03.11.1975
Neðri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hv. flm., 4. þm. Norðurl. v. hefur tekið fram í grg. með því frv., sem hér er til umr., er hér raunar um að ræða mál sem hann flytur á tveimur þskj. En eins og kemur fram í grg. hv. flm. með því frv., sem hér er til umr., kýs hann þó heldur að ræða þau í samhengi, eins og hann raunar þar gerir. Annars vegar er hér um að ræða frv. hans á þskj. 37, þar sem hann leggur til að gjafir til stjórnmálaflokka verði undanþegnar skatti með svipuðum hætti og gjafir til líknarfélaga, hins vegar frv. er hann flytur á þskj. 38, þar sem hann leggur til að stjórnmálaflokkar verði gerðir bókhaldsskyldir. Hv. flm., 4. þm. Norðurl. v., hefur kosið að hafa þann hátt á að tengja þetta tvennt saman í eitt mál og leggja það þannig fyrir, að manni skilst, að samþykkt annars frv. sé háð samþykkt hins eða m. ö. o. að samþykkt frv. á þskj. 38 um að gera stjórnmálaflokka bókhaldsskylda sé háð samþykkt frv. á þskj. 37 um að gjafir til stjórnmálaflokka verði undanþegnar skatti.

Það má vera og er raunar að hv. flm. vilji tengja þessi tvö mál saman. En það er ekki þar með sagt að slíkt eigi eða þurfi að gerast. Það skýrist að sjálfsögðu best með því að benda á, að það eru fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu, raunar flestir í þeim hópi, sem eru bæði framtalsog bókhaldsskyldir án þess þó að framlög þeirra til stjórnmálaflokka njóti skattfrelsis. Því er mætavel hægt að samþ. frv. á þskj. 38 án þess að því fylgi samþykkt á frv. á þskj. 37 og að sjálfsögðu jafnauðvelt að ræða sem tvö aðskilin mál. En vegna þess að í grg. með frv. því, sem hér er til umr., þskj. 37, hefur flm. kosið að ræða frv. bæði sem nokkurs konar sama mál eða tvær hliðar á sama máli, þá tel ég nokkra ástæðu og vona að hv. forseti umlíði mér það að ræða þessi mál í samhengi, án þess þó að þar með sé ég að viðurkenna þá skoðun hv. flm. að málin séu og hljóti að vera samofin.

Ég er flm. algjörlega sammála um að það er eðlilegt og raunar nauðsynlegt að gera stjórnmálaflokka og stofnanir á þeirra vegum bókhaldsskylda og get þar af leiðandi stutt frv. hans á þskj. 38 þar um. Ég vil raunar ganga skrefi lengra en hv. flm. gerir till. um, þ. e. a. s. ég vil ekki aðeins að stjórnmálaflokkar verði skyldaðir til þess að færa bókhald og telja fram, heldur einnig að þessir aðilar verði skyldaðir til að birta reikninga sína opinberlega, bæði reikninga flokkanna sjálfra, flokksstofnana, kjördæmissambanda og kosningasjóða. Í því er í fyrsta lagi fólgin nokkur trygging að flokkar geri opinberlega hreint fyrir sínum dyrum og í öðru lagi fróðlegt fyrir almenning að sjá hvaða fjármuni flokkar hafa á milli handanna, hvort og þá hvaða samsvörun er á milli þeirra fjármuna, sem flokkur hefur úr að spila, og þess árangurs sem hann nær t. d. í kosningum. Einnig teljum við rétt að almenningur eigi að fá að vita hvaðan flokkar fá fé til starfsemi sinnar og á ég þá ekki aðeins við almenna flokks- og kosningasjóði, heldur einnig þau fyrirtæki, hlutafélög eða sameignarfélög sem stofnuð eru í þágu og á vegum flokka til þess að veita þeim þjónustu eða skapa þeim aðstöðu þótt þessi félög séu sjálfstæð að nafninu til. Það gefur auðvitað auga leið að það er lítill vandi fyrir stjórnmálaflokka og raunar tíðkað af þeim mörgum hverjum að segjast ekkert eiga sjálfir og vísa svo til þess þegar spurt er t. a. m. um fasteignir þær, sem flokkur eða stofnanir hans hafa til ráðstöfunar, að þær séu í eigu sjálfstæðra hluta- og sameignarfélaga sem ekki séu flokknum viðkomandi. Með þeim hætti getur stjórnmálaflokkur að sjálfsögðu verið stórauðugur öreigi, lagt undir sig heil borgarhverfi án þess að telja sig eiga bót fyrir rassinn á sér. Sú upplýsingaskylda, sem ég tel að flokkur eigi að undirgangast varðandi fjárreiður sínar, þjónar auðvitað engum tilgangi nema hún nái bæði til flokksins sjálfs svo og þeirra stofnana eða félaga sem starfa á hans vegum og veita honum þjónustu, fjárhagsstuðning, húsnæðisaðstöðu eða aðra beina fyrirgreiðslu.

