03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langar til að þakka hæstv. iðnrh. fyrir þátt hans í þessu máli. Ég álít að hér sé um mjög merkilegt og mikið mál að ræða. Þetta er mál sem búið er að vera í undirbúningi mjög lengi og hefur verið þrautrannsakað, og að því er ég best veit hafa bæði erlendir og innlendir aðilar, sem að þessu hafa unnið, komist að þeirri niðurstöðu að hér væri um fjárhagslega hagkvæmt fyrirtæki að ræða, — fyrirtæki þar sem orkan er innlend, þar sem hráefnið er innlent og þar sem verulegur hluti af markaðnum er innlendur einnig og því mjög mikilvægt fyrirtæki bæði til atvinnuaukningar og til sparnaðar gjaldeyris.

Suðurnesin hafa lengst af verið þekkt fyrir framleiðslu sína á fiski og fisköflun. Hlutur þeirra fer nú minnkandi í því efni af tveim ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að aðrir staðir hafa öðlast betri möguleika en þeir höfðu áður til fisköflunar og nýtingar og í öðru lagi vegna þess að fiskgengd fer nú þverrandi við Suðurnesin og enn fremur eru þær fisktegundir, sem Suðurnesjamenn fiska, ekki eins verðmætar og þær fisktegundir sem þeir fiskuðu mest af áður fyrr. Af þessum ástæðum og fleiri er mikil nauðsyn að koma aukinni fjölbreytni í atvinnulífið á Suðurnesjum, og þessi væntanlega verksmiðja ætti að geta verið verulegt framlag í því efni. Eins og ég tók fram áður, þá held ég, að það sé mjög tímabært að þetta mál komi fram, og vona að það fái greiðan gang í gegnum hv. Alþingi.