02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

139. mál, iðnaður í tengslum við framkvæmdaáætlun fyrir Norðurlandskjördæmi vestra

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 299 hef ég ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v. leyft mér að flytja till. til þál. um sérstaka athugun á eflingu iðnaðar í tengslum við framkvæmdaáætlun fyrir Norðurl. v. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að í tengslum við framkvæmdaáætlun Norðurlandskjördæmis vestra verði sérstaklega gerð ítarleg athugun á þróunarmöguleikum iðnaðarins í ljósi nýrra viðhorfa í orkumálum kjördæmisins.

Athugun þessi, sem gangi fyrir öðrum þáttum áætlunarinnar, verði unnin af Framkvæmdastofnun ríkisins í nánu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir iðnaðarins. Skýrsla um niðurstöður verði birt þegar að athugun lokinni. Skal þar m.a. koma fram:

1. Ástand og framþróunarmöguleikar hinna ýmsu iðnfyrirtækja sem nú eru starfandi, þ. á m. fiskiðnaðarins.

2. Uppbygging nýrra fyrirtækja, þ. á m. fyrir orkufrekan iðnað af heppilegri stærð við hæfi heimamanna.

3. Fjármögnunarleiðir.“

Áður en ég hef að ræða efnislega um þá till. sem hér er flutt vit ég leyfa mér að fara örfáum orðum um nokkra af þeim þáttum sem setja svip sinn á ástand í Norðurlandskjördæmi vestra að því er tekur til hinna svokölluðu byggðamála. Alkunnar eru hinar gífurlegu breytingar á búsetu fólksins í landinu á síðari áratugum. Fjölgun þjóðarinnar hefur nær einvörðungu orðið við sunnanverðan Faxaflóa á sama tíma sem fólksfjöldi hefur staðið í stað og jafnvel orðið um fækkun að ræða í sumum öðrum landshlutum. Telja verður að á áratugnum 1940–1950 hafi mesta sveiflan orðið í þessari þróun. Þá fjölgaði íbúum í Reykjavík og hinu núverandi Reykjaneskjördæmi um 47.8% á meðan fjölgun í öðrum landshlutum varð aðeins tæplega 0.2%. Þessi mikla sveifla á einum áratug virðist marka þáttaskil í bólfestusögu þjóðarinnar. Orsakirnar hafa vafalaust verið margar og samverkandi, svo sem að ný tækni var að ryðja sér til rúms, tækni sem leiddi af sér aukna verkaskiptingu þjóðarinnar, nýjar þjónustugreinar að rísa á legg, sem þá eins og endranær áttu einkum í fyrstu mest vaxtarskilyrði á höfuðborgarsvæðinu. Enn fremur og ekki síst áttu sinn mikla þátt í búseturöskun þessa áratugs umsvif breta og bandaríkjamanna á stríðsárunum og upp úr því sem höfðu í för með sér mikla og áður óþekkta atvinnumöguleika.

Það er athyglisvert að við upphaf áratugsins hófst einnig það verðbólguskeið sem enn stendur. Eftir 1950 hefur þróunin í heild gengið öll í sömu átt enda þótt búseturöskunin hafi ekki verið jafnhraðskreið og á áratugnum á undan. Þó virðast á lofti á allra síðustu árum nokkur teikn um breytingar. Hvert framhaldið verður skal ekki um spáð, enda þótt ég líti með vaxandi bjartsýni á framvinduna fyrir hina strjálbýlli landshluta. Hitt er víst, að um áratugi hafa flutningar fólks milli landshluta orðið hinum strjálbýlli byggðarlögum blóðtaka sem mikil og alkunn vandræði hafa fylgt.

Norðurl. v. hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Árið 1974 var aðeins 182 íbúum fleira í þeim landshluta en 1930. Frá 1940–1974 hafði fólki hins vegar fækkað þar um 402. Þetta þýðir að sem svarar hlutdeild kjördæmisins í fjölgun þjóðarinnar hefur flust á brott til annarra landshluta og meira en það frá 1940. Á 10 árum, frá 1964–1973, fluttu brott úr kjördæminu 1528 manns umfram þá sem fluttu að á sama tímabili, eða rúmlega 160 manns á ári.

