01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

171. mál, útvarpslög

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Við hv. þm. Stefán Jónsson höfum leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á útvarpslögum svo hljóðandi:

„Í stað fyrri málsl. síðustu málsgr. 15. gr. laganna komi: Í reglugerð má ákveða að þeir, sem njóta tekjutryggingar samkv. lögum nr. 67 1971, verði undanþegnir afnotagjöldum. Rn. skal auglýsa eftir umsóknum samkv. þessari heimild, þannig að allir eigi jafnan kost á undanþágum þessum hvar sem þeir búa á landinu.“

Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning þykir okkur rétt að taka fram í upphafi að síðasti málsliður 15. gr. um afnotagjöld til blindra verður áfram síðasti málsliður, eins og nú er, þó að breyt. þessi sé á gerð.

Kjör aldraðra og öryrkja eru mjög til umr. og er það vel. Að því fólki eigum við á hverjum tíma að búa sem allra best, og vissulega hafa þar verið stigin stór skref fram á við þó að ekki fari á milli mála að þeir, sem minnst hafa, tekjutryggingarfólkið sem ég svo kalla, sé langtum neðar í kjörum en þeir láglaunahópar á hinum almenna launamarkaði sem þó búa við alls óviðunandi kjör í dag. Tekjutryggingin var þó ein veigamesta réttarbót, sem aldraðir og öryrkjar hafa fengið frá upphafi almannatrygginganna, og bætti kjör þeirra verst settu að miklum mun.

Í verðbólguflóði liðinna ára hafa engir farið jafnilla og þetta fólk. Sparifé þess hefur á einni nóttu rýrnað um tugi prósenta með þeirri almáttugu lækningaaðferð sem gengislækkun nefnist. Sakir þess að grunnur sá, sem reiknað er út frá, er enn svo lágur sem raun ber vitni og enn neðar en almennt tímakaup hinna lægst launuðu, fer ekki hjá því að prósentuhækkanir vega minna þó að jafnar séu hinni almennu hækkun launa í landinu. Allt hjálpast því að til að skerða og þrengja kjör þessa fólks þegar verðbólgan er svona mikil, og því er von að leitað sé einnig leiða til þess að létta útgjöldum af þeim öldruðu og öryrkjum sem minnstar hafa tekjurnar. Skylduútgjöld þeirra geta verið ærin, útgjöld sem þetta fólk getur á engan hátt losnað við. Ég minni aðeins á þá aldraða sem búa á köldu svæðunum, olíukyndingarsvæðunum, og hafa orðið fyrir þungum búsifjum af hinum stórkostlegu olíuhækkunum sem enn sér ekki fyrir endann á. 50% álag á olíustyrkinn bætir þar lítið úr skák. Ég nefndi hér í umr. um daginn dæmi um útgjöld hjóna með tekjutrygginguna eina sem nemur 140 þús. kr. yfir árið þegar olíustyrkurinn hefur verið dreginn frá, en oft verður þetta fólk að búa í óhæfilega stóru og um leið dýru húsnæði, eins og reyndin er varðandi það dæmi sem ég minntist á í umr. um olíustyrkinn um daginn.

Annars er óþarft að hafa hér um mörg orð. Grg. þessa frv. segir flest sem segja þarf um tilgang þess og eðli. Hér er um að ræða rýmkun núgildandi heimildar sem eingöngu nær til þess fólks sem fær uppbót ofan á tekjutrygginguna vegna sérstaklega erfiðra aðstæðna. Í þess stað leggjum við til að tekjutryggingin verði sett sem skilyrði fyrir þessari heimild. Við teljum að það sé næst því sem upphafleg heimild tók til, en þá var miðað við uppbót á venjulegan lífeyri, til komin allöngu áður en tekjutryggingin kom til sögunnar. Reglugerðartúlkun er hins vegar ótvíræð þannig að aðeins þeir, sem fá þessa sérstöku uppbót ofan á tekjutrygginguna, skuli njóta þessarar undanþágu.