Það eru ekki aðeins almennar siðgæðiskröfur sem valda því að ég tel rétt og sjálfsagt að flokkar og flokksstofnanir séu ekki aðeins bókhalds- og framtalsskyld, heldur jafnframt skyld til þess að birta reikninga sína opinberlega. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er einnig sú að ég tel að sú almenna regla eigi að gilda um flesta eða alla þá aðila, sem þiggja af opinberu fé, að þeir geri a. m. k. hinu opinbera og helst almenningi í landinu, sem stendur straum af hinni opinberu fyrirgreiðslu, grein fyrir fjármunaráðstöfunum sínum með því að birta reikninga sina. Þetta á að vera grundvallarkrafa til allra þeirra fyrirtækja og stofnana sem njóta styrks af almannafé. Almenningur á að fá að vita hvernig þessir aðilar ráðstafa þessu fé, hver sé þörf þeirra fyrir það og hvort því er varið eins og til er ætlast. Hér er vissulega um talsverða kvöð að ræða gagnvart þeim sem þiggja framlög af almannafé, en kvöð sem ég tel bæði rétt og eðlilegt að þeir gangist undir um leið og þeir þiggja opinbera styrki. Hér á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við atvinnufyrirtæki og félög, svo sem eins og líknarfélög, stjórnmálafélög og aðra slíka, en ekki við einstaklinga sem t. a. m. þiggja fé frá því opinbera í formi tryggingarbóta eða því um líkt.

Nú þiggja stjórnmálaflokkar og blöð þeirra opinbera styrki í ýmissi mynd, þótt miklum ofsögum sé sagt af því hverjir þeir eru og hve miklir. Styrkir, sem svo eru kallaðir, t. d. til blaðanna eru í raun og veru aðeins greiðsla frá ríkisvaldinu fyrir kaup á þjónustu eða vöru. En nokkra styrki þiggja flokkar og blöðin nú samt og því tel ég eðlilegt að þessir aðilar geri árlega opinberlega grein fyrir fjárreiðum sínum og ekki aðeins sínum eigin fjárreiðum, heldur jafnframt fjárreiðum þeirra fyrirtækja og stofnana sem stofnuð eru í þágu flokksins til þess að veita honum ákveðna þjónustu, ákveðna fyrirgreiðslu, eins og húsnæðisaðstöðu eða annað slíkt. Niðurstaða mín er sem sé þessi:

Ég er reiðubúinn til að styðja að samþykkt frv. á þskj. 38 um að stjórnmálaflokkar verði gerðir bókhaldsskyldir og vil raunar ganga mun lengra, þ. e. a. s. að skylda þá til þess að leggja opinberlega fram ársreikninga sína, endurskoðaða af löggiltum endurskoðanda.

