03.11.1975
Neðri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Fjárreiður stjórnmálaflokkanna hafa talsvert verið til umr. á undangengnum árum og stundum hafa gosið upp deilur og ásakanir um óeðlilega fjáröflun stjórnmálaflokkanna og meðferð fjármuna. Ég skal ekki verða fyrstur til hér á Alþ. að hefja upp deilur um þetta efni, en mun einungis gera málefnalega grein fyrir því frv. sem ég hér flyt.

Meginefni þess er það, að stjórnmálaflokkar verði framtalsskyldir, en jafnframt flyt ég annað frv. þar sem kveðið er á um bókhaldsskyldu stjórnmálaflokka, en nú orkar tvímælis hvort þeir séu yfirleitt bókhaldsskyldir. Þá er í öðru lagi ákvæði um að heimilt sé að draga nokkra fjárhæð frá skattskyldum tekjum þegar fénu er varið til styrktar stjórnmálaflokkum. Er þetta til samræmis við gildandi lagaákvæði um skattfrelsi fjár sem varið er til menningarmála, líknarstarfsemi og kirkjulegrar starfsemi. En þó er í frv. gert ráð fyrir að einungis 5% tekna megi vera skattfrjáls til stjórnmálaflokka, en ekki 10% eins og er um þá málaflokka sem áður greindi. Loks er svo ákvæði um að undanþiggja megi happdrættisvinninga stjórnmálaflokka skattskyldu eins og er um önnur happdrætti.

Að sjálfsögðu er það álitamál hve háa hundraðstölu skattskyldra tekna eigi að draga frá þegar fénu er varið til styrktar stjórnmálaflokkum og er ég til viðræðu um að breyta tölunni til lækkunar eða hækkunar eftir því sem hv. þm. kynnu að telja eðlilegt.

Varla getur verið ágreiningur um það, að stjórnmálaflokkar þurfi í nútímaþjóðfélagi á talsverðum fjármunum að halda. Um það ætti raunar ekki heldur að vera ágreiningur að æskilegast er að stjórnmálaflokkar afli fjár síns með frjálsum framlögum þess fólks sem þá styður. Þess vegna er eðlilegt að örva menn til beinnar stjórnmálaþátttöku á þann veg að þeir leggi nokkuð á sig til að vinna að framgangi þeirra sjónarmiða eða hugsjóna sem þeir aðhyllast. Stundum er því að vísu hreyft að eðlilegt væri að ríkið styrkti stjórnmálaflokkana. Þeim sjónarmiðum er ég eindregið andvígur. Mér finnst ekki koma til greina að skylda mig til að leggja fram fjármuni til eflingar Alþb. t. d., alveg á sama hátt og mér fyndist fráleitt að Alþb.-menn væru skyldaðir til að styrkja okkur sjálfstæðismenn. Stjórnmálaflokkana á að mínu mati alls ekki að þjóðnýta með þeim hætti að ríkið kosti starfsemi þeirra eða geri þá út. Hitt er vissulega heppilegra og líklegra til að stuðla að heilbrigðri lýðræðislegri þróun, að fólkið sjálft beri ábyrgð á samtökum sínum og baráttutækjum eins og stjórnmálaflokkar eiga að vera.

Gott er líka að menn hugleiði að ríkisframlög til stjórnmálaflokka eru líkleg til að leiða til stöðnunar. Þá gætu stjórnmálamennirnir, einmitt þeir sem með völdin fara, þeir sem tekist hefur að búa um sig í ríkiskerfinu, ákveðið að viðhalda stöðnuðum flokkum með ótakmörkuðum fjármunum, sem frá alþýðu væru teknir, án þess að spyrja kóng eða prest. Og meiri hl. á Alþ. gæti með þeim hætti mismunað flokkum og kæft nýgræðing. Ríkisframlög til stjórnmálaflokka stuðla að því að auka það miðstjórnarvald sem menn með réttu hafa ímugust á, en frjáls framlög almennings til stjórnmálaflokka stuðla að valddreifingu. Þess vegna er það von mín að hv. alþm. taki frv. þessu vel og séu fúsir til að fjalla um það málefnalega. Auðvitað geri ég mér fullljóst að þetta frv., þótt að lögum yrði óbreytt eða með einhverjum breyt., leysir ekki allan vanda, en sannfærður er ég um að lögfesting þess yrði til mikilla bóta og kannske sú aðgerðin sem nú á þessari stundu væri líklegust til að efla virðingu landslýðs fyrir stjórnmálaflokkum og stjórnmálastarfsemi sem mér skilst að ekki sé vanþörf á.

Í frv. er hvergi skilgreint hvað stjórnmálaflokkur sé og skilgreining á því hugtaki er raunar hvergi í íslenskri löggjöf. Vissulega væri æskilegt að lög yrðu sett um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka og kannske verða þær umr., sem nú fara fram um stjórnmálaflokkana, til þess að menn snúi saman bökum til að lögfesta reglur um störf stjórnmálaflokka. En þegar um frv. verður fjallað í þn. mun þau mál vafalaust bera á góma og vel má svo fara að unnt verði að sameina menn um úrbætur til styrkingar stjórnmálaflokkum og þar með lýðræðislegri stjórnskipan.

Stjórnmálaflokkar eiga að vera styrkar stofnanir. Þar með er þó ekki sagt að þeir eigi að sitja yfir hlut manna, heldur þvert á móti. Þeir eiga að vera vettvangur sem fólkið hefur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og láta til sín taka. Þar eiga menn að hafa áhrif, en ekki að vera áhrifalausir þátttakendur í einhverju fjarstýrðu bákni.

Sumir kunna nú að benda á að hér á landi hafi þegar þekkst styrkir til stjórnmálaflokka, hinir svokölluðu blaðastyrkir. En ég vil taka það skýrt fram að Sjálfstfl. hefur aldrei fallist á neina styrki til dagblaða. Það var sett að algjöru skilyrði af hans hálfu, þegar mál þetta upphaflega bar á góma, að um kaup á dagblöðum yrði að ræða, en ekki styrki til dagblaðanna. Að sjálfsögðu var eðlilegt að Alþ. og aðrar stofnanir greiddu fyrir þau dagblöð sem talið var nauðsynlegt að þessar stofnanir fengju. Um áratuga skeið hafði það verið tíðkað að útgefendur dagblaða gæfu blöð til margvíslegra opinberra stofnana. Þetta var óeðlilegt fyrirkomulag og þess vegna var horfið að því ráði að ríkisstofnarnir greiddu fyrir þau blöð sem þær fengju. Þetta á ekkert skylt við styrk til stjórnmálaflokka eða blaðaútgáfu, heldur er hér um að ræða alveg eðlilegan viðskiptahátt.

Von mín er sú að þorri hv. alþm. sé mér sammála um meginefni þessa frv. Ég legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. Þar vona ég að það fái ítarlega meðferð, en þó fyrst og fremst skjóta meðferð, því að helst þyrfti að lögfesta frv. nú fyrir áramótin, þar sem vart er unnt að krefjast framtala af stjórnmálaflokkum fyrr en þeir hafa óumdeilanlega verið bókhaldsskyldir um eins árs skeið. Eins og ég sagði áðan er ég reiðubúinn til viðræðna um einhverjar breyt. á þessu frv., en legg á það megináherslu að málið fái afgreiðslu. Það hygg ég að væri þinginu til sóma og þjóðinni allri til gæfu.