Sannleikurinn um þessa sérstöku uppbót er sá að víða úti á landi a.m.k. er hún nær óþekkt. Fólk veit ekki af rétti sínum, telur fullum rétti náð þegar það hefur fengið tekjutrygginguna, einkum af því að hún er þó veruleg hækkun ofan á elli- og örorkulífeyri. Upplýsingar og leiðbeiningar til þessa fólks eru stórum lakari en t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem ýmsir aðilar, m.a. á vegum borgarinnar sjálfrar, sjá um að hjálpa fólki til að ná þó ótvíræðum rétti. Mér er þó ljóst að stórbætt upplýsingaþjónusta Tryggingastofnunar ríkisins hefur hér um bætt verulega. En þó fékk ég nýlega upp í hendurnar dæmi sem ég ætla ekki að fara að rekja hér. Það vakti furðu mína og hlaut að vísu að skrifast á viðkomandi tryggingaumboð sem alvarlegt andvaraleysi, ef ekki vitaverð vanræksla. En því miður munu fleiri slík dæmi vera og skal ekki nánar út í það farið.

Ég hygg að við getum verið um það fyllilega sammála að fjölmiðlar eins og hljóðvarp og sjónvarp eru þessu fólki flestu ærið miklu mikilvægari en öðrum sem betur geta fylgst með öllu sem er að gerast og eiga meiri og fjölbreyttari afþreyingarmöguleika en aldrað fólk og öryrkjar sem oftlega búa í furðulegri einangrun, stundum sem gleymt af samfélaginu og sínum. Ég held að þetta fólk eigi að njóta þessara fjölmiðla án þess að greiða fyrir það býsna tilfinnanlegan hluta af árslaunum sínum.

Ekki veit ég nákvæmlega hve mikill fjöldi er hér sem njóta mundu til viðbótar, ef heimild fengist til, með þeim ákvæðum vitanlega sem reglugerð segði til um. Um það voru þó nýlega gefnar upplýsingar hér í d. hve margir nytu tekjutryggingar og auðvelt fyrir n. að kynnt sér það nánar, þó að sú tala sé vitanlega allt of há miðað við fjölda þeirra sem mundu hugsanlega njóta þeirrar undanþágu sem hér um ræðir, m.a. vegna þess að mjög mörg, hjón njóta bæði tekjutryggingar, mig minnir eitthvað um 1250, og eins hitt, að margt af þessu fólki býr hjá sínum og nýtur þar þessara fjölmiðla.

Samkv. þeim tölum, sem hér var um að ræða, minnir mig að fjöldi einstaklinga hafi verið nokkuð mikill, um 8800, en hjónin aftur um 1250 eins og ég sagði áðan. En frá þessari tölu dragast vitanlega þeir sem uppbótar njóta þegar í dag, en þar er um að ræða, eftir því sem ég hef komist næst, um 15–20% af þessu fólki eða þeirri tölu sem ég nefndi.

En þegar ég minntist á fólkið sem getur notið þessara fjölmiðla hjá sínum, þá er einmitt komið að þeirri margumtöluðu misnotkunarhættu sem oft er notuð sem mótbára gegn undanþágu sem þessari. Sú misnotkunarhætta felst vitanlega einnig í núgildandi undanþáguheimild, en auðvitað eykst hún nokkuð þegar fleiri koma til. Það er skoðun okkar flm. að umboðsmenn Ríkisútvarpsins geti tiltölulega auðveldlega gengið úr skugga um réttmæti undanþágubeiðni. Tryggingastofnunin svo og sveitarfélögin geti þar veitt upplýsingar einnig sem tryggðu réttmæti þeirra undanþága sem veittar yrðu. En misnotkunarhættan er víða og ef hana ætti ætíð að setja í öndvegi sem mótbáru, þá væru fá réttlætismál sem í gegn kæmust eða hefðu komist.

