02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

178. mál, veiting prestakalla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að lengja þetta mikið. Það eru aðeins örfá orð sem ég vil bæta við út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði um að hér væri einungis um að ræða einfalda till. til þál. Það er út af fyrir sig rétt, og ég gat þess áðan líka. En grg. með till. bendir þó til þess til hvers er ætlast af hv. flm. þessarar þáltill. að gert verði, og í framsöguræðu hv. 1. flm. till. skildi ég a.m.k. svo að hann teldi að endurskoðun ætti að leiða af sér breytingu í þá átt sem frv. voru sem hafa legið hér tvisvar fyrir þinginu. Ég skildi það svo. Hér erum við komin inn á efnisatriði málsins, strax í upphafi ræðu hv. 1. flm. till., og það er ekki óeðlilegt að efnisleg hlið málsins sé rædd einmitt með hliðsjón af þessu. En till. sjálf er ekki um annað en að leggja til að skipa n. Ég tel mig a.m.k. vita til hvers hv. flm. ætlast af þeirri n. sem þeir gera ráð fyrir að kosin verði.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan að prestkosningar ýttu undir ósamkomulag, sundurlyndi, rógburð og allt það lægsta sem í manneskjunni býr. Nú má vel vera að þetta hafi gerst hér á þessu svæði. Ég þekki ekki til þessa. Ég efast um að það fyndust dæmi slíks þó að leitað væri úti á landsbyggðinni, að þar fyndust dæmi um þetta. En vel má vera að slíkur hugsunarháttur ríki hér á þessu svæði. (SvJ: Gættu að þínum fullyrðingum.) Hv. þm. þarf ekki að hafa neinn andvara á sér til þess að passa munninn á mér. Það væri trúlega þörf á því gagnvart hv. þm. sem standa honum nær en ég, þannig að ég ábyrgist það, sem ég segi, og hann þá það, sem hann segir. En ég sem sagt hef ekki orðið var við þetta, ekki þar sem ég hef heyrt til, fyrr en nú, að þetta er sagt hér, að slíkar ótrúlegar kenndir, ómanneskjulegar kenndir vakni upp á þessu svæði þegar prestkosningar ber að garði. Og þá hlýtur að vera eitthvað meira en lítið að þegar slíkt kemur upp eins og hér er lýst. Og það væri þá nær að huga að breyttu hugarfari þeirra, sem þannig bregðast við, heldur en að setja okkur hina á þennan sama bát og skikka þennan eða hinn til þess að gegna hjá okkur sem viljum eiga þann rétt að velja okkur sjálfir sálusorgara. (Gripið fram í.) Það efast ég stórlega um. Ég efast stórlega um að þetta sé leiðin til þess. Hér er verið að þrengja mjög að lýðræðinu sem a.m.k. ég vil halda í heiðri, og ég vil hafa ákvörðunarrétt um að velja mér þann sem boðar fagnaðarerindið á því svæði sem ég lifi og starfa á. Og þó að það væri svo, eins og hv. 2. þm. Vesturl. sagði, að það kæmu 15-20 menn sem ættu að ákvarða hvaða sálusorgari væri á þessu og hinu svæðinu, — þótt þeir væru 15 eða 20 eða helmingi fleiri, þá er það allt of lítil mynd af því sem í ljós kæmi ef fjöldinn fengi sjálfur að ákvarða með kosningu hvernig hann vildi velja.

Ég þekki t.d. dæmi þess að það eru aðeins 7 menn í 1000 manna byggðarlagi sem mundu eftir þessari reglu segja til um það klárt og kvitt hvaða klerkur kæmi til með að þjóna. Ég þykist vita að það yrði ekkert minna um togstreitu heldur en menn eru að lýsa hér við þær kringumstæður sem nú gilda. Og ég vil segja fyrir mitt leyti við hv. 2. þm. Vesturl., að miklu betur kynni ég við það eftir að hafa farið inn á 300 heimili á þrem vikum að hljóta kosningu út á eigin persónu heldur en út á einhvern ákveðinn flokk. Ég kysi það miklu frekar. Og ég trúi ekki öðru en í prestastéttinni sé almennt það viðhorf ríkjandi að þeir vilji umfram allt treysta á eigin dómgreind og eigin verðleika og fá að starfa á þeim stöðum sem það fólk, sem þar býr, hefur fengið tækifæri til að segja til um þeirra eigin verðleika.

Hv. 2. þm. Vesturl. sagði að prestkosningar væru skrípamynd af lýðræðinu. En ég kannast ekki við slíka skrípamynd og ég segi: sem betur fer. Þar sem hún er ríkjandi, þar þarf að uppræta hana, en ekki með þessum leiðum, að svipta menn kosningarétti til þess að ákvarða sér sálusorgara. Það þarf að fara aðrar leiðir til þess að uppræta þennan ósóma, ef hann er fyrir hendi, heldur en þá leið að svipta menn lýðræðislegum kosningum.