau ár, sem álverið hefur starfað, hefur risið ágreiningur um svonefnda skattinneign. Ég skal ekki fara út í það mál hér frekar. Það er eins og önnur þau atriði, sem ég hef drepið á, skýrt ítarlega í grg. og fskj. frv. En með þessum nýja samningi er gert ráð fyrir að semja um ákveðna lausn á þeim vanda, sem þegar hefur skapast í sambandi við skattinneign, og auk þess reynt að koma í veg fyrir slíkan ágreining framvegis með skýrari og einfaldari ákvæðum.

Þegar litið er á þessi samningsdrög í heild tel ég að þau leiði til meiri og öruggari tekna í heild fyrir íslendinga heldur en ef áfram stæðu óbreytt samningsákvæði þau sem nú gilda. Auk þess felur samningurinn það í sér að eytt er vissum ágreiningsmálum og margt gert einfaldara í framkvæmd.

Ég vil að öðru leyti vísa til grg. og fskj. með frv. og vænti þess að frv. fái góðar undirtektir í þessari hv. d. eins og í hv. Nd. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og iðnn.