Ekki höfum við flm. hins vegar neitt á móti því, síður en svo, að reglugerðin yrði þannig útbúin að þessi hætta yrði sem minnst. Við höfum viljandi sett það svona rúmt, þannig að í reglugerðinni megi ákveða að þeir, sem njóta tekjutryggingarinnar alfarið, verði undanþegnir þessum afnotagjöldum. Við höfum ekkert að athuga við það út af fyrir sig þó að þetta verði þrengt nokkuð, en við viljum þó að hér verði töluvert mikil breyting á frá núgildandi skipan.

Menn munu án efa ræða tekjutap viðkomandi stofnunar sem löngum ber við líklegum fjárhag, hversu réttmætt sem það nú er þegar öll kurl koma til grafar. Manni sýnist það nú kannske ekki alveg þegar maður sér þessa fallegu ársskýrslu þeirra myndum prýdda hér á borðum.a.m.k. hefur Ríkisútvarpið haft efni á því að gefa hana út. Það er fagnaðarefni. Rétt er að skoða fjárhagsdæmið vel. Við flm. erum reiðubúnir — og lýsum því yfir í grg. — til að finna leiðir til að bæta hér úr og þó að ég hafi áður gert þar við nokkra athugasemd vegna annars frv. í þessari hv. d., þá þætti okkur ekki ósanngjarnt a.m.k. að bæta hér einhverju ofan á gjaldið sem aðrir betur stæðir greiddu. Athugasemdin, sem ég gerði vegna þeirrar viðbótar hér áður, var vegna þeirra sem njóta þessara fjölmiðla misjafnlega vel í dag, og það á vitanlega við um þetta einnig. En þetta teljum við að allt beri að skoða.

Mönnum þykir e.t.v. undarlegt að við skulum vera með þessa auglýsingaskyldu rn. varðandi umsóknir um undanþágu. En um það er það að segja, að við flm. viljum í lögum ganga sem tryggilegast frá því að allir, sem hér hefðu rétt, eða sem allra flestir væru á þetta minntir með beinni auglýsingu. Við reiknum með því t.d. að reglugerð um þetta efni, þ.e. þessa heimild, geti þrengt að einhverju leyti eða sett vissar skorður við heimildinni sem slíkri, vegna þess að þarna er um heimild að ræða, og það er þá gott að það sé ljóst fyrir fólki hvort það á þarna rétt eða ekki. Hér á nefnilega við það sem ég sagði áðan um misjafna upplýsingastarfsemi og þjónustu eftir því hvar á landinu er. Auðvitað kæmi eins til greina að Tryggingastofnunin sjálf annaðist þessa hlið málsins.

Ég minnist þess t.d. varðandi tekjutrygginguna á sínum tíma, að hálfu ári eftir að hún komst í gildi sendi ég austur til ýmissa aðila þar eyðublöð sem til þurfti. Ég held að út úr því hafi komið milli 40 og 50 fullgildar umsóknir fólks sem áður hafði ekki athugað þennan ótvíræða rétt sinn. Ég held því að þetta ákvæði, sem hér er sett inn um auglýsingaskyldu rn. sé fyllilega réttmætt þó að um form megi athuga betur og við séum vissulega til viðtals um breyt. á því ef ástæða þykir til.

Ég hef ekki ástæðu til að gera þessu máli frekari skil. Ég held að hér sé ekki um að ræða neina ofrausn. Þessi fríðindi koma sér jafnvel eða betur en bein hækkun á útborguðum upphæðum til þessa fólks. Ég vísa aðeins til grg. okkar, niðurlags hennar, þar sem segir: „Samfélagið á að koma til móts við þetta fólk þar sem þess er kostur og á þeim sviðum þar sem borin er brýn. Allt, sem þokar á einhvern hátt burt einmanaleik allt of marga úr þessum hópi, telst til brýnustu samfélagsþarfa þessa fólks. Því er lagt til að heimild þessi verði rýmkuð svo að fleiri njóti hér góðs af.“

Ég veit að þetta frv. mun út af fyrir sig eða meginhugsun þess eiga sér góðan hljómgrunn. Við væntum því skjótrar og farsællar afgreiðslu þess. Og að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að óska þess að frv. verði vísað til hv. menntmn.