Erfitt er að meta hvaða hluti fólksins það er sem þannig hefur flust brott úr þessu kjördæmi og öðrum svipuðum landshlutum. Allmikið hefur þó verið rætt um hinn svokallaða atgervísflótta, þ.e. að mikil brögð séu að því að þeir flytji til þéttbýlissvæðanna við Faxaflóa sem búnir séu óvenjulegu atgervi, meðfæddu eða áunnu. Talið er að oft sé misbrestur á því að atorkusamt fólk og menntafólk finni hæfileika sína og þekkingu næg tækifæri úti á landsbyggðinni og þess vegna leiti það þangað sem þau bjóðast betri. Hvað sem um þetta má segja er hitt víst, að mikill hluti þessa fólks, sem þannig yfirgefur sína heimabyggð, er í blóma lífsins og við upphaf starfsaldurs.

Í Norðurl. v. varð brottflutningur fólks umfram innflutta á árunum 1965–1970 langsamlega mestur í aldursflokknum 20–24 ára. Þannig varð tap kjördæmisins á þessum árum 28.2% kvenna og 26.1% karla í þessum aldursflokki og komast aðrir aldursflokkar þar hvergi nærri. Er því ljóst að þetta tjón í brottfluttu fólki, sem Norðurl. v. og ýmsir aðrir landshlutar hafa orðið fyrir á liðnum áratugum, er mun meira og sárara en svo að talið verði í tölum einum um mannfjölda. Brottflutningurinn verður langsamlega mestur rétt í þann mund sem heimabyggðir hafa fóstrað sitt æskufólk til manndómsára.

Um allmörg ár eða a.m.k. frá 1963 hafa meðalbrúttótekjur á framteljanda í Norðurl. v. verið verulega lægri en landsmeðaltal. Hefur sá mismunur oft verið 15–20%. Árið 1973 var þetta hlutfall 85% meðal brúttótekna um land allt eða 15% lægra en landsmeðaltalið, og var Norðurl. v. þá lægst allra kjördæmanna. Ekki sýnist mér að þetta hlutfall hafi lagast á árinu 1974 þótt ég hafi ekki reiknað það út nákvæmlega, því að enn er Siglufjörður lægstur allra kaupstaðanna og Sauðárkrókur næstlægstur. Þá er það nýlunda á þessu ári, árinu 1974, frá því sem áður hefur verið, að Skagafjarðarsýsla er orðin lægst allra sýslnanna með rúmlega 620 þús. í brúttótekjur á framteljanda, á sama tíma sem meðaltal allra sýslnanna er 788 þús. og landsins í heild 856.7 þús. Þessar staðreyndir blasa við þrátt fyrir það að á árinu 1974 megi telja að atvinnuleysi sé horfið úr kjördæminu.

Hér skal ekki reynt að meta i:il neinnar hlítar hvaða orsakir liggja til þess að Norðurl. v. er slíkt lágtekjusvæði. Það er þó ljóst að orsökin er að hluta til fólgin í skiptingu mannaflans eftir atvinnugreinum. Ef hlutfallstölur eru notaðar sést að árið 1973 er Norðurl. v. mesta landbúnaðarkjördæmi landsins því að 36.3% framteljenda hafa tekjur sínar af landbúnaði. Suðurland gengur næst með 33.7%. Er þetta hlutfall langhæst í þessum tveimur kjördæmum. Alkunna er að tekjur bænda eru lægri en annarra stétta og hefur þetta að sjálfsögðu veruleg áhrif á meðaltekjur í kjördæminu í heild. Einnig segja til sín áhrif af því að aðeins 4.8% mannaflans eru bundin fiskveiðum, sem er mjög lágt, en tekjur þeirra, sem stunda fiskveiðar, eru verulega hærri en meðaltal tekna. Á sama hátt má segja að hlutfall úrvinnslugreina hvers konar sé fremur lágt. Allt er þetta meðal skýranlegra orsaka lágra meðaltekna í þessu kjördæmi.

