03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., er um saltverksmiðju á Reykjanesi. Í 1. gr. þess er gert ráð fyrir að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags er hafi það markmið að kanna aðstæður til að reisa og reka saltverksmiðju á Reykjanesi og annast undirbúning þess að slíku fyrirtæki verði komið á fót.

Rannsóknir til undirbúnings saltverksmiðju eða sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi hafa staðið yfir allengi. Það mun hafa verið fyrir réttum 10 árum að Rannsóknaráð ríkisins hóf könnun á þessu máli, en áður höfðu nokkrar byrjunarathuganir verið gerðar á vegum Raforkumálaskrifstofunnar. Fyrsta athugunin, sem Rannsóknaráð ríkisins lét gera, var almennt yfirlit um möguleika til að framleiða salt og vinna önnur efni úr sjó og skeljasandi. Á árinu 1968 hófust boranir og jarðfræðilegar rannsóknir á Reykjanesi. Það var boruð um 1800 m djúp hola og hún gaf það góðan árangur að metið var að hinar jarðfræðilegu forsendur saltverksmiðju væru fyrir hendi og væru traustar. Jafnframt þessum jarðfræðilegu atbugunum voru gerðar tæknilegar tilraunir og áætlanir um stofnkostnað og rekstur fyrirtækja sem gætu hagnýtt sér þessi verðmæti og framleitt ýmiss konar efni úr þeim. En samheitið sjóefnavinnsla hefur verið notað um þessa möguleika og er þá átt við fjölþætta vinnslu úr sjó og heitum söltum hveralegi frá jarðhitasvæðinu.

Frá upphafi hefur Baldur Líndal efnaverkfræðingur verið helsti frumkvöðull þessa máls og hefur unnið að því að staðaldri.

Þegar athuganir Rannsóknaráðs ríkisins höfðu staðið yfir nokkur ár gerðist bað haustið 1972 að ráðið skilaði skýrslu til ríkisstj. með áætlun um stofnkostnað og rekstur og benti áætlunin til þess að starfsemi verksmiðjunnar gæti orðið arðbær. Iðnrn. fól þá verkfræðistofu og hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar að gera könnun á rekstrargrundvelli saltverksmiðjunnar. Umsagnir lágu fyrir í febr. 1974. Var þá gefin út yfirlitsskýrsla um málið. Þessar umsagnir voru jákvæðar og talið að fyrirtækið ætti að geta skilað góðum arði.

Þá fór málið til iðnþróunarnefndar til athugunar og lagði hún fram till. um meðferð málsins og áætlun um kostnað við undirbúningsframkvæmdir. Vorið 1974 fór svo iðnrn. viðræðunefnd um orkufrekan iðnað að gera till. um hvernig staðið skyldi að frekari undirbúningsframkvæmdum.

Það er gert ráð fyrir að afurðir verksmiðjunnar verði fyrst og fremst salt, þ.e.a.s. fisksalt og fínsalt, enn fremur líf til áburðar, kalsíum klóríð og bróm til notkunar í iðnaði, en einnig er gert ráð fyrir að til muni falla verulegt magn af öðrum efnum, svo sem kísli, gipsi, koldíoxíði, sem úrgangsefni, en líklegt að sum eða öll þessi efni gætu skilað hagnaði ef þau væru hagnýtt á réttan hátt. Talið er nauðsynlegt að gerðar séu frekari rannsóknir og tilraunir áður en endanleg ákvörðun verður tekin um byggingu sjóefnaverksmiðjunnar. Stóriðjunefnd hefur gert till. um að á Reykjanesi verði reist tilraunaverksmiðja í þessu skyni. Á s.l. ári sendi stóriðjunefnd iðnrn. till. um þetta efni og frv. sem síðan hefur verið til nánari athugunar og liggur nú hér fyrir.

Aðalefni þessa frv. er það, sem ég gat um í upphafi, að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem hafi það markmið að kanna aðstæður til að reisa og reka saltverksmiðju og annast undirbúning þess að slíku fyrirtæki verði komið á fót. Hér er því gert ráð fyrir undirbúnings- eða könnunarfélagi, og eru það fyrst og fremst frekari tilraunir og bygging tilraunaverksmiðju sem það á að hafa með höndum.

Í 2. gr. frv. segir um samvinnu um stofnun hlutafélags, að ríkisstj. skuli heimilt að kveðja til innlenda aðila sem áhuga hafa á málinu. Á fyrri stigum var um það rætt að heimilt væri einnig að kveðja til erlenda aðila, en við nánari athugun var horfið frá því að kveðja til erlenda aðila og er því skv. frv. eingöngu heimilt að innlendir aðilar verði þátttakendur í þessu hlutafélagi.

Þá er í 3. gr. sagt, að hlutafélaginu sé heimilt að framkvæma eða láta framkvæma hvers konar athuganir og aðgerðir til undirbúnings að byggingu og rekstri saltverksmiðju. Skuli að því stefnt að unnt verði að framselja árangurinn af starfsemi félagsins í hendur aðilum sem takist á hendur að fullbyggja saltverksmiðju og annast rekstur hennar til frambúðar. En þá skuli stefna að því að þetta könnunarhlutafélag fái tilkostnað sinn að fullu endurgoldinn frá þeim sem taka svo við starfseminni til frambúðar.

