03.03.1976
Efri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um frv. til l. um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa, 158. mál, o.g mælir shlj. með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Jón G. Sólnes, Halldór Ásgrímsson og Stefán Jónsson.

Frv. það, sem hér um ræðir, er afkvæmi sjóðanefndar, sem svo hefur verið kölluð, eða þeirra breytinga á sjóðakerfi sjávarútvegsins sem um hefur verið fjallað og lögfest á Alþ. Samkv. þeirri breyt. lækka mjög verulega tekjur Tryggingasjóðs fiskiskipa og hrökkva hvergi nærri til greiðslu á þeim hluta iðgjalda sem sjóðurinn hefur áður staðið undir. Því er ljóst að færa þarf töluvert af þessum greiðslum yfir til útvegsmanna, og hefur Landssamband ísl. útvegsmanna í því sambandi óskað eftir því að sett verði sérstök lög í þessu skyni um fyrirkomulag á innheimtu iðgjalda af vátryggingu fiskiskipa og hefur jafnframt óskað eftir að viðskiptabankar sjávarútvegsins hafi milligöngu þar um.

Ég vil segja það sem mitt persónulega álit að að ýmsu leyti hef ég talið æskilegra að útvegsmenn stæðu sjálfir án þvingunar af hálfu löggjafans og án milligöngu viðskiptabanka undir þessum greiðslum. Hins vegar er, eins og ég sagði, hér um ósk landssambands þeirra að ræða, og má vel vera að þetta fyrirkomulag sé nauðsynlegt. Því hef ég og þeir aðrir nm., sem mættir voru, fallist á að mæla með að þessi háttur verði á hafður.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir því að viðskiptabanka útgerðarmanns verði skylt að halda eftir fjárhæð er nemi 5% af heildarsöluverðmæti afla sem landað er hérlendis og 4% af heildarsöluverðmæti afla sem landað er erlendis. Gert er ráð fyrir að þessar upphæðir fari á reikning Landssambands ísl. útvegsmanna hjá viðkomandi banka þegar greiðsla bankans hefur farið fram og verði síðan árlega gert upp við viðkomandi útvegsmann. Hér er því fyrst og fremst um fyrirkomulag á greiðslu að ræða og um að ræða tryggingu fyrir því að greiðsla iðgjalda verði innt af hendi eins og nauðsynlegt er.

Um þetta mál hefur hæstv. sjútvrh. haft framsögu hér í d. og ég sé ekki ástæðu til að hafa orð þessi fleiri, en endurtek að sjútvn. d. mælir með því að frv. verði samþ. óbreytt.