02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

129. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Við hv. þm. Karvel Pálmason og hv. þm. Páll Pétursson höfum leyft okkur að flytja till. til bál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að komið verði á fót stofnlánasjóði eða stofnlánadeild, sem hefði það hlutverk að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum.“

Till. þessi er nú flutt í þriðja sinn.

Þörfin á stofnlánasjóði eða stofnlánadeild, sem sinnti þessum verkefnum, eykst stöðugt. Vandi einstaklinga vex að sama skapi. Hér er um margmilljónaatvinnutæki að ræða sem víxilfyrirgreiðsla ein, allra síst eins og henni er háttað í dag, leysir ekki á nokkurn hátt.

Till. hlaut þegar mikinn stuðning þeirra aðila, sem hér eiga erfiðasta aðstöðu, og m.a. lá fyrir síðasta þingi eindregin stuðningur Landssambands vörubifreiðastjóra við aðalefni þessarar tillögu.

Vörubifreiðar með fullkomnum útbúnaði kosta nú á annan milljónatug. Vöruflutningar með bifreiðum fara sífellt vaxandi. Deila má um hve rétt sú stefna er og hversu vel vegir okkar þola þá miklu þungaumferð, en staðreyndin er ótvíræð engu að síður.

Farþegaflutningar með bifreiðum eru ómissandi þáttur í okkar samgöngukerfi. Skipulagning þeirra mætti um margt betur fara, en nauðsynin er mikil, einkum úti í strjálbýlinu, þó að farþegafjöldi á ýmsum leiðum þar fari fjarri því að standa undir hinum mikla kostnaði. Þar er oft notast við úrelt og léleg samgöngutæki, eðlileg endurnýjun dregst vegna fjármagnsskorts, enda er einkabilisminn þungur í skauti í samkeppninni þar eins og annars staðar. En þegar á reynir, þegar færð versnar eða þegar eitthvað annað bjátar á, þá vilja menn hafa þessa þjónustu tiltæka og til sérleyfishafanna eru gerðar vaxandi kröfur sem hinir smærri og efnaminni ráða alls ekki við, m.a. vegna þess að öll eðlileg stofnlán vantar. Sums staðar liggur við að þjónusta þessi leggist niður, annars staðar er hún nánast nafnið eitt. Erfiðasti hjallinn fyrir alla þessa aðila er hinn gífurlegi stofnkostnaður en allrar eðlilegrar fyrirgreiðslu lánakerfisins í landinu.

Ekki skal vinnuvélunum gleymt sem ryðja sér æ meira til rúms, létta af mannshöndinni mörgu erfiðu verki og eru ómissandi við hvers kyns veigameiri framkvæmdir. Kranar, gröfur, ýtur, svo að eitthvað sé nefnt, kosta of fjár og ekki á margra færi að eignast annars þessi nauðsynlegu tæki af eigin rammleik. Ég bendi þó á góða fyrirgreiðslu Byggðasjóðs til þeirra aðila sem uppfylla tiltölulega þröng skilyrði þess sjóðs, m.a. hlutdeild sveitarfélags eða stuðning sveitarfélags í einhverju formi. Eins og bent er á í grg. er hér ekki um eðlilegt verkefni að ræða fyrir Byggðasjóð nema þá sem viðbótaraðila hjá þeim sem erfiðasta hefur aðstöðuna og brýnasta frá byggðasjónarmiði.