Þá er gert ráð fyrir því í 3. gr. að þessu könnunarhlutafélagi skuli slitið þegar hlutverki þess samkv. 1. gr. er lokið og að óheimilt sé að selja árangurinn af starfsemi hlutafélagsins til annarra en íslenskra aðila, nema samþykki Alþingis komi til.

Í 4. gr. eru ýmsar heimildir ríkisstj. til handa: Í fyrsta lagi að leggja fram allt að 60 millj. kr. sem hlutafé í þessu væntanlega félagi. Í þessu sambandi vil ég taka fram að gert er ráð fyrir því að hlutaféð verði sem næst þessari upphæð. Hins vegar er ætlunin sú að öðrum aðilum en ríkissjóði einum verði gefinn kostur á að vera þátttakendur í þessu könnunarfélagi og aðilar til þess hvattir. En ef til þess kæmi að ekki væri áhugi eða möguleikar hjá öðrum aðilum að verða hluthafar í þessu félagi að neinu ráði, þá mundi það geta lent hjá ríkinu að verulegu leyti og því er þessi upphæð þannig ákveðin. En við undirbúning og stofnun félagsins verður að því stefnt að fá aðra aðila inn í hlutafélagið.

Þá skal heimilt að leggja til félagsins mannvirki og undirbúningsrannsóknir sem unnið hefur verið að á kostnað ríkissjóðs, skuli þetta metið á kostnaðarverði og teljist til hlutafjárframlags ríkissjóðs.

Þá er veitt heimild fyrir ríkisábyrgð fyrir láni allt að 100 millj. kr. til starfsemi könnunarfélagsins.

Í 4. lið 4. gr. er ríkisstj. heimilað að veita könnunarfélaginu heimildir til hagnýtingar á jarðhitaréttindum og vinnsluréttindum á Reykjanesi í eigu ríkisins í þágu athugana og aðgerða samkv. 3. gr. Og loks er heimilað að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af byggingarefni, búnaði og vélum til þessara framkvæmda.

Að því leyti sem ríkissjóður verður hluthafi í þessu könnunarfélagi, þá skulu skv. 6. gr. iðnrh. og fjmrh. tilnefna fulltrúa á hlutafélagsfundi. Aðalfundur félagsins kýs sér síðan stjórn og iðnrh. skipar formann stjórnarinnar.

Í 7. gr. er ákvæði um mengunarvarnir og varúðarráðstafanir. Þar segir, að hlutafélaginu beri að gera varúðarráðstafanir sem við verður komið til þess að varna tjóni á umhverfinu við framkvæmdir á þess vegum, og skal starfsgrundvöllur saltverksmiðjunnar miðaður við að fyrirtækið fullnægi því skilyrði.

Þá er það tekið fram í 2. mgr. 7. gr. að framkvæmdir undirbúningsfélagsins og hönnun sjálfrar saltverksmiðjunnar, bygging og rekstur skuli vera í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglugerðir varðandi mengunarvarnir, öryggi, heilbrigði og hreinlæti á vinnustað og staðla þá sem settir eru samkv. þeim. Um þessi mál hefur verið haft fullt samráð við heilbmrn.

Þetta mál hefur verið til athugunar hjá Náttúruverndarráði. Til frekari áréttingar ritaði iðnrn. áður en frv. var lagt fram bréf til Náttúruverndarráðs þar sem óskað var eftir nýrri athugun ráðsins og skriflegri grg. um afstöðu þess til þessa máls.

Kostnaðaráætlun um framkvæmdir, sem fylgdi till. viðræðunefndarinnar um orkufrekan iðnað frá í fyrra, hefur verið endurskoðuð nú í febrúarmánuði. Er gert ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdir félagsins verði 137.5 millj. kr., sem dreifist á árin 1976, 1971 og 1978. Hér er fyrst og fremst um að ræða byggingu tilraunaverksmiðju og smíði véla og tækja í slíka verksmiðju. Af þessari upphæð fellur minnstur hluti á árið 1976 eða um 3.2 millj. Er. Sú upphæð er fyrir hendi samkv. fjárl. 1975 og fjárl. 1976. Eru þessar tvær fjárveitingar samtals 3.3 millj. kr.

Ég vænti þess, að þetta merka mál fái góðar undirtektir á Alþ. Eins og komið hefur fram í þessu yfirliti og í grg frv. hefur það verið lengi til athugunar. Það er skoðun þeirra, sem kunnugastir eru, að hér sé um merkilegt iðnaðar- og iðjufyrirtæki að ræða sem geti orðið þjóðarbúinu í heild til hags vegna gjaldeyristekna og aukinnar atvinnu í landi. Standa vonir til þess að hér sé um þjóðþrifafyrirtæki að ræða.

Ég vil leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.