Ég hef talið nauðsynlegt að draga fram þær staðreyndir, sem hér hafa verið raktar, til þess að öllum megi vera ljóst hver nauðsyn er að nýta alla hagræna möguleika, sem völ er á, til þess að breyta þessu ástandi í kjördæminu í þá átt að bæta afkomu fólksins og treysta framtíðarbyggð. Að mínum dómi ber að hafa þennan bakgrunn í huga þegar sú till. er metin sem hér er flutt. Að sjálfsögðu vil ég taka það fram, að ég er ekki að kasta rýrð á eða vanmeta á nokkurn hátt það sem vel hefur verið gert og áunnist hefur á undanförnum árum af hálfu núv. og fyrri ríkisstj. og annarra opinberra aðila annars vegar og heimamanna hins vegar, enda kæmi það úr hörðustu átt. Sumt af því eru almennar aðgerðir stjórnvalda í svokölluðum byggðamálum og tel ég þar merkasta stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs sem síðar var breytt í Byggðasjóð og eflingu Byggðasjóðs í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Fjölmargir einstaklingar og félagsheildir hafa heima fyrir klífið þrítugan hamarinn á undanförnum árum við að treysta og byggja upp atvinnulífið í kjördæminu til þess að vinna bug á fólksflóttanum og oft erfiðri afkomu. Atorka og bjartsýni þessara aðila er aðdáunarverð. Staðreyndin er samt sú, að þrátt fyrir að ég telji að vörn hafi verið snúið í sókn með þrotlausri baráttu fyrir málefnum kjördæmisins, þá er ástandið ekki betra en raun ber vitni og ég hef lýst hér að framan, t.d. árin 1973 og 1974.

Árið 1972 flutti Pétur Pétursson, þáv. landsk. þm. till. til þál. um sérstaka framkvæmdaáætlun fyrir Norðurl. v. Þessi till. var samþ. á Alþ. og afgr. sem ályktun Alþ. 2. maí 1972. Síðan hefur heldur lítið um þessa áætlun heyrst og enda þótt nokkuð hafi verið unnið að henni af og til af starfsmönnum Framkvæmdastofnunar ríkisins, þá hefur ekkert af þeirri vinnu komið enn fyrir almenningssjónir. Á undanförnum mánuðum hefur sérstakur starfsmaður Framkvæmdastofnunar ríkisins sinnt þessu verki nokkuð og mun nú vera langt komið því verki að skila til prentunar fyrsta hluta þessarar áætlunar, sem er eins konar skýrsla þar sem fram kemur í fyrsta lagi yfirlit yfir landshætti og náttúrufar í kjördæminu, í annan stað íbúaþróun, atvinnuskiptingu og atvinnuhætti og annað þess háttar sem byggja má á þá áætlun sem hér er ætlað að vinna.

Enda þótt hér hafi verið vikið að nokkrum þeim þáttum, sem verður að finna í þessari skýrslu, þá er vitaskuld augljóst mál að í þeirri skýrslu verður miklu nákvæmari og fjölþættari upplýsingar að finna um stöðu einstakra atvinnugreina og um afkomu fólksins í kjördæminu heldur en hér hefur verið rakið.

Ég tel að sú till. og sú ályktun, sem samþ. var á Alþ. 1972, hafi stefnt að því að betur væri unnið að þessum málum heldur en raun hefur orðið á. Um það þýðir þó ekki að sakast, enda er það mála sannast að ályktunin var með þeim hætti að hún spannaði yfir allar framkvæmdir: framkvæmdir á vegum einstaklinga, félaga, sveitarfélaga og opinberra aðila. Hún spannaði að réttu lagi yfir atvinnuþróun, uppbyggingu atvinnulífs í öllum atvinnugreinum, félagsleg málefni, menningar og menntamálefni, heilbrigðismál og annað þess háttar. Það er því ekki óeðlilegt að kveðið væri á um það að þeim verkefnum, sem þessi áætlun gerir ráð fyrir, verði skipað í einhverja röð, þannig að einn þáttur hennar hefði forgang fram yfir annan.

