02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

178. mál, veiting prestakalla

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er íhaldssamur að því leyti að mér sýnist að það þurfi að gæta mikillar varkárni í að fara að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur um prestkosningar. Það er sjálfsagt rétt hjá frummælanda að prestkosningar hafi ýmsa galla og einkum ef prestar kunna sér ekki hóf í kosningabaráttunni. Ég held að það hljóti að vera einstaklingsbundið alveg eins og með alþm., og ég er ekki fyrir mitt leyti tilbúinn til að fallast á það að afsala mér þeim lýðræðislega rétti sem ég tel mig hafa til þess að hafa áhrif á val prests.

Ég er ekki að draga í efa að kirkjan hefur mikilhæfa forustu. Kirkjuyfirvöld okkar eru mikið fyrirmyndarfólk og í sóknarnefndir velst áhugafólk um kirkjumál og þar er sjálfsagt hvert rúm vel skipað. En ég fæ ekki séð að með þeim hugmyndum, sem efst hafa verið á baugi um breytingar í þessu efni, sé fullkomlega girt fyrir átök, fullkomlega girt fyrir það að einhver klíkuskapur geti skotið upp kollinum, eins og annars staðar í þjóðfélaginu, ellegar óæskilegur og harðsnúinn áróður. Við höfum orðið varir við mjög snarpar deilur meðal kirkjunnar manna innbyrðis nú á síðasta ári, og þar hafa sannarlega prestar og guðfræðingar ekki vandað hver öðrum kveðjurnar og þeir hafa ekki verið síður stórorðir en stjórnmálamenn þegar þeir eru að kasta hnútum á milli sín.

Frsm., hv. 2. þm. Vesturl., bar hér saman starf presta, lækna og kennara. Þetta kann að vera réttmætt að nokkru leyti, þó ekki að öllu leyti. Ég held að starf presta sé með nokkrum hætti sér á partí. Hvers vegna erum við að hafa presta? Hvert er þeirra verksvið? Ég lít svo á, að hlutverk prestsins sé ekki einungis boðun fagnaðarerindisins. Hann þarf að eiga mikið og gott samstarf við söfnuð sinn og því aðeins verður starf hans að gagni að hann haldi góðum kynnum og góðu samstarfi við sinn söfnuð, ekki einungis við sóknarnefndarmenn, ekki einungis við héraðsfundarmenn, heldur við sóknarbörn sín, helst öll. Ég fyrir mitt leyti met mest þann þátt í starfi prestsins sem unninn er utan kirkjunnar, unninn er ekki kannske beint í hempu. Og ég vil vekja athygli á því, að ég tel að ríkisvaldið láti okkur í té í dreifbýlinu mjög mikilvægan starfsmann, embættismann með allgóða húmaníska menntun sem hefur góðan tíma til að sinna fleiru en prestskap í því samfélagi þar sem hann er að starfa. Við höfum sjálfsagt öll þekkt marga góða presta í dreifbýlinu sem hafa gefið sig þar að sveitarstjórnarmálum og hverju sem fyrir kemur í hinu daglega lífi, hafa verið þar góðir liðsmenn sem fengur hefur verið í að hafa að störfum.

Frsm. lét þess getið að slagurinn um þessi brauð hér á Reykjavíkursvæðinu yrði óskaplega harður þegar þyrfti að leita til fólksins um kjörfylgi til þess að ná kosningu í þessi embætti. Ég hef aldrei fyrir mitt leyti skilið það að prestur væri endilega miklu nær Drottni hér í Reykjavík heldur en úti á landi.