02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

178. mál, veiting prestakalla

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hitti naglann á höfuðið áðan þegar hún sagði að við þessir úr dreifbýlinu virtumst vera að sækjast eftir prestum sem væru það sem nefnt hefur verið „altmuligmand“. Við erum að sækjast eftir slíkum mönnum, í mjög góðri merkingu þessa orðs. Yfirleitt duga þeir menn best úti í dreifbýlinu sem eru næst því að vera „altmuligmand“ hvort sem það eru prestar eða aðrir.

En ég stend upp í þetta sinn til þess að vekja athygli á því að þeir tveir guðfræðingar, sem hafa tekið þátt í umr. hér, gera sér mjög tíðrætt um eðli prestkosninga og þær mannskemmdir sem fylgja prestkosningum, Og annar þessara guðfræðinga, hv. 6. þm. Reykv., sagði áðan að prestkosningar ætti að afnema vegna þess að þær ýti undir ósamlyndi og rógburð og allt það lægsta sem í manneskjunum býr, Það hefur verið fært fram sem rök fyrir því, að við ættum að samþykkja þá breytingu sem hér er til umr., að Kirkjuþing hefur mælt með því. Ég held að Kirkjuþing ætti að byrja á því að athuga hvernig í ósköpunum stendur á því að það eru einmitt prestkosningar, samkv. þessari kenningu, sem æsa upp, að því er virðist, allar lægstu hvatir íslendinga. Þetta gæti sannarlega orðið merkilegt rannsóknarefni.