Með þeirri till., sem hér er flutt, er gert ráð fyrir því að í tengslum við þessa áætlun verði nú gerð sérstök og ítarleg athugun á þróunarmöguleikum iðnaðarins í Norðurl. v. í ljósi nýrra viðhorfa í orkumálum kjördæmisins. Með yfirlýsingu iðnrh. frá því í árslok 1975 hafa opnast gersamlega ný viðhorf í orkumálum Norðurl. v. Í þeirri yfirlýsingu gefur iðnrh. fyrirheit um að hann muni beita sér fyrir því að fá samþykkt á yfirstandandi Alþ. heimildarlög um virkjun Blöndu og síðan að í framkvæmdir verði ráðist.

Þessi yfirlýsing og þau fyrirheit, sem hún felur í sér, hafa gerbreytt viðhorfum fólksins í kjördæminu til framtíðarinnar. Það er óþarft að rekja hér þann orkuskort sem við hefur verið að búa í þessu kjördæmi og rannar um Norðurland allt. Allir þekkja það, að iðnþróun verður ekki án orku og ekkert er slíkur aflvaki framfara sem orka og þá ekki síst ef um stórvirkjun er að ræða. Gildir þar einu hvort um er að ræða framkvæmdir, atvinnuþróun eða daglegt líf fólksins í þeim landshluta sem hlut á að máli. Þetta gildir vitaskuld ekki síst þar sem við hefur verið að búa orkuskort eða raunar orkusvelti á undangengnum árum. Þessi orkuskortur hefur að mínum dómi mjög hindrað eðlilega uppbyggingu atvinnuhátta í þessu kjördæmi og þá sérstaklega að því er tekur til iðnaðarins. því er eðlilegt og nauðsynlegt að nú sé brugðist við hinum nýju viðhorfum með þeim hætti sem þessi till. greinir, að hefja þegar í stað undirbúning að því að hefja atvinnulífið og þó einkum iðnaðinn á það stig að hann geti tekið við sem allra mestri orku, þannig að orkan verði nýtt að sem allra mestum hluta heima fyrir í kjördæminu sjálfu. Með því vinnst vitaskuld margt, en þó fyrst og fremst tvennt: orka nýtist frá orkuverinu og það er verið að gerbreyta því ástandi í kjördæminu sjálfu, sem ég hef rakið hér að framan, og gerbreyta framtíðarmöguleikum fólksins sem byggir þetta kjördæmi.

Í þessu sambandi er vert að hafa það í huga, að vaxtarmöguleikar atvinnugreina eru mjög mismunandi í okkar landi. Það er talið að fiskstofnar séu margir hverjir ofnýttir, aðrir fullnýttir, tiltölulega fáir sem séu vannýttir. Þess vegna eru ekki miklar líkur til þess að veruleg aukning verði í sjósókn á komandi árum og að fiskveiðar eða fiskvinnsla geti tekið við mjög mikilli aukningu mannaflans á komandi tíð. Ef lítið er til landbúnaðarins, þá telja ýmsir að landbúnað á Íslandi eigi að miða við það að hann fullnagi þörfum þjóðarinnar sem mest fyrir innanlandsmarkað og lítið eigi að stefna að framleiðslu þar fram yfir. Ljóst er að ef miða á við þessi sjónarmið, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að mannaflaaukning verði í landbúnaði á komandi árum. Við þetta bætist það að sjálfsögðu, að með aukinni tækniþróun má reikna með að færri hendur þurfi til þess að vinna þau verk sem skila þjóðarbúinu því framleiðslumagni sem þessar atvinnugreinar gefa í dag.

Það er fyrst og fremst iðnaðurinn sem á sér öfluga vaxtarmöguleika í okkar landi. Hann er enda þegar orðinn sá atvinnuvegurinn sem veitir mestum fjölda fólks atvinnu. Er það aðeins byrjun á þróun, en ekki neitt lokatakmark sem náð hefur verið í þróun þess atvinnuvegar.

