02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

178. mál, veiting prestakalla

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þessi þáltill. fjallar að vísu aðeins um það að skipa n. til þess að hugleiða fyrirkomulag á skipan veitingar prestakalla og er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar hafa umr. snúist um það hvort prestskosningar ætti að afnema eða ekki. Þess vegna vil ég nota tækifærið og lýsa því yfir, eins og raunar kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að í Ed. hafði ég fyrir nokkrum árum tækifæri til þess að greiða atkv. um hvort prestkosningar ætti að leggja niður. Ég var því mótfallinn og er það enn. Ég tel, að fólk eigi tvímælalausan og skilyrðislausan rétt á því að kjósa sér sálusorgara, og legg það þess vegna ekki að jöfnu við aðrar þær embættaveitingar sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni.

Það hefur verið minnst á að prestarnir ættu að vera sáttasemjarar, en til þess að komast í sáttasemjaraembætti þyrftu þeir fyrst að standa í slag. Þetta minnir mig á sögu af gömlum presti sem var uppi fyrir nokkrum árum, sterkur maður og duglegur í alla staði. Hann sagði, þegar hann lauk sínum prestskap, eitthvað svona: Ég sætti þá alla, en hnefana varð ég að nota við suma. Gæti það þá ekki verið bara góður undirbúningur undir prestsstarfið að taka hátt í kosningunum?