02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

178. mál, veiting prestakalla

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég má til með að segja hér örfá orð þó að ég hafi nú fengið aðvörun frá sessunaut mínum, hv, þm. Geir Gunnarssyni, um það að aldrei mætti svo tala um trúmál hér að ekki væri hálfur þingfl. alþb. kominn í þær umr. Sannleikurinn er nú sá, að þó að mönnum þyki það e.t.v. ótrúlegt og sitji síst á mér að fara að tala um þessi efni og það sem snertir trúmál, þá hef ég þó komist það langt á því sviði að vera bæði meðhjálpari og sóknarnefndarmaður og tel mig þess vegna geta af nokkurri reynslu talað í þessum efnum, þó auðvitað ekki af eins mikilli og þeir sem hafa mælt hér mest með samþykkt þessarar till.

Ég vildi aðeins koma einu atriði að hér til viðbótar því sem hefur komið fram í þessum umr. Það er í raun og veru alls ekki rétt að vilji þingsins hafi ekki komið fram, — auðvitað ekki beggja d., það er rétt, — en í Ed., þar sem þetta mál hefur tvisvar borið að með þeim hætti að lagðar hafa verið til róttækar breytingar á fyrirkomulagi þessu, þá hefur Ed. verið alveg einróma í því máli. Hún hefur sem sagt hafnað till. um breytta skipan, einfaldlega hafnað þeim. Og þrátt fyrir það að meðal flm. séu nú Ed-menn, þá hefur þar engin rödd heyrst hingað til sem hefur mælt með breytingu, en margar andmælaraddir þar. Menn hafa verið þar á einu máli um að það væri ekki til bóta að hverfa frá núgildandi fyrirkomulagi, þrátt fyrir þá óskaplegu lýsingu sem hér hefur verið gefin á prestkosningunum, sem ég verð nú að segja að er mjög orðum aukin.

Það vill nú svo til innan okkar kirkju að þar togast á ákveðin öfl. Það er þess vegna alls ekki rétt að það sé bara verið að kjósa um persónur. Innan kirkjunnar togast á mjög andstæð öfl: frjálslynd öfl annars vegar og þröngsýn öfl hins vegar, og milli þessara afla hefur aðalslagurinn staðið allajafna og ekki hvað síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Það, að þarna sé bara verið að velja á milli persóna, er alrangt. Það hefur verið fyrst og fremst valið um stefnur, um það hvort menn væru þröngsýnir í trúmálum eða frjálslyndir í trúmálum, a.m.k. hér á þessu svæði. Og þróunin hefur orðið sú, því miður, að ég held að hún sé okkur alþm. mjög til umhugsunar, því að þróunin á síðustu árum hefur verið mjög í þröngsýnisátt innan kirkjunnar, mjög í átt til þröngrar trúartúlkunar, þó að maður gangi nú ekki inn í það svartnætti sem skálholtsrektor boðaði hér fyrir nokkru. En sú stefna, sem hann var þar að boða, á einmitt ört vaxandi fylgi innan kirkjunnar og það meðal margra æðstu manna hennar, og það er miður að svo skuli vera.

Ég skal svo aðeins víkja að því, af því, eins og ég sagði áðan, að ég hef verið í sóknarnefnd, að það er mikill misskilningur ef menn halda að þá hverfi þessi sori allur brott þegar sóknarnefndir og safnaðarfulltrúar eiga að fara að velja prestana í staðinn fyrir að þeir séu valdir í almennum kosningum. Þá fyrst held ég nú að klíkuskapurinn færi að trollríða húsum, eftir að það væri á valdi aðeins örfárra manna að velja prestinn.

Hitt er svo annað, sem ég hef orðið var við núna og er ekki til bóta innan íslensku kirkjunnar, og það er að mér sýnist sú þróun fara að verða ansi áberandi að ákveðinn prestur er settur um stundarsakir í eitthvert ákveðið prestakall og síðan að nokkrum tíma liðnum, þegar hann er búinn að kynna sig, vonandi þokkalega, þá er prestakallinn slegið lausu. Mér er ekki örgrannt um að sú stefna, sem hér er verið að boða m.a., sé einmitt í þessa átt, að færa þetta vald í hendur yfirstjórnar kirkjunnar, að færa þetta vald meira og minna í hendur biskups, hvernig hann ráðstafi prestunum og hvert. Ég vara við þessari þróun eins og allri einstefnu í þessum efnum, alveg sérstaklega þegar mér sýnist allt benda til þess innan kirkjunnar að hún sé að hverfa meira og meira aftur í svartnætti miðalda.