Í sambandi við þá till., sem hér er flutt og bundin er hinum nýju viðhorfum í orkumálum kjördæmisins, er nauðsynlegt að fyrirhyggja og forsjálni sé viðhöfð við undirbúning slíkrar iðnþróunar sem hér er gert ráð fyrir að verði. Öllum er ljóst að það tekur ár og það tekur oft mörg ár að undirbúa það að koma á fót atvinnufyrirtæki, e.t.v. öflugu iðnfyrirtæki, sem er reist til þess að geta staðið af sér byrjunarörðugleika og hafið öfluga vinnslu á framleiðslu sinni og orðið þannig máttarstólpi í sinni byggð. Við þekkjum allt of mörg dæmi þess að fyrirtæki eru sett upp í miklum flýti án verulegs undirbúnings. Með því fjármagni, sem reitt er saman til stofnkostnaðar, er e.t.v. búið að ganga á þá möguleika sem nauðsynlegir eru til öflunar rekstrarfjármagns, tækniþekkingu vantar og annað slíkt er verður þess valdandi að fyrirtækið gengur í upphafi á brauðfótum og gefst stundum upp og stundum tekst að láta það hjara, en slíka sögu hygg ég að menn þekki viða úr hinum ýmsu landshlutum.

Þessi till. miðar að því, að um leið og orka frá stórvirkjun í Blöndu fer að streyma um þessar byggðir, þá verði með margra ára fyrirvara búið að undirbúa rækilega að taka við þessari orku og nýta hana til iðnaðar í þessu kjördæmi fyrst og fremst. Ég vil leggja mikla áherslu á að sá tími, sem er til þeirrar stundar er Blönduvirkjun tekur til starfa, hvenær svo sem það verður, er alls ekkert of langur til þess að undirbúa sem rækilegast þetta mál.

Nú er of snemmt að ræða í sjálfu sér um Blönduvirkjun og hvenær hún taki til starfa. Það er þó von mín að það geti tekist á fyrri hluta næsta áratugs. Þó er ekkert höfuðatriði eitthvert sérstakt ártal í þessum efnum, heldur er hitt miklu meira virði, að stefnan sé örugglega tekin, að undirbúningur allur sé vandaður og ekki síst það sem þessi till. greinir, að að því sé stefnt af fullri fyrirhyggju og nægilega tímanlega að undirbúa að við þessari orku verði tekið og hún notuð til þess að byggja upp atvinnulíf í þessum landshluta að sem mestu leyti og styrkja þannig framtíðarbyggð og gerbreyta afkomumöguleikum fólksins.

Á fjölmennum fundi á Blönduósi, sem haldinn var af áhugamönnum um virkjun Blöndu hinn 17. jan. s.l., kom fram mjög sterkur áhugi fundarmanna úr báðum Húnavatnssýslum á að hefja nú þegar undirbúning að því að nýta svo sem kostur er orku frá Blönduvirkjun til þess að koma upp atvinnuuppbyggingu og þá fyrst og fremst iðnaðaruppbyggingu í kjördæminu. Á þessum fundi tóku fjölmargir til máls og meginuppistaðan í ræðum flestra ræðumanna var ótvírætt sú að með því tækifæri, sem byðist með 135 mw. virkjun Blöndu, yrðu svo gersamlega ný viðhorf í sambandi við atvinnulíf í þessu kjördæmi og afkomumöguleika fólksins að hér væri um að ræða stærsta hagsmunamál sem að höndum þess landshluta hefði borið a.m.k. um ár, ef ekki áratugi eða jafnvel frá öndverðu.

