02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

141. mál, samkomulag við Belgíu um veiðar innan fiskveiðilandhelgi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi við Belgíu um heimildir til að veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að staðfesta samkomulag það, sem gert var við Belgíu hinn 28. nóv. 1975.“ Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir, staðfestir, ef samþ. verður, samkomulag það sem ríkisstj. hefur gert við ríkisstj. Belgíu varðandi heimildir til að veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Er hér um að ræða takmarkaða framtengingu á veiðiheimildum fyrra samkomulags við Belgíu er féll úr gildi hinn 13. nóv. 1975. Eitt veiðisvæði fellur niður, sem áður var svæði 3 og var fyrir Suðurlandi, en svæðin hafa verið númeruð á ný á meðfylgjandi korti og eru veiðisvæðin birt á fskj. II. Sett er hámarksaflamagn, sem ekki var áður og er nú 6500 tonn og þar af ekki meira en 1500 tonn af þorski. áður voru 19 skip leyfð, en nú eru 12 og eru nöfn þeirra birt sem fskj. með þáltill., fskj. merkt nr. I. Enn fremur eru ný ákvæði um verndun fiskstofna, þ. á m. um möskvastærð, að hún skuli eigi vera stærri en 135 mm. Samkomulag þetta er uppsegjanlegt af beggja hálfu með 6 mánaða fyrirvara.

Það má segja eflaust að þessa till. hefði átt að leggja fyrir hv. Alþ. fyrr og jafnvel áður en samkomulagið var látið taka gildi. En hér er hafður sami háttur og var þegar fyrra samkomulagið var gert, að staðfestingar Alþ. var ekki leitað fyrr en síðar. Að þessu má sjálfsagt finna, en það er ekki fordæmalaust eins og ég segi.

Ég tel ekki þörf á því, nema tilefni gefist til, að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði umr. frestað og till. vísað til hv. utanrmn.