Og þá vil ég víkja að hinu málinu, sem hér er til umr., frv. á þskj. 37. Ég get sagt það strax að mér lýst ekki jafnvel á það eins og hitt. Hér er um það að ræða að setja stjórnmálaflokkana á stall með viðurkenndum líknarfélögum sem eru eins ópólitísk og nokkur félög geta verið. Stjórnmálaflokkar eru engin líknarfélög, ekki einu sinni þeir sem taka allt sitt mið af fyrirgreiðslupólitíkinni svonefndu og líta á sig sem nokkurs konar heilsuhæli fyrir sérhvern þrýstihóp með uppbúin rúm fyrir alla. Stjórnmálaflokkar eru þvert á móti aðilar sem sækjast eftir völdum og nota alla þá fjármuni, sem þeir komast höndum yfir, til þess ýmist að festa sig í valdasessi eða til þess að reyna að hefja sig hærra á slíkan sess. Og hvað sem líður öllu tali einstakra stjórnmálaflokka um að þeir hafi í húsi sínu álíka margar vistarverur og guð faðir á himnum, þá er staðreyndin engu að síður sú, að flokkar þessir eru hver um sig fulltrúi ákveðinna skoðana um hvernig völdum skuli beitt og þar með fulltrúar ákveðinna hópa eða stétta í þjóðfélaginu, þrýstihópa eins og ritstjóra eins dagblaðsins hugkvæmdist að kalla stéttirnar í þjóðfélaginu þegar honum datt í hug að fara nú að enduruppgötva Marxismann á íslensku. Það er þetta sem við verðum að hafa í huga þegar við ræðum leiðir til að gera eftirsóknarvert að gefa fé til stjórnmálaflokka, eins og frv. á þskj. 37 gerir ráð fyrir að gert sé með því að heimila örlátum að draga undan skatti framlög sín til flokka eða öllu heldur framlög til sinna flokka, — því að hvaða aðilar og hvaða flokkar koma til með að njóta öðrum fremur slíkra lagaákvæða? Hverjir hafa efni á að gefa fé í þeim mæli að þá muni eitthvað um það í skatti og hverjir eru líklegir til þess að fá slíkt fé af stjórnmálaflokkunum? Svarið við því er næsta einfalt. Þeir, sem helst hafa efni á að gefa, eru auðvitað þeir hinir sömu sem mest fé hafa á milli handa, og þeir aðilar, sem líklegastir eru til að þiggja þetta fé í einhverjum mæli, eru auðvitað þeir stjórnmálaflokkar sem gefendurnir telja að líklegastir séu til þess að gæta þeirra málstaðar í valdabaráttunni í samfélaginu. M. ö. o. frv. á þskj. 37 er í raun réttri tilraun til þess að færa þeim stjórnmálaöflum í landinu, sem bera hagsmuni auðstéttanna fyrir brjósti, sterkari fjárhagslega aðstöðu en þeir hafa nú til þess að heyja þá baráttu með því að gera þeim, sem fjármagninu ráða, í senn auðveldara og útgjaldaminna að gefa flokkum sínum fé. Eða hversu mikið fé telur hv. flm. að óbreyttur launþegi, verkamaður, sjómaður, bóndi eða iðnaðarmaður, geti víkið að þeim flokki sem hann vill styrkja, samanborið við hvað athafnamaðurinn eða stórfyrirtækið getur látið af hendi rakna til síns flokks þegar í boði eru skattahlunnindi á móti gjöfinni.

Það er einkar athyglisvert að þann hinn sama dag sem hv. flm. þessa frv., hv. 4. þm. Norðurl. v., lagði fram frv. sitt um skattfrelsi gjafa til stjórnmálaflokka, þá lagði annar hv. þm., Ragnar Arnalds, fram annað frv., á þskj. 34, þar sem m. a. kemur fram að á árinu 1975 voru hátt á fimmta hundrað atvinnufyrirtæki í Reykjavík, meðal þeirra ýmis öflugustu atvinnufyrirtæki þjóðarinnar, sem samtals veltu 20 þús. millj. kr. á skattárinu, en greiddu ekki svo mikið sem eina krónu í tekjuskatt. Hvað heldur hv. flm. að þessi listi yfir skattfrjáls fyrirtæki gæti orðið langur, ef frv. hans um skattfrelsi gjafa til stjórnmálaflokka næði fram að ganga? Og hvaða stjórnmálaflokka teldi hann líklegasta til þess að njóta góðs þar af? Hv. flm. þarf ekki einu sinni að svara þessum spurningum. Honum er svarið að sjálfsögðu fullkomlega ljóst eins og öllum okkur öðrum þm. Og þá vaknar einnig í beinu framhaldi af þessu sú spurning, hver það í raun réttri sé sem gefur, hversu hátt hlutfall gjafarinnar er í rauninni tekið beint úr ríkissjóði. Með því að gjöfin sé undanþegin skatti missir ríkissjóður að sjálfsögðu skatttekjur sem hann ella mundi hafa. Ætli það láti ekki nærri að allt að 40% slíkrar gjafar kæmu óbeint úr ríkissjóði, þ. e. a. s. sá hluti hennar sem ríkissjóður fengi ella í skatttekjur frá gjafaranum?

Ég fæ því ekki annað séð en að frv. þetta geri ráð fyrir ríkisframfærslu stjórnmálaflokka og þykir mér merkilegt að slík till. komi frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, fyrrv. ritstjóra Morgunblaðsins, þess blaðs sem ekkert hefur vitað óskaplegra en það að ríkisvaldið styrki stjórnmálastarfsemi í landinu. Munurinn á beinni styrkveitingu, sem yrði þá afgr. á fjárl., og þeirri óbeinu ríkisframfærsluleið, sem í þessu frv. er lagt til að farin verði, er því aðeins hvar ákvörðunarvaldið um ráðstöfun fjármunanna liggur. Væri um beina styrkveitingu að ræða lægi það að sjálfsögðu hjá Alþ. þar sem leitast yrði við að hafa uppi jafnréttissjónarmið um hvernig fé yrði úthlutað til stjórnmálaflokkanna. Verði leiðin í frv. valin liggur ákvörðunarvaldið hins vegar hjá fámennum hópi þjóðfélagsþegna og þá fyrst og fremst hjá þeim aðilum sem hafa mest fé úr að spila, en oft minnst fé til þess að greiða með skatta. Fyrst og fremst þau stjórnmálaöfl í landinu, sem hafa valið sér þá stöðu í stjórnmálabaráttunni að þeir sem fjármálunum ráða telja sér það í hag að styrkja þá með fjárútlátum, muni njóta góðs af þessu og nú á að fara að gera slíkt enn eftirsóknarverðara og beinlínis ábatasamara en það hefur verið til þessa.