Við gerum enga till. um það hversu há lán í hlutfalli við kaupverð þessara tækja sjóður eða deild ætti að veita. Það er þó skoðun okkar að lægri prósenta en 50 kæmi vart til greina, og samkv. reynslu okkar hér af mun það síst of mikið. Við gerum ekki heldur till. um fjármögnun sjóðsins, en þar hlyti að verða að fara troðnar slóðir, sem líkastar þeim sem gilda um aðra stofnlánasjóði. Við bendum á tvær leiðir í grg.: annars vegar að Framkvæmdasjóður leggi til lánsfé og í öðru lagi komi til gjald frá eigendum þessara atvinnutækja sem þeir skiluðu til sjóðsins eftir vissum reglum. Á s.l. ári mun Framkvæmdasjóður hafa veitt, að því er mér er tjáð, um 40 millj. kr. í þessu skyni, sem algera bráðabirgðaráðstöfun þó, og mun Iðnaðarbankinn hafa haft þar milligöngu eða annast þá útdeilingu. Mér er sagt að þetta hafi nánast verið í því formi sem líkast er venjulegri víxilfyrirgreiðslu, og annar framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunarinnar hefur tjáð mér að þessi leið þyki ekki fær, það sé jafnvel einskis að vænta á þessu ári. Reynslan hefur e.t.v. ekki verið nógu hagstæð eða þá að hið algera peningaleysi, sem alltaf er viðbrugðið, segi hér til eins og víðar. En hinu verður ekki snúið við, að öll þessi tæki eru orðin ómissandi og það er alrangt að svelta eigendur þeirra með öllu varðandi stofnlán. Að öðrum kosti verða það eingöngu stærri og öflugri fyrirtæki og verktakar sem þessi tæki eiga, en hinn venjulegi maður hverfur úr leiknum með öllu. Ég held að þessi ráðstöfun Framkvæmdasjóðs í sumar hafi undirstrikað nauðsyn á frambúðarlausn: stofnun sjóðs eða stofnlánadeildar til að sinna þessu verkefni af fullum myndarskap.

Andmæli og aths. hafa vissulega heyrst. Það er komið nóg af sjóðum, segja menn. Vissulega má það satt vera. En hér er engu að síður um alvarlega eyðu að ræða varðandi eðlilega lánsfyrirgreiðslu, og þetta mál ber á einhvern hátt að leysa. Margmilljónatæki geta ekki verið án eðlilegra stofnlána með sæmilegum kjörum, ekki nema þá, eins og ég sagði áðan, í eigu nógu voldugra aðila sem þá mundu fljótt einoka þetta, svo sem þegar vill við brenna með sumar dýrari vinnuvélarnar og reyndar fleira. Okkur hefur verið á það bent að þessi stóru fyrirtæki, þessir stórverktakar, sem í dag eiga t.d. mikinn hluta vinnuvélanna, muni einoka þennan sjóð. Sú hætta er að vísu fyrir hendi ef ekki er rétt að staðið í upphafi, ef hinu venjulegi maður, sem ætlar sér aðeins að eignast gott atvinnutæki fyrir sig til eigin lífsframfæris, fær ekki sama rétt og að okkar áliti og vilja forgang til lána. Við flm. viljum einmitt undirstrika þetta. Við erum með þessu móti að koma til móts við hinn almenna mann, hvort sem atvinna hans er bundin jarðýtu, vörubifreið eða langferðabil. Þeirra vandi er mestur. Hann þarf að leysa. Bankakerfið leysir hann ekki, þó að það leysi vanda hinna stóru og öflugu aðila í þessum greinum. Þeir eiga þar auðveldari leið sakir stærðar og ýmissa áhrifa.

Við flm. erum sannfærðir um nauðsyn eðlilegrar fyrirgreiðslu til hins almenna ýtustjóra eða vörubilstjóra, einmitt til þess að atvinnutæki þau, sem till. snýst um, verði ekki í einokun fárra aðila. Öll þróun stefnir einmitt í þá átt. Og auðvitað leggjum við eðlilega áherslu á að þeir njóti hér bestrar fyrirgreiðslu sem við verstu aðstæðurnar búa, svo sem er um sérleyfishafa ýmsa úti á landsbyggðinni. Með þessari till. erum við að reyna að þoka þessu máli í réttlætisátt. Við væntum þess að hún fái nú jákvæða afgreiðslu loksins. Andmælarödd hefur aldrei heyrst nein við aðalatriðum þessarar till. Form hennar er viljandi haft rúmt, aðeins skorað á ríkisstj. að hún hlutist til um þetta verkefni. Aðalatriðið er að gröfueigandinn eða bifreiðarstjórinn geti aflað sér síns atvinnutækis á eðlilegan hátt eins og bóndi eignast sína dráttarvél eða fiskimaðurinn sína trillu. Það er höfuðtilgangur okkar með þessum tillöguflutningi.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. atvmn.