01.03.1976
Neðri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

175. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 362 er frv. til laga um sauðfjárbaðanir. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að meginefni til samið af milliþn. Búnaðarþings vegna margra og ítrekaðra áskorana um breyt. á löggjöf um baðanir í þá átt að létta böðunarskylduna. Frv. gerir ráð fyrir því að þetta verði gert á þann hátt að ráðh. verði heimilt að veita undanþágu í tilteknum hólfum þar sem óþrif hafa ekki sést á fé um árabil. Til þess að auka öryggi um að böðunarundanþágan verði ekki til þess að stuðla að óþrifum á sauðfé er sett í frv. ákvæði um vottorðsgjafir frá tilteknum opinberum og hálfopinberum starfsmönnum og meðmæli með undanþáguheimild. Þeir aðilar, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi sýslunefndir á viðkomandi svæði, yfirdýralæknir og héraðslæknir. Meðmæli þessara aðila allra þurfa að liggja fyrir til þess að hægt sé að veita þessar undanþágur. Þetta tel ég að eigi að vera nægjanleg trygging til þess að ekki verði farið með gáleysi að í þeim efnum.a.m.k. verður þá að verða allmikil breyting á ef svo ætti að vera.

Það ákvæði í frv., að ekki skuli að öllu jöfnu baða fyrr en fé er komið á hús, á að sporna við að óbaðað og baðað fé renni saman og um leið að minnka líkur á dreifingu óþrifa í sauðfé frá einum bæ til annars. Ákvæði í núgildandi lögum um sérsmölun vegna baðanna er því fellt niður.

Meginbreytingin, sem í frv. felst, er undanþáguheimildin sem er í 3. gr. sem ég vitnaði til áðan. Verður hún að teljast réttmæt því að hún á að geta sparað fjáreigendum fé og fyrirhöfn, og þess má vænta að hún verði rík hvatning fjáreigendum á landssvæðum, sem ekki fá undanþátt frá böðunarskyldu, til þess að herða sóknina og útrýma óþrifum í fé sínu með öllu. Væri vel ef svo tækist til.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra frekar þetta frv. því að það skýrir sig sjálft. Ég tel eðlilegt að rýmka böðunarskylduna frá því, sem er, vegna þeirrar reynslu sem þegar er fengin.

Ég vona, herra forseti, að n. sú, sem fær þetta mál til meðferðar, landbn., noti nú tímann til þess að skila áliti sem fyrst svo að þetta mál megi ná fram að ganga nú meðan störf þingsins eru í meiri rólegheitum en síðar verður. Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.