Ég tel þetta ekki hina réttu leið. Ég tel að það sé hægt að komast að sama markmiði eftir öðrum leiðum.

Við þurfum einnig að athuga annað mál í þessu sambandi og það er við hvaða aðstæður þetta frv. er lagt fram. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þm. að í fyrravetur lagði ég ásamt fleiri þm. fram hér í Nd. Alþ. frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt. Frv. þetta fjallaði um að verkafólki í fiskiðnaði yrði heimilað að draga frá tekjum sínum þær tekjur sem þetta verkafólk fengi fyrir nætur- og helgidagavinnu. Ég taldi að þetta frv. gæti átt greiða leið hér í gegnum þingið vegna þess að tveir af ráðh. í núv. hæstv. ríkisstj. höfðu einmitt flutt mál um svipað efni í sinni stjórnarandstöðutíð. Raunin varð þó önnur. Báðir þessir hæstv. ráðh. tóku þessum hugmyndum mjög miður, töldu þær óframkvæmanlegar, illframkvæmanlegar, yfirboð og lágkúruskap. Frv. náði ekki fram að ganga. Nú, einu ári síðar, leggur einn hv. stjórnarþm. fram frv. til l. um að ef einstaklingar eða fyrirtæki gefi stjórnmálaflokkum gjafir, þá skuli þær tekjur, sem til gjafarinnar ganga, vera undanþegnar skatti. Þetta frv. er borið fram á sama tíma og það er stefna hæstv. ríkisstj. að íþyngja almenningi enn með skattaáþján. Þá er borið fram frv. af stjórnarsinna um að fella niður skattlagningu af tekjum manna sem verja sínum tekjum til gjafa til stjórnmálaflokkanna í landinu. Hvernig heldur þingheimur nú að almenningur taki slíkum boðskap ofan á allt það sem á undan er gengið? Telja menn það virkilega rétt og eðlilegt, eins og kringumstæður eru í þjóðfélaginu nú, að eina boðorðið, eina tilkynningin, sem Alþ. láti frá sér fara í skattamálum við þessar aðstæður, sé sú að fólk geti fengið skattafslátt ef það víkur gjöfum að stjórnmálaflokki. Menn muna það sjálfsagt enn, þm. og aðrir, hvaða hvellur varð hjá almenningi í landinu þegar launakjör þm. voru hækkuð á sínum tíma á sama tíma og fólkið, verkafólk og aðrir launþegar í landinu, átti um sárt að binda. Hvaða hvellur halda menn að yrði meðal almennings ef frv. af þessu tagi yrði samþ. þar sem stjórnmálaflokkarnir í landinu, flokkavaldið er að berja það í gegn í lögum, að gjafir til stjórnmálaflokka verði undanþegnar skatti, á sama tíma og verið er að hækka skatta á öllum almenningi í landinu og neitað er að taka tillit til tillagna um að það fólk, sem verst er sett, verkafólkið í fiskiðnaði, fái náðarsamlegast að draga frá skatttekjum sínum þær tekjur sem þetta fólk hefur af því að vinna nætur- og helgidagavinnu?

Þrátt fyrir þá annmarka, sem ég hef séð á frv. á þskj. 37, vil ég þó fagna því og lýsa mikilli ánægju með að hv. 4. þm. Norðurl. v. skuli hafa flutt þetta frv., ekki vegna þess að ég sé endilega samþykkur því sem í frv. kemur fram, en með þessu framlagi hans hefur hann þó alla vega vakið hér á Alþ. umr. um mál sem mjög eru umrædd meðal almennings í landinu og nauðsynlegt er að finna einhvern botn i, þ. e. a. s. hvaða reglum fjármunaráðstöfun stjórnmálaflokka á að lúta, hvaða skyldum stjórnmálaflokkar eigi að gegna í því sambandi að upplýsa um fjárreiður sínar og ef til vill hvernig fjáröflun til þeirra sé best komið.

Ég tel að þetta sé hið merkasta sem um frv. á þskj. 37 má segja og þakka hv. þm. fyrir frumkvæði hans um að hefja umr. um þessi mál hér.