Í ályktun sem samþ. var á þessum fundi segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn leggur á það höfuðáherslu að orka Blönduvirkjunar verði notuð til alhliða iðnaðaruppbyggingar smærri og stærri þéttbýlisstaða Norðurl. v. og skorar á sveitarstjórnir þeirra að hefja nú þegar samstarf til þess að koma upp orkufrekum iðnaði af viðráðanlegri stærð í þessum sveitarfélögum í samvinnu og samráði við þm. kjördæmisins, Framkvæmdastofnun ríkisins og stofnanir iðnaðarins.“

Í ýmsum sveitarstjórnum í kjördæminu hafa verið gerðar samþykktir sem ganga allmjög í sömu átt. Hér skalt ég ekki rekja slíkar samþykktir. Þær hafa allajafna verið bundnar því að lýsa yfir stuðningi við virkjunarmálið sjálft. En ég get þó t.d. vitnað í hluta af samþykkt frá sveitarstjórn Höfðahrepps á Skagaströnd, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá leggur hreppsnefndin áherslu á að samfara byggingu stórs orkuvers á Norðurlandi vestra verði unnið að áætlun um nýtt eða ný öflug iðnfyrirtæki á svæðinu sem nýti þá orku sem fæst og á þann hátt stutt að vexti og viðhaldi þeirra byggða sem svo lengi hafa átt við ramman reip að draga í atvinnumálum, en nú eygja möguleika til verulegs vaxtar og uppbyggingar.“

Segja má að þetta sé grunntónninn í umræðum fólksins og samþykktum sveitarstjórna á þessu svæði.

Í Norðurl. v. er eins og öðrum landshlutum auðvitað þegar um verulegan iðnað er að ræða. Þó er það svo, eins og raunar hefur komið fram í máli mínu fyrr, að iðnaðaruppbygging hefur þar verið hægari en í ýmsum öðrum landshlutum og hlutfallslega minna af vinnuafli þessa kjördæmis er bundið iðnaði heldur en víðast hvar annars staðar. Á síðustu árum hefur þó verið verulega að því unnið að bæta stöðu iðnaðarins í kjördæminu, þar á meðal t.d. fiskiðnaðarins, sem þó eðli málsins samkv., þar sem ekki nema 4.8% vinnuaflsins vinna að fiskveiðum, hlýtur að vera minni háttar heldur en viða annars staðar gerist. Fiskiðnaðurinn er þó of veikur og þarf að stuðla að betri og öruggari framvindu í málefnum hans en nú er. Ýmsar þjónustugreinar og byggingariðnaður hafa dafnað sæmilega í þessu kjördæmi. Framleiðsluiðnaður er hins vegar miklum mun veikari en efni standa til og á það verulegan þátt í því að þetta kjördæmi er meðal láglaunasvæða á landinu. Þó er það svo að á síðustu árum hafa risið upp tiltölulega öflug framleiðsluiðnfyrirtæki, einkanlega þau sem vinna úr hráefnum landbúnaðarins. Þessi fyrirtæki eru að mínum dómi dæmi um áfanga á þeirri leið sem hægt er að fara, en alls ekki að hægt sé að benda á þau sem nokkurt lokamark í þeim greinum sem þau fást við. Ég þekki ærið vel fyrirtæki af þessu tagi sem á síðasta ári og jafnvel hinu næsta á undan skiluðu verulegum hagnaði og virðast eiga mjög mikla framþróunarmöguleika. Þetta gerist þrátt fyrir það að þarna er um mjög veika stöðu framleiðsluiðnaðar að ræða í heild og er, eins og ég áður sagði, lýsandi dæmi um að hægt er, ef vel og skipulega er að málum unnið, að komast í ýmsum smærri iðngreinum verulega úr þeirri kreppu sem iðnaðurinn hefur verið í í þessum landshluta.

Í ályktun fundarins á Blönduósi er vikið að því að nauðsynlegt sé að koma upp orkufrekum iðnaði sem víðast um kjördæmið af heppilegri stærð við hæfi heimamanna. Það hefur verið tíska að tala um stóriðju hér á landi sem bær iðngreinar sem fást við að bræða ál eða málmgrýti og það gjarnan nefnt öðru nafni: orkufrekur iðnaður. Það er vafalaust að fjölmargt annað getur fallið undir orkufrekan iðnað af minni gerðum heldur en það sem hér hefur verið kallað stóriðja eða orkufrekur iðnaður til þessa. Og það er ljóst að um mjög stór fyrirtæki af þessari tegund verður tæpast að ræða í þessum landshluta því að til þess skortir fólksfjölda nú fyrsta kastið. Hins vegar þarf að hafa vakandi auga með því í sambandi við þá athugun og þá iðnþróunaráætlun, sem hér er lagt til að gerð verði, hvaða möguleikar eru á þessu sviði til þess, eins og raunar markmið með till. í heild er, að nýta sem mest þá orku sem kemur frá Blönduvirkjun, um leið og mannafli er nýttur heima fyrir og afkomumöguleikar og búsetuskilyrði í kjördæminu eru treyst.

Vafalaust er á fjölmörgum sviðum framleiðsluiðnaðar um mjög mikla möguleika að ræða. Ég vil t.d. nefna sérstaklega matvælaiðnaðinn, sem að vísu er verulegur í þessu kjördæmi, en blasir þó við að þyrfti að stórefla. Í sambandi við matvælaiðnaðinn og ýmsan annan atvinnurekstur á þessu landssvæði þarf einnig að taka það til athugunar hvort ekki beri að nota raforku í meira mæli en gert hefur verið í stað olíu. Það má segja t.d. í sambandi við mjólkuriðnaðinn, að þar er notuð svartolía í miklu magni. En það hlyti a.m.k. að koma til álita þegar rutt verður úr vegi þeim mikla orkuskorti, sem þarna hefur ríkt um árabil, að taka raforku til þeirrar starfsemi. Svo er í rauninni í mörgum fleiri atvinnugreinum, að ef raforka væri fyrir hendi, þá væri ástæða til þess að nota hana miklu meira en gert hefur verið til þessa.

Í sambandi við meðferð þessa máls er að því vikið í till. sjálfri að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um að í tengslum við framkvæmdaáætlun Norðurl. v. verði þessi athugun gerð á iðnaðaruppbyggingu í kjördæminu. Sú athugun gangi fyrir öðrum þáttum framkvæmdaáætlunar Norðurl. v. og verði unnin af Framkvæmdastofnun ríkisins í nánu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir iðnaðarins. Að sjálfsögðu; þó að þetta form sé sett upp, yrði ríkisstj. í sjálfsvald sett hvaða leiðir hún færi til þess að hrinda þessu máli áfram og skapa því sem traustastan grundvöll.

Ég vil láta það koma fram hér undir lok míns máls, að eftir yfirlýsingu hæstv. iðnrh. um virkjun Blöndu og að hann hygðist beita sér fyrir heimildarlögum þar um, þá hefur ríkt mikil Hjartsýni í þessu kjördæmi. Það má segja að þegar maður hitti mann á næstu dögum og næstu vikum, þá var naumast um annað rætt en þetta stórmál og þá margvíslegu möguleika sem það hefur í för með sér. Þessi bjartsýni er mikilsverð ef gera á mikið átak til þess að byggja upp atvinnulíf og treysta líf fólks í heilum landshluta. Þessari bjartsýni þarf að mæta með stuðningi ríkisvalds, með stuðningi í svipuðu formi í fyrsta lagi eins og þessi till. gerir ráð fyrir og síðan að fylgja eftir þeirri athugun, sem gerð verður á grundvelli till., með enn frekari stuðningi til þess að koma málum í framkvæmd. Bakgrunnur þessa máls er, eins og ég gat um í fyrri hluta minnar ræðu, það alvarlega ástand sem ríkt hefur í þessum landshluta um áratugi, — ástand sem barist hefur verið við að vinna bug á með misjöfnum árangri. Stundum hefur miðað nokkuð á leið og stundum aftur á bak, en þó virðist mér að hafi miðað fram á við nú á síðustu árum. En allt um það er þetta ástand bakgrunnur alls þessa máls, og í ljósi þessa bakgrunns og í ljósi hinna nýju viðhorfa í orkumálum þessa kjördæmis þarf að nýta þau tækifæri, sem stórvirkjun í kjördæminu býður, og stefna að öflugri uppbyggingu iðnaðarins í þessu kjördæmi, — uppbyggingu sem hefði í för með sér trausta búsetu og trausta afkomu fólksins sem það byggir.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að loknum þessum umr. verði umr. frestað og till. vísað til hv. allshn.